Laugardagur 20.01.2018 - 16:41 - 2 ummæli

Veggjaldagöng á höfuðborgarsvæðið!

Þótt hin ágæta Borgarlína geti gert sumum lífið léttara þá fer því fjarri að hún leysi samgönguvanda höfuðborgarsvæðisins. Óskhyggja sumra um endalok einkabílsins gengur ekki upp og mögulegar sjálfakandi bifreiðar framtíðarinnar þurfa að komast milli staða. Heimskulegar hugmyndir um lækkun umferðahraða á Hringbraut bæta ekki stöðuna þótt þær færu í gegn. Enda umferðateppurnar næg hraðahindrun á álagstímum.

Það þarf úrbætur sem stuðla að sæmilega þokkalegu flæði umferðar á höfuborgarsvæðinu. Lausnir að þeim úrbótum liggja fyrir. Öskjuhlíðargöng, Kópavogsgöng, Sundabraut, Skerjafjarðarbraut og jafnvel Holtsbraut undir Skólavörðuholtið!

Auðvitað á að fara í allar þessar framkvæmdir í sæmilega vitrænni röð. Og auðvitað á að fjármagna stóran hluta þeirra með veggjöldum! Því það eru aðrar leiðir til staðar til að komast hjá veggjöldum fyrir þá sem það kjósa. En þeir sem kjósa þessar leiðir greiða eðlilegt gjald fyrir það.

Ekki gleyma að þessar samgöngubætur gagnast ekki einungis hefðbundnum einkabíl, heldur einnig almenningssamgöngum og sjálfkeyrandi drossíum.

Ekki heldur gleyma því að ef horft er til umhverfissjónarmiða þá yrðu slíkar framkvæmdir umhverfisvænar þar sem vegalengdir styttast. Auk þess sem þróun borgarbílsins mun öruggleg leiða til hverfandi umhverfisáhrifa. Við getum bara skoðað þróun undanfarinna 10 ára þar sem brennsla mengandi orkugjafa nútímabílsins er brot af sambærilegum bílum síðasta áratugar auk þess sem hlutur rafmagnsbíla og annarra umhverfisvænni bifreiða hefur stóraukist og mun aukast.

Því það verða ekki almenningssamgöngurnar – eins ágætar og þær geta verið – sem bjarga loftlagsmálunum. Heldur tæknibreytingar á fararskjótum fjölskyldunnar og tilkoma sjálfakandi „leigubifreiða“.

Og aftur að því sem skiptir máli.

Fyrir Reykjavíkursvæðið þá eru samgöngubætur lífsspursmál. Fyrir almenningssamgöngur, umhverfisvæna fjölskyldubíla og sjálfakandi „samfélagsbíla“ sem til dæmis sækja í einu nokkrar hjúkkur á Lansanum sem búa nálægt hvor annarri heim til að koma þeim í vinnuna.

Leiðin er ekki flókin. Veggjaldagöng innan höfuðborgarsvæðisins sem stórbæta samgöngur og þar sem val er um aðrar leiðir til að komast milli staða.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur