Miðvikudagur 21.12.2011 - 12:20 - 4 ummæli

Ónýt leiguíbúðaskýrsla Capacent!

Það stefnir í stórslys í húsnæðismálum í Reykjavík ef borgarstjórn ætlar að byggja stefnumörkun sína í húsnæðismálum á leiguíbúðaskýrslu Capacent. Skýrslan er ónýt, gefur kolranga mynd af stöðu og framtíðarþörfum almennings í húsnæðismálum og með ólíkindum að svo virt fyrirtæki sem Capacent láti slíka skýrslu frá sér.

Í skýrslu Capacent sem byggir meðal annars á meingallaðri könnun fyrirtækisins er algerlega horft framhjá því húsnæðisúrræði sem að öllum líkindum hentar best stórum hluta þeirra  12 þúsund fjölskyldna og einstæðinga sem Capacent telur að þurfi á leiguhúsnæði að halda í Reykjavík á næstu árum.

Búseturéttarformið sem er sú leið sem hentar stórum hluta Íslendinga og er rökrétt úrræði fyrir þá sem vilja langtímaöryggi í húsnæðismálum án þess að hætta öllu sínu í húsnæðiskaupum.  Búseturéttarformið rekið í húsnæðissamvinnufélögumum er alþekkt um Norðurlöndin, í Evrópu og í Bandaríkjunum.   Á Íslandi er komin góð reynsla á formið í húsnæðissamvinnufélögunum Búseta, Búmönnum og fleiri búseturéttarfélögum.

Capacent lét eins og búseturéttarformið væri ekki til og veitti svarendum í viðhorfskönnuninni ekki möguleika á að taka afstöðu til þess hvort búseturéttarformið myndi henta. Þá er ekki að sjá á gögnum Capacent um skiptingu eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis á Íslandi og á Norðurlöndunum að fyrirtækið greini þetta húsnæðisform. Grunar að það sé flokkað hjá Capacent sem almennt leiguhúsnæði frekar en eigið húsnæði.

Það er algerlega ljóst að Reykjavíkurborg getur ekki tekið afstöðu um stefnu í húsnæðismálum á grundvelli skýrslu Capacent. Reykjavík verður að skoða ítarlega búseturéttarformið og húsnæðissamvinnufélagsformið áður en næstu skref eru tekin.

Það sama á við ríkisstjórnina, enda eru fjölmargir kostir við búseturéttarformið auk þess sem það getur á einfaldan hátt leyst vanda ríkisstjórnarinnar með stöðu lána Íbúðalánasóðs gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA.

Meira um búseturéttarformið og húsnæðissamvinnufélagaformið á næstu dögum!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Stefán Benediktsson

    Engar áhyggjur Hallur. Búsetuformið er öllum sem að koma mjög hugleikið. Persónulega myndi ég alltaf velja þann kost, en við verðum að koma hlutum þannig fyrir að það verði arðbært að fjárfesta í leiguhúsnæði, það kemur búsetuforminu líka til góða.

  • Sæll Stefán.

    Einhver spekingurinn sagði að leiga þyrfti að hækka um 30% til að fjárfestar tækju þátt. Hvernig ætlið þið að fara að þessu? Hver á að borga?

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Sæll Hallur.

    Fagna ber þeim sinnaskiptum sem könnunin birtir, sem eru þau, að svonefnd séreignarstefna virðist algerlega búin að vera í íslensku þjóðarsálinni. Meðal-Íslendingurinn sér öll sund sjálfseignarinnar nú lokuð og velur því leigumarkaðinn sem öruggari valkost. Vandinn er auðvitað sá, að leigumarkaður að viti er ekki til hér á landi, sem stendur.

    En það er rétt, að tölurnar í könnuninni eru alveg út úr korti og augljóslega er ekki hægt að byggja neina stefnumótun á þeim, sem slíkum.

    Ég bendi t.d. á að í Breiðholtshverfinu öllu eru – muni ég rétt – um 7600 íbúðir. Leiguíbúðaþörfin skv. Capacent (12 000 íbúðir), kallar því á byggingu langt í TVEGGJA nýrra Breiðholtshverfa í Reykjavík!

    Eðlileg nýbyggingarþörf í Reykjavík er líklega að hámarki af stærðargráðunni 600-800 íbúðir á ári. Leiguíbúðaþörf Capacent hertæki þann kvóta næstu 15-20 ár.

  • Nei leiguíbúðaverð þyrfti að lækka um 30% til að eignirnar stæðu undir sér, annars hefur engin áhuga á að leigja þær, enda er séreignarstefna langtum betri í núverandi ástandi.

    Ef þú tókst 100% lán og keyptir fasteignina á hápunkti verðbólunnar, þá kannski „þarftu“ að leigja á 30% hærra verði en er nú. Málið er bara að að það gefur ekki rétta mynd af fasteignamarkaðnum, eða eigendum fasteigna, sem eru af öllum gerðum og stéttum.
    …………….Gotcha!!!!! 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur