Fylgi Pírata í viðhorfskönnunum þessa dagana er ekki fylgi við Pírata nema að mjög takmörkuðu leyti. Fylgið er «ekki fylgi» við hinn hefðbundna fimmflokk sem kjósendur hafa endanlega gefist uppá.
Það er merkilegur andskoti að sjá jafnvel reyndustu frétta- og stjórnmálaskýrendur flögra kringum Pírata eins og mý um mykjuskán. Og enn steiktara að sjá sömu aðilja halda því fram að viðhorfskannannafylgið við Pírata sé raunverulegt fylgi. Hvílíkur barnaskapur!
Vissulega er hið úrelta íslenska flokkakerfi í uppstokkun. Enda 20.aldar stéttaflokkakerfið úrelt. Ég spáði slíkri uppstokkun ítrekað í bloggpistlum strax á árunum 2009 – 2010 og færði rök fyrir óhjákvæmanleika slíkrar uppstokkunar. «Ekki fylgið» við Pírata er einmitt vísbending um þetta.
Reyndar er líka merkilegt að sjá álitsgjafana ennþá beita frasanum «fjórflokkurinn». Frá því «Frjálslyndir og vinstri menn» með hæstvirtan forseta vor, Ólaf Ragnar Grímsson í fararbroddi var og hét, hefur íslenska flokkakerfið ekki verið fjórflokka, heldur fimmflokka. Fjórir hefðbundnir stjórnmálaflokkar með rætur aftur til annars áratugar síðustu aldar og síðan einn «nýr» flokkur. Sem oftar en ekki hefur náð góðum hluta óánægjufylgis gamla «fjórflokksins».
Aftur að «ekki fylgi» Pírata.
Píratar eru allra góðra gjalda verðir. Mér finnst þeir oft frábærir! En stundum finnst mér þeir algerlega úti á túni. Og á stundum síst skárri en gamli fimmflokkurinn. Eigum við að ræða röðun á lista í Kópavogi fyrir síðustu kosningar?
Ég vona að Píratar séu komnir til að vera í einhvern tíma í því uppstokkunarferli sem nú er í gangi í íslenskri pólitík. En að Píratar séu flokkur með traust tugprósenta fylgi er tálsýn.
Stór hluti almennings vill ekki óbreyttan fimmflokk/fjórflokk heldur róttæka uppstokkun á flokkakerfinu. Eða eigum við frekar að segja róttæka uppstokkun á því hvernig þingmenn eru valdir og kjörnir – og því hvernig ákvarðanir eru teknar í stórum, mikilvægum þjóðmálum.
Stór hluti almennings vill fá að hafa bein áhrif á það hvaða einstaklingar setjast á Alþingi. Ekki að láta flokksræðið – hvort sem að er flokksræði gamla fjór/fimmflokksins eða tilviljunarkennt rafrænt flokkræði Pírata, velja einstaklingana sem eiga möguleika á að taka sæti á Alþingi.
Og stór hluti almennings vill hafa bein áhrif á stór þjóðmál sem koma upp á milli kosninga og ekki var fjallað um í kosningum. Fólk vill ekki skrifa upp á óútfylltan víxil í kosningum.
Við getum dregið þennan vilja stórs hluta almennings saman í tvö stykkorð:
- Persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Og ástæðan fyrir því að Píratar fá «fylgi» í viðhorfskönnunum er að stór hluti almennings vill breytingar og uppstokkun á gamla fjór/fimmflokknum.
Það hefur minnst með Pírata að gera að öðru leiti en því að Píratar hafa verið fram að þessu ekki hluti gamla flokkakerfisins. Þess vegna fá þeir «fylgi» í viðhorfskönnunum.
Fylgið við Besta flokkinn í borginni var líka „ekki fylgi“. Eða …?
„Fjórflokkurinn“ er ekki skilgreining á fjölda flokka Hallur heldur á þeirri stöðu í íslenskum stjórnmálum að flestir íslenskri stjórnmálaflokkar (núna allir nema Píratar) hafa eitt meginmarkmið sem er að halda sjálfum sér og sínum þingmönnum inn á Alþingi alveg sama hvað. Almannahagur og samfélagið skiptir þar engu máli heldur hugsa þessir flokkar og þingmenn þeirra fyrst og fremt um viðhald tegundarinnar og eigið valdapot. Þetta hefur búið til algerlegt staðnað pólitískt umhverfi sem hreinlega getur ekki brugðist við vanda samfélagsins (þar sem samfélagið er aukaatriði) og getur ekki og mun ekki (aldrei) svara kalli kjósenda um umbætur (dæmi: stjórnarskráin). Þess vegna er „Björt framtíð“ fimmti Fjórflokkurinn. Þetta mun ekki breytast nema með því að færa valdið í meira mæli til almennings með innleiðingu beins lýðræðis og persónukjörs eins og þú réttilega nenfir.
Tja, ôdýrt er kveðið i dag. Greinilegt að greinarritari vill að gera þarfir sinar yfir Pirata. Mér sýnist svona í fljótu að það vanti nu eitt og annað i þessa greiningu hjá greinarritara.
Ljóst má vera að einn þeirra hluta sem kallað er eftir er auðmýkt, e-ð sem frænka greinarritara og formaður Fjárlaganefndar kann illa skil á, líkt og háttvirtur forsætisráðherra. Hitt er svo það sem þingflokksformaður Pírata kallar eftir í flestum sínum ræðum eða að nefndarfundir Alþingis ættu að vera almennt opnir almennigi.
Svo leggja Píratar mikið upp úr almennri virðingu gagnvart skoðunum annara, e-ð sem fjórflokkurinn er ekki góður í.
Piratar eru klárlega ekki svar við öllum heimsins gátum en það verður að byrja á því að taka smá skref. Fyrstu skrefin voru tekin með Borgarahreyfingunni og svo Hreyfingunni. Núna koma Píratar og skefin fara bráðum stækkandi, vonandi.
Hitt er svo annað, að flokkar líkt og Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfó munu berjast með kjafti og klóm gegn lýðræðisbreytingum, svo ég tali nú ekki um breytingar á stjórnarskrá. Athyglisverðir tímar framundan. Við skulum bara vona að næsti formaður Fjárlaganefndar tali ekki um störf þessara ríkisstjórnar fram á mitt næsta kjörtímabil, það þarf að horfa fram á við. Ekki vera með,baksýnisspeglaárátturöskun á háu stigi.
Ef vilji almennings er aðallega persónukjör og þjóðaratkvæði er fylgi Pírata raunverulegt. Því það eru þau stefnumál sem þeir setja á oddinn.
En ég tel að stéttaátök séu langt frá því liðin tíð. Það sé einmitt ástæðan fyrir slöku fylgi „vinstri“ flokkanna þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Þeir mislesa stöðuna, telja að stéttabarátta sé liðin tíð, óbreyttur almúginn sé bara bullandi sáttur við að lifa á hungurmörkunum í húsnæðishrakningum, en hafi mestan áhuga á því hvernig valda og áhrifafólk skipti með sér völdunum. Þeir eru því hættir að beita sér fyrir almúgan því það er „svo gamaldags“.
Sé mitt mat rétt er fylgi Píratanna „ekki fylgi“. Í síðustu kosningum tók almenningur skuldaleiðréttinguna fram yfir Lýðræðisvaktina. Það logar allt í verkföllum. Það segir mér að tími stéttaátakanna sé ekki liðinn.
Ég held að þetta sé ekki svona flókið, ég held að fólk vilji sjá fólk við stjórnvölin sem berst fyrir almannahag á öllum vígstöðvum þess vegna er Eygló bjartasta vonin innan Framsóknarflokksins og þess vegna er mikið fylgi við Pírata (hvort það gufar upp þegar/ef þau komast í ríkisstjór veltur á þeim) en fylgið er raunverulegt það hefur bara heiðarleika viðkomandi stjórnmálamanna að leiðarljósi. þetta kom vel í ljós á Þjóðfundinum. sá flokkur sem fattar þetta og fer eftir því kemst í hreinann meirihluta.