Það verður hörð barátta innan Framsóknarflokksins um efstu sæti framboðslista víðast hvar um landið. Höskuldur Þórhallsson alþingismaður Norðausturkjördæmis ætlar ekki að gefa formanninum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni efsta sæti listans eftir baráttulaust. Þótt að öllu jöfnu ætti formaður flokksins að eiga tryggt það sæti sem hann sækist eftir þá er fjarri því að Sigmundur fái leiðtogasætið í Norðausturkjördæmi á silfurfati.
Reyndar tekur Sigmundur verulega áhættu með því að taka slaginn við Höskuld því ef sá slagur tapast þá er Sigmundi varla sætt áfram sem formaður flokksins.
Svo fremi sem formaðurinn hafi ekki tryggt að um uppstillingu verði að ræða eins og hann tryggði í Reykjavík fyrir síðustu Alþingiskosningar – þá er næsta víst að það verða mikil átök innan flokksfélaganna þegar valdir verða fulltrúar á kjördæmisþing. Því allar líkur eru á að forval verði meðal fulltrúa á kjördæmisþingi – og mögulega varamanna þeirra.
Það er alls ekki gefið að Sigmundur Davíð nái að tryggja sér meirihluta þeirra fulltrúa.
Það er nokkuð ljóst að flokksforysta Framsóknarflokksins mun ekki opna á forval meðal allra flokksmanna í Norðausturkjördæmi eins og eðlilegast væri í lýðræðislegum stjórnmálaflokki því það kallar á þá hættu að pólitískir andstæðingar utan Framsóknarflokksins gengju í stórum hópum tímabundið í Framsóknarflokkinn til að fella formanninn.
Eygló Harðardóttir dugmikill ritari Framsóknarflokksins ætlar að yfirgefa Suðurkjördæmi – væntanlega vill hún ekki taka slaginn við Sigurð Inga Jóhannsson sem virðist orðinn mjög náinn Sigmundi Davíð og stefnir á varaformannsembættið. Eygló hyggst bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi þar sem Siv Freiðleifsdóttir hættir.
Við fyrstu sýn mætti telja að Eygló ætti 1. sætið öruggt. Því fer hins vegar fjarri. Ég spái því að Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarmanna í Kópavogi muni bjóða sig fram í 1. sæti í kjördæminu. Ómar er afar öflugur í prófkjörum og á mjög stóran stuðningsmannahóp í Framsóknarfélögunum í Kópavogi. Ég spái því að flokksforystan muni ekki hafa styrk til þess að tryggja uppstillingu í Suðvesturkjördæmi gegn vilja Ómars og stuðningsmanna hans. Eygló er því að taka mikla áhættu eins og Sigmundur Davíð.
Í Norðvesturkjördæmi verða væntanlega líka nokkur átök. Skagfirðingurinn Gunnar Bragi Sveinsson hefur gefið út að hann vilji leiða listann. Mögulega mun enginn fara á móti honum þótt það sé líklegt.
En í því kjördæmi eru tveir ungir, metnaðarfullir bændur af Vesturlandi sem neyðast til þess að takast hart á hvort sem þeim er það ljúft eður ei. Þetta er hinn knái formaður landssamtaka sauðfjárbænda, varaþingmaðurinn Sindri Sigurgeirsson og alþingismaðurinn Ásmundur Einar Daðason.
Mögulega munu þeir skora Gunnar Braga á hólm. En ljóst er að annar þeirra verður að víkja niður listann eða draga sig í hlé – því ekki er unnt að hafa þá hlið við hlið svo líkir sem þeir eru – auk þess sem ekki mun líðast að hafa þrjár karlmenn í röð í efstu sæti listans. Það er hætt við að bændaglíman milli þeirra verði hörð.
Besta lausnin fyrir Framsókn væri náttúrlega að fá þriðja bóndann á listann í staðinn fyrir strákana – Sigrúnu Ólafsdóttir í Hallkelsstaðahlíð – fyrrum varaþingmann Framsóknar, núverandi formann Félags tamningarmanna auk þess að hafa setið í stjórnum Lansdssambands hestamanna og Hestaíþróttasambands Íslands. Hún er jafn góð þeim báðum sem tiltölulega ungur bóndi – og leysir kvennavanda Framsóknar í kjördæminu.
Þótt Framsókn sé á hröðu undanhaldi frá Reykjavík – sbr. pistil minn „Undanhald frá Reykjavík“ – þá vænti ég þess að nægir verði um hituna. Vigdís Hauksdóttir mun fá mótframboð frá frjálslyndari hluta Framsóknarflokksins – ef sá hluti flokksins er þá ennþá til eftir mikla blóðtöku undanfarin misseri. Þá er allt galopið í Reykjavík norður eftir brotthvarf formannsins þaðan.
Það verður því spennandi fyrir áhugafólk um stjórnmála að fylgjast með baráttunni innan Framsóknarflokksins á komandi vikum og mánuðum.
Sindri Sigurgeirsson, fv. formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og alþingismaðurinn Ásmundur Einar Daðason
Takk fyrir þetta Siggi!
Vont þetta með Sigurgeir – vitandi betur. Hvenær hætti Sindri sem formaður?
Hitt með kommúnistan úr Dölunum – það nafn skolast alltaf til!
Verður ekki að skoða flótta Sigmundar norður í ljósi borgarstjórnarkosninga 2010.
Einar Skúlason, þá samherji Sigmundar, var sendur fram í borginni til að eyða spillingarorðinu sem fór af Framsókn eftir Don Alfredo og Binga. Það skilaði 2,7 % atkvæða bara ári eftir allgóðan sigur í þingkosningum undir forystu Sigmundar.
Einar Skúla kenndi spillingarorðinu um hrakfarirnar og sagði: „Fólk á erfitt með að fyrirgefa flokknum.“
Síðan endaði allt ári síðar í vinslitum og úrsögn Einars úr flokkum vegna baráttu Framsóknar gegn ESB-umsókn og vaxandi þjóðernisíhaldssemi þingmanna flokksins.
Þar með var framsókn Framsóknar meðal ungra, menntaðra, hófsamra og umburðarlyndra borgarbarna í Reykjavík úr sögunni. Það var hið upphaflega fylgi Sigmundar.
Formaðurinn axlar því sín skinn eins og Útlaginn á styttu Einars Jónssonar við Hringbraut og heldur norður yfir heiðar.