Umræðan um verðtryggð íbúðalán og flækjan við að endurreikna hin ólögmætu gjaldeyrislán er enn áberandi nú 4 árum eftir hrunið. Þeir sem tóku verðtryggð íbúðalán í íslenskum krónum finna sig svikna meðan margir þeir sem tóku gjaldeyrislán virðast frá sjónarhóli hinna verðtryggðu hafa verið skornir úr snörunni sem þeir sjálfir hanga nú í. Þá bíður hluti þeirra sem tóku gjaldeyrislán í bankakerfinu eftir því að mál þeirra klárist. Mál þeirra ennþá að velkjast í kerfinu.
Þessi staða er óþolandi.
Það sem verra er. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefði getað leyst málin á farsælan hátt á vordögum ársins 2009 ef hún hefði borið gæfu til þess að fara eftir tillögu Gísla Tryggvasonar talsmanns neytenda um að sátt yrði náð um niðurfærslu íbúðalána gegnum gerðardóm. Jóhanna gerði ekkert í málinu.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að vafra um ágæta vefsíðu Talsmanns neytenda og um Leiðakerfi neytenda – www.neytandinn.is – sem Gísli Tryggvason hafði forgöngu með að koma á fót til að auðvelda fólki í neytendamálum.
Um tillöguna má lesa hér á vef Talsmanns neytenda en tillagan hljóðaði svo:
„Lagt er til að Alþingi setji nú þegar lög sem kveði á um að allir samningar um lán til neytenda sem veitt höfðu verið fyrir 7. október 2008 – hvort sem er í íslenskum krónum eða erlendri mynt, einni eða fleiri (myntkörfu) – gegn veði í íbúðarhúsnæði, sem íslensk lög gilda um, verði teknir eignarnámi ef kröfuréttindin eru ekki þegar í eigu ríkisins. Um bætur fyrir eignarnámið fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með síðari breytingum eftir því sem við á. Þrátt fyrir 13. og 14. gr. þeirra laga skulu umráð krafna þó flytjast þegar yfir til ríkisins án tryggingar. Þrátt fyrir 14. gr. laganna skal heimilt að kveða upp úrskurð um að eignarnámsbætur skuli greiddar á lengri tíma í stað staðgreiðslu, svo sem með hliðrun eða breytingu á afborgunum, vöxtum eða öðrum skilmálum sem haldist að öðru leyti.
Þá er lagt til að allar íbúðarveðskuldir neytenda sem stofnað hefur verið til fyrir 7. október 2008 verði færðar niður eftir mælikvarða eða mælikvörðum sem lögbundinn, sérstakur gerðardómur geri tillögu um til Alþingis sem taki ákvörðun um niðurstöðu og fjármögnun með lögum í kjölfarið. Hæstiréttur skal skipa alls fimm fulltrúa í gerðardóminn.
Tveir fulltrúar í gerðardóminum skulu vera fulltrúar skuldara – tilnefndir sameiginlega af eftirfarandi samtökum neytenda:
a) Neytendasamtökunum (þar sem eru um 13.000 félagsmenn), b) Hagsmunasamtökum heimilanna (þar sem hátt í 1.400 eiga aðild) og c) Húseigendafélaginu (með um 7.500 félaga). Tveir fulltrúar í gerðardóminum skulu vera fulltrúar kröfuhafa – tilnefndir sameiginlega af eftirfarandi aðilum: a) Landssamtökum lífeyrissjóða, b) félagsmálaráðherra vegna Íbúðarlánasjóðs og c) fulltrúum erlendra kröfuhafa þeirra fjármálafyrirtækja sem lögum nr. 125/2008 hefur verið beitt á.
Lagt er til að Hæstiréttur Íslands skipi formann gerðardómsins án tilnefningar svo og eftir atvikum aðra fulltrúa ef tilnefningaraðilar koma sér ekki saman um tilnefningu eða sinna ekki boðum um tilnefningu innan tilsetts frests. Formaður gerðardómsins skal vera löglærður.
Þingmál gerðardómsins skal vera íslenska.
Lagt er til að í lögunum verði sú skylda lögð fyrir gerðardóminn að leggja fyrir 15. júní 2009 heildstæða tillögu fyrir Alþingi í lagaformi um hvaða íbúðarveðlán neytenda skuli færð niður, hve mikið og hvernig, þ.e. eftir hvaða mælikvarða eða mælikvörðum, sem mega vera mismunandi eftir málefnalegum sjónarmiðum. Lagt er til að tekið verði fram í lögunum að niðurfærsla samkvæmt mati gerðardómsins verði ekki skattskyld.
Sjónarmiðin sem lagt er til að gerðardómurinn skuli leggja til grundvallar eru:
-
Tegund íbúðarveðlána.
-
Tímasetning lántöku og atvik sem síðar komu til.
Þá er lagt til að gerðardóminum verði í lögum heimilað að líta til annarra almennra og hlutlægra sjónarmiða af sviði neytendamarkaðsréttar, svo sem
-
stöðu aðila,
-
skilmála og forms samnings og eftir atvikum
-
veðhlutfalls.
Við mat gerðardóms á því að hvaða marki skuli víkja verð- og gengistryggingarþætti íbúðarveðlánasamninga til hliðar skal einkum horft á opinberar áætlanir um verðbólguþróun og til verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands annars vegar og hins vegar til spár hlutaðeiganda lánveitanda um þróun hlutaðeigandi gjaldmiðla en ella – hafi lánveitandi ekki birt slíkar spár – á aðrar spár sem birtar voru opinberlega. Einnig verði heimilt að líta til sambærilegra forsendna aðila kjarasamninga við endurnýjun kjarasamninga. Þá verði gerðardómi heimilt að líta til væntanlegs framtíðargengis íslensku krónunnar gagnvart evru komi til ákvörðunar um aðildarviðræður við ESB á þeim tíma sem gerðardómurinn starfar.
Lagt er til að öllum almannasamtökum, hagsmunasamtökum, embættum og stofnunum, sem sýna fram á lögvarða hagsmuni sína, skjólstæðinga sinna eða aðila að samtökunum, geta flutt mál sitt fyrir gerðadóminum Að öðru leyti gildi um málsmeðferð hjá hinum lögbundna gerðardómi lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma með síðari breytingum. Í ljósi þessa þykir fært að leggja til að niðurstaða gerðardómsins sé bindandi fyrir alla aðila, bæði neytendur, kröfuhafa og aðra sem kunna að eiga lögvarða hagsmuni, fallist Alþingi á niðurstöðu gerðardómsins.
Lagt er til að gerðardóminum verði jafnframt heimilt að gera tillögu um fjármögnun og greiðslutíma vegna þeirra tillagna sem hann skal leggja fram samkvæmt framangreindu og skal slík tillaga þá lögð fyrir Alþingi og kynnt matsnefnd eignarnámsbóta.“
Já, það er svo ótrúlega margt sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði getað gert. Hún var bara svo drulluhrædd við fjármálafyrirtækin og AGS.
Ég verð að viðurkenna, að ég var alveg viss um að þessi tillaga yrði samþykkt. Ég var búinn að fylgjast með vinnu Gísla við hana og fékk hana raunar til yfirlestrar löngu fyrir kosningar. Gísli ákvað að birta hana ekki fyrr en daginn eftir kjördag til þess að hún hefi enga pólitíska skírskotun eða áhrif á kosningabaráttuna. Kannski voru það mistök hjá honum.
Er ekki nokkuð ljóst að hvorki lífeyrisstjóðir né fulltrúar kröfuhafa hefðu samþykkt að taka þátt í þessari leið? A.m.k. kynnti Gísli þessa leið fyrir öllum þessum aðilum. Lífeyrissjóðir töldu að þeir hefði ekkert leyfi til að semja um lækkun á lánum hvað þá að semja um lækkun á bréfum sem þeir höfðu keypt af Íbúðalánasjóði. Og fulltrúar kröfuhafa voru varla tiltækir fyrr en nú á síðasta ári sem og að kröfuhafahópurinn er nú ekki með nein heildarsamtök. Þ.e. t.d. kröfuhafar Dróma, Landsbanka, Glitnis, og Kaupþings. Sem og að aðal vandamál voru náttúrulega þá gengisbundnu lánin sem nú hafa verið dæmd ólögleg. og mér sýnins að þessi leið sé aðallega um þau lán.
Ekki gera ekki neitt.
En gerðu það samt.
mbk.