Það er eðlilegt að ríkisstjórnin vilji þakka sér árangurinn í þeim atvinnugreinum þar sem uppgangur hefur verið og tekjur í íslenskum krónum aukist. En staðreyndin er sú að hrun íslensku krónunnar er fyrst og fremst ástæða tekjuaukningarinnar – ekki sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þá er ég ekki að gera lítið úr aukinni endurgreiðslu kostnaðar vegna erlendrar kvikmyndagerðar í anda Finns Ingólfssonar sem lagði grunn að uppbyggingu kvikmyndagerðar á Íslandi á sínum tíma og núverandi ríkisstjórn hefur lagt aukinn kraft í.
Þá er ég heldur ekki að gera lítið úr ferðamannaátaki aðilja í ferðaþjónustu með tilstyrk ríkisstjórnarinnar.
En staðreyndin er sú að þótt þessar aðgerðir skipti máli þá er stóraukinn fjöldi ferðamanna fyrst og fremst vegna hruns krónunnar. Verðlag á Íslandi er hlægilega lágt í kjölfar hruns krónunnar miðað við verðlag víða annars staðar. Helgarferð til Íslands með öllu er kostar ekki meira fyrir íbúa Osló en þokkalegt skrall á laugardegi í heimabænum. Það er helst bjórinn á Gardemoen sem telur í Íslandsferðarbuddunni þeirra.
Norðmenn koma ekki til Íslands vegna aðgerða ríkisstjórinnar heldur vegna hrunkrónunnar.
Það sama má segja um stóraukin umsvif erlendra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi. Auðvitað telur endurgreiðsla ríkisins. En meginástæðan er sú að vegna hrunkrónunnar er kostnaður á Íslandi hlutfallslega lægri en annars staðar auk þess sem erlendir kvikmyndagerðarmenn vita að þeir geta treyst á faglegheit íslensks kvikmyndagerðarfólks.
Ef við lítum á hagnað íslenskrar útgerðar þá byggir hún fyrst og femst á hruni íslensku krónunnar. Enda hefur ríkisstjórnin unnið gegn útgerðinni með auknum álögum.
Það sama á við stóriðjuna. Aukinn hagnaður þar er vegna hruns krónunnar. Enda hefur ríkisstjórnin leynt og ljóst unnið gegn íslenskri stóriðju.
Þessi jákvæðu áhrif hrunkrónunnar á ofangreindar atvinnugreinar eru samt einungis önnur hlið peningsins.
Hin hlið hrunkrónunnar er erfið staða almennings. Kaupgeta almennings hrundi með hrunkrónunni. Innfluttar vörur hafa hækkað í takt við hrunið meðan launin hafa staðið í stað eða lækkað. Atvinna minnkað. Álögur ríkisstjórnarinnar aukist. Auknum jöfnuði náð með því að skerða kjör millistéttarinnar og þrýsta henni niður og nær lágtekjuhópunum í stað þess að bæta kjör þeirra sem minna mega sín.
Ríkisstjórnin getur því ekki barið á brjóst sér og þakkað góðan árangur á þann hátt sem hún reynir þessa dagana. Það er rétt að hún hefur gert eitt og annað þokkalegt – en auknar tekjur atvinnuveganna í íslenskum krónum er bara alls ekki ríkisstjórninni að þakka – heldur hrunkrónunni.
En vandamálið er að ekkert bendir til að núverandi stjórnarandstaða sé eða hafi verið skárri kostur.
Það er meginvandamál íslensku þjóðarinnar.
Rita ummæli