„Á undanförnum árum hefur heilbrigðisástandi útigangsfólks; drykkjufólks og annarra fíkla hrakað. Síðasta vetur urðu nokkrir úti á götum borgarinnar. HIV grasserar meðal sprautunotenda og veikari og veikari einstaklingar leita til heilbrigðisþjónustunnar. Útskúfun þessa fólks úr mannlegu félagi er alvarlegt mannréttindabrot. Nauðsynlegt er að koma upp neyðarskýlum fyrir fólk sem ekki er tilbúið til að hætta neyslu og veita því eðlilega heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu, án kröfu um bindindi.“
Þannig hljóðar mikilvæg færsla Péturs Þorsteinssonar á samfélagsvefnum „Betri Reykjavík“ sem er ein merkasta lýðræðistilraun undanfarinna missera. Meira um það síðar en áfram með málefni útigangsfólks.
Það er hárétt hjá Pétri að það þarf sérstaklega að gæta að mannréttindum útigangsfólks. Þessi hluti samfélags okkar er því miður ekki í standi til þess að verja mannréttindi sín ein og sér. Þau þurfa við það aðstoð.
Það er rétt sem Pétur segir. Þessi hópur þarf á aukinni aðstoð að halda.
Ekki það að Reykjavíkurborg hafi ekki unnið að málefnum útigangsfólks. Þvert á móti. Frá því árið 2008 hefur Reykjavíkurborg einmitt stóraukið stuðning við útigangsfólk – ekki síst á heilbrigðissviðinu. Það þekki ég sjálfur sem fyrrverandi varaformaður Velferðarráðs – en málefni útigangsfólks var okkur í Velferðarráði afar hugleikin og við lögðum sérstaka áherslu á að bæta hag þessa fólks.
En betur má ef duga skal.
Ég er þess fullviss að Velferðarráð og Reykjavíkurborg mun ekki láta staðar numið í stuðningi við útigangsfólk – enda eitt helsta kosningamál Bezta stuðningur við þennan hóp Reykvíkinga. Reyndar fattaði bezti ekki hvað hafði verið gert mánuðina á undan – en það er aukaatriðið 🙂
En hlutirnir gerast ekki af sjálfum sér.
Þess vegna er áminningar eins og sú sem Pétur Þorsteinsson hefur sett á samfélagsins „Betri Reykjavík“ svo mikilvægar. hafðu þökk fyrir Pétur!
Fyrri færslur mínar um málefni útigangsfólks:
Aðgerður fyrir utangarðsmenn í burðarliðnum!
Aðgerðaráætlun útigangsfólks í framkvæmd!
Iðjuþjálfun fyrir utangarðsmenn í Reykjavík
Þú mættir nú alveg birta tengilinn á færslu Péturs:)
http://betrireykjavik.is/priorities/99-ad-borgin-gaeti-mannrettinda-utigangsfolks-og-fikla
Hér ertu kominn á beinu brautina Hallur minn. Þetta er miklu heilbrigðari pistill en þeir síðustu sem þú hefur birt.
Þetta varðar okkur öll, við eigum að hlúa að okkar minnsta bróður. Flest okkar þekkjum einhvern sem lent hefur utan ,,rammanns“. Þá er gott að hafa Frú Ragnheiði fyrir alvarlega sjúka einstaklinga sem leita ekki á náðir heilbrigðisþjónustunnar.
Þessi bifreið sem sinnir sprautufíklum og öðru utangarðsfólki hefur gert kraftaverk. Hið allra besta mál.
“Á undanförnum árum hefur heilbrigðisástandi útigangsfólks; drykkjufólks og annarra fíkla hrakað…“
Þvættingur.
Og vertu ekki að gott þér á ógæfufólki.
No 4 (Jóhann): Hvað ert þú að pæla ? Kemur hér með eitthvað komment sem enginn skilur nema í mesta lagi þú sjálfur. Næst þegar þú tjáir þig opinberlega, segðu þá eitthvað sem allir skilja. Takk og bless.
Hvað er það sem þú skilur ekki?
Hlutskipti „útigangsfólks“ hefur margfaldlega batnað á undanförnum árum!
Þess lengra sem haldið er aftur í tímann, því verra var hlutskipti útigangsfólks. Það ættir þú að vita.
Það að hægt sé að benda á slæmt hlutskipti manna, felur ekki í sér að allt horfi til verri vegar.
Ég þakka Halli góðan pistil og kynningu á baráttumáli mínu á Betri Reykjavík. Ég fylgdist vel með verkum Halls og málflutningi í þágu útigangsfólks í tíð fyrri meirihluta og fellur illa að lesa innlegg Jóhanns hér að ofan. En það skiptir ekki máli.
Hitt skiptir máli – tillaga mín um að Reykjavíkurborg gæti mannréttinda útigangsfólks og fíkla fær hvarvetna góðar undirtektir. Hún er núna ellefta hæsta tillagan á Betri Reykjavík. Hún mun næstum örugglega komast inná borð Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, og það verður – mér vitanlega – fyrsta opinber umræða á Íslandi um vímuvandann frá sjónarhóli mannréttinda.
Leggjumst á eitt við að afglæpa þjáninguna, það hef ég örlítið breytt eftir BRL, stórvini mínum á Húsavík.
…“og það verður – mér vitanlega – fyrsta opinber umræða á Íslandi um vímuvandann frá sjónarhóli mannréttinda. “
Meiri þvættingur.
„Leggjumst á eitt við að afglæpa þjáninguna,“
Ertu prestur?
Afglæpa þjáningu?
Hvaða bull er þetta?
Gott hjá ykkur Hallur og Pétur. Þetta er það fólk sem minnst getur borið hönd fyrir höfuð sér. Við vitum aldrei hverjir gætu lent í þessari stöðu, það gætu allt eins orðið einhverjir af okkar nánustu sem við teljum núna að eigi glæsta framtíð. Eins og skáldið sagði:
„Fólki því sem finnst hann vera róni og flökkudýr
er einnig fjarlægt bálið, sem í brennivíni býr“
Og sum vímuefni brenna enn hraðar.
það er landhreinsun af þessu ef þetta nær að eyða sér
„Útskúfun þessa fólks úr mannlegu félagi er alvarlegt mannréttindabrot. “
eiginlega ekki, það er eðlileg mannleg hegðun að útskúfa fólki sem kann ekki að haga sér í samfélagi við annað fólk
Virði rétt Jóhanns og Matta til að hafa rangar skoðanir og halda þeim fram sem víðast.
Raunar hygg ég þó að orð Matta – „það er landhreinsun af þessu ef þetta nær að eyða sér“ séu stjórnarskrárbrot, einfalt lögbrot, auk brota gegn alþjóðlegum sáttmálum þjóðarinnar um bann við níði um minnihlutahópa, ég tala nú ekki um tiltekinn sjúklingahóp.
En það er ekki mitt mál hvað Matti segir og hugsar. Mitt mál er að rísa upp gegn tilhæfulausum ofsóknum gegn varnarlausum sjúklingahópi, nánar tiltekið fólki sem fellur undir tiltekin númer í alþjóðlegum sjúkdómagreiningarlyklum, ICD 11 eða DSM IV. Fíknisjúklingana.
Mitt mál er að rísa upp gegn rangri og háskalegri útskúfunarhyggju sem hér hefur riðið húsum alltof lengi og beinlínis stuðlað að vanheilsu, örbyrgð og dauða.
Alltof lengi höfum við látið það viðgangast að löggæslu- og réttarkerfið sólundi hátt í tveim milljörðum árlega í ofsóknir gegn sjúku fólki annars vegar og hins vegar ungmennum sem oft á tíðum eru dæmd og stimpluð í sakaskrá fyrir nánast ekki neitt. Frægur er dómur vegna 0,11 gramma af tóbaksblönduðu hassi er fundust milli sæta í bíl nítján ára stúlku. Málið kostaði hana atvinnu og húsnæði, búferlaflutninga og ómælda erfiðleika í atvinnuleit og á húsaleigumarkaði. Sú stúlka var áreiðanlega ekki sjúklingur heldur í versta falli tækifærisneytandi eins og hundruð og þúsund annarra ungmenna, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Jaðarrefsing stúlkunnar: stimplunin, útskúfunin -demóníseringin – var margföld á við fjársektina sem henni var gert að greiða. Það er áreiðanlega mannréttindabrot að beita refsingu sem niðurlægir fólk og útskúfar því úr mannlegu félagi. Ríkisvaldið má ekki rústa líf fólks sér til skemmtunar og vinsælda og torvelda því leiðina til baka inn í samfélag okkar góða fólksins. Það gerist þó dag hvern sem guð gefur yfir þetta einkennilega land.
Brýnasta verkefnið í dag er að tryggja mannréttindi veikasta hópsins, sprautufólksins. Byrjum á því að verja hann fyrir mannréttindabrotum af hendi stjórnvalda og fjölmiðla. Við verðum að skipta um sjónarhorn á vandamálið – skefjalaus bann- og refsihyggja síðasta hálfan annan áratug hefur leitt okkur út í umbrotafen sem ekki sér framúr.
Ísland átti að vera án eiturlyfja 2002. Ríkisstjórnin ákvað það 1996. Síðan þá höfum við komið okkur upp andstyggilegasta HIV faraldri sem sést hefur í Vestur-Evrópu um árabil. Við verðum að bera okkur saman við pestarbæli Rússlands og Austur-Evrópu til að finna ámóta skandal. Að svíkjast um sóttvarnaraðgerðir gegn HIV meðal sprautufólks og ákveðin tregða á að hefja lyfjameðferð smitaðra úr þeirra hópi – það er áreiðanlega mannréttindabrot.
Tilfinningaklám og pestaprang fjölmiðla í fíkniefnamálum er þeim til ævarandi skammar. Fjölmiðlar hafa ítrekað þyrlað upp moðreyk um ólögleg vímuefni og þó sérstaklega notendur ólöglegra vímuefna. Hræsnin er líka ógeðfeld með köflum.
Það er áreiðanlega mannréttindabrot að veitast að minnihlutahópi og sverta hann umfram allt hóf í vitund þjóðarinnar. Það hefur ítrekað gerst í fjölmiðlum. Ég bið fjölmiðlunga að hugsa skynsamlega og tala skynsamlega um þennan erfiða og viðkvæma málaflokk.
Stjórnmálamenn hafa einatt notað þvæluna úr fjölmiðlum til að misnota fíkniefni pólitískt. Það er áreiðanlega mannréttindabrot að pota sér áfram í stjórnmálum með því að úthrópa tiltekinn hóp fólks og standa fyrir aðgerðum sem valda honum óþarfa heilsu- og mannorðstjóni. Jafnvel HIV smiti eða dauða.
Við höfum misst alltof mörg ungmenni, glæsilegt fólk í blóma lífsins. Við verðum að minnka skaðann sem notkun vímuefna veldur, en það er einungis unnt að gera í samstarfi við notendur og aðstandenda þeirra. Ég er sannfærður um að sumum dauðsföllum hefði mátt afstýra með annars háttar fíknivörnum en við höfum stundað.
Ég tel til dæmis rétt að íhuga hvort dóttir Jóhannesar Kr. Kristjánssonar hefði lifað morfínskammtinn af, ef ógæfufólkið kringum hana hefði haft Naltrexone við höndina og kunnað að nota það. Það er áreiðanlega mannréttindabrot að sjá ekki ópíatanotendum og aðstandendum þeirra fyrir andefni sem afléttir um stund andnauð og hjartsláttarlömun sem dregur það fólk til dauða á alllöngum tíma. Vandalaus og hættulaus skammtur af Naltrexone vinnur oft þann tíma sem þarf til að koma sjúklingnum undir læknishendur. Breskir og skoskir læknar fá heimild til að ávísa á Naltrexone neyðarpakka til heimabrúks uppúr áramótunum. Við eigum að fylgja þeirra fordæmi.
Ég tel einnig rétt að athuga tíðni sjálfsvíga í hópi fólks sem notar ólögleg vímuefni. Ég hygg að hún sé mikil og langt umfram jafnaldra. Eftir að samfélagið aflétti fordómum og útskúfun samkynhneigðra féll sjálfsvígstíðni í þeirra hópi. Við verðum að hugleiða okkar hlutdeild er í hverju dauðsfalli útskúfaðasta minnihlutahóps á Íslandi. Það er áreiðanlega mannréttindabrot að hrekja minnihlutahóp útí sjálfsvíg með hatri og bölbænum. Og eru þá önnur mannréttindabrot ótalin.
Nú skulum við öll líta í spegilinn, og ekki síst hann Matti.
Pétur Þorsteinsson
fv. skólastjóri
Ef einhver er enn að lesa þessar samræður er rétt að vísa beint á tillögu mína á Betri Reykjavík um mannréttindi útigangsfólks og fíkla.
http://betrireykjavik.is/priorities/99-ad-borgin-gaeti-mannrettinda-utigangsfolks-og-fikla