Þótt reglugerð um fjárstýringu Íbúðalánasjóðs geri ráð fyrir að langtímamarkmið sjóðsins sé að eiginfjárhlutfall sé 5 CAD, þá er engin sérstök fjárhagsleg ástæða til þess að halda því marki. Reglugerðin kveður á um að CAD hlutfall sé tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004.
Deutsche Bank taldi æskilegt að eiginfjárhlutfallið væri 2,5% CAD til lengri tíma, en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% CAD til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé til að standa undir skuldbindingum sínum.
Því skýtur það skökku við nú þegar við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur að fjármálaráðuneytið vilji leggja til tugi milljarða úr ríkissjóði til að ná markmiði um CAD hlutfall sem sett var til að koma í veg fyrir að það þyrfti að leggja sjóðnum til fé úr ríkissjóði!
Við skulum hafa í huga að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var 2,1% CAD við 6 mánaða uppgjör í sumar – örlítið lægra en ráðlegging Deutsche Bank.
Reynar er sjálfu sér ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé jákvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar, þótt staða og kjör sjóðsins styrkist eftir því sem eiginfjárhlutfall er hærra. Það eina sem þarf að tryggja er að sjóðurinn geti staðið undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum. Ekkert bendir til þess að greiðslufall sé framundan hjá Íbúðalánasjóði.
Því er óskiljanlegt að ríkissjóður skuli leggja til á fjáraukalögum að bæta skuli 33 milljörðum í eigið fé sjóðsins þegar ekki þarf í sjálfu sér að leggja til sjóðnum aukið fé. Ef stjórnvöld vilja styrkja stöðu sjóðsins í fegurðarskyni þá hefðu 10 milljarðar verið mikið meira en nóg.
… nema stjórnvöld séu að auka eigið fé í 8 CAD svo unnt sé að afnema ríkisábyrgð og einkavæða sjóðinn!
Þessi upphæð 33 milljarðar er líka áhugaverð út frá því, að þetta er sama upphæð og lífeyrissjóðirnir fengu gefins frá ríkissjóði, þegar þeir keyptu íbúðabréf ÍLS af ríki og Seðlabanka sl. vor. Kannski var það líka liður í því að lífeyrissjóðirnir eigi að taka ÍLS yfir.