Sú ofurháhersla sem stóra moskumálið hefur fengið í fjölmiðlum hefur haft tvennt í för með sér. Það kom Framsóknarflokknum og oddvita hans í umræðuna og gegndarlausar árásir á oddvitan hafa orðið til þess að fylgi hennar hefur aukist mjög. Réttmæt gagnrýni á orð hennar hefur í mörgum tilfellum breyst í hreina og klára hatursumræðu – og í þeim tilfellum orðin af sama meiði og túlka má upphafleg ummæli oddvitans. Það er ekki síður sá hluti umræðunnar sem hefur aukið fylgi Framsóknarflokksins, fólki ofbýður harkan og orðbragðið. Dálítið kaldhæðnislegt að eiginlegir andstæðingar múslima og fólk sem ofbýður því sem við getum kallað nánast einelti á oddvitan fyrir ummæli hennar skuli tryggja Framsóknarflokknum borgarfulltrúa.
En þótt moskumálið hafi styrkt Framsóknarflokkinn þá hefur það líka styrkt Samfylkinguna í borginni. Þar trónir næsti borgarstjóri Reykjavíkur Dagur B. Eggertsson með sterka landsföðurímynd og hefur getað farið gegnum kosningabaráttuna án þess að þurfa að ræða stefnumál af neinni alvöru. Hann hefur tekið á umræðunni af hófsemd, að sjálfsögðu gagnrýnt ummæli oddvita Framsóknarflokksins en ekki tekið það skref að hjóla í hana af hörku. Það hafa aðrir flokksmenn séð um.
Það er nefnilega hagur Samfylkingarinnar að þurfa ekki að ræða stefnumálin og þurfa að verja þau í harðri stjórnmálaumræðu. Þá er ég ekki að segja að stefnumálin séu ekki góð. En Samfylkingin hefur sloppið við að takast á við hina stjórnmálaflokkana um þau á meðan allt púðrið hefur farið í stóra moskumálið. Samfylkingin hefur getað haldið Degi B. Eggertssyni sem yfirveguðum og reyndum stjórnmálamanni sem hefur traust borgarbúa til að taka við embætti Jóns Gnarr sem borgarstjóri. Sá vilji borgarbúa hefur minna með stefnumál en meira um traust á manninum að gera.
Og vegna moskumálsins þá hefur Dagur losnað við harða umræðu um stefnumál Samfylkingarinnar. Hin trausta ímynd helst því ólöskuð. Hann er bara Borgarstjórinn með stórum staf í hugum stórs hluta borgarbúa. Það skilar Samfylkingunni væntanlega kosningasigri í Reykjavík.
Það er eitt athyglisvert í pistli Halls sem ástæða er til að staldra við. Það að hagur framsóknarflokksins í borginni hafi fyrst og fremst batnað vegna hatursfullra skrifa um oddvita flokksins og almenningi ofbjóði. Það má vel vera rétt en það er líka önnur og mikilvægari ástæða fyrir vaxandi gengi flokksins.
Þúsundir Reykvíkinga eru andvígir fyrirhugaðri staðsetningu mosku á einum af mest áberandi stað í borginni og líklega er það ástæðan fyrir því, að meirihluti borgarstjórnar þorir ekki að kanna hug borgarbúa til málsins. Síðan sú sjálfsagða og eðlilega umræða hvort trúarsöfnuðir eigi að fá ókeypis lóðir fyrir bænahús sín.
Nýlega var reist moska í Kaupmannahöfn og var byggingin fjármögnuð af arabíska olíuríkinu Katar og má fastlega gera ráð fyrir að sama verði uppi á teningnum þegar kemur að moskubyggingu í Reykjavík. Ástæðulaust er að gefa þeim aðilum lóð sem nægt fjármagn hafa í bakhöndinni.
Moska mun fyrr en síðar rísa í Reykjavík en finna verður annan og minna áberandi stað. Það er krafa þúsunda Reykvíkinga.
Þetta er afstaða oddvita framsóknarflokksins í Reykjavík og hefur í framhaldinu hlotið brautargengi en jafnframt fengið yfir sig ómældan hatursáróður og vænd um trúarofstæki og kynþáttaníð og fréttastofa RUV fylgt því eftir einstakri natni.
Verstir eru þó netníðingarnir, þekktir og óþekktir og þeir fella þyngstu dómana en eru þó sjálfir þekktir af rasisma og það með réttu og í þeim vafasama hópi má finna frambjóðanda ofarlega á lista Samfylkingar í Reykjavík.
Skyldu þeir sem vilja styðja Sveinbjörgu gera sér grein fyrir því það breytir engu, að því er varðar þessa mosku, hvort Sveinbjörg nær kjöri. Að sjálfsögðu verður lóðarúthlutunin ekki afturkölluð þó að einn (eða jafnvel tveir) af fimmtán borgarfulltrúm verði hlynntir því.
Ekki nóg með að tveir borgarfulltrúar breyta engu í þessu sambandi, afturköllun verður að byggja á haldbærum rökum og hlýtur auk þess að kalla á skaðabætur ef ekki er sýnt fram á að lóðarhafi hafi haft rangt við.
Svo furðar maður sig á að oddviti framsóknar, sem er lögfræðingur að mennt og starfi, telji það ekkert mál að jafnréttiskvæði stjórnarskráriinnar og mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna séu hunsuð.
Ég held reyndar að Sveinbjörg geri sér fulla grein fyrir þessu. Þetta upphlaup hennar er því ekkert annað en ómerkileg örvæntingarfull tilraun til að ná kjöri.
Þó að áhrifin í borgarstjórn verði engin verða áhrifin á flokkinn mikil þar sem SDG styður greinilega málið. Framsókn er að festa sig í sessi sem öfgafullur hægri flokkur til hægri við Sjálfstæðisflokkinn.
Reyndar virðist sem þetta hafi ekki verið neitt upphlaup Sveinbjargar, heldur löngu skipulagt af þeim valdaklíkum sem ráða í Framsókn, miðað við þessa frásögn: http://kvennabladid.is/2014/05/28/er-thetta-framsokn-framtidarinnar/
Og, svo virðist Sigmundur Davíð hafi beðið eftir nýjum fylgiskönnunum tll að ákveða hvaða afstöðu hann ætti að taka. Þegar nú er í ljós komið að þetta virðist ætla að auka fylgi flokksins umtalsvert gerir hann það sem hann gerir alltaf, ræðst með offorsi gegn þeim sem hafa leyft sér að gagnrýna þennan rasisma. Það boðar ekki gott; nú má gera ráð fyrir að Framsókn fari að tala fyrir rasisma á landsvísu, enda var sérkennilegt að heyra Sigmund tala um að Evrópa þyrfti að taka till til niðurstaðna ESB-þingkosninganna um daginn, þar sem rasistaflokkar juku víða fylgi sitt.
Í stuttu máli virðist Sigmundur vilja feta út á þá ógeðslegu braut sem Sveinbjörg og framboðið í Reykjavík var að prófa. Það verður erfitt að vera áfram í flokknum fyrir það flokksfólk sem enn er nokkurn veginn heiðarlegt …
Er moskan eina byggingin í Reykjavík sem er umdeild? Er alveg hætt að
ræða niðurrif NASA? Eru ekki margar aðrar byggingar taldar of stórar,langar og breiðar? Á að kjósa um hvaða götur strætisvagnar eigi að
aka, og hvar þeir eigi að stanza? Á að kjósa um hvar benzínstöðvar eru byggðar?
Hætt er við að moskuandstaða framsóknar í Reykjavík fæli þá úr framsóknarflokknum, sem telja sig umburðarlynda í trúmálum, en þá komi
þeir í staðinn sem vilja hrekja þá úr Íslandi, sem aðhlyllast islam. Þá mundi forustufólkið reyna að heilla þá frjálslyndu til baka. Til dæmis gætu Sveinbjörg og Sigmundur unnið sem sjálfboðaliðar við að byggja moskuna. Það fældi þá umburðalausu úr flokknum, en þeir frjálslyndu kæmu ekki aftur Yrði þá framsóknarflokkurinn mjög fámennur og áhrifalítill.
Margir stjórnmálamenn vilja láta kjósendur álíta sig trausta og heiðarlega.
Þeir ráða auglýsingamenn til að selja þá ímynd af sér. Síðan telja þeir óhætt að vera brigulir, svikulir og óráðvandir. En bezta ráðið fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta kjósendur álíta sig trausta og heiðarlega er að vera traustir og heiðarlegir Það er varanlegra en að láta auglýsingamenn sjá um málið.
Stundum finnst mér þessi staka Sigurðar J. Gíslasonar frá Skarðsá eiga við marga stjórnmálamenn.:
Öll hans loforð eru svik
Allt hans tal er þvaður
Honum þykir hægra um vik
að heita, en vera maður.
Viðbót við fyrri skrif og af gefnu tilefni. Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fer hörðum orðum um grein sem forsætisráðherra birtir á heimasíðu sinni og greinilegt að Áslaug fellir dóma án þess að hafa lesið skrif hans. Hún fellur í sömu gryfjuna og rétttrúnaðarliðið. Sum mál má ekki ræða. Það er ekki undur þó að Sjálfstæðisflokkurinn í borginni mælist inni með þrjá borgarfulltrúa ef mið er tekið af áherslum flokksins í kosningabaráttunni. Þar finnst aðeins froða. Ekkert sem skilur flokkinn frá ríkjandi meirihluta.
Áslaug hefði í þessari umræðu átt í svari við grein forsætisráðherra að spara sér dómhörkuna og svara umbúðalaust kjarna málsins. Hver er afstaða hennar til væntanlegrar staðsetningar moskunnar? Hver er afstaða hennar til ókeypis úthlutunar lóða til trúfélaga? En það forðast hún, líkt og aðrir frambjóðendur flokksins en kýs vinstri rétttrúnaðinn.
Fyrir nokkru gáfu Sjálfstæðismenn út blað heilmikið að vöxtum en innihaldið svo rýrt að var með ólíkindum og gerði ekkert fyrir framboðið. Afdráttarlausar yfirlýsingar um Reykjavíkurflugvöll, skipulagsmál, hagsmuni úthverfanna og fleiri umdeild mál meðal borgarbúa voru hvergi að finna á síðum blaðsins. Aðeins moðsuða sem hvarf ólesin ofan í bláu tunnurnar.
Málið er einfalt. Sveitarfélögum ber að útvega kirkjum lóðir endurgjaldslaust. Lög banna mismunun vegna trúabragða svo að sveitarfélögum ber einnig að útvega lóðir undir moskur.
Borgin hefur lengi verið undir ámæli frá Evrópuráðinu vegna tregðu við að útvega öðrum trúarsöfnuðum en kristnum lóðir. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að loksins þegar borgin er að standa sig að þá sé úthlutunin afturkölluð ólöglega.
Það væri fróðlegt ef einhver gæti bent á dæmi um að lóð hafi verið afturkölluð án þess að lóðarhafi hafi gerst brotlegur eða vanrækt að uppfylla skilyrði. Væru þeir sem nú heimta afturköllun sáttir við að lóð sem þeir hafa fengið úthlutað væri afturkölluð eftir kosningar?
Það er búið að úthluta lóðinni í Sogamýri. Það er því ekki hægt að taka hana aftur. Búast má við að múslimar myndu láta á slíkt reyna fyrir dómstólum, ef með þarf, og örugglega vinna málið.
Auðvitað gerir Sveinbjörg sér grein fyrir þessum einföldu staðreyndum enda er hún lögfræðingur og starfar á lögfræðistofu. Hins vegar virðist hún ekki vera merkilegri pappír en svo að notfæra sér heimsku fólks til að komast í borgarstjórn þar sem hún mun ekki hafa nein áhrif.