Fimmtudagur 8.2.2018 - 23:35 - 4 ummæli

Fyrirmyndar akstur Ásmundar

Það vita það flestir sem fylgjast með færslum mínum að Ásmundur Friðriksson þingmaður er ekki hátt skrifaður hjá mér. Eðlilega ekki. Maðurinn er stundum með galnar hugmyndir. En ég sé mig knúinn til að taka upp hanskann fyrir hann núna.

Ásmundur má eiga það að að hann sinnir kjördæmi sínu afar vel. Hann gerir mikið í því að hitta fólk, sitja ýmsa opna fundi með umbjóðendum sínum og fylgjast með því sem á kjördæminu brennur. Suðurkjördæmi er stórt. Það hlýtur að birtast í háum aksturskostnaði. Sem er endurgreiðsla á kostnaði sem hann leggur í  út af vinnunni.

Það er HRÆSNI að segja annars vegar að þingmenn eigi að vera í góðu sambandi við kjósendur sína og væla síðan eins og stungnir grísir þegar eðlilegur kostnaður vegna þess er birtur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.1.2018 - 10:50 - Rita ummæli

Neyð í boði Samfó, Framsóknar, VG og Sjalla

Núverandi neyðarástand í húsnæðismálum er í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.  Aðgerðarleysi þessara tveggja ríkisstjórna hafa skapað þetta ástand þar sem vantar 17 þúsund nýjar íbúðir. Það versta er að ástandið var fyrirsjáanlegt og að fyrir lágu tillögur til að koma í veg fyrir það í húsnæðismálaráðuneyti Árna Páls Árnasonar á vordögum árið 2010.  Þeim tillögum skolaði út með baðvatninu þegar Árna Páli var hent út sem félags- og húsnæðismálaráðherra.

Eftirmenn Árna Páls bæði úr Samfylkingu og síðar Framsókn var í lófa lagið – ásamt ríkisstjórnunum – að grípa til aðgerðar. Það var ekki gert þannig að fyrirséð og óþarfa neyðarástandi skapaðist. Í boði Samfylkingar, Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks.

Það er bara staðreynd málsins …

Sjá stöðu mála í skýrslu Íbúðalánasjóðs – sem reyndar brást einnig hlutverki sínu á þessum árum hvað varðar húsnæðismarkaðinn. Vitrænar aðgerðir sjóðsins hefðu getað komið í veg fyrir ástandið, einföld reglugerðarbreyting hefði getað bjargað miklu á sínum tíma:

„Íbúðum þyrfti að fjölga um samtals 17 þúsund á árunum 2017-2019 til að mæta undirliggjandi þörf og uppsöfnuðum skorti frá árinu 2012. Til samanburðar voru um 1.500 íbúðir byggðar árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir hér á landi…“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.1.2018 - 16:41 - 2 ummæli

Veggjaldagöng á höfuðborgarsvæðið!

Þótt hin ágæta Borgarlína geti gert sumum lífið léttara þá fer því fjarri að hún leysi samgönguvanda höfuðborgarsvæðisins. Óskhyggja sumra um endalok einkabílsins gengur ekki upp og mögulegar sjálfakandi bifreiðar framtíðarinnar þurfa að komast milli staða. Heimskulegar hugmyndir um lækkun umferðahraða á Hringbraut bæta ekki stöðuna þótt þær færu í gegn. Enda umferðateppurnar næg hraðahindrun á álagstímum.

Það þarf úrbætur sem stuðla að sæmilega þokkalegu flæði umferðar á höfuborgarsvæðinu. Lausnir að þeim úrbótum liggja fyrir. Öskjuhlíðargöng, Kópavogsgöng, Sundabraut, Skerjafjarðarbraut og jafnvel Holtsbraut undir Skólavörðuholtið!

Auðvitað á að fara í allar þessar framkvæmdir í sæmilega vitrænni röð. Og auðvitað á að fjármagna stóran hluta þeirra með veggjöldum! Því það eru aðrar leiðir til staðar til að komast hjá veggjöldum fyrir þá sem það kjósa. En þeir sem kjósa þessar leiðir greiða eðlilegt gjald fyrir það.

Ekki gleyma að þessar samgöngubætur gagnast ekki einungis hefðbundnum einkabíl, heldur einnig almenningssamgöngum og sjálfkeyrandi drossíum.

Ekki heldur gleyma því að ef horft er til umhverfissjónarmiða þá yrðu slíkar framkvæmdir umhverfisvænar þar sem vegalengdir styttast. Auk þess sem þróun borgarbílsins mun öruggleg leiða til hverfandi umhverfisáhrifa. Við getum bara skoðað þróun undanfarinna 10 ára þar sem brennsla mengandi orkugjafa nútímabílsins er brot af sambærilegum bílum síðasta áratugar auk þess sem hlutur rafmagnsbíla og annarra umhverfisvænni bifreiða hefur stóraukist og mun aukast.

Því það verða ekki almenningssamgöngurnar – eins ágætar og þær geta verið – sem bjarga loftlagsmálunum. Heldur tæknibreytingar á fararskjótum fjölskyldunnar og tilkoma sjálfakandi „leigubifreiða“.

Og aftur að því sem skiptir máli.

Fyrir Reykjavíkursvæðið þá eru samgöngubætur lífsspursmál. Fyrir almenningssamgöngur, umhverfisvæna fjölskyldubíla og sjálfakandi „samfélagsbíla“ sem til dæmis sækja í einu nokkrar hjúkkur á Lansanum sem búa nálægt hvor annarri heim til að koma þeim í vinnuna.

Leiðin er ekki flókin. Veggjaldagöng innan höfuðborgarsvæðisins sem stórbæta samgöngur og þar sem val er um aðrar leiðir til að komast milli staða.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.12.2017 - 20:48 - 2 ummæli

Jerúsalem höfuðborg Palestínu og Ísraels!

Jerúsalem á að sjálfsögðu að vera höfuðborg Palestínu og Ísraels! Tveggja sjálfstæðra ríkja. Nú hefur forseti Bandaríkjanna ákveðið að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Sem væri í lagi ef hann hefði jafnframt viðurkennt Jerúsalem höfuðborg sjálfstæðs ríkis Palestínu.

Í þessari stöðu getur Ísland haft mikilvægt hlutverk. Viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Palestínu og Ísraels.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.10.2017 - 08:43 - 2 ummæli

Ögurstund tjáningarfrelsisins

Það er enn ein ögurstund tjáningarfrelsisins á Íslandi sem ítrekað er reynt að traðka á. Það er háalvarlegt þegar framkvæmdavaldið beitir valdheimildum sínum gegn ákvæðum stjórnarskrá eins og nú hefur enn einu sinni gerst. Það versta er að nú dugir ekki að dómsvaldið taki fram fyrir valdníðslu framkvæmdavaldsins.  Tímaþátturinn gerir það að verkum.

Það þarf að vera unnt að áfrýja valdníðslu eins og þessari strax. Svipað og þegar óskað er eftir gæsluvarðhaldi.

Stundin stendur nú í ströngu og ekki gefið að fjölmiðillinn hafi fjárhagslegt bolmagn til að standa í dýrum málaferlum við auðvaldið og þjóna þess innan framvæmdavaldsins.

Almenningur þarf að tryggja að Stundin – sem ég hef ekkert sérstakt dálæti á svosem – geti takið til varna án þess að hafa áhyggjur af fjármögnun. Carolina Fund hefur verið nýtt í verri málefna en það.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.10.2017 - 08:03 - Rita ummæli

Sr. Þórir og kirkjugarðurinn

Sr. Þórir Stephensen fyrrum dómkirkjuprestur berst nú fyrir því að hinn gamli Víkurkirkjugarður og nú kuml við Landsímareit verði vernduð í stað þess að byggja þar hótel. Ég er styð Sr. Þóri heils hugar í þessari baráttu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.9.2017 - 17:37 - 4 ummæli

Sendu mér „bliku“

Orðskrípið „selfí“ fer dulítið í taugarnar á mér. Ef vilji væri fyrir hendi ætti að vera unnt að finna gott íslenskt orð yfir fyrirbærið líkt og við fundum „sími“, „þyrla“, „þota“ og svo framvegis.

„Selfí“ er augnabliks sjálfsmynd af einstaklingi yfirleitt tekinn á myndavél í snjallsíma sem viðkomandi ákveður yfirleitt að dreifa á einhverjum samfélagsmiðlanna.  (Sjáið hvað við erum komin með fínorð um „smartphone“ og „social media“!)

Af hverju ekki að nota orðið „blika“ yfir fyrirbærið. Orð sem dregið er af „blik“ í „augnablik“?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.6.2017 - 14:26 - 8 ummæli

Mistök að hafna ESB

Við værum betur sett innan ESB og með evruna sem gjaldmiðil. Í dag og næstu árin. Værum að móta nýja, líklega betri Evrópu. En þess í stað erum við jaðarsett smáþjóð sem mögulega þarf að biðla til einangrunarsinna í Bandaríkjunum sem við vitum ekkert hvort unnt er að treysta á, hnignandi Breta sem eru að missa elstu og öflugustu fjármálamiðstöð heimsins til Frankfurt, mögulega Norðmanna sem sviku okkur í hruninu og þurfum að nálgast Evrópusambandið á hnjánum.

Oflæti okkar vegna tímabundins uppgangs og velgengni hefur fyrir löngu stigið okkur til höfuðs.

Það hefði verið betur ef við hefðum klárað aðildarviðræðurnar á sínum tima og tekið ákvörðun um inngöngu eða inngöngu ekki í ESB á grunni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá værum við annað hvort með fína stöðu innan ESB eða í núverandi tímabundinni sæmilegri stöðu utan ESB – en á grunni vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki á forsendum forsjárhyggjustjórnmálamanna.

Við erum nú í sæmilegri stöðu sem er bara tímabundin og mun breytast fyrr eða síðar.

… og mögulega merjumst við á milli Bandaríkjanna og Evrópu og Bretlands og ESB …

Innan fárra ára munu margir væntanlega naga sig í handarbökin …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2017 - 18:51 - Rita ummæli

Alþingismenn vinna vinnuna sína

Alþingismenn vinna vinnuna sína samviskusamlega og sómasamlega. Leggja oft nótt við dag til að standa sig og eiga það allt of oft til að vanrækja fjölskyldu sína vegna þess að „mikilvægi alþingismaðurinn“ kemur fyrst. Svo fjölskyldan og lífið. Þannig hefur það verið þá áratugi sem ég hef fylgst með Alþingi og alþingismönnum.

Núverandi Alþingi er engin undantekning á því. Það ágæta fólk er hvorki betra né verra en það fólk sem kosið hefur verið á Aþingi í lýðræðislegum kosningum á Íslandi hingað til. Kannske svolítið öðruvísi sumt – enda samfélagið öðruvísi en áður.

Ástæða þess að ég vek athygli á þessu núna er að enn einu sinni er söngurinn um „óhæft Alþingi“ og „óhæfa alþingismenn“ að hefjast.

Það er eitt að vera málefnalega ósammála ágætu fólki á Alþingi. Annað að rakka það niður og saka það um að það „vinni ekki vinnuna sína“ og „sé óhæft.“

Að sjálfsögðu er einn og einn í 63 manna hópi ekki að skila sínu allan ársins hring en oftast vel þegar uppi er staðið!

Einhver kannske bara latur. Sem er vont. Ætti þá að sína sóma sinn í að finna sér annað starf. En latir einstaklingar finnast í flestum 63 manna fyrirtækjum.

Annar þunglyndur og því á tímabilum ekki að skila fullum afköstum.  Einn núverandi þingmaður tók sér veikindaleyfi af þeim sökum og gerði líklega meira með því fyrir þá fjölmörgu hæfileikaríku Íslendinga sem eiga við sama erfiða verkefni að glíma en löggjafinn hefur gert lengi!  Hefur með því líklega styrkt stöðu fólks í sömu stöðu úti í atvinnulífinu. Því oftast er einhver á 63 manna vinnustað haldinn þunglyndi sem á tímabilum getur komið niður á vinnu viðkomandi. Sem segir ekkert um heildarvinnuframlag viðkomandi.

Ég hef þekkt og þekki fleiri tugi núverand og fyrrverandi alþingismanna í öllum flokkum. Það sem hefur einkennt flest það fólk er dugnaður, viljinn til að hjálpa fólki, áhugi fyrir því að koma góðu til leiðar og gera samfélagið betra út frá sinni pólitísku sýn. Um sýnina getum við verið ósammála, en viljinn og dugnaðurinn hverfur ekki fyrir það!

Frábið mér því lítt rökstutt og ósanngjarnt væl pirraðra samfélagsmiðlatrölla sem vilja slá sig til riddara með ómaklegum árásum á oftast duglega og vel meinandi alþingismenn. Bið samfélagsmiðlatröllin að gagnrýna okkar kjörnu fulltrúa út frá málefnum en ekki beita skítkasti og bulli. Slík gagnrýni getur skilað sér í betri ákvörðunum og betra samfélagi. Skítkast og bull skaðar okkur öll.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.1.2017 - 16:08 - 2 ummæli

Rosmhvalanes, Garðar og Kjalarnes

Það sem vantar í nýjum stjórnarsáttmála er meðal annars stefna um framtíðarskipan sveitarfélaga.  Þar ætti fyrsta skrefið að vera sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.  Því þegar nýskipan og nauðsynleg sameining sveitarfélaga á suðvesturhorni Íslands hefur gengið í gegn er einfaldara að ganga í alvöru sameiningar sveitarfélaga annars staðar á landinu.

Og auðvitað á samhliða að bæta við verkefni sveitarfélaganna á sama tíma og tekjustofnar þeirra verði víkkaðir og styrktir. Skatttekjur eiga að renna til sveitarfélaganna sem fjármagna skylduverkefni sín en greiði „útsvar“ til ríkisins til að standa undir sameiginlegum rekstri Íslands. Ekki núverandi skipan sem Reykjavíkurvaldið deilir og drottnar.

Það eiga einungis að vera 3 sveitarfélög áhöfuðborgarsvæðinu.

  • „Kjalarnes“ sem standi saman af Akranesi, Hvalfjarðarhreppi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnesi.
  • „Garðar“ sem standi saman af Kópavogi, Garðarbær, Hafnarfirði, Vatnsleysuströnd og Grindavík.
  • „Rosmhvalanes“ sem standi saman af Vogum, Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði.

Meira um útfærslu stjórnsýslu slíkra sveitarfélaga þar sem tekið verði í auknum mæli upp beint lýðræði, aukinni sjálfstjórn í hverfum og öflugum sveitarstjórnum kemur síðar!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur