Vélrænn dynur frá umferðinni á Miklubraut dró ekki úr ánægjunni á götuhátíð Rauðgerðinga sem haldin var á rólónum í Rauðagerði í gær. En dynurinn – sem reyndar var með mildasta móti þar sem umferð um Miklubraut er frekar í lágmarki á laugardagseftirmiðdögum – var þó nægur til þess að nær allir götuhátíðargestirnir skrifuðu undir áskorun til borgaryfirvalda um að setja upp fyrirhugaða hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis.
Staðreyndin er nefnilega sú að hávaðinn frá Miklubrautinni er iðulega langt yfir viðmiðunarmörkum hjá íbúum Rauðagerðis sem búa næst Miklubrautinni. Hávaðinn er nánast ærandi á mestu umferðarálagstímum. Þótt ég búi efst í Rauðagerðinu þá glymur umferðaniðurinn iðulega í eyrunum.
Ég hef hins vegar farið þá leið að telja mér trú um að niðurinn sé bara sambærilegur notarlegum fossnið eða sjávaröldunið og þannig leitt hann frá mér. En það geta íbúar næst Miklubrautinni ekki gert. Hávaðinn er það mikill á álagstímum. Enda ekki tilviljun að enginn byggir sér íbúðarhús í 50 metra fjarlægð frá stórfossum Íslands.
Ef allt hefði verið í lagi þá hefðu Rauðgerðingar ekki þurft að undirrita áskorun til borgaryfirvalda um að setja upp hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis. Það var nefnilega búið að ákveða að slíkt yrði gert.
En ef marka má svör samgöngustjóra Reykjavíkurborgar þá hefur nýr borgarstjórnarmeirihluti engan áhuga á að draga úr umferðarnið við Rauðagerði – þótt hann sé langt ofan við eðlileg viðmiðunarmörk.
Rauðgerðingar trúa því að sú ákvörðun að slá af hljóðmönina hafi verið tekin fyrir misskilning og þrýsta nú á um að gert verði ráð fyrir byggingu hljóðmanar í fjárhagsáætlun ársins 2012 – en sú fjárhagsáætlunargerð er að hefjast.
Hafið þið engar áhyggjur af menguninni?
þið völduð að búa þarna, hættiðessu væli mar.