Aðildarviðræður að Evrópusambandinu eru að trufla hluta VG í ríkisstjórnarsamstarfinu þrátt fyrir skýr ákvæði í ríkisstjórnarsáttmálanum.
Aðildarviðræður að Evrópusambandinu ættu ekki að trufla Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn því gildandi stefna flokksins hvað það varðar er skýr.
Eftirfarandi er orðrétt ályktun 30. flokksþings Framsóknarflokksins sem haldið var 16. – 18. janúar 2009.
Ályktunin er sérstaklega sterk þar sem hún var samþykkt á 900 manna flokksþingi með einungis 14 mótatkvæðum. Flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins:
“ Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið
Markmið
Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.
Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.
Skilyrði
• Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
• Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
• Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
• Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
• Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
• Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
• Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
• Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
• Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.
Fyrstu skref
Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið. ”
Fyrir slysni þá var lokað fyrir ummæli með þessu bloggi.
Ég biðst innilega afsökunar á því.
Ég mun aldrei loka fyrir ummæli – og allra síst um þetta málefni!
Kveðja
Hallur M
Hljómar vel ! Hinsvegar held ég að menn efist um pólitískan og samstarfslegan þroska Sigmundar, Vigdísar, Hr. Sauðarkróks og Höskuldar þeas ein Liljan fer út og fjórar koma í staðinn
Bara fínt Hallur. Eru annars allir þingmenn flokksins meira og minna búnir að gleyma því að flokksþing gefur stefnumarkandi fyrirmæli . . . ?
Eða er það kannski einmitt þannig í öllum flokkum . . að þingmenn hlaupa eftir fyrirmælum og þrýsingi frá eigin vinaklíkum og hagsmunaaðilum – eða stjórnast af bráðum eiginhagsmunum . . . ? Mér finnst ekki frítt við þetta í Samfó . .
Kveðja úr ófærðinni á Akureyri
Sæll Hallur ég sé nú ekki betur en að það samningaferli sem farið er af stað hafi þegar á fyrstu metrunum brotið eina af forsendum Framsóknar fyrir samnignaviðræðum. Það er sú forsenda að byrjað verði á að gera samning við evrópska seðlabankann um stuðning við krónuna.
Eiginlegar aðilarviðræður hefjast í mars. Að sjálfsögðu myndi Framsókn leggja áherslu á slíkar viðræður – um leið og flokkurinn tæki þátt í nýrri ríkisstjórn – ef til þess kæmi.
Einnig leggja áherslur á þau atriði sem fram koma – í aðildarviðræðunum.
Kjarni málsins er að fyrir liggur skýr samþykkt Framsóknar um að Ísland hefji aðildarviðræður við ESB. Því ætti fyrirliggjandi aðildarumsókn ekki að trufla – ef til kæmi.
Þingflokkur Framsóknar virðist ákaflega ósamstígur. Einn vill þjóðstjórn annar álítur það óráð. Einn vill kosningar annar ekki. Amk. 2 vilja fara í stjórn með Samfylkingu en líklega ekki hinir. Evrópumálin eru ekki þau einu sem skipta máli og ályktanir flokksþings eru kannski ekki eins stefnumarkandi og vera ætti.
Framsókn er ekki vænlegur kostur í ríkisstjórn.
Þingflokkurinn er þverklofinn í ESB-málinu, og það sem skiptir stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar meira máli þá er Framsókn í algjörri andstöðu við vilja stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hvað varðar kvótaúthlutun í fiskveiðum.
Samfylking og VG vilja tilboðsleiðina í einhverri mynd en Framsókn vill samningaleiðina sem veitir örfáum aðilum einskonar einokun að fiskveiðum fyrir lítið fé til langs tíma.
Og þriðja stóra atriðið sem ætti að útiloka Framsókn er hversu hlynntir þeir hafa verið í einkavæðingu orkugeirans.
@ Garðar Garðarsson þetta er rétt hjá þér Garðar það sem þú dregur fram sýnir að það er mikið vit í stefnu og störfum Framsóknarflokksins eitthvað annað en þetta fálm og fum í þessari ömurlegu ríkisstjórn sem við erum með núna.
Hallur ég var að reyna að lesa þetta plagg um stefnumótun fyrir Ísland árið 2020 sem hann Dagur B Eggertsson stórblaðrari var að kynna með henni Jóhönnu sinni. Þetta er alveg skelfileg lesning og maður þarf verulega að setja sig í stellingar til að reyna að halda þræðinum sem samt er ekki hægt því plaggið er eitt stórt BULL. Það versta er þó að höfundar þessa plaggs eru svo gjörsamlega lausir við að skilja hvernig fyrirtæki og atvinnulíf verður til. Þau virðast trúa því að hægt sé að skipuleggja framtíðarþróun þjóðfélagsins á pappír. Sem betur fer er þjóðlífið margbreytilegt og það er atvinnulífið líka og bæði þjóðlíf og atvinnulíf þróast áfram en að halda að hægt sé að breyta ferlinu með gerð áætlanabúskapar á vegum ríkisins er skelfilegt. Þekkir þetta fólk ekki hvernig fór með fimm ára áætlanirnar í gömlu Sovétríkjunum. Nei við skulum hafna ríkisforsjá Jóhönnu og Dags B Eggertssonar en standa vörð um frelsi okkar til að hafa sjálf áhrif á líf okkar og umhverfi.