Sunnudagur 13.03.2011 - 15:57 - 14 ummæli

Bændaforystan helsta ógn bænda

Íslenska bændaforystan er helsta ógn íslenskra bænda –  ekki aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Sjálfsbyrgingslegur málflutningur bændaforystunnar gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu dregur athygli íslenskra kjósenda að þeim gífurlegu fjármunum sem íslenskri skattgreiðendur leggja bændum til í formi niðurgreiðslna.

Ofan í kaupið er sjálhverfni bændaforystunnar slík að í svokölluðum „varnarlínum“ gegn Evrópusambandinu gengur bændaforystan út frá því að engar breytingar verði gerðar á niðurgreiðslu til bænda – hvorki í formi né fjárhæðum. Eftir því er tekið meðal almennings.

Nú á tímum mikils niðurskurðar hjá ríki og sveitarfélögum þar sem heilbrigðisþjónustan er skorin niður í hættumörk og dregið úr skólastarfi og  menntun barnanna okkar er hverri krónu velt tvisvar.  Í því umhverfi verða milljarðarnir sem renna til bænda sem niðurgreiðslur og til reksturs bændaforystunnar ekki lengur heilög kýr sem ekki má slátra.

Varnarbarátta bændaforystunnar mun því væntanlega verða við íslensk stjórnvöld sem undir þrýstingi íslenskra kjósenda vilja veita mjólkurpeningunum sem bændur nú fá frekar inn í heilbrigðiskerfið og menntakerfið  

Evrópusambandið er því ekki helsta ógn íslenskra bænda eins og bændaforystan vill vera láta. Evrópusambandið er að líkindum miklu frekar tækifæri gegn þeirri ógn sem íslenskir bændur standa frammi fyrir. Framtíðarhag íslenskra bænda kann einmitt að vera betur borgið innan Evrópusambandið en utan þess.

Bændaforystan ætti því að taka þátt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið með opnum hug og leita þar tækifæra og nýrra leiða – frekar en að dreifa mykjunni yfir þá sem vilja sem bestan aðildarsamning við Evrópusambandið – ekki hvað síst fyrir hönd íslensks landbúnaðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Sigfinnur Þór

    Ekki trúir þú þessu sjálfur, er þetta ekki bara til „Alþingisbrúks“ og í pólitísku þjarki?

  • Hallur Magnússon

    Sigfinnur Þór.

    Þetta er nú staðan – hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er langt síðan ég hef heyrt eins oft og mikið talað um niðurgreiðslur til bænda og undanfarna daga.

    Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að tryggja rekstrargrundvöll íslensks landbúnaðar. Niðurgreiðslur er ein leið – sem er fullkomlega réttlætanleg. Formið og framkvæmdin ætti náttúrlega ekki að vera heilög kýr – eins og bændaforystan vill.

    Leið bændaforystunnar er röng. Bændaforystan hagar sér eins og belja sem setur klaufarnar fastar ofan í mýrina og haggast ekki af fádæma þrjósku – í stað þess að fylgja fordæmi forystukindarinnar sem alltaf finnur nýjar leiðir – og jafnvel betri – ef þær gömlu lokast.

  • Er alveg hjartanlega sammála þér, Hallur.
    .
    Bændur eiga minn stuðning, en ég botna samt ekki í málflutningi forystumanna þeirra. Þar eru fetaðar villigöturnar, alveg burtséð frá ESB eða ekki ESB.

  • stefán benediktsson

    Ef maður ekki vissi betur gæti maður haldið að um samsæri um útrýmingu bænda væri að ræða. Fyrir 500 milljónir á ári frá skattgreiðendum hefur bændaforystunni tekist að fækka bændum úr 7700 fyrir 20 árum í 4800 í dag, eftir önnur 20 ár verða þeir orðnir 1800 og eftir tíu ár í viðbót 300. Hver eru markmið bændaforystunnar með fækkun bænda? Hvernig ætlar bændaforystan að fá bændur til að langa til að halda áfram búskap? Eru þeir með lausnir? Væri gaman að heyra þær.

  • Málfluttningur bændaforystuna er mjög villandi og beinlínis rangur. Sá fílabeinsturn sem forysta bænda telur sig vera í er ekki til staðar lengur. Bændum sjálfum er unninn mikill skaði með svona málfluttningi og tel ég þá eiga nægilega undir högg að sækja gangvart neytendum í landinu

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Flott grein hjá þér og ég ætlaði einmitt að skrifa eitthvað svipað á laugardaginn, en allur tíminn fór í að æfa undir söng brúðkaupi síðar sama dag.

    Skrif okkar eru hættulega lík og einkennast af frjálslyndi og víðsýni, sem eru vörður á leið til lýðfrelsis!

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Góðan daginn Hallur.

    Ég sé ekki betur en að þú sért genginn í gamla Alþýðuflokkinn og fáir Guðbjörn Guðbjörnsson með þér í því að dreifa mykju og skít yfir íslenska bændur.

    Það er þá það sem Guðbjörn er alltaf að tala um með þessari margboðuðu flokksstofnun sinni það er að vekja upp þennan draug sem hataðist útí bændur alla tíð og varð sem betur fer fljótlega aldrei annað en smá peð í íslenskum stjórnmálum. Nú á að upp vekja þessa gömlu Alþýðuflokks-afturgöngu.

    Nú skal sko kúska bændur til og lemja á forystu þeirra bara af því að bændur og forysta þeirra stendur hart gegn ásælni ESB og þeirra sem vilja troða okkur inní það óheilla bandalag.

    Guðbjörn er svo glaður að þú skulir ráðast svona að bændum hér að ofan að hann í glópsku sinni kallar svona lagað „frjálslyndi og víðsýni“ og að skoðanir ykkar séu „hættulega líkar“.
    Já ég tek undir með Guðbirni að ég myndi líka telja svona skoðanir „hættulegar“ bæði landi okkar og þjóð !

    Svo talar þú eins og forysta bænda sé alveg sambandslaus við bændur sjálfa sem er alls ekki rétt. Bændur er sú stétt sem er lang duglegust allra stétta við að sinna sínum félags-og hagsmuna málum og fjölmennir bændafundir eru haldnir reglulega um sveitir landsins.
    Stjórn bændasamtakanna og aðildarfélaga þeirra er lýðræðislega kjörinn með mikilli þátttöku bænda. Allt annað en er í flestum verkalýðsfélögum landsins.

    Einnig hafa bændur sjálfir nýverið látið gera könnun með afstöðu bænda til ESB inngöngu og úrtakið var mjög stórt eða 10% og niðurstaðan var mjög skýr þ.e. 92% bænda vilja ekki inngöngu í Evrópusambandið.

    Bændaforystan hefur því mjög skýrt og óskorað umboð bænda sjálfra til þess að verja hagsmuni sína og berjast gegn ESB helsinu !

    Hvað sem líður ósmekklegum hótunum þínum Hallur !

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.

    Ég er ekki að hóta neinum. Ég er að greina stöðu – sem er nákvæmlega svona. Það skiptir engu hvað þú skammast í mér – staðan breytist ekkert við það – hvort sem mér og þér líkar það betur eður verr.

    Ef bændaforystan heldur áfram að ana svona út í mýrina – með blöðkur fyrir augunum – þá endar það með ósköpum. Því miður.

    Bændaforystan er að bregðast umbjóðendum sínum. í stað þess að leita sóknarfæra og nýrra leiða ef þarf – þá ganga þeir út frá því að umhverfið hér heima verði óbreytt. Það eru litlar líkur á því. Hvort sem okkur líkar betur eður verr – og hvað sem þú skammast út í mig.

    Þannig er nú það.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Sæll aftur Hallur.
    Þú segist vera að greina stöðu, bænda.
    En er ekki bændum sjálfum best treystandi til að greina sína stöðu og sýna hagsmuni.
    Ég veit ekki betur en bændaforystan njóti fyllsta trausts bændastéttarinnar. Ekkert annað hefur komið fram en að bændur standi fast á bak við stefnuna og þá forystumenn sem þeir hafa sjálfir lýðræðislega kosið.

    Ég held að þér og öðrum ESB sinnum væri nær að „greina“ hina raunverulegu stöðu ESB umsóknarinnar og jafnframt það er hvað þessi ESB umsókn er búinn að vinna þessari þjóð mikið ógagn.

    1. Fyrsta lagi þá er andstaða við ESB aðild yfirgnæfandi meðal þjóðarinnar og búinn að vera það samfellt í u.þ.b. 2 ár.

    2. Nokkuð ljóst er að ESB aðild nýtur ekki meirihluta stuðnings meðal Alþingis. Þó svo að staðan sé eins undarleg og hún nú er.

    3. ESB aðild er í mikilli andstöðu við höfuðatvinnuvegina þ.e. sjávarútveginn og landbúnaðinn.

    4. Komið hefur fram í könnunum að meirihluti atvinnurekenda er andvígur ESB aðild.

    5. Mikill meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á þingi, utan Samfylkingarinnar er andvígur ESB aðild. Þetta á líka við um þá sem segjast styðja einhverja aðra flokka eða engan flokk segjast styðja.

    6. ESB umsóknin hefur sundrað þessari þjóð mjög illa og það á versta tíma í sögu hennar. Þetta hefur því dregið máttinn úr þjóðinni og til að standa saman að uppbyggingu landsins.

    7. Öll lygin og blekkingarnar sem þið ESB sinnar sögðuð okkar hér í kringum og eftir hrunið þ.e. að:

    „Þetta hefði aldrei getað gerst hefðum við verið í ESB og með Evru“
    Þessar lygar eru þagnaðar því að þær hafa svo rækilega verið afhjúpaðar með efnahagslegu hruni Írlands og Grikklands og miklu efnahagsöngþveiti í fjölmörgum öðrum ESB og Evru löndum. En þá taka bara við aðrar lygar og blekkingar.

    Ég held að ef fólk greini þessa stöðu vel og velti fyrir sér kostum og göllum þess fyrir Ísland að sækja um ESB aðild, hvað þá að ganga þessu apparati á hönd, þá ætti hver viti borinn maður að sjá að þessi Brussel för er hið mesta feigðarflan.

    Enda sem betur fer þá sér lang stærsti hluti þjóðarinnar að svo er.

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.

    Ég ætla ekki að þrasa við þig um þessa tölulega liði í þessu samhengi. Þeir snerta ekki efni pistlils míns hér að framan.

    Afstaða þín til Evrópusambandsins og aðildarviðræðum að þeim breytir það ekki þeirri staðreynd sem ég greini í pistlinum mínum. Enda hefur þú ekki einu sinni reynt að koma með mótrök – heldur talað um allt annað.

  • Það er hrein ósvinna að bændasamtökin séu enn á ríkisframfærslu.

    Í því felast margar matarholurnar og í því ljósi verður að skoða afstöðu bændasamtakanna.

    Eru engir bændur á landinu sem hafa döngvun í sér til að henda þessum Reykjavíkurbúskussum á haugana?

  • Sigríður Bára

    Góð grein Hallur.

  • Þórhallur

    Góð grein Hallur.

    Bændur eru heldur ekki einir í þessari jöfnu. Hinumegin við jafnaðarmerkið eru neytendur og það hefur ótrúlega lítið verið talað um þeirra hlið.
    Á meðan fólk stendur í biðröðum eftir mat, er landbúnaðarráðherra að vinna að því að halda uppi matvælaverði með ofurtollum og bann við frjálsuframtaki í landbúnaði.

  • Ægir Magnússon

    Góð grein Hallur !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur