Þriðjudagur 27.03.2012 - 15:22 - 5 ummæli

ÍLS gegn lántakendum í vanda?

Greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa lengstum miðað að því að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Þar hefur frysting lána hjá Íbúðalánasjóði í allt að 3 ár verið afar mikilvægt úrræði og orðið til þess að hjálpa mörgum fjölskyldum út úr greiðsluerfiðleikum án þess að missa húsnæðið sitt.

Árangur greiðsluerfiðleikaaðstoðar Íbúðalánasjóðs var greindur í BS ritgerð Guðrúnar Soffíu Guðmundsdóttir í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri árið 2008.  Í úrdrætti BS ritgerðarinnar segir ma:  “

„Í þessu lokaverkefni er skýrsluhöfundur að rannsaka hvort greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs sem er í boði fyrir lántakendur skili tilætluðum árangri…

… Loka niðurstaða rannsóknarinnar var sú að árið 2007 voru 79% af þeim sem sóttu um greiðsluerfiðleikaaðstoð í skilum með sín lán og hafði sá hlutur aukist úr 70% árið 2002. Má það teljast vel ásættanlegt fyrir Íbúðalánasjóð að greiðsluerfiðleikaúrræði skili árangri upp á 79%.“

Eitt grundvallaratriði árangurs frystingarleiðarinnar var sú að þar sem afborganir og vextir sem hefði átt að greiða á frystingartímabilinu var bætt við höfuðstól íbúðalánsins um hver áramót þá skilgreindi bæði Íbúðalánasjóður og Ríkisskattstjóri að vextir ársins hefðu verið gerðir upp.

Á grundvelli þessa hafa lántakendur Íbúðalánasjóðs alltaf fengið vaxtabætur. Enda takmörkuð hjálp í frystingu láns ef vaxtabætur tapast.

Nú vill Íbúðalánasjóður breyta þessari hefðbundnu skilgreiningu og það í trássi við Ríkisskattstjóra!!! 

Stefna Íbúðalánasjóðs virðist því vera að draga verulega úr vægi þess mikilvæga greiðsluerfiðleikaúrræðis sem frysting lána hefur verið gegnum tíðina. Greiðsluerfiðleikaúrræði sem hefur reynst almenningi á Íslandi afar vel fram að þessu.

Held ég verði enn einu sinni að rifja upp lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs eins og það er skilgreint í 1. grein laga um húsnæðismál:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Jóna Jóns

    Frysting í 3 ár!!!!!!! alger munaður – aðrir hafa verið að frysta í 6 mánuði til 1 ársog Drómi ekkert!!!

    Mismunun á skuldurum er algerlega óásættanleg.

  • Sigurður

    frysting er skammtímalausn og hefur sína kosti og galla, er það ekki svo að lánið safnar vöxtum á meðan og eftir frystinguna er það búið að hækka og skellur á fólki með meiri greiðslubyrði eftir frystinguna?

  • Hallur Magnússon

    @Sigurður. Það er síðan unnt að lengja í láninu til að lækka greiðslubyrðina. Frysting er engin töfralausn en hefur hjálpað afar mörgum til að halda húsnæðinu sínu.

    Ef það verður komið i veg fyrir að fólk sem er með lán í frystingu fái vaxtabætur þá er úrræðið ónýtt.

  • Hallur, ég skil alveg túlkun ÍLS, en er eins og bæði þú og RSK ekki sammála henni. Ég held að ÍLS misskilji þann þátt að skilmálabreyting telst greiðsla á vöxtum, en vanskil ekki. Lagabreytingunni var ætlað að koma í veg fyrir að þeir sem eru í vanskilum fái vaxtabætur fyrir vexti sem ekki hafa verið greiddir og eru ekki heldur greiddir síðar. Það kemur skýrt fram með grein 5.3 í leiðbeiningum með skattframtalinu að skilmálabreyting, sem felur í sér að áður ógreiddir vextir eru lagðir ofan á höfuðstól, telst vera fullnaðargreiðsla á vöxtunum.

    Úr grein 5.3:
    Skuldbreyting vegna vanskila – frysting láns – frestun

    Sem stofn til vaxtabóta teljast gjaldfallnir vextir og verðbætur sem greiddar voru á árinu. Sé samið um breytingu á skilmálum láns sem er í vanskilum, með því að breyta vanskilunum í nýtt lán, telst sá hluti vanskilanna, sem eru vextir og verðbætur, til gjaldfallinna og greiddra vaxtagjalda þegar þeim er bætt við höfuðstól lánsins, ef það er á sama ári og þau gjaldféllu. Sama á við þegar lán er fryst eða greiðslum frestað, til dæmis með greiðslujöfnun, ef það er gert með þeim skilmálum að hækka höfuðstól lánsins árlega sem nemur frestuðum greiðslum. Sá hluti frestaðra greiðslna sem eru vextir og verðbætur teljast sem vaxtagjöld þegar þeim er bætt við höfuðstól lánsins.

  • Hallur Magnússon

    Það sem ég er hugsi yfir er það viðhorf sem verður til þess að ÍLS ákveður að breyta túlkun sinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur