Það er merkilegt hvað íþróttahreyfingin er reiðubúin að forsmá árangur barna með misskilinni jafnaðarmennsku og innleiða lögmál og aðferðir fjárhættuspilara gagnvart 6 ára börnum. Upplifði enn og einu sinni slíka forsmán á Símamóti Breiðabliks í dag. Það er í sjálfu sér ekki sök Breiðabliks sem fer eftir reglum KSÍ.
Misskilningur íþróttaforystunnar felst í því að halda að börn séu aular sem skilji ekki einfalda stærðfræði og eigin og annarra árangur.
Ég er búinn að horfa upp á eldri drenginn minn „missa“ af tveimur íþróttatitlum og bikurum í teningaspili (lesist fjárhættuspili) íþróttaforystunnar. Tapað á hlutkesti – af því það mátti ekki leika til þrautar. Í bæði skiptin eftir að hafa átt miklu betri árangur í riðlum og undanúrslitum en andstæðingurinn í úrlistaleiknum – en því miður gert jafntefli í úrslitaleik.
Í bæði skiptin reyndar – fyrir algera tilviljun fyrir heimaliðum móta – þar sem heimaliðin sáu um að manna dómgæslun – en látum það vera.
Þessi staða með fjárhættuspilið sem réði úrslitum hefði kannske verið í lagi ef BÁÐUM liðunum hefði verið hampað sem sigurvegurum – þótt annað liðið hefði hvorki fengið gullpening né bikar. En það var bara alls ekki gert. Í hvorugu tilfellinu. Það komu myndir af „sigurvegurunum“ í blöðum – eðlilega glaðhlakkalegum með bikar í hönd. Enda „sigurvegararnir“ dregnir upp á verðlunapall sem „sigurvegarar“ þrátt fyrir að hafa átt lakari árangur að baki á leið í úrslitaleikinn en liðið sem „tapaði“ í fjárhættuspilinu – og var algerlega gleymt.
Í dag horfði ég enn og einu sinni upp á sama bullið. Ég ætla ekki að nafngreina hin liðin en staðan var eftirfarandi eftir hefðbundnum aðferðum:
Lið A Víkingur 3 stig. Markatala 3:2.
Lið B. Ónefnt lið 3 stig. Markatala 2:2
Lið C Heimalið 3 stig. Markatala 1:2.
Eftir fjárhættuspil liðshaldara sem vörpuðu hlutkesti að óþörfu – eftir reglumKSÍ – þar sem klárlega var ljóst hver vann riðilinn raðaðist riðillinn svona:
1. sæti Lið B 3 stig. Markatala 2:2.
2. sæti Lið A – Víkingur 3 stig. Markatala 3:2
3. sæti Lið C – heimalið 3 stig. Markatala 1:2
Auðvitað vita öll börnin hver raunverulega vann riðilinn. En fjárhættuspilararnir í íþróttaforystunni pæla ekki í því.
ATH.
Í fyrri blogfærslu var niðurstaða hlutkestis talin önnur – þannig að heimalið sem augljóslega varð neðst í riðlinum var talið hafa hlotið 1.sæti í hlutkesti – en lenti í 3. sæti í hlutkesti.
Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað varðar aðferðafræðina.
Niðurstaða fjárhættuspilsins varð sú að liðið sem varð augljóslega í 2. sæti í riðlinum raðaðist í 1. sæti – liðið sem varð augljóslega í 1. sæti raðaðist í 2. sæti – en liðið sem varð í 3. sæti lenti í 3. sæti. Sú niðurstaða hefði þess vegna geta orðið allt önnur.
Forráðamenn UBK hafa haft samband við mig og óskað eftir því að það komi fram að félagið farið eftir leiðbeiningum KSÍ um hlutkesti og því berið að gagnrýna KSÍ en ekki UBK vegna aðferðarfræðinnar.
Í pistli mínum kemur greinilega fram að ég er að gagnrýna íþróttaforystuna almennt fyrir þessa aðferðafræði – ekki UBK sérstaklega. Ég vil því ítreka að gagnrýnin beinist ekki að UBK sérstaklega heldur að aðferðafræðinni sem víða er notuð eftir forskrift KSÍ- OG ER RÖNG!
Það er út í hött hjá þér Hallur að halda því fram að KSÍ sé íþróttaforystan. Það stenst enga skoðun.
Hallur, í fullri vinsemd, þá var UBK nafnið lagt af fyrir svo löngu að fólk sem er búið að vinna við mótið svo árum saman spurði mig hvað UBK þýddi. Félagið heitir Breiðablik, ungmennafélag. 🙂
Marinó
Sæll Hallur
Ljótt að hafa ekki rekist á þig í Kópavoginum um helgina á þessu stórkostlega móti sem þú kallar líkleg óvart sínu rétta nafni í þessari bloggfærslu en sneiðir skemmtilega framhjá í þeirri næstu. Greinilegt að þú aðhyllist stefnu Ríkisútvarpsins um að nefna styrkaraðila ekki á nafn! 🙂
En það var nú ekki ástæða þess að ég styð hér á hnappa heldur að benda á annan vinkil í þessu máli. Hann er sá að styrkleiki liðanna getur verið mjög misjafn eins og þú hefur eflaust tekið eftir. Þess vegna getur það gerst í fyrstu umferð riðlakeppni að lið A spilar við slakt lið og rústar því 5-0 þrátt fyrir að hafa tekið sína bestu leikmenn útaf, sett sóknarmenn í vörn og öfugt, gefið öllum varamönnum tækifæri og jafnvel er fjölgað í liði andstæðinganna til að jafna leikinn. Hins vegar spilar lið B við slaka liðið í seinustu umferð og í ljósi þess að hugsanlega verði lið A og B jöfn keyrir þjálfari liðs B yfir lið slöku andstæðingana og vinnur 7-0. Svo fer lið B áfram á markatölu.
Sanngjarnt? Ég held ekki… en skil samt hvað þú ert að fara í færslunni og óska eftir betri lausn. Þó það verði eflaust erfitt… svipað eins og með gullmarkið og silfurmarkið sem reynt var á sínum tíma!
Kv. Gissur
Sæll Hallur,
Við getum öll haft okkar skoðanir á mótafyrirkomulagi o.s.frv. en það er rétt að árétta að KSÍ hefur mótað sér stefnu í þjálfun barna sem er byggð á stefnu ÍSÍ í þjálfun barna. Titlar og bikarar sem 6 ára börn missa af eru bara algjört aukaatriði enda er keppni í þessum aldursflokki ekki markmið í sjálfu sér. Ég á sjálfur 6 ára stelpu sem tók þátt í Símamótinu um helgina og tapaði hlutkesti og það skiptir bara nákvæmlega engu máli. Það skiptir heldur engu máli hvort hún tapaði 10-0 eða vann 10-0 í sínum leikjum. Það sem skiptir máli er að börnunum finnist gaman í fótbolta á þessum aldri, að þau upplifi þar góðan félagsskap, taki framförum og fái brennandi áhuga á knattspyrnu. Það eru oft á tíðum við foreldrarnir og þjálfararnir sem erum að velta okkur upp úr úrslitum leikja, titlum, viðurkenningum, sigur í mótum o.s.frv. og setjum með því óþarfa pressu á börnin.
Ég vil einnig benda á foreldrabækling KSÍ í þessu sambandi en hann er stútfullur af gagnlegum upplýsingum fyrir foreldra í sambandi við knattspyrnu barna, hann má finna hér:
http://www.ksi.is/fraedsla/foreldrabaeklingur/
Góðar stundir á knattspyrnuvellinum!
Siggi Raggi
fræðslustjóri KSÍ
Gissur og Siggi Raggi.
Reglan um að ekki sé skráður meiri markamunur í leikjum en 3 mörk dugir til þess að koma í veg fyrir 10-0 niðurlæginguna.
Hins vegar vita börnin nákvæmlega hver er sigurvegari riðils á markatölu og hver ekki. Hlutkestið breytir engu í því – nema að börnin upplifa óréttlætið þegar lið sem eru í neðsta sæti riðils kemst áfram á kostnað liðs sem er í efsta sæti riðils.
Eins og ég þekki það þá bannar íþróttaforustan (ÍSÍ) mismunum á verðlaunum í barnaflokkum 10 ára og yngri, og fyrir nokkrum árum var talað sérstaklega um það að banna að stíga á pall fyrr en 12 eða 13 ára, ef ég man rétt.
Þetta veit ég af því að ég hef staðið í því að búa til gæðahandbók fyrir íþróttadeild nú nýlega til þess að fá vottun sem fyrirmyndarfélag.
Það er því skrítið ef íþróttaforystan er að koma með reglur um hlutkesti og verðlaun í flokki 6 ára. Getur verið að það komi frá ÍSÍ?
(Nota bene, ég er ekki sammála því að það eigi ekki að veita verðlaun, því eins og þú segir þá vita krakkarnir þetta nákvæmlega sjálf.)
„Reglan um að ekki sé skráður meiri markamunur í leikjum en 3 mörk dugir til þess að koma í veg fyrir 10-0 niðurlæginguna.
Hins vegar vita börnin nákvæmlega hver er sigurvegari riðils á markatölu og hver ekki. Hlutkestið breytir engu í því – nema að börnin upplifa óréttlætið þegar lið sem eru í neðsta sæti riðils kemst áfram á kostnað liðs sem er í efsta sæti riðils.“
Vandinn er að það fer fram mikil vinna að gera öllum til geðs. Sum lið eru á gjörgæslu þar sem verið er að passa að þau tapi ekki of stórt, það er 3-marka reglan, þjálfarar komast að samkomulagi um að leyfa fleirum að spila og allt er gert meðal þjálfara og skipuleggjanda til að gera mótið eins skemmtilegt og mögulegt er _fyrir stelpurnar_.
Mér var sögð saga um helgina af stelpum á mótinu. Þær töpuðu öllum leikjunum á föstudeginum og unnu einn leik á laugardeginum.
Eftir þann leik spurði aðilinn þær „Hvað er búið að vera skemmtilegast?“ Þær svara: „Að vinna. Þá getum við farið í svona hring og fagnað!“
Á endanum er mjög stórum hluta stelpnanna(og þjálfaranna) sama um úrslitin, það eru foreldrarnir sem eru nánast alltaf með það vesen.
Persónulega finnst mér hlutkesti hrikalega leiðinleg leið til að notast við, en hvað annað ætti að gera? Á að gleyma því að þetta mót(og önnur) er haldið til að vera skemmtilegt og fara að keppa af alvöru? Er í lagi að fórna skemmtuninni(sem stelpurnar muna eftir þegar þær verða eldri) fyrir fullkomna sátt meðal foreldra?
Sæll Hallur,
Sem þjálfari með 9 ára reynslu úr barna og unglingaboltanum þykir mér þessi hugsunarháttur að telja mörk hjá svona ungum börnum ekki til fyrirmyndar.
Eins og Gissur segir hér að ofan er lítið að marka markatölu á svona móti því í einu liði gæti verið þjálfari sem ákveður að nýta sér yfirburði til að valta yfir andstæðingana, en í öðru gæti verið þjálfari sem stígur á bremsuna og notar öll tiltæk ráð til að halda skorinu niðri til að brjóta ekki niður börn.
Þess vegna þykir reglan um að draga spil á móti sem spilast svona hratt betri en að telja mörk. Markamunur hefur lítið að segja og ef barnamót ættu að ráðast af honum væri það ljótur leikur.
Það þekkist til dæmis sums staðar að senda A lið 7. flokks til keppni í C liða keppni Íslandsmóts 6. flokks og vinna með yfirburðum. Það er vissulega voðalega gaman fyrir foreldrana en það er í raun Phyrrískur sigur fyrir leikmenn að niðurlægja andstæðinga sem eru skemmra komnir í íþróttinni.
Daði Rafnsson, þjálfari 5kvk í Breiðablik.
Bara svo það sé á hreinu, þá bað ég Hall aldrei um að kenna KSÍ um það að notað væri hlutkesti til að skera úr um þegar lið væru jöfn að stigum og í innbyrðis viðureignum. Hann vísar í samtal sem ég átti við hann sl. laugardagskvöld í rauðlitaða textanum. (Raunar eru dregin spil og í stokknum er aðeins ein sort og enginn ás. Eingöngu fullorðnir draga og börn eru ekki nálægt þegar dráttur fer fram af fenginni bitri reynslu.) Hlutkesti var eingöngu notað þegar nauðsynlegt er, vegna framhalds mótsins, að gera greinarmun á stöðu liða. Svo merkilegt sem það var, þá óskuðu nokkur lið eftir því að tapa hlutkesti vegna þess að þeim þótti það betra en tapa stórt á leikvelli!
Ég tek undir með Daða og Sigga að ekki eigi að ala upp í ungum börnum keppnishörku sem gengur út á að ekkert sé gott nema stór sigur. Mín reynsla af yfir 30 ára starfi í íþróttahreyfingunni (með hléum þó) er að mest vinnst þegar jafningjar mætast. Lið sem yfirspilar andstæðinginn eða tapar stórt er nánast ekkert að græða á leiknum. Betra liðið er ekki að sýna getu sína með því að skora mörg mörk gegn lökum andstæðingi.
Á Símamótinu var farin sú leið í 7. flokki, að veita öllum þátttakendum gullverðlaun. Er það í anda uppeldisstefnu ÍSÍ að í yngstu aldursflokkum skuli allir sitja við sama borð þegar kemur að viðurkenningu. Vissulega fengu þau lið sem léku til úrslita í 7. flokki bikara (já bæði liðin í leik um 1. – 2. sæti fá bikar) og því er gerður greinarmunur á þeim og öðrum liðum. Ekki eru veitt silfur eða bronsverðlaun í þessum aldurshópi.
Sem foreldri drengja sem keppt hafa í mörg ár í yngri flokkum, þá veit ég að árangur í 5., 6., 7. og 8. flokki er ekki það sem mun skera úr um hvort ferillinn verður farsæll eða ekki. Mestu máli skiptir að hafa gaman af leiknum og gera betur í dag en í gær. Hvernig sem við lítum á hlutina, þá er þetta bara leikur og þó við foreldrarnir viljum gjarnan geta talið sem flest stig hús, þá eru móti fyrir börnin, ekki okkur. Ef börnin eru niðurdregin, þá er það okkar hlutverk að styðja þau og séu þau glöð yfir góðum árangri, þá verðum við að leyfa þeim að njóta augnarbliksins. Því miður gleymist þetta oft.
Eitt að lokum: Þó framkoma foreldra hafi yfir höfuð verið mjög góð á nýyfirstöðnu Símamóti, þá komu upp nokkur tilfelli, þar sem fullorðna fólkið varð sér til skammar með hrópum og köllum þar sem ýmist var veist að dómurum eða jafnvel andstæðingum barna sinna. Ég held að þetta fólk gleymi því, að það er dæmt af framkomu sinni og það sem verra er, að börnin þeirra fara oft hjá sér vegna framkomu foreldranna. Háttvísi er ekki bara fyrir hina. Hún er fyrir alla.