Íslenskir bændur og íbúar hinna dreifðu byggða á Íslandi eiga mikil sóknarfæri í sameiginlegu skógræktarátaki Íslendinga og Evrópusambandsins.
Samninganefnd Íslands á að sjálfsögðu að leggja ríka áherslu á mikilvægi öflugs skógræktarátaks á Íslandi – átaks sem vinnur gegn losun koltvísýring í andrúmslofti og styður við jákvæða byggðaþróun á Íslandi.
Slíkt skógræktarátak á Íslandi á því að vera samstarfsverkefni á Evrópuvísu unnið af Íslendingum með öflugu fjárframlagi frá Evrópusambandinu og íslenska ríkinu – því kolefnabindingin er ekki einungis hagur Íslands heldur einnig hagur Evrópusambandsríkja og heimsins alls!
Slíkt skógræktarátak getur rennt tryggum stoðum undir rekstur hefðbundins íslensks landbúnaðar – sem því miður getur oft á tíðum ekki einn og sér staðið undir framfærslu hefðbundinna fjölskyldubúa. Þokkaleg vinna við skógrækt samhliða til dæmis sauðfjárrækt getur gert gæfumuninn fyrir íslenskar bændafjölskyldur.
Ný atvinnutækifæri vegna skógræktar gerir það einnig að verkum að unnt er að stækka sauðfjárbú og auka hagkvæmni í sauðfjárrækt með fækkun og stækkun sauðfjárbúa – án þess að þær bændafjölskyldur sem bregða sauðfjárbúi þurfi að hverfa á brott úr byggðunum. Atvinna við skógrækt – og túnrækt til að anna stærri sauðfjárbúum – getur gert það að verkum að byggðirnar styrkjast frá því nú er – og tekjur aukast.
Þegar frá líður og dregur úr fjárstuðningi vegna skógræktarátaks á Íslandi – þá koma inn nýjar tekjur vegna skógarnytja. Byggðirnar verða sjálfbærar.
Skógræktarátak stutt með fjárframlögum frá með Evrópusambandinu steinliggur. Slíkt átak getur fallið undir skilgreind verkefni Evrópusambandsins á þremur sviðum. Undir umhverfismál, undir byggðaþróunarmál og undir landbúnaðarmál.
Skógræktarátak er eitt af stóru málunum í viðræðum við Evrópusambandið.
En snillingarnir í bændahöllinni hafa bara ekki fattað það – og vinna því gegn aðildarviðræðum við Evrópusambandið – og þannig gegn hagsmunum bænda og byggðanna í landinu.
Æ Hallur minn.
Þú ert svo bláeygður yfir þessu ESB apparati.
Ég veit að þetta er allt vel meint hjá þér en eigum við ekki bara að gera allt í gegnum ESB, því að það er allt svo æðiswlegt.
Eigum við ekki að fara í eitt alls herjar trimmnámskeið í gegnum ESB og kannski í fitubrennslu átak með styrkjum frá ESB.
Bendi þér á að á Íslandi hefur verið farið í gríðarlega umfangsmikil skógræktarverkefni, sem hafa og eru að gerbreyta landinu okkar til hinns betra. Þetta hefur verið með samstilltu átaki allrar þjóðarinnar,þ.e. bænda, sveitarfélaga og stjórnvalda auk frjálsra félagasamtaka og áhugafólks.
Ég er mikill áhugamaður og eiginlega hugssjónamaður um skógrækt en við þurfum alls ekkert að fara með þetta í gegnum þungglammalegt og óskilvirkt styrkja kerfi ESB apparatsins og skriffinnanna í Brussel.
Vel gæti verið að ef við færum í ESB að þar yrði hægt að svæla út einhverja fjármuni í svona verkefni, en það væru í raun okkar eigin peningar sem við hefðum borgað fyrst til Brussel og þeir síðan borguðu hluta af þeim aftur til svona verkefna og annarra gæluverkefna.
Það er alveg klárt að ESB innganga Íslands myndi þýða að við yrðum vegna efnahagslegrar stöðu okkar að greiða miklu meira til bandalagsins heldur en við fengjum í staðinn í formi lána og styrkja sem sumir hverjir væru ekki vel ígrundaðir og sumir brennimerktir mismunun og spillingu alls kona eins og reyndin er. Ýmsar tölur hafa verið nefndar hvað mikið Ísland yrði árlega að greiða í sjóði ESB gímaldsins. En þær hafa verið allt frá 30 til 60 milljörðum árlega.
Bendi á að Finnar sem eru búnir að vera í ESB síðan 1994 að mig minnir hafa öll árin utan eitt greitt árlega tugi og stundum hundruðir milljarða meira inní sjóði ESB gímaldsins heldur en að þeir hafa fengið í staðinn.
Nei lífið, þjóðfélagið og atvinnulífið verður alls ekki byggt uppá eilífum styrkjum og gjöfum frá ríka pabba í Brussel, sem deilir og drottnar.
Þetta er að verða einum of sorglegt. Aðal rök aðildarsinna eru að verða þau, að við eigum svo mikla möguleika á allskonar styrkjum frá ESB að við getum ekki hafnað aðild. Ætlum við Íslendingar að verða ölmusumenn á skattgreiðendum annara ESB þjóða. Kannski hugnast það vel einhverjum en ég segi NEI Takk.
Gunnlaugur.
Ég er ekki bláeygður yfir ESB. Er nokkuð klár á kostum þess og göllum. Legg mikla áherslu á að Ísland nái sem bestum aðildarsamningi við ESB – og taki síðan afstöðu til aðildar eða aðildar ekki. Og það á grunni staðreynda og niðurstöðu samningaviðræðna – en ekki flökkusögnum og rangfærslum stækra andstæðinga.
Taktu nú blöðkuna frá augunum – hættu að horfa einungis á galla ESB – skoðaðu kostina líka – og stattu við bak þeirra sem eru að semja. Leyfðu þjóðinni síðan að taka afstöðu.
Eða treystir þú ekki þjóðinni?
Jú. jú Hallur minn ég treysti þjóðinni mjög vel til að segja NEI TAKK – VIÐ ESB AÐILD.
Sem að örugglega verður yfirgnæfandi niðurstaðan eins og allt bendir til.
Ég er alls ekki að gagnrýna þig persónulega því að mér finnst þú mjög oft hafa gott til málana að leggja og hafa ýmsar góðar lausnir á þjóðfélagsvandamálum samtímans.
Eins og þú iðulega gerðir þegar þú talaðir um húsnæðislánin og húsnæðisvandann þar sem þú varst sérfræðingur sem betur hefði verið hlustað betur á.
En þú ert það aldrei þegar þú dregur þetta vonlausa ESB bjúrókrata apparat inn í þessa umræðu.
Því að þá verðurðu einhvern veginn hálf hjárænulegur og engan veginn beinlínis þjóðlega Framsóknarlegur.
En það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður í þessum málum !