Mánudagur 07.03.2011 - 12:48 - 5 ummæli

Trúverðug bændaforysta?

Það er eðlilegt og nauðsynlegt að bændur og samtök þeirra hafi efasemdir um mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að bændur og samtök þeirra leggi áherslu á að staða og framtíð íslensks landbúnaðar sé tryggð – hvort sem Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að bændur byggi afstöðu sína til mögulegrar inngöngu á hlutlægu mati og sem réttustu upplýsingum.

Því miður vantar dálítið á að bændaforystan  nálgist verkefnið á eðlilegan og nauðsynlegan hátt. Tökum nokkur dæmi um sérkennileg vinnubrögð formanns bændasamtakanna:

Formaðurinn aftekur að tryggja hagsmuni íslenskra bænda við mögulega aðild að Evrópusambandinu með því að skilgreina eðlileg samningsmarkmið íslenskra bænda og  leggja samninganefnd um aðildarviðræður að Evrópusambandinu þannig lið. Með öðrum orðum. Formaðurinn vill ekki tryggja hag bænda í aðildarviðræðunum.

Formaðurinn lætur hringja í nokkra skráða meðlimi bændasamtakanna og lætur sem fræðileg viðhorfskönnun hafi verið gerð. Á grunni símtala bændaforystunnar við nokkra kunningja sína í bændastétt staðhæfir formaðurinn að 92% bænda sé á móti aðild að Evrópusambandinu. Sú afstaða byggir reyndar ekki á hlutlægum upplýsingum né vitneskju um hvort aðildarsamningur sé íslenskum bændum hagstæður eða ekki.

Formaðurinn situr fundi með leiðtogum finnsku bændasamtakanna og embættismönnum finnska landbúnaðarráðuneytisins.  Sú mynd og niðurstaða sem formaðurinn kynnir í fjölmiðlum á Íslandi af fundunum er allt önnur en sú mynd og niðurstaða sem félagar finnsku bændasamtakanna og embættismenn finnska landbúnaðarráðuneytisins höfðu af fundunum.  Á meðan Finnarnir ræddu kosti og galla aðildar Finna að Evrópusambandinu og koma með ábendingar um æskilegar áherslur Íslendinga – þá ræðir formaður íslensku bændasamtakanna einungis um neikvæða þætti aðildar Finna.

Formaðurinn rekur ritstjóra ríkisstyrkta fjölmiðilsins Bændablaðsins vegna þess að á grunni þekkingar sem ritstjórinn hefur aflað sér sem ritstjóri Bændablaðsins hafði ritstjórinn komist að þeirri niðurstöðu að það ætti að klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu og að það kynni að vera að staða bænda versnaði ekki við aðild.

Væri ekki eðlilegra að bændaforystan legði áherslu á að samninganefnd næði sem allra bestum samningi fyrir íslenska bændur og byggðirnar í landinu í aðildarviðræðum við Evrópusambandið – í stað þess að taka þá áhættu að hagur bænda verði fyrir borð borinn í aðildarsamningi sem samt kynni að vera samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Já, væri ekki eðlilegra að bændaforystan ynni að hagsmunum bænda – en ekki gegn þeim?

PS:

‘Eg hef fengið upplýsingar um að bændaforystan hafi staðið faglega að viðhorfskönnun meðal bænda. Fengið Félagsvísindastofnun í verkið, unnið 600 manna úrtak og að svörun hafi verið ásættanleg.  Mér er nokkuð létt – því miðað við sumt annað í vinnubrögðum bændaforystunnar – þá óttaðist ég að viðhorfskönnunin hefði ekki verið unnin faglega.

Því miður vantar faglega vinnubrögð á örðum sviðum – eins og sjá má á athugasemd fyrrum ritstjóra Bændablaðsins:

„Af því þú nefndir Finnland þá gerðist það árið 2009 að formaður og framkvæmdastjóri ákváðu að rétt væri að senda blaðamann til Finnlands. Haft var samband við finnsku bændasamtökin (þetta var áður en fundurinn sem þú vitnar í var haldinn) og þau beðin að útvega blamaðanni viðmælendur úr bændastétt. Það skilyrði var hins vegar sett að viðkomandi bændur yrðu að vera andvígir aðild Finnlands að ESB. Það tæki því ekki að tala við aðra, enda væru nógir til þess hér á landi að tala vel um Evrópusambandið.“

Ég geri ekki athugasemd við andstöðu bænda – en því miður er deginum ljósara að sú andstaða er ekki byggð á þekkingu – heldur tilfinningum –  auk þess sem bændaforystan vinnur gegn aðildarviðræðum á fölskum forsendum sbr. tilvitnun í athugasemd ritstjora Bændablaðsins hér á ofan.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hallur,
    Félagsvísindastofnun HÍ gerði könnunina og það voru starfsmenn hennar sem hringdu í tilviljunar úrtak úr félagaskrá bændasamtakanna. Spurningin var ekki leiðandi en þú getur bara haft samband við bændasamtökin og fengið hana uppgefna. Svona „let them deny it“ málflutningur er ekki þér samborinn allavegna ef þú vilt standa undir „Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga “ tilvitnunni.

    Sunna spyrill

  • Þröstur Haraldsson

    Sæll Hallur og takk fyrir pistilinn. Bara ein athugasemd. Ég var ekki rekinn heldur sagði upp sjálfur. Merkilegt nokk þá ræddi ég aldrei um mína afstöðu til ESB við forystumenn BÍ, enda leit ég svo á að ráðningarsamningur minn næði ekki yfir hana. Ég fann hins vegar að þeir voru hættir að treysta mér af því þá grunaði að ég hefði aðrar skoðanir en þeir. Viðbrögð þeirra voru þau að hætta að tala beint við mig heldur taka við ritstjórninni sjálfir. Við eðlilegar aðstæður er ritstjóra sagt upp ef honum er ekki lengur treyst til að gefa út blað eins og útgefendur vilja. Það var ekki gert svo ég neyddist til að gera það sjálfur.
    Af því þú nefndir Finnland þá gerðist það árið 2009 að formaður og framkvæmdastjóri ákváðu að rétt væri að senda blaðamann til Finnlands. Haft var samband við finnsku bændasamtökin (þetta var áður en fundurinn sem þú vitnar í var haldinn) og þau beðin að útvega blamaðanni viðmælendur úr bændastétt. Það skilyrði var hins vegar sett að viðkomandi bændur yrðu að vera andvígir aðild Finnlands að ESB. Það tæki því ekki að tala við aðra, enda væru nógir til þess hér á landi að tala vel um Evrópusambandið.

  • Hallur Magnússon

    Sunna.

    Eftir að hafa fylgst með málflutningi og ótrúlegum vinnubrögðum bændaforystunnar – ekki hvað síst formannsins – þá hef ég lítið samviskubit yfir því að gera dálítið grín að formanninum varðandi skoðanakönnunina.

    Það sem eftir stendur er náttúrlega að afstaðan byggis EKKI á upplýstri umræðu – því miður.

    Það er reyndar einkennandi að það var ekki kynnt hvernig staðið var að könnuninni, hvaða aðferð var beitt við úrtak, hversu þýðið var stórt, hver spurningin var og hver spurði.

    En fyrst þú kemur með þessa ábendingu – ná ég þá spyrja hversu margir voru í tilviljunarúrtakinu – og hversu hátt hlutfall úrtaksins svaraði?

    Þú veist jafn vel og ég að þau atriðið skipta öllu máli um áreiðanleika könnunarinnar.

    „Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga “. Það ætti bændaforystan að hafa í huga.

    Það er nefnilega

  • Það kom nú fram í frétt DV að úrtakið var 600 manns eða 10% félagsmanna þannig að þó að eyjan hafi ekki haft áhuga á að birta þetta þá hefur þetta nú sennilega komið fram. Ég man ekki hvað hátt hlutfall svaraði en held að það hafi verið milli 60-70%. Könninin var reyndar aðalega um allt annað málefni þannig að við gátum aðeins fengið svör frá starfandi bændum. Því var svarhlutfall lægra en ella þar sem nokkur hluti félagsmanna eru hestamenn með t.d. 2 hross eða bændur hættir búskap. Bændur voru almennt mjög fúsir að svara og viðræðu góðir enda skenntilegt fólk.
    Ég er persónulega ekki hrifin af málflutning bændasamtakanna en finnst út í hött að dreifa einhverri heimatibúnni sögu um andstæðinga sína. Þó maður sé óánægður með andstæðinginn þá er ekki svarið að fara niður á lægra plan en hann.

  • Þorlákur Axel

    Dæmi um hagsmuni sem eru fyrir borð bornir vegna sofangaháttar gagnvart samningum er tollurinn sem þarf að borga af reiðhestum inn á evrópska efnahagssvæðið. Þá brást bændaforustan bændum og landsbyggðinni – það ætlar hún að gera aftur og á miklu stærri skala.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur