Föstudagur 11.03.2011 - 07:51 - 8 ummæli

Sjávarútvegi borgið innan ESB?

Evrópusambandið virðist hafa tekið ómakið af íslensku samninganefndinni hvað varðar að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs með nýrri reglugerð sem kveður á um að aðildarríki Evrópusambandsins geti ákvarðað einhliða hámarksafla úr stofnum sem eru alfarið nýttir af viðkomandi ríki.

Allir staðbundnir fiskistofnar við Ísland eru einungis nýttir af Íslendingum og munu ekki verða aðgengilegir öðrum þótt við göngum í Evrópusambandið.

Helsta röksemd andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu innan LÍU er því að falla.

Vissulega er einungis um reglugerð að ræða – og reglugerðir breytast.

Því er nauðsynlegt að samninganefnd Íslands leggi áherslu á að ákvæðið verði tekið inn í aðildarsamning Íslands – ekki sem undanþága – heldur sem varanlegt ákvæði.

Þá getum við farið að snúa okkur að því að tryggja ásættanlega stöðu íslensks landbúnaðar í aðildarviðræðunum.

Þar hef ég bent á leið td. í pistlinum: „Landbúnaður sem umhverfismál í ESB“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Mr. Crane

    Þetta er ekki stóra málið. Stóra málið eru deilistofnanir. Við inngöngu munum við mjög líklega þurfa að gefa frá okkur samningarétt um deilistofna og rétt til að sækja okkur einhliða veiðireynslu eins og við höfum gert í makríl, norks-íslenskri síld, þorsk í barentshafi og fleiri tegundum.

    Við þurfum að tryggja það í samningaviðræðum að við a.m.k. höldum réttindum til að sækja í flökkustofna sem koma eins og engisprettufaraldur inn í landhelgi Íslands, eins og makríllinn hefur gert. Undir hefðbundnu módeli ESB þá hefðum við þurft að brosa, gefa makrílnum að borða og bjóða Skota, Norðmenn og aðra sem veiða úr stofninum velkomna inn í landhelgina.

  • Hallur Magnússon

    Innan ESB ætti hlutdeild okkar í deilistofnun að vera tryggð – hvort sem þeir ganga inn í lögsögu Íslands á hverju ári – eða sleppa því einhver árin.

    Auðvitað er það annað atriði sem þarf að tryggja.

    Staða okkar ætti ekki að versna við það að vera inna ESB hvað flökkustofna varðar – líkur á því að staða okkar yrði stöðugri.

  • Ásmundur

    Aðalatriðið er að Íslendingar sitja einir að veiðum í íslenskri landhelgi enda ræður veiðireynsla þjóða skiptingu aflaheimilda á milli þeirra. Aðeins Íslendingar hafa veitt í íslenskri landhelgi í áratugi.

    Þrátt fyrir að þetta hefur verið skýr regla hjá ESB hafa andstæðingar ESB-aðildar Íslands hamrað á þeim blekkingaráróðri að íslensk fiskimið muni fyllast af erlendum skipum gangi ísland í ESB

    Það er auðvitað fengur í því að Íslendingar ákveði sjálfir kvótann. En ég hef ekki trú á öðru en að hlustað hefði verið á réttmæt rök Íslendinga ef þessi breyting hefði ekki átt sér stað enda er hér eingöngu um að ræða hagsmuni Íslendinga.

  • Merkileg frétt.

    Nú munu íhaldsöflin finna nýjar ástæður og röksemdir.

    Deilistofnarnir og mikilvægi þeirra verða allt í einu blásnir upp.

    Þótt það sé auðvitað þvert á fyrri röksemdarfærslu sem öll hefur snúist um mikilvægi þess að íslendingar ráði yfir eigin stofnum í eigin lögsögu.

    Þeir sem engar breytingar vilja og hræðast samskipti við útlendinga munu alltaf finna nýjar og nýjar ástæður.

    Dapurlegt ástand.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Sæll Hallur.
    Mikið ertu nú einfaldur og auðtrúa og fljótur að grípa þetta.
    Sérðu ekki að þetta eru ekki óhagganleg lög eða sáttmáli.

    Þetta er aðeins einföld og umbreytanleg reglugerð sem sett er nú til þess að friða okkur rétt á meðan þeir eru að reyna að narra okkur þarna inn.
    Þessari reglugerð geta þeir breytt hvenær sem þeim dettur það í hug og við hefðum ekkert neitunarvald og áhrif okkar í Evrópuþinginu nánast enginn eða innan við 0,8%.

    Svo breytir þetta ekki því að stórir og mikilvægir nytjastofnar okkar eru svokallaðir flökkustofnar sem við höfum hingað til nýtt okkur og eftir atvikum samið við aðrar þjóðir á jafnræðis og þjóðréttarlegum grundvelli. Þessu forræði okkar yfir þessum fiskstofnum myndum við glata og yrðum að sætta okkur við það sem þessir háu herrar réttu að okkur hverju sinni. Varla yrði makrílkvótinn okkar hár. Þeir hafa helst viljað að við fengjum ekki að veiða neinn makríl ekki einu sinni innan okkar eigin fiskveiðilögsögu. Þeir hafa haft í hótunum við okkur ef að við semdum ekki við þá á þeirra forsendum.

    Þessir mikilvægu nytjastofnar sem yrðu algerlega háðir vilja ESB valdsins eru auk makrílsins, loðna, síld, karfi, kolmunni, blálanga og fleiri smærri og veigaminni tegundir.

    Nei við látum þetta lið ekki ljúga okkur inn í ESB með svona sýndarmennsku.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Svo vil ég segja við Karl hér fyrir ofan að ég er enginn íhaldsmaður þó svo að ég vilji alls ekki ganga í ESB, ég er heldur ekki útlendinga fælinn og styð samstarf og samvinnu og aukinn viðskipti þjóða á heilbrigðum jafnréttisgrunni.

    Besta leiðin til þess fyrir öfluga smáþjóð eins og okkur er alls ekki ESB aðild.

    En það er rétt hjá þér að það eru til ótal fleiri ástæður til þess að forðast eins og heitan eldinn að ganga þessu ESB apparati á hönd.
    Þeim munum við ESB andstæðingar halda á lofti af öllu okkar afli alveg alveg þangað til að þjóðin mun með afgerandi hætti hafna ESB aðild og kjósa áframahaldandi fullveldi þjóðarinnar án ESB helsis.

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.

    Ég sé þú getur skrifað – en ertu læs?

    Ég er aftur og aftur að lesa frá þér athugasemdir sem eru í engu samhengi við pistlana mína. Engu. Það virðist sem þú lesir ekki það sem ég hef skrifað – nema í besta falli fyrirsagnirnar.

    Svona til að koma þér í smá fókus þá er inntak þess sem ég er að segja þetta:

    „Vissulega er einungis um reglugerð að ræða – og reglugerðir breytast.

    Því er nauðsynlegt að samninganefnd Íslands leggi áherslu á að ákvæðið verði tekið inn í aðildarsamning Íslands – ekki sem undanþága – heldur sem varanlegt ákvæði.“

    Komment þitt við þessu grundvallar atriði er:

    „Sæll Hallur.
    Mikið ertu nú einfaldur og auðtrúa og fljótur að grípa þetta.
    Sérðu ekki að þetta eru ekki óhagganleg lög eða sáttmáli.

    Þetta er aðeins einföld og umbreytanleg reglugerð sem sett er nú til þess að friða okkur rétt á meðan þeir eru að reyna að narra okkur þarna inn.
    Þessari reglugerð geta þeir breytt hvenær sem þeim dettur það í hug og við hefðum ekkert neitunarvald og áhrif okkar í Evrópuþinginu nánast enginn eða innan við 0,8%.“

    Nú skaltu lesa þetta saman – og tjá þig svo.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Sæll aftur Hallur.
    En svona ákvæði er ekki hægt að taka inní aðildarsamning og þó svo að það væri gert eins og dæmin sanna.
    Þá getur ESB dómstóllinn dæmt svona sérákvæði ólögleg og fellt þau burt í einu vetvangi.

    Þess vegna er ekkert í boði nema ESB apparatið í heilu lagi með öllum þeim ótal göllum sem það hefur. Ekki bara í sjávarútvegsmálum heldur meira og minna í öllum málaflokkum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur