Það eru unnin þrekvirki í íþróttastarfi barna víðs vegar um land á hverju sumri þegar frábærlega tekst til með framkvæmd knattspyrnumóta yngri flokka þar sem fjölmargir sjálfboðaliðar og foreldrar vinna ómetanlegt starf í þágu æskunnar.
Þessa helgina var það Breiðablik sem hélt eitt stærsta íþróttamót sumarsins þar sem stelpur á aldrinum 5 – 12 ára spiluðu fótbolta í einmuna veðurblíðu. Það var ekki bara góða veðrið sem gerði Breiðabliksmótið svona gott. Skipulag og framkvæmd mótsins var Blikum til mikils sóma – en mótið gekk snurðulaust fyrir sig á fjölda valla – og tímasetningar héldu með ólíkindum.
Mér sýnist sjálfboðaliðarnir sem héldu öllu gangandi ekki skipta tugum – heldur hundruðum – allir með bros á vör og gerðu sitt besta. Yfirstjórnin greinilega góð og orðin sjóuð í að halda mót sem þetta.
Eina sem skyggði ánægju mína var sú aðferðafræði sem Breiðablik ákvað að beita – í takt við reglur KSÍ – þar sem hlutkesti er látið ráða um úrslit í riðlum þar sem stigatala er jöfn – ekki markatala. Um það skrifaði ég í pistlinum: „Að forsmá árangur barna“
Blikar – við Gréta 6 ára þökkum fyrir mótið 🙂
En Breiðabliksmótið er ekki það eina vel heppnaða. Ég fylgdist með frábæru móti á Sauðárkróki þar sem Tindastóll hélt ótrúlega skemmtilegt mót fyrir stelpur á sama aldri og Breiðablik hélt nú um helgina. Þar var öll framkvæmd einnig til mikillar fyrirmyndar – og greinilegt að foreldra- og sjálfboðaliðsstarf á Króknum er gott.
Við Gréta þökkum líka fyrir það 🙂
Þá var N1 mótið á Akureyri fyrir 5. flokk drengja ótrúlega vel heppnað – en þar spilaði hann Magnús minn. Þriðja skipti sem fjölskyldan er á því móti – og „fengið“ að upplifa bæði skin og skúrir – sól og blíða í ár – rigning í fyrra – og sól og blíða fyrir 2 árum þegar Styrmir var að keppa.
Þá er að fara að undirbúa sig undir mót næstu viku – Rey Cup – þar sem Styrmir fær að spreyta sig!
Vonandi verður það jafn vel heppnað og þau mót sem við höfum tekið þátt í í sumar – veit að Þróttararnir standa sig vel – því fyrsta mót sumarsins hjá Grétu var einmitt Þróttaramótið – þegar flestir nema við fengu stöðumælasekt 🙂
Já, og þá verð ég að þakka Ólafsfirðingum fyrir skemmtilegt Nikulásarmót sem við höfum í tvígang sótt – og svo að sjálfsögðu Eyjamönnum fyrir pollamótið – sem við höfum líka í tvígang sótt.
Ergo: Frábært starf unnið víða um land í barnaboltanum!
Ég get ekki annað en tekið ofan fyrir skipuleggjendum og starfsfólki
Ég þakka fyrir hönd skipuleggjenda, stjórnenda og starfsfólks Símamótsins 2011.
Marinó G. Njálsson
í mótsstjórn Símamótsins
Ég er sammála þér Hallur, ég held að ég hafi ekki farið á mót án þess að rekast á þig 🙂 Þetta eru með bestu samkomum landsins. Ég hef farið á Norðurálsmótið, Shellmótið, Nikulásarmótið, N1 mótið og nú síðast Símamótið.Öll þessi mót eru frábærlega vel skipulögð og með eindæmum skemmtileg.