„Frá Englendingum er knattspyrnan komin hér að landi. Er þessi leikur einn af þjóðaríþróttum þeirra. Hafa þeir iðkað knattspyrnu í margar aldir, og eru ennþá bestir í henni; fjölgar þó keppinautum þeirra daglega, að kalla má, og nú erum við að bætast við hópinn. Og spá mín er sú, að við verðum þeim skeinuhættir, áður en líkur, ef við höldum eins drengilega áfram, og byrjað var. -„
Svona hófst greinaflokkur um knattspyrnu í Skinfaxa – hinu merka riti ungmennahreyfingarinnar – árið 1916. Höfundur greinaflokksins sem ég ætla að birta hér á blogginu mínu næstu daga – var „Bennó“. Ekki veit ég hver „Bennó“ var – en það kæmi mér ekki á óvart að það hafi verið sjálfur ritstjórinn Jónas frá Hriflu Jónsson.
En áfram með smjerið:
„Enskur kaupsýslumaður, sem var á ferð hér i Reykjavík, og dvaldi hér um nokkurt skeið, kendi öllum knattspyrnu, sem vildu ómaka sig suður á „Melana“ við Reykjavík, en fásótt var oftast. Og þegar hann svo fór héðan, má svo segja að leikurinn hafi með honum farið; urðu því allar hans góðu leiðbeiningar til lítils gagns.
Fór nú svo fram um hríð, að lítið var þessi leikur iðkaður. Í annað sinni bar hér að landi enskan prentara, og auðnaðist honum að safna saman flokk manna (mest voru það prentarar) til knattspyrnuæfinga, og man ég vel hve duglega þeir störfuðu að leiknum, suður á „Melunum“. Þótti það þó ekki í þá daga árennilegt að vera svona fáklæddur að leikjum úti á víðavangi í kvöldloftinu.
Ríkti líka þá sá hugsunarháttur hér að loka að sér dyrum og gluggum og „dúða sig“ vel, ef undir bert loft var komið. En nú er „öldin önnur „, og er það að mínu álíti íþróttunum að þakka, sem hafa breytt hugsunarhættinum til hins betra.
Á meðan þessi enski prentari dvaldi hér, var starfað með miklum áhuga að knattspyrnuleiknum, en þegar hann fór af landi burt, lognaðist félagsskapurinn útaf.
Þeir sem næstir koma við sögu knattspyrnunar, voru Mentaskólanemendurnir og mest að þakka fimleikakennara skólans, Ó.R., sem alla tíð hefur haft mjög mikinn áhuga fyrir knattspyrnuleiknum.
En þetta, að nemendur Mentaskólans fóru að iðka knattsp. var um það skeið, sem skólalífið við þennan skóla var í blóma lífs síns; var þá líka öflugri og betri félagsskapur þeirra en nú er hann. Kom líka að því að áhuginn þvarr, og þeir hættu að mæta „suður á Melum,, til knattsp.æfinga.
En ekki átti þó fyrir knattsp.leiknum að liggja að falla í valinn, og eiga í því sammerkt, mörgu af því, sem til þjóðþrifa hefir horft hjá okkur, ef fengið hefði að þróast. En rétt á eftir þessu, sem að framan er frá sagt, mynduðust knattspyrnufélögin i flestum kaupstöðum landsins. Var það mest að þakka handiðna- og verslunarmönnum, sem eru líka þær stéttir manna, sem mest og best hafa stutt að gengi íþrótta hér á landi, enn sem komið er.
Með stofnun þessara knattspyrnufélaga var upptekinn sú rétta stefna til útbreiðslu og gagnsemdar leiknum, og er vonandi að þessi góði félagsskapur dafni, og að menn kynni sér leikinn, og meti kosti hans, áður en þeir dœma hann.“
Í næsta pistli fjallar „Bennó“ um lykilmanninn í knattspyrnuíþróttinni – dómarann. Þar segir ma. :
„Hafið því vel hugfast, að það er dómari leiksins, sem valdið hefir — á meðan leiknum stendur, og þar næst er það verk flokksforingans, að sjá um, að hver maður í flokknum hegði sér sómasamlega, og komi ekki í bága við leikreglurnar.“
Bennó myndi ég ætla að væri Benedikt G. Waage, íþróttaforkólfur.
Benedikt G. Waage var Íslandsmeistari með KR 1912 og 1919 var á meðal bestu íþróttamönnum landsins á þessum árum.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=325527&pageId=5086661&lang=is&q=Benedikt