Bezti flokkurinn er að styrkjast og þróast sem stjórnmálasamtök og hefur alla burði til þess að verða áhrifamikið stjórnmálaafl til framtíðar – einn og sér – eða sem hluti nýrrar frjálsyndrar fylkingar sem gefur hefðbundnu leiðtogaræði í stjórnmálum langt nef.
Ágreiningur um vinnubrögð sem nú er að koma fram á sjónarsviðið er ekki vísbending um veikleika Bezta. Þvert á móti er um að ræða styrkleikamerki þeirra stjórnmálamanna innan flokksins sem vilja vera trúir því sem þeir lofuðu kjósendum sínum – ný og betri vinnubrögð í stjórnmálum.
Það kemur ekki á óvart að hinn annars ágæti leiðtogi Beztaflokksins hafi fallið í gryfju hefðbundinna leiðtoga stjórnmálaflokka og talið sig geta ákveðið – einn og sér – stefnuna og kynnt hana í björtu fjölmiðlaljósinu án samráðs. Á þeim nótum hóf hann vegferð sína í stjórnmálum.
En hins vegar mótaði hann – með öflugu fólki sem ekki hafði áður rekið þátt í stjórnmálum – það merkilega stjórnmálaafl sem Bezti flokkurinn og sambærilega sveitarstjórnarframboð eru.
Stórefnilegir stjórnmálamenn innan flokksins hafa nú staldrað við og gert athugasemdir við einræðisleg vinnubrögð leiðtogans. Því eins og ég hef sagt allt frá því fyrir borgarstjórnarkosningarnar þá er innan Bezta flokksins hópur fólks sem eiga mikið erindi í pólitík.
Þetta fólk á eflaust eftir að fá leiðtogann til að breyta kúrs og taka upp lýðræðislegri vinnubrögð. Auka upplýsingaflæði innan flokksins. Innleiða betri vinnubrögð í Bezta.
En það segir meira um þessa lofandi stjórnmálamenn en leiðtoga Bezta.
Best að setja punkt hér í bili …
Þú ert að verða alvöru grínari Hallur. Trúirðu því að Bezti sé að komast í flokk sterkra og þróaðra stjórnmálasamtaka?
Glöggir menn eiga ekki að rugla saman frjálslyndi og óábyrgri háttsemi í stjórnmálastarfi, en allt er þetta þó til marks um upplausn á vinstrivæng íslenskra stjórnmála. Það eru góðu tíðindin.
Vellingurinn er alltaf að verða ólystugri – endar sjálfsagt sem óætur hræringur fyrir allan almenning, eftir betrumbætur stjórnarflokkanna.
Nú bíður maður bara eftir því að Vg og Samfylking klofni með einum eða öðrum hætti og úr verða einhvers konar grínbandalög vitleysinganna.
Ballið er rétt að byrja.
Hallur væri ekki tilvalið fyrir þig og fylgisveina þína úr Framsókn að ganga til liðs við “ Besta flokkinn“ ? Hver veit nema þið yrðuð hafnir þar til mikilla meta og fengjuð loks metnaði ykkar svalað? Sækjast sér um líkir Hallur þannig að þið félagar eigið góðan séns á að njóta áður óþekktrar hylli í „besta flokknum“
Ha ha. Hélt að þú ættir ekki svona napra kaldhæðni til, Hallur!
@Heiða
Þetta er einfaldlega greining á stöðunni í Bezta. Hefur lítið um mig og minn metnað að gera.
Ég hef hingað til reyndað tekið þátt í pólitik til að vinna að málefnum og koma pólitískri sýn á framfæri.
Hef hins vegar horft á þá nokkra sem sóttust eftir völdum valdanna vegna og komu að flokksstarfi vegna þess að Framsóknarflokkurinn var við völd.
Veit að fyrir ykkur sem hrúguðust í einkavinavæðinguna og tölduð ykkur eiga greiða leið að pólitískum kjötkötlunum gegnum Framsóknarflokkinn – þá er sárt að sitja utan ríkistjórnar – og sjá pólitískt fyrirbæri eins og Bezta mögulega standa í veginum …
Ef marka má fréttir Eyjunnar er það staðfest að Guðmundur Steingrímsson og félagar eru tilbúnir að selja sálu sína til að reyna að komast aftur í framboð. Samstarf við „Besta flokkinn“ give me a break eruð þið félagarnir algjörlega gengnir af göflunum ? Er öllum prinsippum fórnandi á því altari að reyna að komast á Þing ? Verði ykkur að góðu.