Föstudagur 04.03.2011 - 18:38 - 15 ummæli

Bezta langatöng á lofti!

Bezti flokkurinn og bakhjarl hans í borgarstjórn hafa gefið starfsfólki grunnskóla og leikskóla Reykjavíkurborgar löngutöngina.

Ég var svo barnalegur að halda að sameiningar og aðrar breytingar á skipulagi grunnskóla og leikskóla hefðu að einhverju leiti verið unnar með starfsfólki skólanna. Svona í anda samvinnustjórnmála sem iðkuð voru í tíð Hönnu Birnu sem borgarstjóra og skiluðu milljarða sparnaði í sátt við starfsfólk.

En því er ekki fyrir að fara núna. Það er langatöngin sem gildir. Starfsfólk hunsað. Boðvald og tilskipanir að ofan. Án ígrundunar. Svona eins og í Sovétinu um árið. Stalín hefði orðið stoltur af Bezta og bakhjarli hans.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Eru þessi orð skrifuð , sem bitur framsóknarmaður, eða ertu með eitthvað biturt til að röskstyðja skrif þín ?

    Það er með þessi mál eins og mörg önnur, það má alltaf gera betur , en þá hvað og hvernig !

    Segðu okkur eitthvað að viti !!!

  • Mér finnst að þarna sé eins og oft áður þegar eitthvað er sameinað, það koma fram aðilar sem eru að missa eitthvað sem þau hin sömu telja sig hafa. Völd – stöðu – stað í launatöflu eða bara eitthvað allt annað og andmæla með „faglegum“ rökum.

    Sameining grunnskóla hér í V Hún var gerð sumarið 1998 „án samráðs“ Allt fór á annan endann – en niðurstaðan var samt þegar rykið var sest að þessi sameining var til mikilla bóta á allan hátt, sérstaklega fyrir nemendur.

  • Leifur Björnsson

    Óþarfi að vera svona bitur þó Framsóknarflokkurinn hafi þurrkast út úr Borgarstjórn Reykjavíkur í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

  • Hallur Magnússon

    JR og Leifur.

    Málið snýst ekki um biturleika vegna flokks sem ég var í.

    Hómfríður.

    Ekki heldur um svekkelsi með breytingar og sameiningu per se.

    Minni ykkur á að ég tók þátt í algerri endurskipulagningu á skólamálum á Horanfirði á sínum tíma – sem mætti ákveðinni andstöðu hluta kjósenda.

    Nei.

    Biturleikinn er sá að horfa upp á 19. aldar vinnubrögð í pólitík – þegar ég bjóst við nýjum vinnubrögðum.

    Vinnubrögðum sem byggðust á samvinnu og samráði áður en ákvarðanir væru teknar. Vinnubrögðum sem byggðu á að nýta sér hugmyndir og framlag starfsmanna og þeirra sem til þekkja.

    Verkefni að hagræða og endurskipuleggja er erfitt. Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir. En ég virkilega hélt að Bezti og bakhjarl hans í borgarstjórn myndi vinna þetta upp frá grasrótinni – sækja þangað hugmyndir og úrfærslur – og taka síðan ákvarðanir – sumar erfiðar.

    En þess í stað hefur þekking og reynsla starfsmanna skóla og leikskóla algerlega verið hunsuð – og ákvarðanir teknar að ofan – oft á tíðum án innsæis.

    Aðferðafræðin sú sama og í gamla sovétinu.

    Ég átti von af öðru frá skólafélaga mínum Einari Erni Benediktssyni. Ég átti von á öðru frá Oddnýju Sturludóttur og Björku Vilhelmsdóttur. Þær unnu á grunni samvinnustjórnmála í borgarstjóratíð Hönnu Birnu.

    Verð reyndar að viðurkenna að Dagur var aldrei alveg dús við samvinnustjórnmálin – en samt – ég trúði því að ný borgarstjórn myndi vinna öðruvísi. Ég held reyndar að kjósendur Bezta hafi einnig haldið það.

  • Gissur Jónsson

    Að ógleymdum Óskari Bergsyni og Framsóknarflokknum sem bjargaði því sem bjargað varð í borgarstjórn á seinasta kjörtímabili. Frá honum komu samvinnustjórnmálin.

  • ,,Málið snýst ekki um biturleika vegna flokks sem ég var í.“

    Hallur .

    Framsóknarmaður verður ALLTAF framsóknarmaður !!!

    Þú ert framsóknarmaður , þú ert að vinna með framsóknarmönnum fyrir framsóknarmenn í dag , enda fékkstu vinnuna sem framsóknamaður !!!

  • Hallur Magnússon

    JR.

    Ég nenni ekki enn einu sinni að fara með þér yfir starfsferil minn. Hef gert það svo oft.

    Farinn að halda að þú sért haldinn áráttu.

    Hvaða vinnu ertu annars að tala um?

    Ég hef starfað sjálfstætt í rúm 3 ár. 🙂

  • Hallur Magnússon

    … og JR.

    Það er auðvelt að vera með stórkallalegar athugasemdir undir dulnefni – en það er frekar lítilmóðlegt og ber vott um hugleysi.

  • Ég er langt því frá stuðningsmaður Besta flokksins. En menn verða að njóta sannmælis. Það er öllum augljóst að það verður að draga saman seglin í Rvk. Þetta er bara 1% sparnaður sem skilar sér eftir þrjú ár í uppsöfnuðum sparnaði um 800 millj kr. Það sjá allir að það er lítið skref og það er tekið bara í efsta lagi. Menn hafa hingað til verið sakaðir fyrir að reka alltaf skúringarkonuna. Vertu nú málefnalegur Hallur og komdu með þínar tillögur um niðurskurð, hverjar eru þær?

  • Hallur Magnússon

    Þórður Áskell.

    Það er einmitt málið. Menn verða að njóta sannmælis.

    Auðvitað þarf að draga saman seglin. Ég er ekki að gagnrýna það. Hvorki nú né í undanförnum pistlum um Bezta og bakhjarlinn.

    Ég er að gagnrýna aðferðafræðina – og þá augljósu staðreynd að svo viðamiklar breytingar verður að vinna með fólki – ekki á móti því. Annars ganga þær ekki upp.

    Núverandi breytingar eru unnar á skrifborði Bezta og bakhjarls hans – án nokkurs samráðs – og án þessa að nýta krafta sérfræðinga.

    Látum menn einmitt njóta sannmælis!

    Á síðari hluta síðasta kjörtímabils – á tímum samvinnustjórnmálanna – þá var hagræðingarvinnan hjá borginni unnin í samvinnu og með starfsfólki borgarinnar. Það skilaði okkur vel á þriðja milljarð í sparnaði. Raunverulegum sparnaði – sem fólst í því að þekking og reynsla starfsfólks Reykjavíkur var nýtt!

    Hefur einhver haldið því á lofti?

    Nei, þvert á móti hefur þeirri staðreynd verið haldið frá fólki!

    Aðferðafræðin sem nú er verið að nota er 19. aldar aðferðir pólitískrar yfirstéttar – aðferðir sem beitt var í ríkjum í Evrópu á 20. öldinni sem ekki voru lýðræðsríki. Í Sovétinu, á Ítalíu, í Þýskalandi, á Spáni. Algjör andstæða þess sem við þurfum.

    Ég skal vera málefnalegur og koma með tillögur um niðurskurð. En eðli málsins vegna get ég ekki unnið slíkar tillögur einn og sér á skrifborðinu í Rauðagerðinu – þótt það sé aðferð Bezta og bakhjarls hans. Slík vinna byggir á samvinnu við starfsfólk Reykjavíkurborgar – eins og gert var 2008 – 2010.

    Ef ég fæ tækifæri til að vinna með starfsfólki Reykjavíkurborgar að sparnaði og endurskipulagningu grunnskóla og leikskóla – þá skal ég lofa þér góðum tillögum. Betri en þeim sem nú er verið að þröngva upp á Reykvíkinga. Í anda misheppnaðra stjórnmálastefna á fyrri hluta 20. aldarinnar.

  • Hallur Magnússon

    Þórður Áskell!

    … í ljósi sumra annarra athugasemda annarra. Takk fyrir málefnalega spurningu – undir nafni!

  • Þakka ágæts svör þótt ekki kæmu digurbarkalegar yfirlýsingar um mögulegan sparnað…

    Ég er sjálfur að vinna í sveitarstjórnarmálum þótt í litlu byggðarlagi sé. Þegar kemur að sparnaði virðast ALLAR hugmyndir vondar. Ég hef aldrei rekið mig á neina niðurskurðar hugmynd sem ekki er massív andstaða við. Það er því stundum þannig að menn verða að höggva á hnútinn og hreinlega láta vaða. Ég veit að þetta hljómar ekki faglegt og ég viðurkenni að ég hef ekki sett mig inn í nákvæmlega hvað Reykjavíkurborg er að gera. Hins vegar getur þú varla mælt móti því að rekstur sveitarfélaganna þandist út á góðæristímunum og nú er tími til að draga úr. Ég skora því á alla sem standa á hliðarlínunni að benda okkur sem stöndum í sveitarstjórnarmálum á hvar á að skera niður. Þetta er nefnilega ekki skemmtilegt hlutskipti og trúðu mér það er ekki gaman að vinna í sveitarstjórnum þessa lands þessa daganna. Ég gæti trúað því að til dæmis Jón Gnarr gæti hugsað sér að gera margt skemmtiegra. Samt fannst mér þau taka ágætlega á Orkuveitunni til dæmis, en því miður – betur þarf ef duga skal.

    Hér munu engin vettlingatök duga og margir munu verða sárir. Það er bara veruleikinn sem við búum við.

  • Hallur Magnússon

    Veit hvernig það er að reka sveitarfélag á landsbyggðinni.

    Hins vegar er það mikill misskilningur að þau hafi tekið ágætlega á Orkuveitunni. Þvert á móti gengu þau endanlega frá lánstrausti erlendra aðilja til OR – sem var alls ekki eins illa stödd og þau – og fjölmiðlar – héldu fram.

    Vissulega þurfti og mátti skera þar af fitulagi.

    Bezti og bakhjarlinn ruddist inn og setti allt á hvolf – afar ófagmannlega – og fjölmiðlar spiluðu með. Gagnrýnilaust.

    Vandi Orkuveiturnnar var fyrst og fremst efnahagshrun Íslands. Ef eðlileg endurjármögnun hefði staðið til boða – þá væri hún á grænni grein. Og það sem meira er – það var verið að vinna með lánadrottnum að endurfjármögnun og aðhaldsaðgerðum – í samvinnu við lánadrottna.

    Hins vegar var endir bundinn á þá vinnu með bægslagangi Bezta og bakhjarlsins!

    Auðvitað átti fyrr löngu að vera búið að úthýsa kynningarstarfsemi Orkuveitunnar. Það er það eina sem gert hefur verið hjá OR!!!!!!!!!!!

    Það eru sömu stjórnendurnir – með aðra titlar – en nokkrum í neðstu lögunum verið sagt upp. Fólk með allt að 12 mánaða uppsagnarfrest – þannig sparnaðurinn er enginn – því þegar sá frestur er liðinn þarf að ráð aftur inn fólk.

    Þetta var best heppnaða sjó ársins – fjölmiðlar syngja með án þess að kynna sér málin – og flestir halda að unnið hafi verið gott starf. Þegar sannleikurinn er sá að það er verið að rústa öflugu fyrirtæki – að óþörfu.

    Undirstrika að það átti að sjálfsögðu að hagræða og endurskipuleggja – en hagræðingin hefur verið miklu minni en menn hafa haldið fram – og endurskipulagninginn er klúður. Því miður.

  • Hallur Magnússon

    … ekki gleyma því að OR gæti greitt upp ALLAR skuldir sínar á 13 árum.

  • Kristján B. Heiðarsson

    Ég vil fá að leggja orð í belg hér. Kristján heiti ég, og er leikskólakennari á einum þeirra leikskóla sem sameiningin bitnar á. Já, ég segi og skrifa „bitnar á“.

    Frá upphafi ferlisins hefur borgarstjórn boðað það að haft sé samráð við bæði stjórnendur leikskólanna sem og boðað til funda með starfsfólki og foreldrum leikskólabarna.
    Það var gert, og ef ég skildi rétt fólst fundur Óskars Sandholt með mínum leikskólastjóra í því að hlusta eftir því hvað væri hægt að gera, hvernig mætti útfæra það o.s.frv.
    Þetta hljómar allt mjög vel, ekki satt?

    Sjálfur fór ég á fund sem Oddný og félagar boðuðu til í mínu hverfi með starfsfólki leikskóla, foreldrum og foreldraráðum. Þar var skipt í hópa og umræðustjóri á hverju borði. Ég get ekki talað fyrir hin borðin, en þó heyrðist mér að svipað væri uppi á teningnum hjá fleiri borðum. Niðurstaða okkar eftir fundinn (þar sem fólk skiptist vel á skoðunum og var í raun og veru að leita að lausnum) var sú að mögulega væri hægt að fara í einhvers konar samstarf eða samnýtingu grunnskóla, en við vorum sammála um að það væri ekkert vit í að ætla að fara að hrófla við leikskólunum – sem hafa sætt niðurskurði hvað eftir annað síðustu ár.

    Eftir að niðurstöður nefndarinnar um hagræðingu var birt þykir mér augljóst að ekki hafi verið horft til þessara tillagna og tilrauna til lausna sem fram komu á þessum fundum öllum. Ég fæ ekki betur séð en að nánast allt sem við, fagfólkið í stéttinni, höfðum fram að færa hafi verið hunsað.

    Það er ráðist fram af offorsi og nánast valdníðslu gegn leikskólunum. Það er talað um sparnað, en ljóst að hann er ekki mikill, og margir hafa gagnrýnt hversu mikið rót verður innan leikskólanna þegar stjórnendurnir hverfa á brott, og að í reynd sé þessi litli sparnaður ekki þess virði í ljósi þess hve margir reyndir stjórnendur hverfa á braut. Því er ég sammála.
    Svo er ég hræddur um að einn af þeim fjöldamörgu þáttum sem hafa gleymst í öllu þessu ferli sé sú einfalda staðreynd að sumir starfsmenn leikskólanna eru ekki tilbúnir til að láta vaða svona yfir sig, og hugsa nú alvarlega um að segja starfi sínu lausu í kjölfar þess er leikskólastjórum og aðstoðarleikskólastjórum verður sagt upp.

    Talað er um að öllum verði boðin vinna aftur. Það hljómar líka voða vel, ekki satt?

    Setjum að lokum upp smá dæmi. Nú ætla ég að leyfa mér að vera svartsýnn og reikna með hinu versta. Það er eitthvað sem þessir háu herrar og frúr hafa ekki gert.

    Leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra er sagt upp. Báðir einstaklingar hafa unnið lengi í sínum leikskóla og hafa skilað sparnaði í sínu starfi svo árum skiptir (eins og borgin vildi) og njóta vinsælda meðal starfsfólks, foreldra og barna. Heldur fólk virkilega að þessir stjórnendur hafi áhuga á að sækja um stjórnendastörf í sameinuðum leikskóla sem er kannski meira en tvöfalt stærri en leikskólinn sem þeir hafa starfað við fram að þessu? Vill þetta fólk verða óbreyttir leikskólakennarar eða deildarstjórar inni á deildum undir öðrum stjórnanda? Er það sanngjarnt gagnvart nýjum stjórnanda? Hvernig myndi þessum nýja leikskólastjóra líða?
    Nei, þetta góða fólk hverfur að öllum líkindum úr stéttinni til langframa.
    Svo er það starfsfólkið. Það upplifir að það sé ekki búið að hlusta neitt á sjónarmið fólksins sem þarf að búa við þessar breytingar, og er sárreitt þeirri staðreynd að það sé verið að reka leikskólastjórann og aðstoðarleikskólastjórann sem eru búnir að vera kjölfestan í starfinu til margra ára. Það er verið að ýta leiðtogum stórs hóps fólks út í kuldann í nafni sparnaðar.
    Einhverjir af þessum starfsmönnum munu án efa segja upp af stuðningi við sína stjórnendur og vegna gífurlegra vonbrigða með þetta vinnulag borgarinnar. Mögulega sækir það um í öðrum leikskólum, en akkúrat núna eru ekki mörg störf laus í leikskólunum. Þetta fólk er því líklega að hverfa úr stéttinni líka, annað hvort til skamms tíma eða til langframa.

    Ég spyr bara: Hver er sparnaðurinn af því að ýta mannauð leikskólanna út í kuldann?

    Að lokum vil ég segja að mér finnst þetta mál ekki koma pólitík við í þetta skiptið. Mér er nákvæmlega sama úr hvaða flokki fólkið er sem kemur með svona fávísar og flausturslegar tillögur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur