Miðvikudagur 23.02.2011 - 09:37 - 19 ummæli

Flugtak vandaðrar aðildarumræðu

Ég er í skýjunum yfir fjölmennum og frábærlega velheppnuðum undirbúningsfundi að nýjum vettvangi fyrir vandaða Evrópuumræðu sem haldin var í gærkvöldi. Á fundinn mætti breiður hópur áhugafólks um tryggja hlutlægar umræður um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.

Sérstaklega skemmtilegt var að sjá þrjá fyrrverandi þingmenn úr þremur mismunandi stjórnmálaflokkum mæta á fundinn. Einnig hvernig flokksbönd röknuðu upp í frjórri umræðu um framtíðarmöguleika Íslands.

Fundarmönnum var skipt upp í 5 umræðuhópa sem fjölluðu um 3 meginspurningar:

1. Er ástæða til að setja á fót sérstakan samstarfsvettvang frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu?

2. Í hvaða formi ætti slíkur samstarfsvettvangur að vera?

3. Hver ættu að vera helstu áhersluatriði og verkefni?

Fundarmenn voru allir sammála um að stofna beri sérstakan samstarfsvettvang um framgang aðildarviðræðna að Evrópusambandinu þar sem hagsmunum Íslands verði haldið á lofti.  Samstarfsvettvangurinn taki ekki afstöðu til þess hvort ganga skuli í Evrópusambandið – þá ákvörðun verði hver og einn að taka þegar niðurstaða aðildarviðræðna liggur fyrir.

Fundarmenn voru almennt sammála um að vettvangurinn ætti ekki að starfa undir pólitískum hugtökum eins og „frjálslyndir“ eða „miðjufólk“ heldur að vera vettvangur þess hluta almennings sem vill ljúka aðildarviðræðum og að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fundarmenn voru almennt sammála um að vettvangurinn ætti að byggja á hlutlægri umræðu um mögulega aðild að Evrópusambandinu, vandaðri upplýsingaöflun um kosti og galla aðildar, vinna að fundarhöldum þar sem sérfræðingar og erlendir aðiljar ræði einstök álitaefni og veita samninganefnd Íslands jákvætt aðhald.

Í lok fundar skráðu þeir fundarmenn sem reiðubúnir eru að sitja í undirbúningshóp fyrir samstarfsvettvang á ofangreindum forsendum nafn sitt á lista. 14 aðilar rituðu nöfn sín og munu þeir aðiljar því skipa undirbúningshóp.

Undirbúningshópurinn mun vinna úr niðurstöðum undirbúningsfundarins og boða til stofnfundar.

Ég er stoltur yfir að hafa haft forgöngu um að halda undirbúningsfund um þetta málefni. Vettvangurinn er kominn úr mínum höndum og á flug með því kröftuga fólki sem mætti á undirbúningsfund. Ég finn að það er eitthvað gott að gerast.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • stefán benediktsson

    Til hamingju með þetta Hallur.

  • Þórhallur

    Vel gert Hallur.

  • Baldur Kristjánsson

    Stoltur máttu vera!

  • Sigfinnur Þór

    Er ég að lesa rétt, eru menn í alvöru hér fyrir ofan??? Eruð þið ekki að gera grín að Halli?

  • Sig. Karl

    Þetta eru góð vinnubrögð hjá þér Hallur.

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Þetta var góður fundur og samstilltur. Þó svo að tveir þriðju fundarmanna væru flokksbundnir framsóknarmenn voru menn sammála um að væntanleg samtök ættu ekki að einskorða sig við frjálslyndi og miðjustefnu. Þessi afstaða er frjálslyndi að mínu mati.

    Ég vil bæta við ágæta samantekt Halls að menn voru sammála um að samtökin gætu hvorki starfað með já hreyfingunni né nei hreyfingunni. Þetta væri nýr valkostur. Stefna bæri að því að ljúka samningum við ESB og gæta hagsmuna Íslands í því ferli. Innan ríkisstjórnarinnar væru öfl sem drægju lappirnar í ferlinu sem leiddi til þess að allir fletir væru ekki kannaðir og þar með sköðuðust hagsmunir íslendinga. Það væri ekki gefið fyrirfram að samningar næðust né að þeir yrðu viðunandi.

  • Magnús Mosdal

    Ánægjulegt að þú skulir vera í skýjunum. Tvennt myndi ég þó gjarnan vilja fá skýringar á:

    1.Þú segir að á fundinn hafi breiður hópur áhugafólks um að „tryggja hlutlægar umræður um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.“ Hvað eru að þínum dómi „hlutlægar“ umræður?

    2. Þú talar um að þessi „hlutlægi“ félagsskapur eigi „að vera vettvangur þess hluta almennings sem vill ljúka aðildarviðræðum og að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
    Þarna notar þú tískuhugtakið „upplýst ákvörðun“ sem fer nú sem eldur í sinu um allar koppagrundir. Hverjir eru til þess bærir að skera úr um hvað „upplýst“ ákvörðun er? Vilji nú svo til að ég hafi tekið afstöðu til ESB nú þegar er það þá „óupplýst“ ákvörðun? Er það með gert ráð fyrir að fólk sé fífl, eða hvað?

  • Hallur Magnússon

    Magnús Mosdal.

    Ánægjulegt að þú skulir fylgjast svona vel með:

    1. Það sem fundarmenn eiga við með hugtakinu „hlutlægar umræður“ er að þær byggi á staðreyndum um kosti og galla aðildar en ekki á grunni órökstuddra sleggjudóma eins og of algengt virðist í umræðunn víða.

    2. Tískuhugtakið „upplýst ákvörðun“ hefur gildi. Það er að sjálfsögðu ákvörðun sem byggir á hlutlægri skoðun á köstum og göllum aðildar – í þessu tilfelli. Fólki er alveg frjálst að taka afstöðu td. á tilfinningalegum grunni og þess vegna án þess að leit sér nokkurra upplýsinga um málið mín vegna. Hins vegar er það svo að flestir vilja hlutlægar upplýsingar til að byggja ákvarðanir sínar á.

    Ég hef ekki hugmynd um það hvort afstaða þín til aðildar að ESB byggi á upplýstri ákvörðun eða ekki. Mér er líka alveg sama. Það er þitt frjálsa val.

    Hins vegar var fólkið á undirbúningsfundinum sammála um að það vantaði vettvang fyrir upplýsta, hlutlæga umræðu um aðildarviðræðurnar.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Sæll HAllur mér fannst nú vera fátt á fundinum hjá þér rétt rúmlega 30 manns ef fundarboðendur og blaðamenn voru taldir með. Einn núverandi þingmaður var á fundinum þ.e. Samfylkingar Framsóknarmaðurinn Guðmundur Steingrímsson.
    Má ég spyrja ætlar eða hefur þessi nýji vettvangur þinn sótt eða ætlar hann að sækja um fjárstyrki og fjármagn beint eða óbeint sem í boði er hérlendis af hálfu ESB apparatsins til áróðurs og „kynningarstarfa“

    Það væri sk/ü fróðlegt að ulsğzznzürı ağzün uq vita það því að alltaf spretta upp fleiri og fleiri samtök með svipaða stefnu í ESB málum, já og reyndar fleiri og fleiri fjölmiðlar sem hallast undir ESB innlimun landsins.
    Tala nú ekki um alla svokölluðu fréttaskýrendurna og óháðu blaðasnápana, sem allir virðast vera komnir á stóra ESB spenann !

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Fyrirgefðu Hallur og aðrir lesendur.
    Það hljóp einhver púki í tölvutakkana hjá mér, sérstaklega einá línuna eftir fyrstu greinarskil. Þar átti að standa:

    „Það væri mjög fróðlegt að almenningur fengi að vita það því að það………“

    Bið ég lesendur velvirðingar á þessu.

  • Magnús Mosdal

    Hallur.
    Mig langar enn að spyrja:

    1. Hverjir ákveða hvað geta talist „hlutlægar“ staðreyndir til að byggja „upplýsta“ ákvörðun á?
    2. Þegar þú talar um hlutlægar staðreyndir er það þá í merkingunni „hlutlausar“ staðreyndir?

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.

    Það var enginn fjölmiðlamaður á fundinum.

    Finnst þér rúmlega 30 manns á undirbúningsfund lítið?

    Kannske.

    En ég veit að minn fyrri flokkur hefði verið himinlifandi yfir þeirr mætingu. Hef einnig setið nokkra fundi VG sem sérfræðingur í húsnæðismálum. Þeir hefði einni verið himinlifandi!

    Ég hef einnig haft njósnir af fundum Sjálfstæðisflokksins td. um borgarmál. Ef við sleppum borgarfullrúunum þá væri þeir einnig himinlifandi með þessa mætingu!

    En hvað varðar fjármögnun – þá voru fundarmenn með fókusinn á málefnið – ekki fjármögnunina. Þannig að það var bara ekki rætt. En eftir fundinn fékk ég reyndar eftirfarandi póst:

    „Góður fundur. Eftirá að hyggja. Fannst vanta á að fjármögnun samtakanna verði með þeim hætti að þau séu sjálfstæð og engum háð.
    Kv. Jón“

    Ég er sammála Jóni og vænti þess að undirbúningshópurinn sé það líka. Án þess að vita það.

    Það þýðir ekkert að spyrja mig um hvað þessi vettvangur mun gera í framtíðinni. Ég er bara einn einstaklingur af mörgum sem er að skapa þennan vettvang. Þróun hans fer áfram fram á lýðræðislegan hátt og ég get ekki ákveðið fyrirfram hver niðurstaðan verður.

    Ekki frekar en að ég gat ákveðið niðurstöðu fundarins í gær. Enda vil ég það ekki.

    Ég lagði upp með ákveðið upplegg – og hópurinn gerði á lýðræðislegan hátt miklar breytingar á því uppleggi – hafnaði hluta þess reyndar. Þannig mótast samtök og vettvangur í dag. Tími skipana að ofan er liðinn. Þetta er lýðræ’ðisferli manstu.

    Magnús Mosdal.

    1. Það er engin einn sem getur ákveðið hvað séu „hlutlægar“ staðreyndir – ekki frekar en engin einn getur ákveðið hvenær blár litur hættir að vera blár – eða rauður litur hættir að vera rauður.

    Hins vegar geta allir verið sammála um að grænn er ekki blár og blár er ekki rauður.

    2. Ef þú skilur ekki hugtakið „hlutlægur“ þá skil ég ekki alveg á hvaða forsendum fyrri spurningar þínar voru settar fram.

  • Áslaug Bragadóttir

    Til hamingju með þitt frábæra framtak, Hallur.

    Mér var sagt nýlega að Mímir- símenntun, standi nú fyrir fundaröð um ESB, þar sem samningamenn Íslands fræða fundarmenn um kosti og galla aðildar. Mér skilst að þarna sé um faglega, hlutlæga og öfgalausa fræðslu að ræða.

    Mér varð að orði að þetta væri eitthvað sem allir landsmenn ætttu að eiga kost á að heyra. Vonandi standa hin nýju samtök fyrir einhverju álíka í fyllingu tímans.

  • Hallur Magnússon

    Já, Mímir stóð fyrir mjög flottri fundarröð í þessum anda.
    Hins vegar þarf annars konar vettvang til að veita samningarnefndum jákvætt aðhald.

  • Magnús Mosdal

    Við virðumst sem sagt sammála um að það er engin einn sem getur ákveðið hvað svokallaðar „hlutlægar“ staðreyndir séu, þó að frátöldum fabúleringum þínum um liti. Augljóst dæmi þar um er m.a. að oft eru mjög skiptar skoðanir um td. hvort flík sé grænblá eða blágræn.
    Þú segir orðrétt: „Það er engin einn sem getur ákveðið hvað séu „hlutlægar“ staðreyndir.“ Þar með sýnist mér þú á þeirri skoðun að það sé með öðrum orðum huglægt hvað séu „staðreyndir“ og hvað ekki.

    Hitt er slæmt ef þú treystir þér ekki til að skilgreina hugtakið „hlutlægur“ sem virðist grundvöllur hins nýja vettvangs í umræðunni um ESB. Í þeim efnum finnst mér heldur klént að vísa einungis til skilningsleysis hjá mér. Ég vænti því betra svars.

  • Þórhallur

    Kæri hr. Mosdal.

    Hér slærð þú um þig með orðum eins og „einn“, „staðreyndir“ og „slæmt“. Ég veit bara ekki hvað þú ert að tala um því það vantar algerlega að þú skilgreinir hvað þú meinar með þessum orðum. Ég get reynt að geta mér til í eyðurnar um hvað þú ert að segja en það verður líklega aldrei annað en hlutlægt mat af minni hálfu.

    Kv.

  • Magnús Mosdal

    Kæri herra Þórhallur.

    Ert þú upplýsinga- og fræðslufulltrúi Halls? Skiptir svo sem engu og breytir því ekki að komment þitt er að mínum dómi rýrt í roðinu – nema kannski að einu leyti. Þú segist geta reynt að geta í eyðurnar hjá mér en það „yrði líklega aldrei annað en hlutlægt mat af minni hálfu.“ Hvað segir Hallur um það? Telur hann að hægt sé að „geta í eyðurnar“ á hlutlægan hátt?

    Kveðja.

  • Magnús Mosdal

    Sæll aftur Þórhallur

    Gleymdi að skilgreina orðin „einn“, „staðreyndir“ og „slæmt“ enda bagalegt að þú vitir ekki hvað ég er að „tala um því það vantar algerlega að“ ég skilgreini hvað ég meina „með þessum orðum.“

    1. Einn. Tökum sem að ég hafi séð mann á gangi. Hann var einn á ferð, það var enginn annar með honum. Þarna var sem sagt einn maður á ferð en ekki tveir eða fleiri menn.

    2. Staðreyndir. Það er t.d. staðreynd að ég fæddist árið 1958 e.kr. Það eru til óyggjandi heimildir fyrir því. Það er hins vegar ekki staðreynd að Framsóknarflokkurinn hafi verið stofnaður árið 1923 e.kr.. Það getur þú staðreynt sjálfur. Það er ekki staðreynd ef ég fullyrði að ESB sé slæmt og ekki heldur ef ég fullyrði að það sé góður valkostur fyrir Íslendinga. Þannig má lengi áfram telja.

    3. Slæmt. Tökum sem dæmi orð mín til Halls: „Hitt er slæmt ef þú treystir þér ekki til að skilgreina hugtakið „hlutlægur“ sem virðist grundvöllur hins nýja vettvangs í umræðunni um ESB.“
    Þar á ég einfaldlega við að það sé alls ekki gott að forðast að skilgreina það hugtak sem nýr vettvangur um Evrópumálin segist byggja á. Það er eiginlega alvont að mínu mati.

    Að öðru leyti óska ég samtökunum velfarnaðar í starfi sínu.

  • Nafnlausi Kjósandinn

    Það var sem sagt ekki eldvatn og glerperlur í boði á fundinum?

    Hlakka til að fá hlutlausar upplýsingar um algengar fullyrðingar JÁ og Nei manna sem tröllríða öllum fjölmiðlum og blogi þessa lands.

    Mín skoðun er sú að umræðan eigi að vera um afdrif okkar í og án ESB til langframa(+50ár) enda skipta stundarhagsmunir engu, væri gaman að fær hlutlaus, JÁ og NEI pennar drægju upp mynd af Íslandi eftir 50ár í og án ESB og eins yrði dregin upp nokkrar myndir af ESB eftir 50ár.

    Afstaðan okkar til ESB ætti að ráðast af hagsmunum ókominna kynslóða en ekki hvort kjúklingur, skinka, eða svínalundir kosti tíu eða hundraðkallinum meira eða minna við inngöngu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur