Það er raunhæfur möguleiki á því að það verði ný forysta sem leiði Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu fyrir næstu Alþingiskosningar. Bjarni Benediktsson fór afar illa út úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum þótt hann hafi náð að halda 1. sæti listans. Það eru hins vegar allar líkur á því Hanna Birna Kristjánsdóttir fái góða kosningu í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Það gæti vafist fyrir Sjálfstæðismönnum að halda veikum Bjarna til streitu sem formanni þegar það blasir við að miklu sterkari leiðtogi muni leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins er í fallhættu í norðausturkjördæmi þar sem hann vill fara fram því Höskuldur Þórhallsson hefur miklu meiri stuðning í 1. sætið en flokksforystan taldi. Höskuldur gæti haft Sigmund Davíð. Formannstíð Sigmundar yrði þá úti.
Reyndar er ritari Framsóknarflokksins Eygló Harðardóttir einnig í erfiðum málum því allar líkur eru á því að hún nái ekki 1. sæti í suðvesturkjördæmi eins og hún stefndi að. Eygló ákvað að flytja sig úr suðurkjördæmi yfir í suðvesturkjördæmi þegar ljóst var að Siv Friðleifsdóttir hyggðist hætta á þingi. Willum Þór Þórsson sem einnig sækist eftir 1. sætinu er miklu sterkari í kjördæminu en Eygló. Möguleiki Eyglóar felst í því að Siv Friðleifsdóttir beiti sér fyrir hana, en Siv er með afar sterka stöðu meðal Framsóknarmanna í kjördæminu. En af hverju ætti Siv að ómaka sig fyrir flokksforystu sem setti hana meira og minna til hliðar?
Varaformaður Framsóknarflokksins Birkir Jón Jónsson hefur gefið út að hann hætti þannig að það gæti komið algerlega ný forysta Framsóknarflokksins fyrir kosningar!
Hvað Samfylkinguna varðar þá er ljóst að þar verða formannsskipti. Árni Páll Árnason er þar með mjög sterka stöðu etir að hafa sigrað örugglega í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi þrátt fyrir að núverandi flokksforysta Samfylkingarinnar og Hafnarfjarðararmurinn hafi beitt sér gegn honum. Það verður spennandi að sjá hvern Jóhönnuarmurinn í Samfylkingunni muni draga fram til að berjast við Árna Pál í formannsslagnum.
Ef þetta gengur eftir mun Steingrímur J. Sigfússon vera eini núverandi formaðurinn sem leiðir flokk sinn í komandi kosningum.
Ég hugsa að þetta sé rétt hjá þér Hallur um SjálfstæðisFLokkinn. Hanna Birna mundi sennilega hala inn fleiri atkvæði en maðurinn sem beinlínis er alin upp til að vera formaður FLokksins.
Þótt Bjarni sé formaður er hann ekki leiðtogi. Þar skilur á milli hans og Hönnu Birnu.
——
Höskuldur gæti flutt sig í Bjarta framtíð og fellt SDG í kjördæminu.
Það er hinsvegar slæmt ef Eygló dettur út af þingi því mér hefur virst að hún sé með skynsamara fólki á þeim vinnustað sem alþingi er. Öfgalaus og málefnaleg.
Sammála því sem kemur fram hér að ofan með Eygló.
Er sjálfur ekki Framsóknarmaður og skil því ekki þau rök að Willum sé sterkari en Eygló, hún er sitjandi þingmaður, Willum hefur mest megnis setið á bekkjum á fótboltavöllum, og verið duglegur að færa sig á milli knattspyrnuliða. Ekki á ég von á því að Willum treysti á að allir fótboltamenn fjölmenni í Framsókn til að kjósa hann.
Veit ekki með þig, kannski ert þú stuðningsmaður Willum úr því að þú kýst að setja þetta svona fram en Eygló er klárlega ein að þeim þingmönnum sem hefur staðið upp úr af þeim sem nú sitja á þingi. Algerleg staðið með sínum málum, ekki látið kastljóstforingjann segja sér fyrir verkum.
Það væri mikil rangindi í því að taka fótboltaþjálfarann fram yfir sterka þingkonu, að mínu mati.
Sigfús. Það yrði mikil eftirsjá af Eygló af þingi. Sammála þér um að hún sé klárlega ein af þeim þingmönnum sem staðið hafa upp úr. En staðan er bara svona hvort sem mér, þér eða öðrum líkar betur eður verr.
Fráleitt að ætla að Sjálftæðismenn skipti um formann fyrir kosningar. Bjarni fór ekki „afar illa“ út úr prófkjörinu – en hefði þó getað komið betur út.
Ragnar Önundarson fékk nær 550 atkvæði í 1. sæti. Það er innan við 20% af fylgi formannsins. Þetta þýðir að beina andstaða innan flokks við Bjarna er um 20%. Hann getur vel unað við það.
Hitt væri mjög Framsóknarlegt að kasta besta þingmanni sínum út fyrir fótboltaþjálfara á flækingi.
Hallur býr yfir ágætri tækni í því að skapa umræðu; þeirri að kasta fram fullyrðingum sem oftast standast enga skoðun þegar að er gáð.
Að vísu hittir hann naglann á höfuðið hvað varðar Samfylkinguna en þar tekur nýr við formennskunni eftir áramót. Það verður ekki hrakið.
Sjálfstæðisflokkurinn fer fram undir forystu Bjarna Benediktssonar og þarf enginn að velkjast í vafa um það. Bent er á frekar slaka útkomu hans í prófkjörinu nýverið en niðurstaðan er engu að síður skýr. Hann hlaut 54% kosningu í fyrsta sætið og enginn þeirra sem buðu sig fram í fyrsta sætið náðu að narta í hæla hans. Eftir því sem næst verður komist er Hanna Birna sá aðili sem helst getur velgt honum undir uggum en hún hefur gefið út þá afdráttarlausu yfirlýsingu að hún ætli ekki í formannsframboð á næsta landsfundi en varaformannsembættið komi til greina.
Fréttaflutningurinn af prófkjöri Sjálfstæðisflokksins er svo kapítuli útaf fyrir sig og fer þar RUV í farabroddi. Þar var sigur Bjarna í prófkjörinu lagður að jöfnu við hrakfarir Geirs Hallgrímssonar á sínum tíma þegar hann í prófkjöri óskaði eftir fyrsta sætinu en endaði í því sjöunda og féll útaf þingi.
Og hvort sem Halli líkar það betur eða verr þá mun Sigmundur Davíð leiða Framsóknarflokkinn í næstu kosningum. Umræðan um fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksinsí Norðurlandi eystra er um margt merkileg. Ragnar og Vilhjálmur fóru gegn Bjarna í Suðvestri og Katrín fór gegn Árna Páli í sama kjördæmi og þótti ekkert tiltökumál; einfaldlega lýðræðið í hnotskurn.
En annað er uppá á teningnum þegar Framsókn á í hlut. Þar er það blásið upp sem frekju af Sigmundi Davíð að sækjast eftir fyrsta sætinu í Norðaustri þar sem Höskuldur væri þar einhvers konar erfðaprins og ætti hreinlega sætið. Nú liggur það fyrir að Birkir Jón var í fyrsta sæti listans og hættir á þingi. Sætið er því laust og sjálfsagt og eðlilegt að flokksmenn í héraði hafi um það að segja hver eigi að skipa það. Það á nefnilega enginn neitt í pólitík. Það er eðli lýðræðisins.
Engin leið er að spá um það hver úrslitin verða í Norðaustri og hvort þau koma til með að hafa áhrif á stöðu Sigmundar Davíðs. Það bíður síns tíma og Hallur verður að sýna af sér þolinmæði þótt alkunna sé að er ekki hans sterkasta hlið.
En það breytir ekki því og meiðir engan að setja fram í lokin fullyrðingu í anda Halls: Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson munu leiða næstu ríkisstjórn.