Laugardagur 18.08.2012 - 08:59 - 15 ummæli

Bjórinn í búðirnar?

Ég er afar stoltur af þeim vinum mínum og ættingjum sem misst hafa fótanna gagnvart Bakkusi en hafa staðið upp, rifið af sér fjötrana og halda nú áfram betra lífi – einn dag í einu.

Ég finn til með þeim vinum mínum og ættingjum sem misst hafa fótanna gagnvart Bakkusi og ekki hafa náð að snúa vörn í sókn.

Allt þetta ágæta fólk á öllum aldri hefur lent í erfiðleikum með áfengi þótt það hafi þurft að gera sér ferð í áfengisútsölur ÁTVR til að ná sér í brjóstbirtuna. Samt lenti það í erfiðleikum með áfengisneysluna.

Mér var hugsað til þessa í Kiwi þar sem ég var að sækja mér mjólk út á morgunkornið.

Því meira að segja í Noregi – þar sem allt er bannað nema það sé sérstaklega leyft – er bjór með allt að 5% áfengisinnihaldi seldur í matvörbúðum.

Það er kannske misskilningur. En þótt ég hafi skimað hægri vinstri eftir öllum norsku ölkunum eftir búðarferðina í Kiwi þá sýnist mér ég ekki sjá hlutfallslega fleiri virka alkóhólista í Noregi en á Íslandi. Og þeir voru alls ekki meira áberandi en þegar ég bjó síðast í Noregi árið 2006 þegar bjór sterkari en 3,5% var einungis seldur í Vinmonopolet!

Íslensku vínbúðirnar eru margar afar góðar búðir sem bjóða faglega þjónustu. Ekki dettur mér í hug að kvarta yfir þeim. En er það virkilega nauðsynlegt fyrir ríkið að halda utan um alla bjórsölu utan löggiltra bara og veitingahúsa með tilheyrandi kostnaði?  Er ekki nær að láta verslunina sjá um dreifingu á öli innan við 5% í styrkleika?

Ef það er hægt í Noregi án þess að áfengisbölið aukist – þá er það unnt á Íslandi. Er það ekki?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Ef það sem þú leggur til yrði leyft, þá myndi áfengisbölið aukast. Það er ég 100pct. viss um. Mesti harmleikurinn á sér stað inn í heimahúsum, og mörg börn taka skaða af, að annar eða bæði foreldri eru áfengissjúk.

  • Hallur:
    Sem gamall flokksmaður í Framsóknarflokknum, þá ættir þú nú að hafa vit til þess að bera að allt sem hefur farið úr „einokun“ hins opinbera til frjáls markaðs hefur bara leitt til hærra verð fyrir neytendur.
    Má ég minna á kostnað vegna grunnfjarskiptaþjónustu fór fyrir notendur ?
    Sem sannir græðgiskólfar, þá munu íslenskir kaupmenn ekki fara í þennan bransa nema til að græða hrikalega ?
    Hér á ekki endilega við „frelsið er yndislegt“. Aukið frelsi hefur til að mynda kostað mig sem skattgreiðanda töluverðan pening.
    Er ekki nóg komið ?

    Mætti halda að þú værir orðinn flokksbundinn í SjálfstæðirFLokkinn….

    • Hvernig hefur grunnkostnaður á fjarskiptaþjónustu hækkað síðan Síminn var einkavæddur?

  • Sammála, bjór og léttvín í matvöruverslanir það leiðir til betri þjónustu. Ég ætla hins vegar ekki að andmæla því að það getur aukið neysluna og hækkað verðið.

  • Steinþór

    Ertu viss um að það hafi orðið einhver breyting í Noregi á lögum um bjórsölu eins og skilja má af pistlinum hjá þér? Nú eru lögin þannig að það má ekki selja bjór sem er sterkari en 4,75% nema í Vinmonopolet og þannig var það líka fyrir 15 árum þegar ég var í Noregi. Varla hafa þeir verið að hræra í þessu fram og tilbaka í millitíðinni?

  • Ég hefði nú haldið matvöruverslanir séu í harðri samkeppni þ.e. Bónus, Krónan o.fl. Það heldur verði niðri þ.e. samkeppnin. Má ætla að einhver önnur lögmál gildi um bjór og vín? Auðvitað á að leyfa sölu á þessu í verslunum eins og t.d. í Noregi. Að halda því fram að ríkið eigi að hafa einokun og þá verði verð lágt er bara rugl. Samleppni á að vera til staðar og hún á að vera heilbrigð. Ríkið á að fylgja því eftir að svo sé, ekki að vasast í rekstri eins og áfengissölu.

  • Sælir.
    Bjór er nú þegar komin í búð.
    Ég versla minn bjór á sunnudögum ef mig langar í.
    Það er að vísu bara ein tegund en það dugar ef mann langar í nokkra.

    Þessi búð er opin alla daga. Hún er stór og selur mikið af húsgögnum.
    Ódýr matur hjá þeim og bjór.

  • Ásdís Jónsdóttir

    Ég hef ekki gleymt því þegar ég sá einu sinni undirskriftarlista í sjoppu til stuðnings því að opna áfengisútsölu í nágrenninu og þekkti þar undirskriftir ýmissa sem ég kannaðist við. Þar voru nöfn fólks sem hafði lent í ýmsum hremmingum vegna drykkju sinna og annarra og fyrir það fólk hefði verið best að næsta áfengisútsala væri ekki nær en í Auckland á Nýja-Sjálandi. Mér finnst oft að fólk geri sér ekki nokkra einustu grein fyrir því hvað áfengisneysla kostar einstaklinga og þjóðfélagið í heild og sé tilbúið að samþykkja afar háan fórnarkostnað annara svo það geti sjálft „drukkið í hófi“ eins og það heitir.

  • Þórhallur

    Sammála Ásdísi hérna. Einnig eru íslensk börn með verstu tennur á norðurlöndum. Legg til að við skerðum aðgengi barna að sætindum með ríkisrekinni sjoppu sem er aðeins opin til 6 á virkumdögum og helst ekki um helgar. Feitt lambaket og smjör má svo fá sömu meðferð. Þá ættu allir að vera ánægðir og ekkert að fara sér að voða.

  • Ásdís Jónsdóttir

    Þegar ég heyri að maður undir sterkum áhrifum af grænum Tópas hafi ekið bíl sínum á mann á gangstétt og orðið honum að bana mun ég verða þér sammála Þórhallur en ekki fyrr! Stundum er gott að hugsa sig um áður en maður skrifar, þú sannaðir mál mitt með afgerandi hætti og takk fyrir það.

    • Ég sé ekki að offita sé minna vandamál en áfengisneysla á Íslandi. Þannig ég sé ekki neitt að því að stýra því hvenær og hvar fólk getur sett sykur ofan í sig, rétt eins og með áfengið. Sjálfur er ég þó gegn stýringu á báðum hlutum.

  • Hallur,

    Er það út frá hugsjónum um betra mannlíf sem þú skrifar svona pistil, eða færðu borgað fyrir það á einhvern hátt?
    .
    Nú er að koma fram frumvarp í þinginu sem á að koma skikki á áfengisauglýsingar.

  • Sæmundur Halldórsson

    Hjartanlega sammála Ásdísi og Þórhalli. En það er ekki nóg að skerða aðgengi að sykri og fitu eins og gert er með alla áfenga drykki hér á landi. Það má ekki gleyma því að leggja á sykur og fitu ofurtolla og álögur sem fimm- til tífalda slíkar vörur í verði. Þá fara Íslendingar kannski aftur að líkjast því fólki sem sést á 30-40 ára gömlum ljósmyndum, þar sem varla sést feitlagin manneskja. Við sem höfum komið út fyrir landssteinana vitum líka að í löndum eins og Danmörku og öllum þar fyrir sunnan, þar sem hver sem hefur aldur til getur keypt allt áfengi í matvöruverslunum, liggur útúrdrukkið fólk eins og hráviði fyrir hunda og manna fótum og menn æla í kross í matarboðum. Með áfenginsstefnu sinni er Ísland, eins og á öllum öðrum sviðum, fyrirmyndin sem vekur aðdáun um víða veröld, svo sem sjá má af lýsingum erlendra ferðalanga sem hingað hafa flækst.

  • vá, hér safnast saman þvílíkir forræðishyggjupúkar og þumbaldar og láta ljós sitt skýna. Auðvitað á að leggja niður þessu brjáluðu einokun Ríkisins. Það er ekkert verið að tala um að fylla allar búðir og sjoppur af vodka og rommi..

    Ríkið ætti að veita leyfi til kjörbúða og í sjoppur en það leyfi ætti að vera háð ströngum skilyrðum. Til dæmis um aldur þeirra sem þar vinna og selja vöruna, og þetta ætti að vera leyfi sem ætti að vera auðvelt að missa við minnstu brot.. Ekki eins og er t.d með hitt ógeðið – tóbakið. Þar komast sjoppur upp með að selja krökkum alveg endalaust með smá skömmum og stundum sektum..

  • Það yrði stórt skref afturábak að leyfa bjór í verslunum. Bjór og annað áfengi er ekki það sama og önnur matvara. Áfengi er stórt félagslegt vandamál. Þess vegna væri slæmt ef áfengi væri stillt upp við hliðin á annarri matvöru. Þá væri skilaboðin til barna og ungmenni að engin greinarmunur væri á áfengi og mat.
    Hinsvegar væri alveg mögulegt að setja ströng skilyrði ef áfengissala yrði gefin ,,frjáls“. T.d. að verslun þyrfti að hafa áfengi í sérstöku rými, starfsmenn sem annast sölu og áfengi yrðu að vera tvítug að aldri, og ströng viðurlög gildi ef verslunareigandi berist brotlegur. Ég er bara þeirrar skoðunar að einfaldara sé að ríkið sjái um þetta. Það sem vantar er sterkt aðhald í kringum reksturinn, þannig að ríkið sé ekki að fara illa með þessa peninga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur