Miðvikudagur 09.03.2011 - 00:30 - 3 ummæli

EVA í burðarliðnum

Evrópuvettvangurinn – EVA – verður heiti nýs þverpólitísks samstarfsvettvangs áhugafólks sem vilja opna og lýðræðislega umræðu í tengslum við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Boðað var til fyrsta undirbúningsfundar þann 22. febrúar og mættu þá á fjórða tug fólks sem lagði línurnar fyrir framhaldið.

Undirbúningshópar voru myndaðir og hafa þeir unnið ötullega að undirbúningi stofnunar samstarfsvettvangsins.

Niðurstaða um heiti vettvangsins fékkst á undirbúningsfundi í gærkvöldi. Hópurinn var sammála um að leggja til heitið Evrópuvettvangurinn – skammstafað EVA.

Á vinnufundinum var gengið frá tillögu um stofnskrá og lögum Evrópuvettvangsins.

Þá vinnu leiddi Grétar Mar Jónsson fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins sem ásamt Kristjáni Degi Gissurarsyni átti mestan þátt í að vinna grunntillögu að markmiðum og lögum EVA.

Vinnuhópur um markmiðasetningu og lög hins nýja vettvangs vann síðan úr fyrirliggjandi tillögu þeirra félaga og sameinaðist um að leggja til við stofnfund samtakanna eftirfarandi stofnskrá og lög:

EVRÓPUVETTVANGURINN – EVA – Tillag að stofnskrá og lögum: 

1. grein 

Nafn samtakanna er Evrópuvettvangurinn – EVA

2. grein

Heimili samtakanna og varnarþing er í Kópavogi.

3. grein

Evrópuvettvangurinn er þverpólitískur samstarfsvettvangur áhugafólks sem vilja opna og lýðræðislega umræðu í tengslum við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Samtökin taka ekki fyrirfram afstöðu með eða á móti aðild að Evrópusambandinu en leggja áherslu á vandaða málsmeðferð og að Ísland nái sem hagstæðustum aðildarsamningi sem þjóðin taki afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu.

4. grein

Hlutverk samtakanna er að:

  • skapa upplýsinga- og umræðuvettvang fyrir fólk sem telur að fram þurfi að fara upplýst og gagnrýnin umræða um samningsmarkmið og samningaviðræður um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu
  • stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu um kosti og galla þess að Ísland gerist aðili með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósiü afla og koma á framfæri upplýsingum um samningaviðræðurnar, áhrifa aðildar að Evrópusambandinu fyrir land og þjóð og stuðla að gagnrýnni þjóðfélagsumræðu á grunni vandaðra upplýsinga
  • þrýsta á skilvirka upplýsingagjöf frá hinu opinberaü stuðla að því að ná fram hagstæðum samningum við Evrópusambandið á grundvelli þess að farið hafi verið yfir á gagnrýnin hátt alla þætti samningsins.

Evrópuvettvangurinn mun leggja mat á hvern kafla samingsins fyrir sig og kynna niðurstöðu sína áður en gengið er til þjóðaratkvæðagreiðslu.

5. grein

Markmiðum sínum hyggjast samtökin ná með því að:  

  • Stofna umræðuhópa sem fjalla um hin ýmsu kafla samningsgerðarinnar og standa fyrir upplýsingagjöf til almennings þar sem lýst er kostum og göllum, agnúum og tækifærum
  • Standa fyrir opnum fundum, málþingum og ráðstefnum. Áhersla verði lögð á samstarf við önnur samtök, stjórnvöld og aðra sem vilja málefnalega umræðu. Tryggt verði að öll sjónamið og rök komi fram. Fá leikmenn og sérfræðinga til að fjalla um alla þætti í samningsferlinu 
  • Tryggja miðlun upplýsinga og um starf félagsins með uppbyggingu tengsla við fjölmiðla.
  • Hvetja til og standa að útgáfu eftir því sem aðstæður leyfa og stuðla að samfélagslegri umræðu um einstaka kafla aðildarviðræðnanna

 

6. grein.

Félagar geta orðið:

  • Allt áhugafólk um framtíð Íslands og málefni tengd Evrópusambandinu.Ø
  • Styrktarfélagar

7. grein

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara og skulu þar kynntar tillögur að lagabreytingum ef einhverjar eru.  Tölvupóstur telst lögleg boðun.

8. grein

Heimilt er að ákveða árgjald á aðalfundi og  það þá innheimt sem fast gjald á hvern félaga.

9. grein

Á aðalfundi er kosið Evrópuráð skipað 21 einstaklingi. Evrópuráð skiptir með sér verkum og ber ábyrgð á starfi Evrópuvettvangsins milli aðalfunda.

Evrópuráð velur sér oddvita, málsvara, skrifara og féhirði.

Hlutverk oddvita er að kalla til funda Evrópuráðs og stýra þeim, málsvara að vera í fyrirsvari fyrir Evrópuvettvanginn út á við, skrifara að færa fundargerð til bókar og halda félagaskrá og féhirði að sýsla með fé samtakanna.

Ráðið skal leita eftir fólki til að starfa fyrir samtökin samkvæmt því sem fram kemur í stofnskrá og lögum þessum.

10. grein

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögufrelsi og atkvæðisrétt eiga allir skráðir félagar samtakanna. Aðrir áhugasamir eiga rétt til setu á aðalfundi með mál- og tillögufrelsi. Unnt er að ganga í samtökin á aðalfundi og öðlast full réttindi.

11. grein

Stofnfélagar eru: Sjá meðfylgjandi stofnfélagaskrá.

12. grein

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1. Fundarsetning.

2. Kosning starfsmanna fundarins, fundarstjóra og fundarritara. 

3. Skýrsla Evrópuráðs fyrir síðusta ár kynnt og rædd.

4. Endurskoðaðir reikningar kynntir og afgreiddir.

5. Drög að starfsáætlun og langtíma stefnumörkun.

6. Lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar.

7. Tillaga að árgjaldi kynnt, rædd og afgreidd.

8. Ályktanir kynntar, ræddar og afgreiddar.

9. Kosningar:

a) Kosning Evrópuráðs

b) Kosning tveggja skoðunarmanna.

10. Önnur mál.

11. Fundarslit.

13. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi með 2/3 meirihluta atkvæða. Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast stjórn fyrir aðalfund. Hægt er að slíta samtökunum á aðalfundi ef 2/3 fundarmanna samþykkja það. Ef samtökin eiga eignir við þær aðstæður skulu þær renna til Rauða kross Íslands.

14. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hamingjuóskir – gangi okkur öllum vel að ræða Evrópumálin á upplýsandi hátt

  • Æ-i Hallur minn ertu nú kominn í félagsskap með Grétari Mar Jónssyni ? Ekki lýst mér á félagskapinn hjá þér og er þá ekki stutt í hina sjáfskipuðu vitringana úr Frjálslyndaflokknum ?

  • Hallur Magnússon

    Heiða!
    Var farinn að sakna þín.

    Já, þetta er breiður og öflugur vettvangur. Þar á meðal hinn ágæti Grétar Mar. Formaður LFK og formaður SUF hafa einnig skráð sig.

    Þú ert velkominn!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur