Föstudagur 03.12.2010 - 18:24 - 16 ummæli

„Félagslegt“ húsnæði ekki ódýrara

Byggingarkostnaður lækkar ekki þótt húsnæði sé kallað „félagslegt“. Rekstrarkostnaður lækkar ekki þótt húsnæði sé kallað „félagslegt“.
 
Húsnæðiskostnaðurinn hverfur ekki. Hann þarf að greiða. Ef íbúar í „félagslegu“ húsnæði greiða ekki allan kostnaðinn þá verða einhverjir aðrir að gera það.
 
„Félagslegt“ húsnæði á Íslandi var fjármagnað gegnum Byggingarsjóð verkamanna til ársins 1998. Sá ágæti sjóður var tæknilega gjaldþrota þegar hann var látinn renna inn í Íbúðalánsjóð við stofnun sjóðsins 1999. Þá var neikvætt fé Byggingarsjóðs verkamanna rúmlega 30 milljarðar að núvirði.
Já, tap „félagslega“ sjóðsins nam rúmlega 30 milljörðum!
Það var kostnaður „félagslega“ húsnæðiskerfisins sem ekki hafði verið greiddur. Tap Byggingarsjóðs verkamanna át upp allt eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins þannig að við stofnun Íbúðalánasjóðs byggði eigið fé sjóðsins einungis á eigin fé húsbréfadeildar, 6,9 milljörðum. Sem er lægra eigið fé en sjóðurinn býr við í dag þrátt fyrir áföll og efnahagshrun.

Það voru sem sagt þeir sem greiddu af lánum Byggingarsjóðs ríkisins – almenningur í landinu – sem greiddu ógreiddan kostnað „félagslega“ kerfisins gegnum vaxtálag húsnæðislánanna.

Þetta ber að hafa í huga þegar töfraorðið er sagt „félagslegar leiguíbúðir“ og „félagslegt húsnæði“.

Það þarf einhver að borga brúsann.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Baldur Kristjánsson

    Gaman væri að fá samanburð frá þér um búsetuformið(Búseta, Búmenn) annars vegar og sjálfseignarformið hins vegar. Kv. B

  • Mjög gott, Hallur.

    Getur þú ekki komið þessu á framfæri í einhverjum fjölmiðli sem nær til landsmanna?

    Ábendingar þínar eru afskaplega þarfar á þessum sósíalísku tímum.

    Þakkir.

  • Það var kominn tími til að einhver segði sannleikann í þessu máli. Gott hjá þér Hallur, haltu blaðamannafund og útskýrðu þetta fyrir fjölmiðlum svo þeir hætti að lepja hrátt upp þessa „kröfu“ um aukið framboð á félagslegu, ódýrara húsnæði. Félagslegt húsnæði kostar ekki minna en húsnæði í einkaeigu.

  • Hallur Magnússon

    Baldur.
    Að mínu viti eru búseturéttarformið miklu farsælli leið. Búseturéttarformið er rekið af húsnæðissamvinnufélögum sem geta einnig rekið leiguíbúðir á hagkvæmasta máta.
    Meira um það síðar.

  • Hallur Magnússon

    Við hlið eignarformsins.

  • Steinarr Kr.

    Mjög áhugavert.

  • Hallur mig langar að segja þér og öðrum lesendum smá sögu um “ félagslegt“ húsnæði. Fyrirtæki sem ég vann hjá fór að byggja blokkir í fyrrum sósílistísku ríki í A-Evrópu þannig að ég kynntist eftirfarandi af eigin raun. Blokkir sem fólk býr í í þessu landi í dag eru flestar í ríkiseigu frá gamalli tíð og það er alveg skelfileg umgengni um sameignina og utanhúss því það sem er utan við hverja íbúð virðist engum koma við. Það er aldrei skipt um perur í stigagangi, ekki gert við lyftur sem bila og graffiti upp um alla stigaganga. Þvottahús og geymslur í kjallara almennt ógeðslegar og rosalega illa lyktandi. Íbúarnir skipta sér ekki af stigaganginum því hann er „einhvers annars“ að sjá um. Blokkirnar sem við ( ég meina þetta þýska fyrirtæki sem ég vann fyrir ) voru seldar, íbúð fyrir íbúð, á almennum markaði, við stofnuðum jafnframt húsfélög um hverja blokk og nú sjö árum síðar eru þessar blokkir enn í flottu standi, fólk passar upp á stigagangana og lyfturnar til að aðkoman dragi ekki niður verðmætið á íbúðunum sem fólkið á prívat.
    Þetta er í hnotskurn munurinn á einkaeign íbúða og þegar íbúðir eru í eigu ópersónulegs leigufélags. Ég hef átt heima í Svíþjóð og þar er mikið um leigufélög og ég get sagt það að stigagangarnir í flestum blokkum eru hreint út sagt sóðalegir í umgengni svo þetta er ekki bara Austur-Evrópskt fyrirbæri.

  • Ingvar Guðmundsson

    Frábær ábending og algjörlega tímabær. Það má hins vegar ekki gleyma því að það var byggðastefnan sem rekin var í gegn um byggingasjóð verkamanna sem fyrst og fremst kom honum á hausinn.

  • stefán benediktsson

    Búsetuformið er félagslegt. Og eignastefnan hér hefur verið félagsleg, lengstum byggð á niðurgreiddum vöxtum.

  • Magnús Björgvinsson

    Er ekki verið að tala um leiguhúsnæði? Hélt það? Þ.e. húsnæði fyrir fólk sem getur ekki keypt. Mögulega kaupleiguhúsnæði. Þ.e. fyrir fólk sem á ekki fyrir 20 til 30% útborgun. En getur greitt inn á útborgun með mánaðargreiðslum sínum.

    Annar held ég að kaupleiga eins og ég bý í á vegum búseta þar sem að bæði eru Íbúðir í boði fyrir þá sem hafa lágar tekjur Svo kölluð félagslegar kaupleiguíbúðir þar sem fólk fær leigubætur á móti greiðslum sínum og svo eins og ég bý í sem er almenn kaupleiguíbúð þar sem maður borgar 10% búseturétt og svo mánaðarlegar greiðslur sé besta kerfið fyrir fólk sem ekki vill eða getur keypt sér Íbúð á almenna markaðnum.

  • Varðandi það sem Magnús Björgvinsson skrifar þá hef ég nú ekki skilið þessa umræðu þannig að verið sé að tala um að hætta félagslegum aðgerðum í húsnæðismálum fyrir fátækt fólk. Það er verið að ræða um þessa kröfu sem nú er uppi að – allir skuli eiga val – þ.e. hvort viðkomandi kaupir sjálfur eða eigi kröfu til að einhver annar, væntanlega ríkið, sjái viðkomandi fyrir framboði á leiguhúsnæði. Magnús nefnir kerfi fyrir þá sem ekki vilja ( að viðbættum þeim sem ekki geta ) en ég spyr, er eitthvað réttlæti í því að niðurgreiða leigugreiðslur til þeirra sem gætu keypt en nenna tví ekki ?

  • Framsóknarmenn ætluðu að bjarga Íbúðalánasjóði 2003 því þeir héldu að Íhaldið myndi einkavæða hann.

    Hver er svo staðan í dag , og hvers vegna ?

  • jón snærisþjófur

    Er þetta rithorn aðallega ætlað fyrir framsóknarjarm og -rugl? Eftir að Halldór Ásgrímsson tók við þessum flokki, og skemmdi, varð hann eiturspilltur og í lokin algjörlega óþarfur. Leggið þetta óbremi niður. Það er handónýtt og menn byggja ekki á fúnum stoðum eða sandi!

  • Svo er annnar vinkill á þessu en hann er vissulega ekki vinsæll en á fullkomlega rétt á sér og það er spurninginn með þá sem nú þegar eiga íbúð (jafvel nokkrar) og leigja hana út – hver verður þeirra staða ef bjóða á öllum ódýrt húsnæði undir markaðsverði (leigu)? Er þá ekki bara verið að færa til vandan?

    Og hvað með markaðsvirði húsnæðis almennt? Verða ekki allir þá bara í yfirveðsettu húsnæði og þar með er grunnur bankakerfissins sem á veð í þessu ekki bara brostinn enn og aftur og það sema á við um lífeyrissjóðina er það ekki – hver á borga/redda þar?

    Þetta er allt sami pakkinn og það er ekki nein lausn að redda einum bara þannig að sá næsti sé í vanda. Vandi Íslendinga er að ætla að redda öllu strax – svona yfir eina helgi (hugsa í skammtímalausnum).

    Eina lausnin sem ekki býður bara upp á tilfluttning á vandanum er að koma hagkerfinu aftur á stað – auka atvinnuna (framleiðsluna) og síðast en ekki síst auka við í gjaldeyrisskapandi greinum því landið hefur verið í gjaldeyriskreppu frá því um árið 930 (þe. alla tíð). Þegar því er náð er hægt að auka við fjölbreytileikan án þess að valda stökkbreytingu sem færir til vandann frá A til B.

  • Hallur Magnússon

    Jón snærisþjófur!

    Búinn að lesa pistlinn yfir aftur – og aftur – en sé ekkert um Framsóknarflokkinn í honum 🙂

  • Nauðsynlegt að taka þessa umræðu í samfélaginu. Af hverju þurfa allir að kaupa húsnæði ef þeir þurfa þak yfir höfuðið? Núverandi leigumarkaður er ekki fyrir fólk sem vill varanlegt húsnæði enda byggist hann á því að einstaklingar eru að leigja frá sér húsnæði vegna tímabundinna aðstæðna.
    Vantar leiguhúsnæði sem hægt er að leigja ótímabundið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur