Í gær – þann 27. janúar – átti sýslumaðurinn a Siglufirði að taka fyrir allar bótakröfur Breiðavíkurdrengjanna í einu og leggja mat á hvort menn fái bætur eða ekki – og ef bætur – hversu miklar.
Ég veit ekki hvort það gekk eftir – en Breiðavíkurdrengirnir bíða í ofvæni eftir niðurstöðu sýslumanns.
Einn þeirra vildi greinilega ekki bíða úrskurðar og reyndi að svipta sig lífi síðastliðinn laugardag. Vildi fylgja í fótspor nokkurra félaga sinna
Þegar lagt var af stað í þá vegferð sem vonandi er að enda með úrskurði sýslumannsins, þá var ákveðið að þeir sem ekki sætta sig við niðurstöðu sýslumanns geti sótt mál sitt fyrir rétti.
Vegna þess hefur ríkið ákveðið að greiða 10 tíma lögfræðikostnað.
Mér finnst það ekki ofrausn.
Þegar Breiðavíkurmálið fór af stað í upphafi mun Geir Haarde forsætisráðherra hafa lagt 60 milljónir í verkefnið. Sú fjárhæð átti – skilst mér – að dekka bæði bætur og kostnað. 40 milljónir fóru í kostnað – 20 milljónir hefðu verið eftir í bætur.
Ferlinu var hins vegar breytt. Þökk sé Jóhönnu Sigurðardóttur. Jóhanna bað Breiðavíkurdrengina einnig afsökunar. Fyrir tilstilli hennar er sýslumaðurinn á Siglufirði að úrskurða um bótakröfur. Jóhanna á hrós skilið fyrir sinn hluta í uppgjöri Breiðavíkurmálsins.
Fyrir hennar tilstilli var heildarfjárhæð til fórnarlamba illrar meðferðar í Breiðavík hækkuð í allt að 235 milljónir króna . Hafi Jóhanna þökk fyrir.
Nú er bara beðið eftir úrskurðinum – úrskurði sem er lok ferils sem verið hefur Breiðavíkurdrengjunum erfiðir. Þeim leið mörgum sem sakamönnum þegar þeir gáfu “skýrslu” til kerfisins vegna mögulegra bóta.
Við skulum vona að niðurstaðan verði Breiðavíkurdrengjunum ásættanleg. Óásættanleg niðurstaða gæti fækkað þeim enn frekar.
Satt og rétt Hallur.
Það er ofurmikilvægt að klára þetta mál þannig að í það minnsta fjárhagsleg staða þessarra manna verði bætt. Það verður hinsvegar líklega aldrei hægt að bæta þeim harðræðið. Svo verður að skoða aðrar sambærilegar stofnanir sem starfræktar voru á sama tíma eða svipuðum og sköðuðu börn alvarlega. Þau eru nefnilega fleiri og það verður að vinna í þeim málum. Við sem erum komin á og yfir miðjan aldur vitum svosem vel að á þessum tímum var líf barna ekki metið til margra fiska. Sérstaklega var líf fátækra barna eða þeirra sem áttu um sárt að binda af einhverjum ástæðum lítils virt. Það fólk sem í þessu lenti á margt hvert um sárt að binda. Nokkrar stofnanir hafa verið nefndar en mig langar að bæta einni við. Sólarhringsvistunina á Dyngjuveginum í Reykjavík. sem var fyrir ung börn. Sigurjón Björnsson sálfræðingur fékk því framgengt að stofnuninni væri lokað á sínum tíma en þar voru börnin höfð í rúminu allan sólarhringinn, fengu aldrei að fara út eða snerta hvert annað vegna meintrar sýkingarhættu. Af sömu ástæðum fengu þau bara að sjá foreldra sína gegnum gler. Hvað varð um þau börn öll.