Almenningur á rétt á því að Alþingi og alþingismenn sinni hlutverki sínu sem ábyrgt löggjafarvald í þágu þjóðarinnar óháð framkvæmdavaldinu!
Ráðherraræði undanfarinna þriggja áratuga og foringjaræði leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna í ríkisstjórnum undanfarinna tveggja áratuga verður að linna. Enda átti foringjaræðið stóran sök á hruninu, aðdraganda þess og mistökum í kjölfar hrunsins. Leiðtogar allra hefðbundinna stjórnmálaflokka eiga þar hlut í máli.
Því verður í nýrri stjórnarskrá að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavald.
Þess vegna er það forgangsatriði að í nýrri stjórnarskrá verði ráðherrum gert að segja af sér þingmennsku meðan þeir gegna ráðherraembætti og kalli inn varamenn til setu á Alþingi meðan þeir gegna ráðherraembætti ef ráðherrar eru valdir úr hópi þingmanna.
Þess vegna er það forgangsatriði í nýrri stjórnarskrá að fullkomið sjálfstæði Alþingis verði tryggt og að þingmönnum verði gert kleift að vinna sjálfstætt fyrir þjóð sína án þess að vera undir járnhæl framkvæmdavaldsins og einstakra ríkisstjórna.
Þess vegna á í stjórnarskrá að heimila þinginu að setja á fót sértakar þingnefndir til að skoða einstök mál er upp kunna að koma – án aðkomu framkvæmdavaldsins.
Fyrir öllu þessu hef ég talað í hartnær tvo áratugi.
Nú hef ég fengið tækifæri að fylgja þessum baráttumálum mínum eftir – ef ég fæ stuðning til setu á stjórnlagaþingi!
Get bara ekki séð hvernig það breytir nokkru að hafa þetta svona, Íslenskir pólitíkusar fylgja yfirhöfuð ekki sannfæringu sinni heldur sannfæringu flokksins síns, þannig að í 99% tilfella mun varamaður kjósa eftir flokkslínum og fylgja skipunum frá sínum flokksforingjum.
Þannig að ég get ekki séð hvernig sterkara Alþingi kemur úr þessu, nær væri að Alþingi myndi kjósa menn með menntun og hæfileika til þess að stýra ráðuneytunum 4 ár í senn og Alþingi myndi þá veita þeim aðhald og einbeita sér að því sem skiptir máli.
Samhliða þessari breytingu þarf að taka upp persónukjör. Það mun væntanlega auka styrk einstakra þingmanna til að standa á sannfæringu sinni.
En verkefnið Alþingi er og á að vera samvinnuverkefni. Það er taka þátt í flokksstarfi er líka samvinnuverkefni.
Flokkar vinna ákveðna grundvallarstefnu – væntanlega flestir upp í gegnum grasrótina. Leiðtogar flokkanna hafa það hlutverk að vinna að framgangi slíkrar stefnu ásamt þeim þingmönnum sem kjörnir eru á þing á grundvelli stefnunnar.
Þess vegna er það eðilegt að þingmenn fyllgi í flestum tilfellum flokkslínum – flokkslínan byggir væntanlega á samþykktri stefnu flokksins sem hefur verið unnin á lýðræðislegan hátt innan flokks.
Vandamál leiðtogaræðis og ráðherraræðis undanfarinna ára hefur kannske frekar þegar EKKI hefur verið farið eftir samþykktri stefnu flokkanna!
Með aðskilnaði Alþingis og ríkisstjórnar og sterku, sjálfstæðs Alþingis þá myndast eðlilegt samtal löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins.
En það þarf að gera meira. Það þarf að sestja á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.
Meira um það í pistli síðar.