Föstudagur 30.03.2012 - 08:01 - 9 ummæli

Borgar sig að spara?

Styrmir minn situr nú með smá fúlgu fjár eftir vel heppnaða fermingu og veltir fyrir sér hvað hann skuli gera við féð. Drengurinn er skynsamur og þótt hann vilji nota hluta fjárins strax þá ætlar hann að geyma hluta formúunnar til síðari tíma. Styrmir ætlar að spara.

Þetta gladdi mig í fyrstu og ég fór léttur í lund niðrí MP banka til að stofna reikning fyrir Styrmi minn. En þegar ég sá „sparnaðarkostina“  runnu á mig tvær grímur. Eftir að haft gegnum árin predikað um gildi sparnaðar þá sá ég strax að ég gat ekki mælt með því við fermingardrenginn að hann skyldi „spara“ til lengri tíma með því að leggja fermingarpeninganna inn á „sparnaðarreikning“.

Ástæðan er einföld. Féð mun brenna upp á verðbólgubálinu – alveg eins og sumarhýran mín úr sveitinni sem lögð var inn í formi dilks í KB Borgarnesi á hverju hausti hvarf eins og dögg fyrir sólu á sínum tíma.

Í dag er verðbólgan rúm 6%.  Ársvextir óverðtryggðra sparireikninga eru frá 3,30% ef binding er einn mánuður upp í 3,95% sé binding 18 mánuðir.  Styrmir minn tapar fénu sínu á þeirri neikvæðu ávöxtun.

En sem betur fer hefur Styrmir annan valkost. Hina illræmdu verðtryggingu!

Með því að festa peningana sína í 3 ár þá halda þeir verðgildi sínu og ávaxtast um 1,70% á ári.  Það er ávöxtun upp á 1700 krónur á ári fyrir 100 þúsund kallinn!  Styrmir nær að mjaka þessari ávöxtun í 1,90% ef hann bindur fermingarpeningana sína í 5 ár. Það gerir 1900 krónur á ári.

En – þökk sé verðtryggingunni – þá brenna peningarnir ekki upp á verðbólgubálinu – eins og á óverðtryggðu reikningunum.

En hversu lengi verður það?  Er ekki mantra dagsins að afnema verðtrygginguna? Hver er staða Styrmis mín þá og fermingarpeningana hans?

Það var stoltur og ánægður faðir sem gekk inn í MP banka í gær. En það kom niðurbrotinn og hugsi pabbi út.  Hvernig á ég að skýra fyrir Styrmi að það borgi sig bara alls ekki að spara?

Sem betur fer er Styrmir bráðvelgefinn strákur og mun skilja stöðuna. En þeir tímar þar sem predikerað er að sparnaður sé dyggð – þeir tímar eru liðnir á mínu heimili.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Magnús Birgisson

    Ég held að þú verðir aðeins að líta í kringum þig þegar þú segir að 1,7% raunvextir af sparireikning með baktryggingu ríkisins sé léleg ávöxtun því hún þætti nú bara ágæt alls staðar annarsstaðar. Þetta eru breytilegir vextir á þeim tímum þegar vextir eru „lágir“ á Íslandi en fara hækkandi, og bætast ofan á verðtrygginguna þannig að í raun skella næstum því 8000 krónur inná reikninginn í árslok….ekki 1700 krónur.

    Ætli sambærilegt vextir erlendis séu ekki í kringum 0,5% í dag, þ.e. ef vertryggt sparnaðarform finnst, þannig að þetta er ríflega þreföld raunávöxtun á við það sem finnst erlendis….

    Þeir tímar eru liðnir, og koma vonandi aldrei aftur, að allt undir 10% er bara móðgun við sparifjáreigendur.

  • Hallur Magnússon

    Magnús. Ég bendi einmitt á að verðtryggingin – sem margir bölva og vilja burt – er eini raunhæfi kosturinn fyrir Styrmi ef hann ætlar að spara. En í hans tilfelli er ávöxtunin það lág þrátt fyrir það að það er erfitt að rökstyðja sparnað. Þess vegna verður umræðan væntanlega hvernig skynsamlegast er að verja fénu.

    Óverðtryggða leiðin sem flestir vilja dásama í dag er hins vegar út úr myndinni.

    Sorrý.

  • Guðmundur Ingi

    Varðandi þessar ávöxtunartölur 1700 og 1900 kr, áttu ekki eftir að reikna með fjármagnstekjuskatti og jafnvel einhverjum eignaskatti af þessu ?

  • Þessir óverðtryggðu vextir eru nú ástæðan fyrir því að bönkunum er alveg sama þótt þeir fái ekki jákvæða raunvexti á óverðtryggð fasteignalán sem þeir eru nú að bjóða upp á. Þeir hirða bara vaxtamuninn milli inn- og útlána og er nokk sama um raunvexti.

    Annars vil ég einnig benda þér á Hallur að það er enginn sem telur það skynsamlegt að afnema verðtryggingu með öllu. Umræðan snýst um lán til einstaklinga, hvort þau eigi að vera verðtryggð eða ekki.

    Andsvarið við afnám verðtryggingu lána til einstaklinga er venjulega að þá væri ekki a) hægt að bjóða upp á verðtryggða innlánsreikninga og b) ekki væri hægt að verðtryggja lífeyri.

    En bæði a) og b) ætti að vera leyst með verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Sannleikurinn er nefnilega sá að 80% af útistandandi ríkisskuldabréfum eru óverðtryggð og 20% verðtryggð. Hlutföllin ættu að vera þveröfug; 80% ættu að vera verðtryggð. Á meðan eru 84% útlána heimila verðtryggð.

    Séu verðtryggð ríkisskuldabréf gefin út í stórauknum mæli í stað óverðtryggðra er minnsta mál að bjóða upp á verðtryggða innlánsreikninga og verðtryggja lífeyri.

    Það á að halda í verðtryggingu þar sem (efnahagsleg) áhrif hennar eru jákvæð. Það eru þau ekki í tilviki neytendalána, a.m.k. eins og framkvæmd verðtryggingar er í dag.

  • Hallur Magnússon

    Ólafur.

    Íbúðabréf Íbúðalánasjóðs eru ríkistryggð bréf. Þau eru öll verðtryggð ot til allt að 40 ára.

    Reyndar var ein ástæða breytinga á skuldabréfaútgáfu ÍLS 2004 sú að ríkistryggð íbúðabréf legðu vaxtagólfið á langa verðtryggða hluta skuldabréfamarkaðarins í ISK en óverðtryggð skammtímalán á stutta endanum.

    Menn hafa reyndar gleymt því ef marka má umræðu um íslensku krónuna og skuldabréfamarkaðinn.

  • stefán benediktsson

    Svo eru það alltaf utanborðsmótorarnir!

  • Ég veit allt um það, Hallur, að HFF bréfin eru verðtryggð. En þau eru ekki ríkisskuldabréf þótt þau séu tryggð af ríkissjóði.

    Stór munur þar á og ástæðan fyrir því að ríkissjóður getur sleppt því að bóka 900ma.kr. ábyrgð sína á Íbúðalánasjóði á efnahagsreikning sinn. Sú er raunin þótt allir viti það sem vilja viðurkenna að sú ríkisábyrgð á eftir að koma í kollinn á skattgreiðendum framtíðarinnar, líkt og mun gerast í tilviki ríkisstryggingar á LSR og LH o.fl.

    Svo má ekki gleyma því að þótt ríkissjóður ábyrgist greiðslugetu Íbúðalánasjóðs þá er það ekki fyrsta tryggingin að baki HFF bréfanna heldur er það húsnæðið sjálft sem Íbúðalánasjóður fjármagnar kaup á. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að Íbúðalánasjóður reynir jú fyrst að ganga að veðinu (húsnæðinu) og selja það áður en hann neyðist til að fara til ríkissjóðs þegar peninga vantar í kassann.

    Þannig að það er nú bara einfaldlega þannig að það vantar verðtryggð ríkisskuldabréf á skuldabréfamarkaðinn. Ef útgáfa á þeim er aukin geta lífeyrissjóðirnir keypt þau bréf og haldið áfram að verðtryggja lífeyri. Sonur þinn getur á sama tíma fundið verðtryggða sparnaðarkosti (verðtryggð ríkisskuldabréf) án þess að þurfa að heimta verðtryggingu á lánum til einstaklinga (verðtryggð íbúðalán).

  • Eftir hrunið 2008 fór ég í landsbankan og athugaði innlánsreikninga mína, sem ég átti þar. Þar mætti ég starfsmanni sem segir við mig, veistu ekki að þegar þú setur peninga þína inn í bankan þá ertu að taka mikla áhættu !

    Ertu búinn að segja þínum þetta ?

    Vextir , hvað er það ?

  • Á krepputímum á ekki að borga sig að geyma neyslu til seinni tíma. Einmitt með að vera með neikvæða raunvexti er hægt að fá fólk til að nýta tekjur sínar í að halda fólki í vinnu.

    Annars er geggjun að hvetja fermingarbörn til sparnaðar. Á árunum sem eru framundan munu þau alltaf auka það mikið við sig í tekjuöflun að peningurinn sem settur er til hliðar í dag er miklu stærri neysluskerðing en peningurinn jafnvel með góðum vöxtum verður virði fyrir þeim nokkrum árum seinna.

    Sjálfur man ég eftir að hafa keypt mér spariskýrteini ríkissjóðs sem 10 ára strákur sem þá voru miklir peningar fyrir mér. Fimm árum seinna hafði ég fengið óvenju góða ávöxtun og get tekið út 10 þúsund krónur sem voru þá þegar orðið af smáaurum, ekki vegna verðbólgu heldur vegna þess að aðgengi mitt af fé hafði stóraukist.

    Ég myndi hvetja hann til að nota peningana í að fara í einhvert ferðalag og kynnast landi sínu eða umheiminum. Ég stórefa að hann geti ávaxtað peningana sína betur í bankakerfinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur