Metnaðarfullar áætlanir Reykjavíkurborgar um byggingu lítilla leiguíbúða í 101 og nágrenni hafa verið kynntar. Metnaðarfullt markmið.
En er skortur á leiguíbúðum stóra vandamálið í húsnæðismálum þjóðarinnar? Og reykvískra einstaklinga og para í 101?
Er stóra vandamálið ekki of hár kostnaður við húsnæði hvort sem um er að ræða eigið húsnæði, búseturéttarhúsnæði eða leiguhúsnæði?
Hvernig ætlar Reykjavíkurborg að tryggja „lága leigu“ í „ríkisrekna“ húsnæðinu sínu? Það kostar nefnilega nokkurn vegin það sama að byggja leiguíbúð, búseturéttaríbúð og „eigið“ húsnæði. Stjórnmálamenn geta ekki lækkað framleiðslukostnað íbúða bara með því að kalla húsnæðið „leiguhúsnæði“ eða „félagslegt húsnæði“.
Ætlar borgin að niðurgreiða leiguíbúðirnar? Hvar á þá að skera niður á móti? Í leikskólunum? Skólunum? Heimaþjónustu?
Við skulum aldrei gleyma því að Byggingarsjóður verkamanna setti Húsnæðisstofnun nánast á hausinn og tæknilegt gjaldþrot hans var eitt það stærsta í Íslandssögunni fram að hruni – alls milli 30 og 35 milljarðar á núvirði! Byggingarsjóðurinn „fjármagnaði“ „félagslega húsnæðið“ á Íslandi.
Er ekki hægt að endurreisa Byggingafélag verkamanna og skipta bara um nafn?
Það er ekki eins og hér sé verið að tala um einhverja nýung á veraldarvísu Hallur!
Það eru reyndar allnokkrar ástæður fyrir því að leiguíbúðir í opinberri eða félagslegri eigu geti verið ódýrari en aðrar og samt staðið undir sér.
1. Íbúðirnar yrðu byggðar á leigulóðum og kostnaður af lóðakaupum því enginn.
2. Verktakar byggja íbúðir og selja með dágóðum hagnaði. Sá hagnaður fellur brott. Kostnaðarverð íbúðanna lækkar sem sagt umtalsvert.
3. Til lengri tíma litið lækkar leiguþörfin. Eftir að stofnkostnaður hefur verið greiddur stendur aðeins viðhaldskostnaður eftir. Þetta gerist að vísu á alllöngum tíma.
4. Eigið húsnæði er nú niðurgreitt með vaxtabótum. Húsaleigubótakerfið virkar illa á einkamarkaði, þar eð margir húseigendur vilja fá leiguna svart. Ef kvittunar er krafist, heimta þeir hærri leigu. Með tilkomu opinberra leiguíbúða gerbreytist þetta og húsaleigubætur fara þá gegna hlutverki sínu eins og til er ætlast.