Laugardagur 12.03.2011 - 09:19 - 10 ummæli

Flækjan að byrja í pólitík

Þegar ég var að velja mér stjórnmálaflokk að starfa með fyrir nærri þremur áratugum síðan – þá gekk ég kerfisbundið til verks. Kynnti mér stefnur og sótti fundi. Var svag fyrir Kvennaframboðinu – en hóf vegferðina með það að markmiði að koma hugmyndum mínum á framfæri og taka virkan þátt í pólitísku starfi. Þar sem ég var ekki stelpa var ljóst að pólitísk framtíð mín innan Kvennaframboðsins var takmörkunum háð.

Íhaldið kom aldrei til greina á þessum tíma – enda últra frjálshyggan allsráðandi í Heimdalli – og forysta flokksins frekar óaðlaðandi fyrir ungan frjálslyndan félagshyggjumann.

Alþýðubandalagið var líka út úr myndinni – eftir að hafa hlustað á leiðtoga ungliðahreyfingar þess ágæta bandalags í 4 ár í MH – vini mína Árna Þór Sigurðsson, Ástráð Haraldsson, Svandísi Svavarsdóttur, Jón Ólafsson og fleiri ágæta róttæka vinstri menn – halda eldheitar sjarmerandi ræður – sem bara gengu ekki upp í raunveruleikanum.

Þá voru eftir miðjuflokkarnir tveir.

Alþýðuflokkurinn – sem reyndar var fyrsti flokkurinn sem ég starfaði fyrir í  kosningum 10 – 12 ára eða svo – enda kominn af gallhörðum krötum gegnum móðurömmu mína.

… og Framsóknarflokkurinn.

Ein ástæða þess að ég valdi Framsóknarflokkin var sú að á þeim tíma voru Kratarnir hvað heitastir og ómálefnalegasti í heiftarlegri – nánast hatursfullri – aðför að bændastéttinni á Íslandi.  Málflutningur Kratanna á þeim tíma var að orðið  „bóndi“ var nánast verra í munni en „andskotinn“. Nánast allt sem ekki var gott var sett í samhengi við bændur og bændastétt.

Ég – ungur maður að drepast úr baráttuvilja og réttlætiskennt – gat ekki sætt mig við að unnt væri að úthúða einni stétt manna – einungis fyrir að tilheyra atvinnustétt.

Niðurstaðan var því sú að taka þátt í starfi Framsóknarflokksins – sem var reyndar að stærstum hluta með stefnu sem hugnaðist mér – frjálslyndum félagshyggjumanninn.  Þurfti að vísu að kyngja óbragðinu af SÍS – sem byggði á hugmyndafræði sem mér hugnaðist – en hafði að mínu mati yfirgefið heilbrigða hugmyndafræði samvinnuhugsjónarinnar á altari Mammons.

Ég var flokksbundinn Framsóknarmaður í rúman aldarfjóðrung. Sé ekki eftir því.

Nú er ég á sama reit og í upphafi. Minn eigin herra í pólitík með algjört pólitíkst fullveldi. Og líður vel yfir því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Gagarýnir

    Þú ert ekki einn um þessi sjónarmið. Nú er Framsóknarflokkurinn opinn (í báða enda, eins og fyrrum formaður orðaði það).
    Hann er orðinn í seinni tíð hættulega tækifærissinnaður og það er merkilegt að fyrir vikið hefur hann misst sinn markhóp sem er það ekki.

  • Eggert Herbertsson

    Ég held að þú ofmetir hatur krata á bændastéttinni, það hatur hefur aldrei verið til, allavega hef ég aldrei fundið fyrir öðru en virðingu gagnvart bændum í röðum jafnaðarmanna.

    Hins vegar hafa bændasamtökin með hegðun sinni kallað fram andúð margra jafnaðarmanna. Einnig eru jafnaðarmenn ekki hrifnir af því kerfi sem hér er og vilja auka frjálsræði og samkeppni.

  • Kristján E. Guðmundsson

    Ég furða mig nokkuð á þessum málflutningi varðandi bændur og Alþýðuflokkinn. Þetta er skrítin söguskýring. Hver kenndi eiginlega sögu þarna í MH?
    Alþýðuflokkurinn hefur alddrei verið með „ómálefnalegt hatur“ í garð bændastéttarinnar. Alþýðuflokkurinn var hins vegar eini flokkurinn sem barðist gegn fáranlegu sjóðakerfi og offramleiðslu í landbúnaði á Íslandi sem endaði m.a. með því að lambakjöt var úðað eiturefnum og grafið. Í dag viðurkenna flestir viti bornir menn að þeir höfðu rétt fyrir sér.
    Alþýðuflokkurinn sótti mest styrk sinn til vinnandi fólks í þéttbýli og varð kannski af þeim sökum meiri talsmaður neytenda auk þess að vilja meira frjálsræði um verðlagningu
    landbúnaðarafurða.
    Menn skipa sér í flokka af ýmsum ástæðum en við skulum hafa söguna rétta og ekki vera að gera flokkum og mönnum upp skoðanir.

  • Róbert Trausti Árnason

    Fróðleg frásögn.
    En að rýjurnur, sem kölluð voru kratar einu sinni, hafi verið í nánast haturfullri aðför að bændastéttinni held ég að fái ekki staðist.
    Nú eru kratarnir horfnir því foringjar þeirra mátu meira auðfengin úrslit en tvísýnan stórsigur.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Skemmtileg skrif hjá þér Hallur.

    En merkilegt að nú ertu frír og frjáls og „fullvalda“, eins og þú segir sjálfur.

    Svo segist þú á Framsóknartímanum hafa verið með óbragð í munninum útaf SÍS apparatinu.

    Eins og þú segir sjálfur þá var samvinnuhreyfingin að sönnu falleg hugsjón og virkaði vel til að byrja með, en þróaðist því miður ekki ósvipað og ESB búrókratið.
    Þar sem lýðræðið er nánast ekkert eða svona aðeins uppá punt á tyllidögum.

    Þannig að ég vona að þegar þú áttir þig á tilverunni í þínu nýtilkomna „fullveldi“ þá munir þú að sjálfsögðu styðja okkur sem viljjum frjálst og fullvalda Ísland án ESB helsis, hvar í flokki sem þú annars skipar þér að lokum.

    Vona samt að það verði ekki ESB sinnaði viðrinnis flokkurinn hans Guðbjörns, sem hann er búinn að vera að boða komu sína á sviðið í marga mánuði, en ekkert bólar samt á ósköpunum, enda andvana fædd tilraun !

  • Hallur Magnússon

    Eggert, Kristján og Róbert.

    Fyrir þremur áratugum voru árásir Krata á bændastéttina afar hatrammar. Það þarf ekki nema að renna yfir nokkur eintök af Alþýðublaðinu til að sjá það – og málflutningur manna á milli var miklu hatrammari.

    Ekki gleyma því að á þessum tíma sótti ég opna fundi hjá Alþýðuflokknum og ræddið við menn. Þessi lína var klárlega skýr.

  • Fróðleg lesning hjá þér Hallur og ég tek undir með þér með kratana því ég hef aldrei þolað það fyrirbæri fólks sem kallar sig sosialdemokrata. Ekki það að ég sé ekki hlynt því að samfélagið haldi undir og létti undir með þeim sem minna meiga sín. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að slíkt beri að gera í góðum samfélögum. En kratar ja reynsla mín af því fólki er gegn um lífið þannig að þetta er fólk sem sveiflast eins og pendull í klukku það getur ekki tekið endanlega ákvörðun, alltaf að reyna að hlaupa á eftir týskufyrirbærum. Ég hef unnið með fólki með allar stjórnmálaskoðanir og get sagt að það hafa helst verið kratar sem ekki var hægt að treysta. Ekki það að þetta fólk, „kratar“ séu verra fólk eða óheiðarlegra en annað fólk það dettur mér alls ekki í hug en það er bara svo ístöðulítið. Maður á alltaf von á að það standi ekki á morgun sem þetta fólk segir í dag.
    En heyrðu Hallur hann Ástráður okkar Haraldsson sem þú nefnir í pistlinum þínum, svona líka sjarmerandi maður eða það finnst mér a.m.k. en hvernig gerðist það að hann varð „kommi“ í MH ?

  • Óðinn Þórisson

    Þegar ungur maður er að velta fyrir sér hvar hans skoðanir eiga best heima þá fyrir ungan frjálslyndan mann þá er bara einn valkosur.

  • Ef þú hefðir farið eftir móðurbróðir þínum og hlustað þá hefðuð haft vit á því að binda þig ekki við einn flokk en móðurbróðir hann er alltaf frjáls.
    En hann sá alltaf að Alþýðubandalagið var glatað öfgasamtök og hefur fari versnandi eftir nafna skiptin.

  • Björgvin Þór

    „Þegar ég var að velja mér stjórnmálaflokk til að starfa í…“. Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um þetta. Hvað með fyrirbæri eins og hugsjónir?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur