Fjórðungi bregður til fósturs. Það eru gömul sannindi og ný. Því blóðbönd eru ekki allt.
Ég er svo ríkur að hafa átt þau „Hönnu ömmu“ hans afa Bóbós í Hafnarfirðinum og „Afa Braga“ hennar ömmu Þóru. Öðlingsfólk sem löngu fyrir mína tíð urðu stjúpforeldrar hennar mömmu minnar. Afi Bragi með því að kvænast móðurömmu minni og Hanna amma með því að giftast móðurafa mínum.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að mér fannst svo mikið vanta þegar nöfnin þeirra Jóhönnu Sigríðar Andrésdóttur og Braga Ólafssonar birtust ekki í ættartöflunni minni sem birtist í Mogganum um helgina í tilefni af 50 ára afmælinu mínu. Því fjórðungi bregður til fósturs og mér þykir svo óskaplega vænt um þessa ömmu mína og þennan afa minn – sem ekki eru afi minn og amma samkvæmt skilgreiningu blóðbanda – en hafa samt alla tíð verið jafn mikil amma og afi og það yndislega fólk sem að mér standa genatískt sem afar og ömmur!
Afi Bragi er ennþá nánast í fullu fjör með henni ömmu Þóru Sigríði Jónsdóttur í þjónustuíbúðum aldraðra hjá Eir í Mosfellsbæ – en amma hélt upp á 90 ára afmælið sitt í mars.
Hanna amma elskuleg dó hins vegar í haust á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún hafði – eins og langamma Rannveig á sínum tíma – dvalið síðustu æviárin sín. Afi Bóbó – Vigfús Sigurjónsson – lést hins vegar langt um aldur fram fyrir nær 30 árum.
Langar að birta hér minningargreinina sem ég skrifaði um Hönnu ömmu þegar hún lést – svona til að skýra af hverju mér þykir miður að nafnið hennar – og nafnið hans afa Braga – er ekki að finna í ættartrénu í Mogganum um helgina – í tilefni 50 ára afmælisins mín:
Það var æðislegt að fá að gista hjá afa Bóbó og Hönnu ömmu á Austurgötu 40 í Hafnarfirði. Reyndar algert ævintýri! Langafi Sigurjón og langamma Rannveig í jarðhæðinni í fyrstu minningum – og síðan bara langamma Rannveig eftir að langafi dó 1969. Langamma löngu síðar.
Hrjúfi en elskulegi afi Bóbó á efri hæðinni – og í kjallaranum innanum öll verkfærin, grásleppunetin og allt það forvitnilega sem þar var að finna. Og hlýja brosmilda Hanna amma sem alltaf sá það broslega og skemmtilega í tilverunni.
Amma Hanna sem að kvöldinu leiddi litla drenginn hennar Hrefnu hans Bóbó sem var að gista hjá afa og ömmu í Hafnarfirði að spennandi bókahillunni. Á mildilegan hátt hjálpaði Hanna amma stráknum að velja góða bók til að taka með í rúmið eftir skemmtilegt kvöld – þar sem kúrt var á gamla þurrkloftinu fyrir framan sjónvarpið – með fulla sælgætisskálina fyrir framan okkur.
Sælgætisskálin tóm. Strákurinn alsæll og ánægður. Afi Bóbó stundum á vakt í hliðinu hjá Ísal. En Hanna amma með afastrákinn hans Bóbó að skoða allar spennandi bækurnar. Með mildum róm og kímni talað með virðingu um hverja bók fyrir sig. Stundum lesið ljóð. Enda alin upp í bókabúð á Sigló. Þar sem afi Bóbó sigldi inn með síldina, fann Hönnu ömmu og tók hana með sér til Hafnarfjarðar. Rómantískt upphaf í huga lítils drengs sem fær að gista hjá afa og ömmu á Austurgötunni.
Núna hefur Hanna amma yfirgefið þennan heim. Farin að gantast við afa Bóbó á Austurgötu 40 hinum megin við móðuna miklu. Eða kannske á Jófríðarstaðarveginum þar sem þau bjuggu fyrri hluta búskapartíðar sinnar – fyrir mitt minni.
Sé fyrir mér kímnina í augunum hennar Hönnu ömmu og hlýtt brosið. Sé hvernig hrjúfi afi Bóbó bráðnar allur og ljómar eins og sólin yfir því að fá Hönnu sína aftur, rauðbirkinn, rauðhærður og ótrúlega myndarlegur.
Ég er svo ríkur að hafa átt afa Bóbó og Hönnu ömmu sem var að yfirgefa þennan heim!
Og hvernig ósköpunum stendur á því að við getum ekki gert þetta land almennilegt fyrir alla? 🙂
Þú ert frábær Hallur og til hamingju með daginn, þakka hlý orð í þessari grein. Kv. Sigurjón Rauðhaus.