Ég fæ ekki betur séð en að forysta bændasamtakanna sé að saka Jón Bjarnson landbúnaðarráðherra um alvarleg embættisglöp!
Malbiksbændurnir við Hagatorg fóru af saumunum þegar Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og formaður viðræðunefndar Íslands við Evrópusambandið benti réttilega á að afstaða bændaforystunnar til aðildarviðræðna við ESB gæti skaðað samningsstöðu Íslands.
„Ráðuneytið neitar allri vinnu en ber raunverulega ábyrgð á að fylgja eftir hagsmunum atvinnuvegarins, ekki við,“ segir Haraldur Benediktsson formaður Bændastamtakanna.
Haraldur segir að bændasamtökin hafi tekið að sér verk í tengslum við aðildarviðræðurnar sem hafi í raun átt að vera á herðum stjórnvalda en landbúnaðarráðuneytið ekki getað sinnt sökum andstöðu Jóns Bjarnasonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, við aðildarviðræður Íslands um inngöngu í ESB.
Það kann að vera en samtökin hafa ekki fylgt eftir hagsmunum íslensks landbúnaðar.
Malbiksbændurnir vita upp á sig sökina og reyna því að fela sig á bak við Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sem reyndar er enn forstokkaðri en bændaforystan í að skaða samingsstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu.
Vandamálið er að embættisglöp Jóns Bjarnsonar og óábyrg afstaða bændaforystunnar til aðildarviðræðna að Evrópusambandinu gætu endað með skelfingu fyrir íslenskan landbúnað. Við gætum setið uppi með afar slakan samning fyrir hönd íslensks landbúnaðar í aðildarsamningi sem íslenska þjóðin gæti allt eins samþykkt ef aðrir þættir hans eru ásættanlegir. Tala nú ekki um ef sjávarútvegsþátturinn er í lagi.
Malbiksbændurnir við Hagatorg ættu því að gera bændastéttinni og almenningi á Íslandi þann greiða að koma af fullum krafti í undirbúning aðildarviðræðna að Evrópusambandinu og halda þar hagsmunum íslensks landbúnaðar hátt á lofti.
Það er sérstaklega brýnt nú þegar landbúnaðarráðherrann sjálfur vinnur af fullum krafti gegn stefnu eigin ríkisstjórnar og gerir allt sem í hans valdi stendur til að skaða framtíð íslensks landbúnaðar með hryðjuverkastarfsemi gagnvart aðildarviðræðum að ESB.
Rita ummæli