Laugardagur 18.12.2010 - 11:11 - Rita ummæli

Samkeppni í skattheimtu

Það þarf alvöru samkeppni í skattheimtu á Íslandi. Gegndarlaus skattpíning sem „Norræna velferðarstjórnin“ stendur fyrir er allt að drepa og þá ekki hvað síst landsbyggðina. Núverandi svigrúm sveitarfélaganna til samkeppni í skattheimtu er nánast engin og gefur Íslendingum ekkert raunverulegt val á grunni misjafnar skattheimtu.

Við náum hins vegar fram grunni fyrir alvöru samkeppni í skattheimtu á Íslandi með því að gerbreyta núverandi fyrirkomulagi sveitarstjórna og um leið sambandi og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Íbúar á Austurlandi eiga að geta notið umtalsvert lægri skatta en íbúar á suðversturhorninu – ef sú yrði niðurstaðar lýðræðislega kjörinna fulltrúa þeirra. Þannig eiga héruðin að geta laðað að sér starfsemi með skattívilnunum ef þeim sýnist svo.

En til þess að slíkt sé unnt þarf að leggja niður núverandi sveitarstjórnarkerfi og setja þess í stað á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi 6 – 8 öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsþinga og héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga hver í sínu héraði

 

Hinar nýju lýðræðislegu héraðsstjórnir eiga að sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heimafyrir á grundvelli ákvarðanna héraðsþinga, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess.

Með þessari breytingu getur hvert og eitt lýðræðislega kjörið héraðsþing ákveðið að lækka eða hækka skatta eftir áherslu í hverju héraði fyrir sig.

Það þarf nefnilega að draga úr miðstýring ríkisvaldsins og embættismannakerfisins í Reykjavík sem tók í raun yfir Kaupmannahafnarvaldið 1904 og kom því aldrei áfram til þjóðarinnar.

Það er staðreynd að lunginn úr skatttekjum landsbyggðarinnar renna til Ríkissjóðs í Reykjavík þar sem aðeins hluti þeirra er aftur dreift til fólksins í landinu og það á forsendum Reykjavíkurvaldsins. Þá hefur engu skipt hvort fjármálaráðherrar hafi komið úr Þingholtunum eða Þistilfirði eða heilbrigðisráðherrar af Seltjarnarnesi eða af Skaganum.

Þessu þarf að breyta.

Það gerum við með því að koma á fót samkeppni í skattheimtu milli öflugra héraða sem stjórnað er af lýðræðislega kjörnum héraðsþingum og héraðsstjórnum.

Ég skora á þá lesendur sem eru mér sammála að láta rödd sína heyrast. Það er nefnilega framundan stjórnlagaþing sem getur lagt til breytingar í stjórnarskrá sem kalla eftir breytingum á stjórnskipan í þessa áttina. Aukum raunverulegt lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar með róttækum breytingum á sveitarstjórnarstiginu og fyrirkomulagi skattheimtu á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur