Fyrir fjórum áratugum kom fram á hinum pólitíska vettvangi markmiðsyfirlýsing í fjórtán liðum um uppbyggingu íslensks þjóðfélags. Sú markmiðssetning hefur alla tíð sett mark sitt á mína sýn á þjóðfélagið. Ég gæti enn í dag skrifað undir meginefni allra fjórtán greinanna.
Þessi stefnuyfirlýsing á ekki síður við í dag en fyrir fjórum áratugum síðan. Okkur er hollt að hafa hana í huga þegar við tökumst á við núverandi erfiðleika og þurfum leiðarljós inn í framtíðina.
Markmiðið var að skapa:
1. Þjóðfélag, þar sem jöfnuður og mannleg samhjálp sitja í öndvegi
2. Þjóðfélag, sem tryggir sókn þjóðarinnar til æ fullkomnara og virkara lýðræðis, aukinnar menningar og andlegs sem líkamlegs heilbrigðis allra þegna þjóðfélagsins.
3. Þjóðfélag, þar sem hver einstaklingur getur valið sér eigið lífsform og þroskað hæfileika sína við skilyrði stjórnmálalegs, efnalegs og andlegs frelsis.
4. Þjóðfélag, sem tryggir öllum frelsi frá ótta, skorti og hvers konar efnalegum þvingunum, mismunun og þjóðfélagslegu óréttlæti og hefur réttaröryggi og afkomuöryggi að leiðarljósi.
5. Þjóðfélag, þar sem allir hafa jafnan rétt til menntunar og jafnan möguleika á að njóta allra menningarlegra gæða, sem þjóðfélagið skapar.
6. Þjóðfélag, sem styður að heilbrigðu lífsgæðamati og setur manngildið í öndvegi, en hafnar því gildismati fjármagns og peningavalds, sem þjóðfélag þeirra afla skapar.
7. Þjóðfélag, sem stöðugt sækir fram til aukinnar velmegunnar með skynsamlegri stjórnun og áætlunum um hversu íslenskar auðlindir verði nýttar af mestri fyrirhyggju og atvinnulíf, sem á þeim byggir, verði þróað, án þess að vera að neinu marki byggt upp á fjárfestingu útlendinga.
8. Þjóðfélag, sem missir aldrei sjónar á verndun fegurðar og sérkenna íslenskrar náttúru og rétti allra landsmanna til að njóta þeirra, en hafna skyndigróða, sem síðar gæti spillt verðmætum, sem ekki verða til fjár metin.
9. Þjóðfélag jafnaðar, sem stefnir að útrýmingu hvers konar misréttis milli stétta og milli þegnanna eftir búsetu, en viðurkennir í reynd þjóðfélagslegt mikilvægi allra starfsgreina og jafnar því efnaleg met á milli þeirra.
10. Þjóðfélag frelsis og lýðræðis, þar sem ákvörðunarrétturinn byggir á virku lýðræði, ekki aðeins í kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna, heldur og í fyrirtækjum, í hagsmunasamtökum og í skólum.
11. Þjóðfélag, þar sem samfélagið í heild mótar meginstefnuna, en einstaklingarnir njóta ákvörðunarfrelsis að þeim mörkum, að þjóðarheildin bíði ekki tjón af.
12. Þjóðfélag, þar sem réttur skoðanalegs minnihluta er virtur og réttarstaða hans tryggð.
13. Þjóðfélag ábyrgra þegna, sem byggja störf sín á félagslegri samhjálp og samvinnu og stýra í raun þjóðfélagsþróuninni að þeim leiðum, en hafna annars vegar forsjá og stjórn peningavaldsins með eigingirnina að leiðarljósi, og hins vegar alráðu ríkisvaldi.
14. Þjóðfélag, sem setur metnað sinn í að verja, skapa og vernda sjálfstæða íslenska menningu og menningararfleifð, en rækir jafnframt hið mikilvæga hlutverk smáþjóðarinnar á alþjóðavettvangi og tekur heils hugar þátt í hverju því alþjóðlega samstarfi, sem stefnir að lausn þeirra miklu vandamála allra þjóða að tryggja frið í heiminum og brúa gjána, sem nú skilur ríkar þjóðir og snauðar.
Heyrðu Hallur. Ertu ekki hugsi yfir hvernig Framsóknarflokkurinn fór að því að glata hugsjón sinni og búa til samfélag sem byggir á „því gildismati fjármagns og peningavalds, sem þjóðfélag þeirra afla skapar“?
Hvar í samvinnuhugsjóninni var hugsjónin um að Finnur fengi Samvinnutryggingar, Óli fengi skipadeild SÍS og afkomendur kaupfélagsstjóra fengju aflaheimild útgerðar kaupfélagsins?
Soffía.
Veistu hvaðan þessi yfirlýsing kemur?
Mr. Google er langrækinn! http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4801936
Er líka búin að kaupa bókina um Möðruvallahreyfinguna.
Er á Tabula gratulatoria hjá Elíasi Snæland 🙂
Þetta var afar góður grunnur – og sem betur fer lifði stór hluti þessara hugmynda innan Framsóknarflokksins þótt leiðir hafi skilið með mörgum Möðruvellingunum og Framsókn!
Þótt á þessum tíma hafi yfirlýsingin verið markmiðasetning Sambands ungra framsóknarmanna og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna um mögulegan nýjan stóran vinstri flokka árið 1971 – þá þyrfti ekki miklu að breyta og hnykkja á svo þetta gæti orðið hluti nýrrar yfirlýsingar um markmiðasetningar á nýjum, frjálslyndum umbótaflokki á miðju stjórnmálanna í dag þar sem yfirskriftin gæti verið „Frelsi með félagslegri ábyrgð“.
Vissulegða þyrfti smá endurskoðun og ný innlegg – en samt!
Ég hef haldið því fram um nokkuð skeið að frjálslyndi hluti Framsóknarflokksins, frjálslyndi hluti Samfylkingar og frjálslyndi hluti Sjálfstæðisflokksins eigi oft á tíðum meiri samleið með hvor öðrum en með sumum öðrum hópum í eigin flokki – sérsaklega hagsmunagæsluhópunum sem er að finna í öllum þessum þremur flokkum.
Við núverandi aðstæður gæti frjálslynda ríkisstjórn skipuðu fólki úr frjálslynda armi þessara þriggja flokka orðið ágæt stjórn.