Föstudagur 02.08.2013 - 17:46 - 54 ummæli

Hirðfíflið Jón Gnarr

Jón Gnarr er ekki hefðbundinn borgarstjóri þótt hann beri það starfsheiti. Jón Gnarr er miklu frekar hefðbundið hriðfífl eins og þau gerðust best við hirðir einvalda fortíðar. Það er stærsti kosturinn við borgarstjóran Jón Gnarr.

Sem betur fer fyrir Reykvíkinga þá er fullt af hæfu fólki kring um borgarstjórann Jón Gnarr til að sjá um hinar hefðbundu skyldur borgarstjóra. Ekki síst hinn „eiginlegi“ borgarstjóri Björn  Blöndal. Sem er algerlega á réttum  stað sem slíkur titlaður aðstoðarmaður borgarstjórna. Við hefðum aldrei kosið hann í þá stöðu þótt hann sé góður í henni J

Það gefur Jón Gnarr mikilvægt frelsi því hann getur þannig einbeitt sér að því sem hann er bestur í.  Að vera hirðfífl í stöðu kóngs!

Málið er nefnilega að hirðfífl við hirðir einvalda fortíðar voru að líkindum oft mikilvægustu málsvarar almennings og hugmynda þeirra. Ekki síst nýrra hugmynda þeirra  Og meira en það. Þau voru þeir einu sem gátu gagnrýnt viðurkennd viðhorf án þess að missa höfuðið – þótt það henti reyndar stundum!

Því hirðfíflin gátu sagt og gert það sem aðrir gátu ekki. Þau gátu gagnrýnt og þau gátu stundum gengið of langt í gagnrýninni.  Í „fíflaskap“.

Hirðfíflið Jón Gnarr gerir einmitt það. Hann gagnrýnir og skapar umræðu. Hann gengur stundum of langt – en það er betra en að þegja. Hann gerir það í ham hirðfíflsins.  Ekki í ham borgarstjórans.

Því  hvað sem menn segja um hirðfíflið Jón Gnarr – þá stendur hann sig einnig þegar hann er í ham hins hefðbundna borgarstjóra þegar þess er þörf. Þess á milli sér Björn Blöndal um hefðbunda borgarstjórastarfið sem fellur honum betur en Jóni Gnarr

Hirðfíflið Jón Gnarr er því algerlega á réttum stað á réttum tíma. Borgastjóri Reykjavíkur.  Jón Gnarr hefur þannig toppað mikilvæg hirðfífl fyrri tíma og aukið þannig áhrif sín sem slíkur.  Hann er hirðfífl í stöðu kóngs!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (54)

  • Benedikt Sig.

    Af hverju ertu með þessi leiðindi?

  • Hallur Magnússon

    Leiðindi?
    Ertu búinn að lesa pistilinn Bensi?

  • Mörg okkar sem kusum Jón Gnarr höfum orðið fyrir sárum vonbrigðum.

    Ég hélt amk að hann væri kreatívur anarkisti og hann yrði athafnaglaður og myndi innleiða breytingar í borginni. Ég nefni t.d. að flytja gömul hús í Hljómskálagarðinn og búa þar til nýtt hverfi í miðbænum.

    Þvert á móti hefur sýn hans til borgarinnar og málefna hennar reynst æði hefðbundin.

    Satt að segja sé ég engan málefnalegan mun á Besta flokknum og Samfylkingunni – eða hinum flokkunum ef út í það er farið.

    Þessi hirðfífla-pæling finnst mér skrýtin. Þetta er vissulega viðtekin seinni tíma sýn á hirðfíflið en auðvitað vitum við ekkert um það hvernig hirðfíflið var skilið á þessum tímum.

    Sjálfri finnst mér það aukaatriði.

    Mín skoðun er sú að Jón Gnarr hafi reynst ansi hefðbundinn í verkefnavali sínu og sem stjórnandi borgarinnar.

    Hér breytist aldrei neitt.

  • Halldór AS

    Jamm, þetta eru langt í frá leiðindi heldur hrós í garð borgarstjóra.

    Þarna er hirðfíflshugtakið notað í mjög jákvæðri merkingu og ég, sem fíla Gnarrinn nokkuð vel, er það sammála pistlinum að ég hefði nánast getað skrifað hann sjálfur, með sömu hugtakanotkun og allt.

  • Haukur Kristinsson

    Hirðfífl er ljótt orð í íslensku og niðrandi. Og þessvegna notar Hallur Magnússon orðið, vill koma höggi á Gnarrinn, sem er oft hreinskilinn, ódiplómatískur, fer ekki troðnar slóðir atvinnupólitíkusa, stendur sog vel og fer því í taugarnar á gömlum hækjum eins og Halli.

    Annars ráðlegg ég Halli að hafa hægt um sig fyrst um sinni. Þrátt fyrir gullfiskaminni innbyggjara, er enn of stutt liðið frá skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð.

    Allir vita að Hallur fékk djobbið út á flokksskýrteinið, þótt Capacent hafi verið að gutla í málinu.

  • Hallur Magnússon

    Haukur.

    Fyrir það fyrsta er einfalt í í „skírteini“.

    Í öðru lagi þá skilur þú greinilega ekki pistilinn og myndlíkinguna.

    Í þriðja lagi þá hefur þú greinilega ekki lesið skýrslu RNA um ÍLS sem er svo stútfull af rangfærslum að það hálfa væri nóg – en það sem verra er – það er ekki einu sinni rétt haft eftir bullið í henni.

    Í fjórða lagi „allir vita“ ….
    … mér þykir þú ráðast illilega að starfsheiðri starfsfólks GALLUP en ekki Capacent.

    Vinsamlega vandaðu þig betur næst …

  • Jón Ganrr er sóði. Skítastuðull hans er á við útigangsmann. Aldrei nokkurntímann hefur borgin verið jafn sjúskuð og subbuleg.
    Fegurðarskyn hans er ekkert. Algerlega augljóst að maðurinn er uppalinn í ljótasta, austantjaldseftirhermu hverfi borgarinnar.
    Ekkert fallegt hefuur verið gert í borginni og ef ekki væri fyrir opinberar kvartanir, væri ekki einu sinni þrifið hér á morgnana eða slegið á sumrin.

    Hann hefur tekið að sér að verja homma og lesbíur af miklum móð. Það er nefnilega svo smart og alveg einstakelga auðvelt. Létt verk fyrir lata.
    Þar er hann í skjóli sem hirðfífl. Gagnrýni á slíkt er nefnilega bönnuð.

  • Hallur Magnússon

    … og Haukur.

    Mér er ljúft að nota tækifærið fyrst þú ert að draga ÍLS inn í þessa umræðu að fara yfir virðisrýrnun eigna helstu fjármálafyrirtækja á Íslandi eftir hrunið. Þá er ekki tekið með tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans:

    Virðisrýrnun eigna ÍLS og tiltekinna fjármálafyrirtækja vegna bankahrunsins.

    Kaupþing banki hf. 69,4%
    Glitnir banki 65,2%
    Spairsjóðabanki Íslands 63,5%
    Straumur-Burðarás hf. 31,3%
    Lífeyrissjóðir 25,0%
    SPRON 17,6%
    Íbúðalánasjóður 7,2%

    Heimild: Fyrrum ríkisendurskoðandi.

  • Hallur byrjaður að rækta garðinn fyrir kosningar í vor. 🙂

    • Hallur Magnússon

      Stebbi. Fyrir hvern ætti ég að vera að rækta garðinn fyrir kosningarnar í vor 🙂

  • Haukur Kristinsson

    Ég held að Gallup eða Capacent ættu að vanda sig betur næst.

    Og þú líka Hallur Magnússon, vinsamlega, sama hvar og hvað þú ert að bauka.

  • Hallur Magnússon

    Haukur. Ég vanda mig oftast 🙂 Og segi yfirleitt satt – þó það sé stundum erfitt og maður verði fyrir aðkasti vegna þess. Betur ef þú héldir þig við sannleikann …

  • Hallur Magnússon

    Stebbi. Fyrir hvern ætti ég að vera að rækta garðinn fyrir kosningarnar í vor 🙂

  • Guðjón

    Eru Framsóknarmenn að reyna að draga athyglina frá því að það hefur ekkert bólað á öllum þessum ókeypis peningum sem þeir lofuðu?

  • Hallur Magnússon

    Guðjón. Ertu að spyrja mig að því?

  • Jóni Gnarr má líkja við Ronald Reagan sáluga. Báðir lítt menntaðir leikarar en orðsporið bærilegt. Ronald meira að segja talinn með betri forsetum Bandaríkjanna. Hann lét aðra um skítverkin, semja fyrir sig ræðurnar og her manns í að hugsa fyrir sig. Í því fólst snilldin. Hann kunni að velja sér ráðgjafa og gat því leyft sér að sitja fyrir framan sjónvarpið dagana langa og svaf svo þess á milli áhyggjulausum svefni eins og ungabarn.
    Stjórnmálaferill Jóns Gnarr virðist um margt áþekkur en ólíkur Reagans að því leyti að Gnarrinn á það til að hugsa sjálfstætt og flytja borgarbúum hugvekjur sem flokka má sem perlur í bókmenntalegu tilliti. Hann er líka stærri í sniðum en Reagan hvað hugrekki snertir. Reagan hafði að vísu sigur í kalda stríðinu en það er lítilvægt miðað við stríðsyfirlýsingar Jóns og hótanir um stjórnmálaslit við Moskvu. Reykvíkingar eru stoltir af sínum manni. Hann hefur lyft borginni uppá hærra plan á öllum sviðum; frá gróskumiklum almenningsgörðum og torgum, götulistum og mikilfenglegum skrúðgöngum og frægð hans fer nú eins og eldur í sinu um víða veröld og orð hans vega þungt enda baklandið sterkt. Heill sé Jóni Gnarr.

  • Guðjón

    Ég elska þegar þú þykist ekki vera Framsóknarmaður

    Álíka sannfærandi og þegar mamma gat svo svarið það við litla bróðir minn, að hún væri ekki jólasveinninn

    • Hallur Magnússon

      Guðjón. Gott að ég get glatt þig – svona eins og jólasveinninn 🙂
      En staðreyndin er sú að ég sagði mig úr Framsóknarflokknum 1. desember 2010.

      Sumir vinir mínir í Framsóknarflokknum “saka” mig um að vera stuðningsmaður Bjartrar framtíðar – sem ég á reyndar samleið með í mjög mörgu.

      Aðrir “saka” mig um að vera stuðningsmaður Samfylkingarinnar – sem ég á reyndar samleið með í einstaka málum – og styð ÁPÁ sem formann þess stjórnmálaafls.

      Ég hef meira að segja verið talinn kominn yfir til VG – vegna þess að ég styð Katrínu Thoroddsen Jakobsdóttur heilshugar í því starfi sem hún vinnur þar- ber af sem gull af eir.

      Sumir á “félagsmiðlunum” þmt. í athugasemdum Eyjunnar hafa gengið út frá því að ég sé Sjálfstæðismaður!!!!

      … og auðvitað eftir 25 ár í Framsóknarflokknum þá er ýmislegt þar sem ég styð – annað væri það nú. En þeir sem hafa fylgst með mínum skrifum undanfarin misseri sjá að ég hef fáa gagnrýnt eins hart og Framsóknarmenn – þótt ég taki til varna fyrir Framsóknarfólk þegar ómaklega er að því vegið.

      Staðreynd málsins er hreinlega sú að ég hef mína eigin pólitísku skoðanir – stend við þær – óháð því hvað öðrum finnst. Það hef ég reyndar alltaf gert amk. innávið þegar ég var í Framsókn – og fékk oft skömm í hattinn – þótt ég hafi stundum ekki haldið ágreiningi mínum þar oft á lofti út á við.

      Það er nefnilega það besta við að vera utan flokka og áháður – þú þarft einungis að vera hollur þínum eigin skoðunum. Og ég stend og fell með þeim – hvað sem öðrum finnst og hversu óþæglegt sem það kann að verða mér vegna oft harðra persónulegra árása á mig – að ég tali ekki um róginn.

      … enmér finnst athugasemd þín verða á þá leið að þú hafir ekki lesið pistilinn minn – einungis fyrirsögnina …

      • Guðjón

        Hallur

        Ég ætlaði svosem ekki að gera lítið úr því að þú ert framar öllu ærslabelgur – Sem eins og aðrir af þinni tegund æsir upp athygli fyrir sjálfan þig (þá helst neikvæða) með því að hnýtast í þér betri mönnum.

        Þú hefur aldrei svo ég hafi séð haft skoðun á neinu öðru en persónum… Það kemur upp um hvað það er sem drífur þig áfram.

        En það er líka ákkurat þessvegna sem þú ert natural born framsóknarmaður. Óháð því hvort maður sé sammála þá veit maður hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir, og VG og Samfó (og fl.). En Framsókn ? Fyrir hvað stendur framsókn? – ekki Frelsi, ekki jöfnuð, og ekki komma-grænt ?

        Framsókn stendur fyrir tækifærismennsku: Og þar átt þú heima, þó þú þykist í þínum skætings leikjum hafa strokið að heiman.

  • Leifur A. Benediktsson

    „Hirðfíflið“ fær mitt atkvæði aftur næsta vor.

    p.s. þið eigið ykkar hirðfífl í líki Vigdísar Hauksdóttur, en það er önnur saga.

    Lifiðu heill.

    • Hallur Magnússon

      Gott hjá þér Leifur. En af hverju ertu að blanda vinkonu minni Vigdísi Hauksdóttur í mín skrif um Jón Gnarr? Hvað kemur hún mér við annað en að vera gömul vinkona? Ertu búinn að lesa pistlinn eð’a dastu baraí „ádópælótinn“ þegar þú sást fyrirsögnina?

    • Hallur Magnússon

      … og af hverju heldur þú að Jón Gnarr verði í framboði næsta vor?

      • Leifur A. Benediktsson

        Ja Hallur, þessi þrjú ár Gnarrsins í starfi „hirðfíflsins“ hafa verið þau friðsömustu í borgarstjórn Reykjavíkur í áratugi.

        Margt gott verið gert í borginni og OR var bjargað eftir rugið í ykkur Frömmurum.

        Það nægir mér.

        p.s Vigdís dæmir sig alltaf sjálf með ummælum sínum,henni er afar annt um steina einhverra hluta vegna.

        Jón Gnarr fer fram aftur. Kristalskúlan segir svo.

        Góða helgi Hallur!

        • Hallur Magnússon

          Kannske Leifur. En ég er ekki viss. Hann væri vís til þess að hætta á toppnum 🙂

          Hins vegar er algerlega ljóst að fólkið sem var með honum í Bezta flokknum mun halda áfram í borgarmálum. Margt mjög flott fólk sem hefur staðið sig vonum framar.

          Reyndar sumir komnir á þing – eins og ég hafði reyndar spáð á sínum tíma – og af sumum þá talin galinn!

          Ég nefndi þá sérstaklega Óttar Proppé og Einar Örn. Óttar nú þingmaður 🙂

  • Ásdís Jónsdóttir

    Í stjórnartíð Jóns Gnarr hefur margt verið mjög vel gert og til mikilla hagsbóta fyrir Reykvíkinga. Nágrannasveitarfélög njóta einnig góðs af og má þá sérstaklega nefna almenningssamgöngur sem nú nálgast það að vera möguleiki fyrir fólk að komast leiðar sinnar án þess að hver einasta manneskja sem komin er á bílprófsaldur þurfi að eiga sinn eigin bíl. Vonandi verður áframhald á þeirri stefnu. Jón Gnarr á fulla virðingu skilið fyrir viðhorf sín til almennra mannréttinda og aðrir hafa svo sannarlega ekki staðið sig betur þar. Líkingin við hirðfíflin á stundum rétt á sér, hann leyfir sér að segja sannleikann þó að sumum þyki hann óþægilegur og aðrir myndu ekki komast upp með það í hans stöðu. Í samanburði við þann skrípaleik sem hafður var í frammi á síðasta kjörtímabili er þetta tímabil auðvitað Jóni Gnarr mikið í hag, enda voru þau ósköp sem þá gengu á sem betur fer ekkert venjuleg.

  • Eitt er að vera fúl og annað að vera fól.

    Jón Gnarr er hvorugt.

    Hann er skelmir.

  • Reykvíkingar kusu Gnarrinn….og mega eiga hann….

  • Allir þeir sem þekkja til Halls Magnússonar vita að hann er prúðmenni og drengur góður og starfi sínu hjá Íbúðalánasjóði sinnti hann af heilindum svo ekki verður dregið í efa.
    En pólitíkin getur tæpast orðið hans vettvangur. Til þess er hann of viðkvæmur sem sést af orðræðunni hér á síðunni. Að eyða orku sinni í að svara svívirðingum og innantómu bulli manna sem þekkja ekki hugtakið „málefnalegar umræður“ en hafa markað sér bás á lægsta plani mannlegra samskipta segir allt sem segja þarf.

  • Kristján Kristinsson

    Þú er sjálfur hirðfífl – þú ert einn af þeim sem settir ÍBL á hausinn og við samlandar þínir sitja uppi með reikninginn. Hættu að tala niður til fólks, líttu í eigin barm.

    • Hallur Magnússon

      Kristjan.

      Viltu ekki kanna málin áður en þú ferð að halda fram vitleysu. Íbúðalánasjóður hefur ekki – og mun að óbreyttu – ekki fara á hausinn. Hvaðan í ósköpunum færðu þær upplýsingar?

  • Jón Gnarr er ekki verri borgarstjóri heldur en þeir sem hafa verið á undan honum. Hann er í raun all nokkru betri og hefur stýrt borginni með sóma á erfiðum tímum. Það sem Jón hefur fram yfir hina er að hann hefur tekið á mannréttindamálum á aðdáunarverðan hátt. Þetta sýnir kjark og stóra persónu.
    Ég veit ekki Hallur hvort það er á þínu sviði að dæma Jón og uppnefna, en þú hefur verið sakaður um vanhæfni í stöðu yfirmanns hjá ÍLS, sem var sett á hausinn af vanhæfnu starfsfólki, pólitískt ráðnu, samkvæmt skýrslu sérfræðinga sem hafa rannsakað fyrirtækið. Ég held að þú sért að staðfesta þann dóm með grein þinni.

    • Hallur Magnússon

      Viltu ekki byrja á því að lesa pistilinn Pétur – ekki bara fyrirs-gnina. Ef þú skilur ekki einfalda myndlíkingu þá get ég ekki hjálpað þér.

      Viltu ekki kanna málin áður en þú ferð að halda fram vitleysu. Íbúðalánasjóður hefur ekki – og mun að óbreytti – ekki fara á hausinn. Hvaðan í ósköpunum færðu þær upplýsingar?

      Þú ættir að LESA staðreyndir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna ÍLS – sem þrátt fyrir margar rangfærslur – segir hvergi að TAP ÍLS sé 270 milljarðar. Hins vegar reyna greyjin að halda því fram að tap ÍLS vegna breytinga á skuldabréfaútgáfu ÍLS árið 2004 geti verið 0 – 130 milljarðar. NÚLL til 130 milljarðar.

      Efri talan ef ÖLL lán eru greidd upp í einu og vextir á markaði séu eins lágir og þeir eru nú – OG AÐ RÁÐHERRA GRÍPI EKKI TIL HEIMILDAR UM UPPGREIÐSLUGJALD Í SLÍKRi STÖÐU.

      Fyrr frýs í helvíti.

      Framlag í Íbúðalánasjóð hefur fyrst og fremst verið vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á niðurgreiðslu lána í 110%. Ekki vegna reksturs sjóðsins.

      Læt fylgja – fyrst þú hefur áhuga á stöðu lánafyrirtækja í kjölfar hrun – fylgja mynd sem sýnir virðisrýrnu eigna nokkurra íslenskra fyrirtækja. Tæknilega gjaldþrota Seðlabanki er ekki með í upptalningunni:

      Virðisrýrnun eigna ÍLS og tiltekinna fjármálafyrirtækja vegna bankahrunsins.

      Kaupþing banki hf. 69,4%
      Glitnir banki 65,2%
      Spairsjóðabanki Íslands 63,5%
      Straumur-Burðarás hf. 31,3%
      Lífeyrissjóðir 25,0%
      SPRON 17,6%
      Íbúðalánasjóður 7,2%

      Heimild: Fyrrum ríkisendurskoðandi

      • Haukur Kristinsson

        Kjánalegur samanburður Halls Magnússonar á ÍLS og bönkum og sparisjóðum, sem voru í bullandi braski, enda fóru allir á hausinn.
        Af hverju telur Hallur ekki upp Morgan Stanley, Deutsche Bank, UBS, Credit Suisse, RBS eða HSBC etc?

        Miklir menn erum við, Hrólfur minn!

        Átti ekki hlutverk ÍLS að vera það að hjálpa fólki, sem vildi kaupa sér sína eigin íbúð, en þyrfti samt að taka harðar á því hvernig útlánastarfseminni er háttað?

        • Hallur Magnússon

          Haukur.

          Ertu búinn að gleyma að hér varð allsherjar hrun?
          Auðvitað er eðlilegt að miða við önnur fjármálafyrirtæki.

          Þú talar sjálfur eins og ÍLS hafi farið á hausinn – sem er bara alrangt.
          Þú ert með rangfærslur og staðhæfingar sem ekki standast.

          Núna – þegar þú færð tölulegar staðreyndir – þá gerir þú lítið úr þeim.

          Af hverju?

      • Ég las pistilinn að sjálfsögðu og hann er uppfullur af mannfyrirlitningu: .. hinn „eiginlegi“ borgarstjóri Björn Blöndal… …hirðfífl.. o.s.frv. Allt er þetta sagt til að gera sem minnst úr Jóni Gnarr og það er engin innistæða hjá þér fyrir þessu. Hins vegar getur vel verið að þú skiljir ekki sjálfan þig og þá er lítið við því að gera.

        • Hallur Magnússon

          Pétur.

          Ég er bara alls ekki að því. Þvert á móti. Ég er að lýsa því hvernig maðurinn hefur náð fram mikilvægum markmiðum sínu – þrátt fyrir ákveðna erfileika við að vera bundinn í hefðbundnu hlutverki borgarstjóra.

          Það sem meira er. Hann hefur haft vit á því að fá með sér gott fólk í að vinna þá hluti sem hann er ekki bestur á meðan hann einbeitir sér að sínum styrkleikum – og finnur leiðir til þess að gera það.

          Björn Blöndal er hinn eiginlegi borgarstjóri þegar við erum að ræða hefðbundna æðstu, daglegu stjórnun Reykjavíkurborgar. Og gerir það mjög vel. Gnarrinn lætur honum það hlutverk eftir.

          Í þessu er engin mannfyrirlitning. Einungis greining á stöðunni eins og hún er. Meira að segja jákvæð greining.. Því staðan er algerlega eins og ég lýsi henni. Sem sýnir ákveðna snilli Jóns Gunnars.

          … og talandi um mannfyrirlitningu. Þú ættir að lesa athugasemdir þínar – og ýmissa annarra sem hafa misst sig í athugasemdum við þennan bloggpistil – þáur en þú skara mig um mannfyrirlitningu.

  • Ef þig hins vegar vantar þorpsfífl Hallur þá er komið eitt slíkt fram á sjónarsviðið og það er Brynjar Níelsson sem tekur við keflinu af Árna Johnsen.

  • Jón Rúnar Sveinsson

    Sæll Hallur.

    Ég var að reyna að ná tölvupóstsambandi við þig, en án árangurs.

    Geturðu gefið mér upp netfang þitt?

    Mitt er jonrunar@akademia.is

    Bestu kveðjur,

    Jón Rúnar

  • Hrafn Arnarson

    Þetta er ágæt myndlíking svo langt sem hún nær. Það er alls ekki neikvætt fyrir Jón Gnarr að vera líkt við hirðfífl miðalda. Hirðfíflið hafði mikilvægt hlutverk og meira svigrúm til að tala en aðrir við hirðina. Hann gat sagt brandara um konunginn og hirðin gat hlegið. Hann gat orðar óánægu og erfið mál við konunginn sem aðrir gáðu ekki. Í lífi hirðarinnar var hirðfíflið stundum miðpunktur athygli. En ef hirðfíflið gekk og langt lét konungurinn taka það af lífi. Sama persóna var aldrei konungur og hirðfífl. Nú er það ekkert nýtt að ráðuneytisstjórar og embættismenn ráði miklu en ráðherrar og stjórnmálamenn litlu. Má vera að það sé svo í tilviki Jóns og Björns Blöndal.Traust til stjórnmálamanna er í lágmarki. Umræða er stöðnuð og þreytt. Í stjórnmálum blasir klíkuskapur allsstaðar við. Áður en Besti flokkurinn vann sinn stóra sigur hafði ýmislegt mjög skrautlegt gengið á í borgarstjórn Reykjavíkur. Augljóst er að stór hluti kjósenda hafði endanlega fengið nóg. Þeir kusu hirðfífl og fengu hirðfífl.

  • Steini M

    Það er einmitt málið, það var kosið hirðfifl og hann hefur bara staðið sig vel í því, en það var ekki kosið að hafa þessa Samfylkingarkakkalakka með þeim, það er það sorglegasta við þetta……

  • Hirðfíflið hefur þó staðið sig margfallt betur á sínum stutta ferli en aumur Framsóknarflokkurinn sem
    á öllum sínum litaða spillta ferli, þar sem vinnubrögð mafíósa eru viðhöfð í heiðri við að halda þessari þjóð í fjötrum svo að hin pólitíska elíta geti lifað sínu gerfi kónga lífi á kostnað almúgans og spilað auðlindum og réttum fyrirtækjum í hendur vildarvina ….
    Ekki skal gleyma þætti Framsóknar og Óla Jó sem kom á verðtryggingunni hér á landi…..glæpur sem þjóðin á ekki að gleyma, samt kaus fólk þennan mafíuflokk til valda með hinum mafíuflokknum, og nú saman fara þeir á kostum við að svíkja og pretta eins og svo oft áður.
    Guð gefi að sem flest hirðfífl komist til valda hér.

  • Sigurður Haraldsson

    Sýnir að atvinnupólitíkusar eru ekki starfi sínu vaxnir fyrr en þeir taka Jón Gnarr sig til fyrirmyndar og fara að tala máli lítilmagnans þó það geti gert þá að trúðum í augum elítunnar.

  • Hallur Magnússon

    Ég verð að játa að mér þykir þetta svolítið skemmtilegt!

    Ótrúlega margir sem afhjúpa – hvað skal ég segja svo það verði ekki of dónalegt – grunnhyggju sína.

    Læt suma reyndar njóta vafans um að þeir hafi ekki lesið pistilinn – einungis fyrirsögnina.

    Þakka þeim sem lásu pistilinn og skildu myndlíkinguna! Sem betur fer eru það nokkuð margir 🙂

    … en ég verð að segja að mér varð nokkrum sinnum hugsað til setningar sem bróðir minn litli hefur sett stundum svo smekklega fram: „Fólk er fífl“.

    Ég hef ekki verið honum sammála þótt ég geti stundum verið smá hrokafullur … ég geng út frá því að fólk almennt séu EKKI fífl … en við lestur sumra athugasemda hér og á facebook við svipaða færslu – þá verð ég að játa að það hefur stundum hvarflað að mér að það sé sannleikskorn í þessi hjá litla bróður …

    • Haukur Kristinsson

      Hallur, þú vilt greinilega ekki viðurkenna, að þitt metapher (μεταφορά) er lélegt, því aðfinnslan. En ekki það að pistillinn hafi ekki verið lesinn.

      Metaphers (metaphors) geta verið vandmeðfarin.

  • Frekar hirdfill, en Hall Magnusson sem fjaramalfifll og løggiltur faviti!

  • Eitt er gott að sjá á skrifum Halls Magnússonar að hann hefur ekkert breyst þrátt fyrir flutning úr landi ! Alltaf sami framsóknarmaðurinn, þótt hann hafi reynt að þurka það út varðandi veru hjá íbúðalánasjóði ! Hallur dvaldi bara hjá íbúðalánasjóði og þess vegna ber hann enga ábyrgð á því sem þar var gert ! Hann vann þar ekki, ekki að eigin sögn !

    Skrif Halls hljóma í takt við það sem búið er að gefa út í Valhöll fyrir næstu borgarstjórnakosningar ! Reyna skíta Jón Gnarr út sama hvort það er rétt , bara gera það !

    Þó það megi alltaf gagnrýna pólitíkusa , þá á það fólk sem núna er að stjórna borgina allt gott skilið frá okkur borgarbúum ! Það er verið að gera margt gott, en Hallur vill alls ekki vita af því ! Hann fór úr landi !

    • Hallur Magnússon

      Alltaf gaman að lesa málefnalegu athugasemdirnar þínar JR. 🙂 En af hverju segir þú að ég sé að „skíta Jón Gnarr út“ ? Ertu búinn að lesa pistilinn – eða lastu bara fyrirsögnina?

      • Haukur Kristinsson

        “Stærsti kosturinn við borgarstjóran Jón Gnarr er sá að hann er hirðfífl borgarinnar“, skrifar Hallur Magnússon.

        Hallur þreytist ekki á því að skora á menn að lesa pistil sinn vel og vandlega, sem hann hefur greinilega verið afar ánægður með. “Great piece of writing”, “great sentences”, hefur hann líklega sagt með sjálfum sér eftir marga yfirlestra.
        Málið er hinsvegar, að pistillinn er “piece of shit”, lágkúruleg árás á borgarstjórann, sem er greinilega farinn að gera Framsjallana nervusa vegna komandi sveitarstjórnarkosningar í lok maí 2014.

        En þetta er aðeins forsmekkur að því sem koma skal.

      • Hallur, já ég las skrif þín og þú ert aumkunarverður !

        Hvað þarf maður að vera málefnalegur til að skrifa eins og þú ?

        Getur verið að hversu vel gengur hjá borgarstjóra, að það trufli Hall í útlandinu ? Þess vegna hefur Hallur valið að ganga í lið Valhallar gegn borgarbúum ?

        • Hallur Magnússon

          Jæja JR.

          Fyrst þú skilur ekki einfalda – meira að segja jákvæða – myndlíkingu sem í ofanálag er útskýrð – þá er ekkert meira um það að segja.

          Geri ráð fyrir að Jón Gnarr sé nokkuð ánægður með pistilinn!

          En svo má ekki gleyma að í gegnum tíðina hefur þú lesið mín blogg eins og skrattinn biblíuna 🙂

          Þitt vandamál ekki mitt.

  • Jón Gnarr er klárlega besti borgarstjóri sem Reykvíkingar hafa átt. En nú fer óþverrinn að byrja ekki satt. Stutt í kosningar og bófaflokkurinn vill komast aftur að.

    Og þú Hallur. Rífandi kjaft eins og lítil skólastelpa. Hroki og hatur er þitt sérsvið ekki satt?

    Annars er þetta einfalt.. Fólk eins og þú Hallur þá að hafa vit á því að halda kjafti eftir allt sem á undan er gengið. Með skituna upp á bak eftir REI málið og fl.

    Lærðu að halda kjafti litli maður.

    • Hallur Magnússon

      AP.

      Þér ferst að tala um hroka og hatur miðað við athugasemd þína
      Þú veist greinileg ekkert um hvað þú ert að tala – REI hvað?

      En lastu pistilinn?

      Eða misstiiru þig bara yfir fyrirsögninni?

      Lestu pistilinn aftur – og það með opin augu!

      Reyndar einkennir það því miður hluta af stuðningsmönnum Jón Gnarr að þeir telja sig geta hraunað hægri vinstri yfir aðra – en verða snarvitlausir er Gnarr er gagnrýndur.

      Í þessum pistli er hins vegar ekki verið að gera lítið úr Gnarr. Þvert á móti.

      … en það er ekki von að fólk sem nálgast pistla mína með fyrirfram ákveðnum hugmyndum og fordómum skilji það …

  • Rúnar Þór

    Fjármálafífl að skrifa um Hirðfífl ?

    Lélegur pistill.

    • Hallur Magnússon

      … lastu pistilinn?
      .. ef svo – lestu hann aftur – án fordóma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur