Ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta nú þegar forsvarsmenn fjármálafyrirtækja og stjórnarþingmenn leggja til að ágreiningur um skuldavandann verði leystur í gerðardómi.
Ég man ekki betur en sömu aðiljar hafi nánast farið af hjörunum þegar Gísli Tryggvason Talsmaður neytenda lagði árið 2009 fram tillögur um einmitt slíka gerðardómsleið!
Menn hefðu betur farið að ráðum Talsmanns neytenda á sínum tíma. Það hefði sparað mikið bull, orku og peninga. Þá væri samfélagið nú að rísa á grunni sáttar í stað þeirrar sundrungar sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki völdu.
Ég ætla að taka mér það bessaleyfi og birta færslu á vef Talsmanns neytenda frá því 27. ágúst 2009:
„Tilmælum nú beint til lánveitenda um gerðardómslausn
Réttum fjórum mánuðum eftir að forsætisráðherra var send tillaga um eignarnám íbúðarveðlána og niðurfærslu þeirra eftir mati gerðardóms eru bönkum og öðrum kröfuhöfum nú send sambærileg tilmæli – en sú varaleið nær jafnframt til bílalána o.fl. lána til neytenda, sem fyrri tillaga gerði ekki.
Talsmaður neytenda hefur nú beint spjótum sínum að bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum og kröfuhöfum í viðleitni sinni við að leita samræmdra lausna – en ekki aðeins frystinga og frestana – á brýnum skuldavanda neytenda.
Beðið í fjóra mánuði eftir fyrri ríkisstjórn og nú fjóra mánuði eftir síðustu ríkisstjórnum
Framan af vetri átti talsmaður neytenda eins og fleiri von á frumkvæði frá stjórnvöldum til lausnar á skuldavanda neytenda í kjölfar banka- og gengishruns eins og ítrekaðar yfirlýsingar bentu til.
Sem dæmi má nefna að á forsíðu DV 7. október 2008, daginn eftir svonefnd neyðarlög, var haft eftir þáverandi viðskiptaráðherra að slegin yrði skjaldborg um hag almennings og fullyrt í undirfyrirsögn að erlend lán yrðu yfirtekin og lækkuð. Á baksíðu Morgunblaðsins þremur mánuðum síðar, hinn 7. janúar 2009, segir í fyrirsögn að erlend lán fari til Íbúðarlánasjóðs og fullyrt að verið sé að leggja lokahönd á slíkan flutning; þá er staðhæft að myntkörfulán verði væntanlega yfirtekin á svipuðu gengi og þegar þau voru tekin.
Lýst eftir þremur þrepum strax 11. febrúar sl.
Því var það ekki fyrr en rúmum fjórum mánuðum eftir bankahrun og síðara gengisfall íslensku krónunnar að talsmaður neytenda tók frumkvæði í málinu og átti aðild að sameiginlegu ákalli til stjórnvalda um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna ásamt nokkrum hagsmunasamtökum 11. febrúar 2009. Þar var lýst þörf á almennum aðgerðum til lausnar skuldavanda neytenda – hvort sem væri í verðtryggðum lánum eða gengistryggðum. Þ.m.t. var nefnd almenn niðurfærsla höfuðstóls íbúðarveðlána. Í ákallinu var lögð áhersla á þrjú þrep aðgerða:
-
bráðaaðgerðir sem voru í vændum – og hafa verið framkvæmdar,
-
niðurfærslu skulda í eitt skipti – sem enn er beðið og
-
framtíðarlöggjöf um jafnvægi milli neytenda og kröfuhafa – sem er næsta verkefni.
Nánar er farið yfir aðdragandann frá október 2008 til aprílloka 2009 í tillögu TN 09-2 (bls. 5-8) sem send var 27. apríl sl. í kjölfar alþingiskosninga sem tillaga um tiltekna aðferðarfræði – leið til málsmeðferðar á flóknu máli – en án þess að leggja til ákveðna niðurstöðu eins og aðrir höfðu gert.
Annað skref nær 11 mánuðum eftir hrun
Nú þegar árangurslaust hefur verið beðið viðbragða stjórnvalda í fjóra mánuði til viðbótar og nær 11 mánuðir eru liðnir frá neyðarlögunum hefur talsmaður neytenda ákveðið að leggja til sambærilega lausn sem bankar og aðrir kröfuhafar geta sjálfir samið um við neytendur samkvæmt gildandi lögum um samningsbundna gerðardóma.
Þeim 25 viðskiptabönkum, sparisjóðum, eignarleigufyrirtækjum og öðrum kröfuhöfum, sem fengu tilmælin send, hefur verið gefinn frestur til 15. september nk. til þess að svara tilmælum talsmanns neytenda skriflega. Þá verður liðið hálft annað ár frá fyrra gengisfalli íslensku krónunnar – sem leiddi af sér mikla og ófyrirséða hækkun gengisbundinna og síðar verðtryggðra skulda neytenda og þarafleiðandi forsendubrest auk röksemda um ólögmæti slíkra lána og fleiri lagaraka.
Aðild neytenda nauðsynleg
Tillaga talsmanns neytenda í vor og tilmæli nú snúa að sveigjanlegri lausn sem stjórnvöld ákveði með málefnalegum hætti eða málsvarar neytenda komi að á jafnræðisgrundvelli ásamt kröfuhöfum. Útilokað er að dómi talsmanns neytenda að fela bönkum og öðrum lánveitendum sjálfdæmi um hvort, hvernig og gagnvart hverjum beri að færa niður skuldir.
Nú loks deilt um hvernig – en ekki hvort…
Þróun undanfarna daga virðist þó benda til þess að ekki sé lengur deilt um hvort koma eigi til móts við skuldara íbúðarveðlána, bílalána og annarra neytendalána – heldur með hvaða hætti og gagnvart hverjum. Að mati talsmanns neytenda rímar sú staða vel við tillögu hans og tilmæli sem lúta að málsmeðferð en ekki tiltekinni niðurstöðu enda hefur hann ekki aðhyllst flata niðurfærslu skulda heldur var samkvæmt tillögunni (bls. 4) gert ráð fyrir mismunandi niðurstöðu eftir mismunandi hópum og þá fyrst og fremst eftir
-
tegund láns,
-
tímasetningu lántöku og
-
atvikum sem síðar komu til.
Einnig var lagt til að heimilt yrði að líta til fleiri atriða. Efniságreiningur virðist þó enn milli þeirra sem aðhyllast almennar lausnir og stjórnvalda um hvort miða eigi við neytendasjónarmið á borð við forsendubrest, tjón og sanngirnisreglur eins og þegar aðrar hamfarir – svo sem jarðskjálfti – veldur tjóni eða hvort miða eigi samræmdar aðgerðir fyrst og fremst við hvort skuldari geti greitt.“
Rita ummæli