Sunnudagur 17.07.2011 - 16:46 - 2 ummæli

Fótboltaþrekvirki unnið nær vikulega!

Það eru unnin þrekvirki í íþróttastarfi barna víðs vegar um land á hverju sumri þegar frábærlega tekst til með framkvæmd knattspyrnumóta yngri flokka þar sem fjölmargir sjálfboðaliðar og foreldrar vinna ómetanlegt starf í þágu æskunnar.

Þessa helgina var það Breiðablik sem hélt eitt stærsta íþróttamót sumarsins þar sem stelpur á aldrinum 5 – 12 ára spiluðu fótbolta í einmuna veðurblíðu. Það var ekki bara góða veðrið sem gerði Breiðabliksmótið svona gott. Skipulag og framkvæmd mótsins var Blikum til mikils sóma – en mótið gekk snurðulaust fyrir sig á fjölda valla – og tímasetningar héldu með ólíkindum.

Mér sýnist sjálfboðaliðarnir sem héldu öllu gangandi ekki skipta tugum – heldur hundruðum – allir með bros á vör og gerðu sitt besta. Yfirstjórnin greinilega góð og orðin sjóuð í að halda mót sem þetta.

Eina sem skyggði ánægju mína var sú aðferðafræði sem Breiðablik ákvað að beita – í takt við reglur KSÍ – þar sem hlutkesti er látið ráða um úrslit í riðlum þar sem stigatala er jöfn – ekki markatala. Um það skrifaði ég í pistlinum: „Að forsmá árangur barna“ 

Blikar – við Gréta 6  ára þökkum fyrir mótið 🙂

En Breiðabliksmótið er ekki það eina vel heppnaða. Ég fylgdist með frábæru móti á Sauðárkróki þar sem Tindastóll hélt ótrúlega skemmtilegt mót fyrir stelpur á sama aldri og Breiðablik hélt nú um helgina. Þar var öll framkvæmd einnig til mikillar fyrirmyndar – og greinilegt að foreldra- og sjálfboðaliðsstarf á Króknum er gott.

Við Gréta þökkum líka fyrir það 🙂

Þá var N1 mótið á Akureyri fyrir 5. flokk drengja ótrúlega vel heppnað – en þar spilaði hann Magnús minn. Þriðja skipti sem fjölskyldan er á því móti – og „fengið“ að upplifa bæði skin og skúrir – sól og blíða í ár – rigning í fyrra – og sól og blíða fyrir 2 árum þegar Styrmir var að keppa.

Þá er að fara að undirbúa sig undir mót næstu viku – Rey Cup – þar sem Styrmir fær að spreyta sig!

Vonandi verður það jafn vel heppnað og þau mót sem við höfum tekið þátt í í sumar – veit að Þróttararnir standa sig vel – því fyrsta mót sumarsins hjá Grétu var einmitt Þróttaramótið –  þegar flestir nema við fengu stöðumælasekt 🙂

Já, og þá verð ég að þakka Ólafsfirðingum fyrir skemmtilegt Nikulásarmót sem við höfum í tvígang sótt – og svo að sjálfsögðu Eyjamönnum fyrir pollamótið – sem við höfum líka í tvígang sótt.

Ergo: Frábært starf unnið víða um land í barnaboltanum!

Ég get ekki annað en tekið ofan fyrir skipuleggjendum og starfsfólki

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Marinó G. Njálsson

    Ég þakka fyrir hönd skipuleggjenda, stjórnenda og starfsfólks Símamótsins 2011.

    Marinó G. Njálsson
    í mótsstjórn Símamótsins

  • Eggert Herbertsson

    Ég er sammála þér Hallur, ég held að ég hafi ekki farið á mót án þess að rekast á þig 🙂 Þetta eru með bestu samkomum landsins. Ég hef farið á Norðurálsmótið, Shellmótið, Nikulásarmótið, N1 mótið og nú síðast Símamótið.Öll þessi mót eru frábærlega vel skipulögð og með eindæmum skemmtileg.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur