Tíminn er of naumur fyrir þingkosningar þannig að Samfylking og VG hafa ekki annan kost en að taka Framsóknarflokkinn með í ríkisstjórn.
Ástæða þess að breikka þarf grunn ríkisstjórnarinnar til að móta framtíðarstefnu sem heldur er fyrst og fremst tvíþætt:
Brotthvarf AGS og lok efnahagsáætlunar sjóðsins og ríkisstjórnarinnar á vormánuðum.
Aðildarviðræður við Evrópusambandið sem hefjast munu fyrir alvöru í marsmánuði þegar fyrstu kaflar samnings verða opnaðir.
Ríkisstjórnin þarf því að móta nýja peningamálastefnu og efnahagsstefnu til framtíðar og tryggja slíkum áætlunum breiðan stuðning og ríkisstjórnin þarf að mynda breiða pólitíska samstöðu um samningsáherslur í viðræðum við Evrópusamstarfið.
Það verður ekki gert án þess að breikka ríkisstjórnina.
Framsóknarmenn þurfa því að ákveða sig hvaða áherslur þeir ætla að hafa í stjórnarsamstarfinu.
Miðað við reynslu mína sem fyrrverandi Framsóknarmaður þá tel ég að áherslurnar verði eftirfarandi:
Ríkisstjórnin endurskoði yfirlýsingar sínar um að ekki verði frekar aðhafst í skuldamálum heimilanna. Á móti hverfi Framsókn frá áherslu sinni á almenna niðurfellingu skulda. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír leiti sameiginlega raunhæfra leiða til aðstoðar heimilunum.
Aðferðafræði við fjárlagagerð verði endurskoðuð, tekin verði upp langtímafjárlög og greinarmunur verði gerður á útgjöldum eftir því hvort um fjárfestingu sem síðar muni bera arð eða um hrein útgjöld er að ræða. Formaður Framsóknarflokksins hefur talað skýrt fyrir slíku.
Ríkisstjórnin liðki fyrir arðsömum atvinnuskapandi fjárfestingaverkefnum og skapi litlum og millistórum fyrirtækjum svigrúm til athafna í kjölfar skuldaleiðréttingar.
Ríkisstjórnin standi við niðurstöðu sáttarnefndar um endurskoðun fiskveiðistefnunnar um að farin verði svoköllu samningsleið.
Breytt verði um vinnulag í viðræðum við Evrópusambandið á þá leið að allt verði upp á borðum. Unnin verði skýr stefnumörkun og samningsmarkmið í landbúnaði og byggðamálum.
Styrking og uppbygging húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarformsins frekar en leið sértæks félagslegs húsnæðis.
Ríkisstjórnarflokkarnir og Framsókn munu væntanlega taka því rólega yfir jólin meðan forysta VG í ríkisstjórn vinnur að því að fá á hreint hvort andófsliðið ætlar að fylgja VG áfram eða kljúfa sig frá flokknum.
Hver sem niðurstaðan verður af þeim innaflokksviðræðum VG þá munu ríkisstjórnarflokkarnir og Framsókn hella sér í stjórnarmyndunarviðræður strax eftir áramót – leynt eða ljóst.
Ja hérna.
Er hræðsla stjónmálastéttarinnar við kosningar svona rosaleg?
Hörmungum þjóðarinnar ætlar ekki að linna.
Ja, hérna. Er þetta eina von framsóknar. Forði okkur allar góðar vættir frá frekari stjórnaraðild framsóknar í bráð og lengd. Sporin hræða.
Hallur,
Ef það er ekki fótur fyrir þessu, þá er þetta er ekki bara mjög villandi fyrirsögn heldur virkilega shady aðferð til að veita á sér athygli.
Ég held að þetta uppþot í kringum fjárlög hafi bara verið leikaraskapur.
Ég er ekki að segja að þessu hafi verið leikstýrt, en ég held að fýlunni hafi verið leikstýrt. Margir þingmanna VG vona eflaust að þetta slái ryki í augu kjósenda og flokkurinn geti varpað þessu yfir á Steingrím J. og Jóhönnu, sem bæði munu hætta í pólitík eftir að þessi ríkisstjórn syngur sitt síðasta!
GUÐBJÖRN!
Megi sá lokatónn hljóma sem fyrst!
Framsókn hefur ekkert í þessa ríkissjórn að gera. Það skapar bara meiri glundroða. Það er nú heldur ekki samstöðunni fyrir að fara í Framsókn. Það verður að kjósa í vor. Það verður að hreinsa til í öllum flokkum og helst að leggja niður Samfylkinguna. Það er eina ráðið.
Framsókn er auðvitað tvíarma flokkur líka þó hann sé ekki margklofinn í herðar niður eins og Vg.
Ég held að Denna-armurinn í Framsókn geti vel farið inn í ríkisstjórnina (Guðmundur Steigríms, Sif og nokkrir í viðbót).
Ég á hinsvegar bágt með að sjá Dórana (undir forystu formannsins) vinna með þessari ríkisstjórn.
Það yrði kannski bara eins og að fara úr öskunni í eldinn að fara að vinna með Sigmundi Davíð í staðinn fyrir Lilju Mósesdóttur.
Nei, Ok, þetta síðasta var ofmælt og ósanngjarnt!
Gleðileg jól!
P.s. Hvort er þú „Denni“ eða „Dóri“?
Held að þú sért Denni.
Nokkuð sammála síðasta ræðumanni. Jólakveðjur Baldur
Ég er algerlega á móti þessari hugmynd, að Framsóknarflokkurinn blandi sér inn í þessa ríkisstj. – þ.e. a.m.k. svo lengi sem hún enn hefur meirihluta.
En, sömu röksemdir halda eftir sem áður, þ.e. svo lengi sem stjórnarflokkarnir mynda þingmeirihluta sem kemur málum í gegn, en eftir allt saman náði stj. meirihluta fyrir fjárlögum; þá hefði Framsókn mjög takmörkuð áhrif á mál innan veggja. Hann myndi ekki geta stöðvað framgang máls, ef hinir 2. flokkarnir væru sammála.
Þá uppskæri hann, einungis neikvæða hluti, þ.s. áhrif nær engin en samt kennt um allt sem miður fer af kjósendum. Slíkt gæti sett framtíðartilvist flokksins, í raunverulega hættu. Hann gæti fallið af þingi v. næstu kosningar.
Einungis, ef þre- eða sexmenningar, yfirgefa VG – verður málið breitt. Þá, myndi Framsóknarflokkurinn, hafa þá stöðu að viðbót hans myndi ráða því hvort stjórnin stendur eða fellur. Hann myndi geta sagt „Nei“ og stöðvað mál.
Það algerlega umbreitir samningsaðstöðu hans innan slíks stjórnarsamstarf, sem að mínu viti kemur alls ekki til greina, nema að stjórnin missi sinn meirihluta.
Kv.
Tek undir með Guðbirni.
Ætli vökni eitthvað með þessari pólitísku standpínu þinni, Hallur?
Eftir skötuna í dag verður þú orðin góður á morgunn Hallur. Ekki gleyma brenivínsstaupinu! Það gerir gæfumuninn.
Framsókn kom illa sködduð út úr samskiptunum við þessa flokka fyrir nokkrum misserum og varla eru leiðtogar flokksins svo skyni skroppnir að láta plata sig aftur. Það færi með flokkinn endanlega.
Það er líka rangt pólitískt mat hjá Halli, að með Framsókn innanborðs væri ríkisstjórninni borgið og gæti einhent sér að leysa stóru málin til farsældar fyrir land og þjóð. Þá fyrst kæmist órólega deildin í VG á verulegt flug með þægilegt svigrúm til þess að láta að sér kveða.
Og þá má sjá Sigmund Davíð fyrir sér í fréttaviðtölum, mæddan, þreyttan og bugaðan af svikunum og makkinu í ríkisstjórninni. Öll loforð svikin.
Framsókn hefur alltaf verið veik fyrir ráðherrastólum en nú er ráð að bíða, sýna þolinmæði.
Ég myndi kjósa Denna-arminn hvenær sem er en aldrei á meðan Dórarnir ráða för með mannabarnið í formennsku flokksins. Framsókn gæti átt sér von með Guðmund Steingríms sem formann þar sem skynsemi er látin ráða för en ekki sérhagsmunir eða stundarhagsmunir.
Já það er mikið rætt um að fá Framsókn inn í ríkisstjórnina en ég sé nú ekki að slíkt væri viturlegt fyrir Framsókn. Að fara inn í ríkisstjórn ef sú ríkisstjórn hefði áfram meirihluta ef Framsókn yrði ósátt við það hvert mál stefndu hjá sósíalistastjórn Samfó og VG þá breytti engu þó Framsók færi aftur úr stjórninni. Við slíkar aðstæður minnkar slagkraftur viðkomandi flokks í stjórnarsamstarfinu. Ég þekki Sigmund Davíð nokkuð var með honum í skóla í MR og hann er algjör nagli með stáltaugar. Hann hlustar reyndar vel á rök annarra en gefur sig aldrei ef hann er sannfærður um eitthvað. Sigmundur Davíð er alltaf sallarólegur og seinþreyttur til vandræða, mikill húmoristi en þegar hann slær frá sér eru það þung högg. Ég sé ekki fyrir mér að hann og SJS gætu unnið saman því þar mundu mætast stálin stinn, þeir eru báðir miklir baráttumenn.
Ef að yrði myndi það styrkja aðeins eitt; gamla Ísland myndi hressast. Það er líklega það sem okkur vantar?
er það sterk ríkisstjórn að mynda þriggja flokka stjórn með þessum flokkum? Hvernig reyndist það síðast þegar það var reynt? Voru ekki tveir af þessum þremur flokkum lagðir niður í kjölfarið? Það væri þá það eina jákvæða við svona glundur, ef nokkrir þessara flokka yrðu lagðir niður og kæmu aldrei aftur.
Það eru engar líkur á að þetta gerist. Framsókn mun þá tapa helmingi fylgis síns, sem myndi í kjölfarið þýða að flokkurinn hyrfi líklega af þingi með öllu.
Framsókn mun einfaldlega bíða eftir að meirihluti myndist fyrir vantrausti á stjórnina, það mun gerast fyrr en menn grunar.
Ætli Framsókn bjóði þeim bakið aftur? Kutarnir fara á loft strax og þeirra er ekki lengur þörf.
Dream on
Sérkennilegt tala manna um Denna arm vs. Dóra arm.
En, þ.e. eins og fólk muni ekki að Dóri er ESB sinni, svo þ.e. Dóralegt að vilja aðild.
Hvað Denni hefði viljað, er engin leið að vita.
Kv.
Ef Framsóknarflokkurin stígur það ógæfuskerf hjálpa sundurlyndri og ráðþrota ríkisstjórnþá er Framsóknarflokkurinn að stíga skerf í átt að flokkurinn verður lagður niður –
Óttalegt rugl er þetta í þessum Val B, hvað er fólk sem ekkert virðist fylgjast með straumum og stefnum í stjórnmálum að tjá sig um „Denna arm“ og „Dóra arm“ í Framsókn ? Vita ekki allir sem fylgjast eitthvað með að Halldór Ásgrímsson og hans lið þ.m.t. Jón Sigurðsson fyrrv formaður eru alls ekki stuðningsmenn Sigmundar Davíðs formanns ? Þetta gamla lið studdi Pál Magnússon og beið einfaldlega lægri hlut. Sagt er að Valgerður Sverrisdóttir sé sú eina úr gamla settinu sem hafi geta fyrirgefið að Sigmundur vann formannsslaginn og hafi stutt við Sigmund Davíð síðan. Vita ekki allir sem fylgjast með baklandi í stjórnmálaflokkunum að klíkan þ.e. þessir sjö sem Jón Sigurðsson heldur í kring um sig hefur reynt að vinna að því leynt og ljóst að auka veg Guðmundar Steingrímssonar á kostnað Sigmundar Davíðs. Menn þurfa ekki annað en lesa greinar Jóns Sigurðssonar á Pressuni til að sjá að hann styður ekki Sigmund heldur Guðmund. Sagt er að Jón Sig fari ekki á klósett án þess að spyrja Halldór leyfis. Hitt er svo annað mál að öllum sem „lesa“ pólitík má vera ljóst að Jón Sig og Halldór Ásgrímsson eiga ekkert fylgi innan Framsóknar lengur og jafnframt að Sigmundur Davíð hefur jafnt og þétt verið að ná öllum töglum og hölgdum í Framsóknarflokknum. Breytir þar engu um hvernig þeim sem standa utan Framsóknar líkar við Sigmund Davíð, Framsóknarmenn eru klárlega ánægðir með sinn unga leiðtoga. Það er ljóst að SDG er með þetta allt í hendi sér, virðist mikið harðari pólitíkus en okkur mörg grunaði þegar hann var kosinn. Ég les pólitíkina þannig að það séu einfaldlega engir armar lengur í Framsókn og breytir þar engu um þó Siv og Guðmundur Steingrímsson séu súr, Siv mun hvort eð er aldrei styðja Guðmund í alvöru hún veit að hann ætlar gegn henni í Kraganum næst. Enda hvert ætti Guðmundur að leita ella? Guðmundur Steingrímsson er enginn pólitíkus þó að pabbi hans hafi ítt honum út í framboð, honum virðist líða best með sinn gítar.
Heiða.
Hvernig er nýja starfið hjá Actavis?
Reyndar spilar Gvendur á harmoniku (accordeon) en ekki gítar, en það skiptir engu. Hvað um það, almenningur má ekki til þess hugsa að þessi harðsnúna klíka sem kallar sig framsóknarflokk komist í ríkisstjórn oftar. Þeir eiga mesta sök á því hvernig málum þjóðarinnar er komið nú. Þeir breyttu lögum svo mafíósarnir gætu hreinsað öll stöndug fyrirtæki landsins innan frá, þ.m.t. bankana. Halldór og Finnur hefðu betur aldrei fengið að koma nærri landsmálum. Þeir eru mestir óhappamenn íslenskra stjórnmála.
Hvaða rugl er þetta – Framsóknarflokkurinn er ekki að fara í ríkisstjórn.
Það á náttúrulega að leggja Framsóknarflokkinn niður, þótt ekki væri fyrir nema afleiðinguna af frekjunni í Halldóri og Valgerði, sem ýttu Sjálfstæðisflokknum út í hverja vitleysuna á fætur annarri.
Rétt hjá þér Heiða, að SDG nýtur ekki nokkurrar velvildar Dóra. Þetta Dóra arms tal, er klárlega eitt dæmið um „misinformation“ frá herbúðum Samfóa.
Kv.
Ég skal viðurkenna að ég þekki lítið til innan Framsóknar.
Þetta tal mitt um Dóra og Denna er meira til gamans gert og kemur til af því hvernig þessir menn virka út á við, en hefur ekki með stefnu þeirra eða fyrrverandi leiðtoga að gera.
Guðmundur hefur alla burði til að vera alþýðlegur líkt og Steingrímur heitinn Hermannsson og vinsæll eftir því. Hann er hógvær í framgöngu og maður sátta.
Sigmundur Davíð virðist gæddur persónutöfrum Halldórs Ásgrímssonar. Stjórnunarstíllinn er eftir því.
Hallur Magnússon, Þarna er þér rétt lýst, Framsóknarmaður af gamla skólanum og alinn upp af gömlu spillingaröflunum í flokknum. Samningaleiðinn í kvótamálinu sem þjóðsvikanefndin setti fram er í andstöðu við meginn þorra þjóðarinnar, en auðvitað þess vegna leið Framsóknarmanna.
Lærir þú aldrei að stjórnmálaflokkar eru í þjónustu almennings en ekki í þjónustu sérhagsmunahópa. Framsóknarflokkurinn hefur í marga áratugi safnað inn spillingarpunktum í ökuskírteini sitt og þurfa að hverfa úr íslenskum stjórnmálum á meðan gömlu spillingaröflin í flokknum safnast til feðra sinna en þá geta þeir hugsanlega komið aftur að lokinni endurhæfingu.
Eiríkur – það eru ekki allir Framsóknarmenn sammála honum Halli um svokallaða samningaleið.
Eins og að ekki allir eru sammála honum, að innganga í ESB og upptaka Evru, sé sú hin eina rétta leið!
Kv.
Oddur Ólafur – þú klárlega þekkir ekki þessa menn persónulega. Sannarlega er Guðmundur viðkunnanlegur, og alltaf hefyr hann virst mér það í viðkinningu, en SDG er ekki sú persóna sem fjölmiðlar Samfóvina, mála að hann sé.
Kv.
Eiríkur Stefánsson frá Fáskrúðsfirði.
Þarna er þér rétt lýst.
Farinn að gapa áður en þú hugsar.
Ég er ekki í Framsóknarflokknum. Ég er ekki að setja fram skilyrði mín fyrir setu Framsóknarflokks í ríkisstjórn. Ég er að greina hvað ég tel að flokkurinn muni setja fram sem skilyrði – byggt á 25 ára reynslu minni innan Framsóknarflokksins.
Það hefur bara ekkert með hvað mér finnst persónulega. Ekki neitt.
Frábið mér svona palladóma sem ekki er stoð fyrir: „Lærir þú aldrei að stjórnmálaflokkar eru í þjónustu almennings en ekki í þjónustu sérhagsmunahópa.“
Þú hefur greinilega ekki fylgst með mínu pólitíska starfi gegnum tíðin – og því aðhaldi sem ég veitti Framsókn meðan ég starfaði þar.
Get alveg lofað þér að ef þú vilt gagnrýna mig – þá er af mörgu að taka. En ekki þetta.