Sunnudagur 06.03.2011 - 20:22 - 1 ummæli

Sjálfhverfir júristar og sægreifar!

„Sjálfhverfir júristar og sægreifar hafa verið áberandi í líflegri umræðu um sameign þjóðarinnar á auðlindum Íslands.  Sægreifarnir sjálfhverfu hafa látið sem fiskurinn í sjónum sé eina náttúruauðlind Íslendinga og að þeir hafi nánast yfir að ráða þinglýstu afsali af hverri einustu styrtlu innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Sjálfhverfu júristarnir hafa látið sem þeir ættu sjórnarskránna.

Hvoru tveggja er fjarri sanni.“

Svo hljóðaði upphaf fyrsta bloggpistils mína á Moggablogginu í marsmánuði 2007 – en í tilefni þess að hafa byrjað að blogga fyrir réttum 4 árum síðan – ákvað ég að renna yfir fyrstu pistlana og sjá hvort eitthvað hefði breyst.

Í pistlinum í marsmánuði 2007 hélt ég þannig áfram:

„Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.

Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.

Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar en ekki séreign útvegsmanna sem hafa yfir tímabundnum fiskveiðikvóta að ráða eins og sjálfhverfir sægreifar vilja vera láta. Kvótaeigendur eiga skilgreindan, tímabundinn afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er allt og sumt.

En ákvæðið um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar á ekki einungis um fiskinn í sjónum. Það á við allar auðlindir landsins sem ekki eru þegar skilgreindar sem einkaeign. Því er ekki nóg að hafa ákvæði um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar í lögum um stjórn fiskveiða því sem betur fer er fiskurinn einungis brot af auðlindum Íslands.

Þótt skiptar skoðanir kunni að vera á lofti um hvernig ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins sé best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands, þá hefur fyrirliggjandi frumvarp forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að stjórnarskránna ákvæði um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar ótvírætt mikilvægt gildi. Það að stjórnarskrárbinda hugtakið sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins hefur svo sterkt pólitíst vægi sem stefnuyfirlýsing íslenskrar þjóðar, að vangaveltur um lagatæknileg atriði því tengdu eru hjóm eitt.

Svo er nú það!“

Það er ljóst að umræðan í dag er ekki ólík umræðunni fyrir fjórum árum – en það hefur hins vegar mikið vatn runnið til sjávar varðandi umræðu um stjórnarskrána og þörfina á breytingum á henni. Frá þessum tíma hafa farið fram kosningar til stjórnlagaþins, þær kosningar úrskurðarðar ógildar – og stjórnlagaráð í farvatninu í staðinn!

Reyndar tók ég virkan þátt í að koma hugmyndinni um stjórnlagaþing á dagskrá um áramótin 2008/2009 – en ég hafði tekið þátt í umræðu um nauðsyn stjórnlagaþings í grasrót Framsóknarflokksins í nóvember og desember 2008.

Í bloggpistli mínum þann 12. janúar 2009 sem bar heitið „Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar“ skrifaði ég eftirfarandi:

„Íslenska þjóðin á að kjósa sér stjórnlagaþing sem endurskoði stjórnarskránna og geri tillögu um stjórnskipan framtíðarinnar. Tillögu sem síðan verði lögð fyrir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Á stjórnlagaþinginu sitji ekki alþingismenn né ráðherrar – heldur fulltrúar sem kjörnir eru beint af íslensku þjóðinni.

Hugmyndin um þjóðkjörið stjórnlagaþing hefur lengi verið til umræðu í „gufuklúbbnum“ mínum og löngu ljóst meðal þeirra sem þar sitja að brýn þörf sé á slíkri stjórnlagaþingsvinnu á þingi sem sæki umboð sitt beint til þjóðarinnar.

Þá er jafn ljóst að stjórnarskránna þarf að endurskoða.

Sú endurskoðun þarf að klárast og tillaga lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagan sýnir að endurskoðun stjórnarskrárinnar á vegum Alþingis gengur ekki upp. Þar næst sjaldan heildstæð niðurstaða um tillögu vegna flokkspólitískra hagsmuna.  Því er ástæða til þess að kjósa sérstakt stjórnlagaþing til að sjá um verkið, enda miklu eðlilegra að þjóðin velji sér beint fulltrúa til að sjá um endurskoðun stjórnarskrár og leggja línurnar fyrir stjórnskipan framtíðar.

Það hefur verið þörf á slíkri endurskoðun um nokkurt skeið.  

En núverandi ástand, þar sem orðið hefur kerfishrun, ráðherraræði ríkisstjórnar náð nýjum víddum og niðurlæging Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu aldrei verið meiri, þá er stjórnlagaþing kosið beint af þjóðinni orðið algjör nauðsyn.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur