Miðvikudagur 26.01.2011 - 13:55 - 14 ummæli

Stjórnlagaþing eða saumaklúbb?

Ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa í hjarta sínu alltaf verið sammála um að þjóðin fengi EKKI alvöru stjórnlagaþing eins og krafist var í búsáhaldabyltingunni. Þrátt fyrir fögur orð. Þetta er augljóst nú þegar alþingismenn rífast eins og hundar og kettir í kjölfar ógildingu Hæstaréttar á kosningum til „stjórnlagaþings“.

Einstaka þingmenn hafa haft sannfæringu fyrir alvöru stjórnlagaþingi – en ekki þingflokkarnir sjálfir.

Það hefur alltaf verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viljað stjórnlagaþing í neinu formi. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn alla tíð staðið af hörku gegn nauðsynlegum úrbótum á stjórnarskránni.

Samfylkingin hefur aldrei viljað alvöru stjórnlagaþing sem kjörið yrði af þjóðinni og legði niðurstöður sínar beint fyrir þjóðina. Forysta Samfylkingarinnar treystir ekki þjóðinni og vill ritskoða niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Velja bestu molana fyrir sig – en sleppa því sem Samfylkingunni hentar ekki.

Vinstri grænir voru sammála Samfylkingu um að þjóðinni væri ekki treystandi. Stjórnlagaþing skyldi einungis vera ráðgefandi – enda Vinstri grænir svag fyrir ráðstjórn.

Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu því að hafa stjórn á stjórnlagaþinginu og breyta því í þjóðkjörinn, ráðgefandi saumaklúbb á vegum Alþingis – í stað alvöru stjórnlagaþings sem sæki umboð sitt einungis til þjóðarinnar og leggi niðurstöðu sína fyrir þjóðina.

Framsóknarflokkurinn hafði stjórnlagaþing sem eitt af baráttumálum sínum enda hugmyndin sprottin úr grasrót flokksins. En komið hefur í ljós að hluti þingflokksins er sammála Samfylkingunni um að ekki sé hægt að setja á fót stjórnlagaþing sem setji niðurstöðu beint í dóm þjóðarinnar.  Alþingi þurfi að ritskoða niðurstöðuna.

Málflutningurinn gjarnan verið í þá átt að það eigi að halda stjórnlagaþing í einhverri óljósri framtíð.

Hreyfingin talar um stjórnlagaþing – enda Hreyfingin sprottin úr Borgarahreyfingunni – sem reynir að eigna sér búsáhaldabyltinguna – sem reyndar var sameign þjóðarinnar. Í stað þess að setja á oddinn að sett verði á fót alvöru stjórnlagaþing – þá vill Hreyfingin bara kjósa nýtt stjórnlagaþing – en þess vegna í formi þjóðkjörins, ráðgefandi saumaklúbbs.

Það sem þjóðin vildi var alvöru vandað stjórnlagaþing sem ekki væri undir hælnum á atvinnustjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkunum. Stjórnlagaþing sem fengi ráðrúm og tíma til að vinna vandaða stjórnarskrá og leggja niðurstöðu sína í dóm þjóðarinnar.  Ekki í dóm atvinnupólitíkusanna og stjórnmálaflokkanna á Alþingi.

Nú er tækifæri til að setja á fót slíkt þjóðkjörið, sjálfstætt stjórnlagaþing. Stjórnlagaþing sem starfi 3x 2 mánuði og leggi tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir þjóðina í næstu Alþingiskosningum – svo fremi sem núverandi Alþingi sitji út kjörtímabilið.  

Tvo mánuði í haust, tvo mánuði fyrri part árs 2012 og tvo mánuði síðari hluta árs 2012.  Á milli vinnulota verði hugmyndir og afurðir stjórnlagaþingsins kynntar almenningi og skoðanaskipti þjóðarinnar tryggð. Tillaga að nýrri stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina vorið 2013. Án afskipta Alþingis.

Það er rétt hjá stjórnmálamönnum sem segja að það séu mörg brýn verkefni sem Alþingi og ríkisstjórn þurfi að taka á strax og á næstu mánuðum. En það er rangt hjá þeim stjórnmálamönnum sem telja að það eigi að fresta stjórnlagaþingi vegna þess.

Hið rétt er að stjórnlagaþing á að starfa án afskipta Alþingis og ríkisstjórnar. Stjórnlagaþing á að vinna að sínu verkefni á vandaðan hátt – Alþingi og ríkisstjórn á að vinna að sínum verkefnum á vandaðan hátt. Þessi verkefni skarast ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Ef ég bregð skildi fyrir það sem ég þekki til, Hallur, þá var ráðgefandi þátturinn gerður til að reyna að ná sátt yfir til sjálfstæðismanna og… skv. lögspekinga var ekki talið fært að Alþingi framsali sér löggjafarvaldið með þessum hætti. Pólitískur vilji var til þess að lýsa því yfir að sameiginleg samþykkt stjórnlagaþings yrði ekki hróflað við. Þarna fórstu inn á framsóknarhjólfarið Hallur.

  • „Framsóknarflokkurinn hafði stjórnlagaþing sem eitt af baráttumálum sínum enda hugmyndin sprottin úr grasrót flokksins.“
    Þetta er undarleg söguskoðun.

  • Hallur Magnússon

    Pétur 2.
    Þetta er ekki söguskoðun.
    Þetta er staðreynd.

    Upphafsmaður þeirrar umræðu var Gísli Tryggvason. Hugmyndin var sett fram í lýðræðisnefnd Framsóknarflokksins 28. nóvember 2008.

    Þetta var rætt í þaula í Framsókn nóvember og desember 2008. Tillaga til flokksþings lá um miðjan desember 2008 og samþykkt á flokksþingi 2009.

    Jón Kristjánsson ritaði grein um málið – sem birtist reyndar ekki fyrr en 12.jan 2009.

    Var eitt skilyrði fyrir hlutleysi Framsóknar við minnihlutastjórn Samfó og VG á sínum tíma. Ég tók þátt í þeirri umræðu – og bloggaði um það – eins og Gísli Tryggva.

    Á sama tíma og við settum þessa hugmynd í loftið í byrjun janúar – fóru Njörður P. Njarðvík að ræða þessa leið. Í framhaldinu fór hugmyndin á flug í samfélaginu. Þá hafði fullbúin tillaga fyrir flokksþing Framsóknar legið fyrir í mánuð.

    Þetta er nú staðreynd málsins Pétur.

    Þú getur flett upp á bloggum okkar Gísla og í kjölfarið samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins í janúar 2009 til að fá þetta staðfest.

    Gísli.

    Nú misminnir þig.

    Frumvarp sem Gísli Tryggvason vann fyrir þingflokk Framsóknar lá fyrir 22. jan. Frumvarp þingflokks Framsóknarflokksins var lagt fram í byrjun febrúar. Það gerði ráð fyrir sjálfstæðu stjórnlagaþingi.

    Í stað þess að byggja á frumvarpinu – þá var ákveðið að semja nýtt frumvarp – og settur á fót vinnuhópur þriggja lögfræðinga til þess.

    Þar var strax línan frá forystu Samfylkingarinnar við undirbúning frumvarps númer 2 að þetta yrði einungis ráðgefandi.

    Það var alveg ljóst að unnt hefði verið að gera breytingar á stjórnarskrá til að veita stjórnlagaþingi fullt umboð. Það hefði verið unnt í Alþingiskosningunum. Það var ekki vilji Samfylkingar og VG að gera slík. Og alls ekki Sjálfstæðisflokks.

    Þannig það er ekki hægt fyrir Samfylkinguna að beila sig út úr þessu.

    Ekki frekar en það er hægt fyrir þingmenn Framsóknar að flýja frá þessari skýru stefnumörkun sinni.

    Átta mig ekki alveg þetta komment með Framsóknarhjólfarið. Ekki hlífi ég þeim í þessum pistli.

  • Ráðgefandi eins og esb kosningin verður.

  • http://www.dv.is/frettir/2010/6/11/johanna-reynir-i-thridja-sinn/
    „Jóhanna hefur sem fyrr segir þrisvar lagt fram tillögu á Alþingi um stjórnlagaþing. Í fyrsta sinn árið 1995, í annað sinn veturinn 2008 til 2009 og nú á yfirstandandi þingi. Gamall draugur kom fram á sjónarsviðið á dögunum þegar farið var að ræða frumvarp um stjórnlagaþing á Alþingi.“

    1995 eða 13 árum áður en Gísli fékk þessa hugljómun.

    Þetta eru staðreyndir málsins Hallur, þú getur flett upp í skjalasafni alþingis til að fá þetta staðfest.

  • Uni Gíslason

    xD kom í veg fyrir að Stjórnlagaþing gæti verið bindandi. Ég man eftir því málþófi í tíma minnihlutastjórnarinnar.

    Ráðgefandi er ekki það sama og saumaklúbbur.

    Það er eins og þegar mest froðufellandi andstæðingar ESB segja að kosning um aðild verði „bara“ ráðgefandi.

    Alþingi *mun* hlýða beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðgefandi eða ekki.

  • Óðinn Þórisson

    Stjórnmálaflokkur sem sýnir fram á það í hverju málinu á fætur öðru að hann er ábyrgari en aðrir flokkar mun njóta ávaxta þess

  • stefán benediktsson

    Sú fullyrðing að Samfylkingin hafi verið eða sé á móti „alvöru“ stjórnlagaþingi er alröng. Ekkert styður þessa fullyrðingu um afstöðu Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna og hvorugur flokkurin hefur í hyggju að fikta í niðurstöðum stjórnlagaþingsins. Þessi leið var farin til að draga úr andstöðu Sjálfstæðismanna sem vilja að þingið fjalli eða fjalli ekki um stjórnarskrána. Það var vitað að þeir myndu pönkast á málinu til síðustu mínútu en það verður erfitt fyrir þá að taka stjórnarskrártillöguna herskildi þegar búið verður að setja kjördag. Framsóknarmenn höfðu uppi hugmyndaríka umræðu um lýðræði fyrir stríð sérstaklega fyrir austan, Eysteinn og fleiri en eftir stríð voru það efnislegri hlutir sem vöktu áhuga þeirra.

  • Hallur Magnússon

    Pétur 2.

    Þú ættir að vinna heimavinnuna þína betur.

    Frumvarpið sem Jóhanna lagði fram 2009 var EFTIR að fram kom frumvarp Framsóknarflokksins – og EFTIR að Framsókn setti stjórnlagaþing sem skilyrði.

    Hún hafði ekki hreyft málinu frá því 1995!!!!!!

    Þetta kom úr grasrót Framsóknar haustið 2008 – inn á flokksþing janúar 2009 – og þaðan sem skilyrði fyrir hlutleysi við minnihlutastjórnina. Svona er þetta – hvort sem þér líkar betur eða verr.

    Stefán.

    Það bendir allt til þess að Samfylking og VG vilji fikta í niðurstöðunni. Þessi lína – að þingið yrði ráðgefnadi – kom fram af hálfu fulltrúa Samfylkingar STRAX í sérfræðingahópnum – áður en frumvarpið var unnið!

    Þú verður að koma með betri skýringu.

  • Hallur Magnússon

    Breytir hins vegar ekki því að:
    „Það sem þjóðin vildi var alvöru vandað stjórnlagaþing sem ekki væri undir hælnum á atvinnustjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkunum. Stjórnlagaþing sem fengi ráðrúm og tíma til að vinna vandaða stjórnarskrá og leggja niðurstöðu sína í dóm þjóðarinnar. Ekki í dóm atvinnupólitíkusanna og stjórnmálaflokkanna á Alþingi.“

  • Hvernig væri að þið , sem lifið og hrærist pólitík á hverjum degi sama í hvaða flokki , færuð bara á einhverja eyðieyju og létuð venjulegt fólk í friði !!!

    Sama hvar þið komið að , þá er það vonlaust og illa unnið eða ekki unnið !

    Svo er það ágæt fyrir ykkur framsóknamenn að skoða hvernig einn ykkar alþingismanna, að vísu kona, notar vinnutíman sinn á alþingi ?

  • Hallur, ég veit ekki betur en að það hafi verið sjálfstæðisflokkurinn sem kom því í gegn að stjórnlagaþingið yrði aðeins ráðgefandi. Leitt að sjá þig detta í skítkast á borð við það sem stundað er á amx.

  • Stefán Benediktsson ritar athugasemd hér að framan og gerir lítið úr látnum manni, Eysteini Jónssyni. Ætli þetta sé Stefán Benediktsson arkitekt sem fékk starf sem þjóðgarðsvörður fyrir það eitt að vera krati ? Ætli þetta sé sami Stefán og skrifaði grein í blað þar sem hann sagði vinnustað hundruða Íslendinga vera krabbamein á þjóðinni ? Já þeir eru ekki merkilegir pappírar kratarnir, aumkunnarverð stefnulaus hjörð.

  • Hallur Heimisson

    Sæl.
    Heiða, jésús minn eini. Hverslags athugasemd er þetta eiginlega? Persónulegir hagir manna koma umræðunni ekkert við. hvorki hvort Eysteinn hafði áhuga á einu eða öðru eða nefndur Stefán hefur orð á því. Deila snýst um tilurð stjórnlagaþings.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur