Kjaftfor gutti að stíga sín fyrstu spor í pólitík. Hafði valið Framsóknarflokkinn eftir töluverða umhugsun. Ef ekki hefði verið Framsókn þá hefði það verið Alþýðuflokkurinn. Ekki Kvennaframboðið þótt guttinn hafi kosið það ágæta framboð áður en hann gekk í stjórnmálaflokk.
Kjaftfori guttinn var ég.
Náði skjótum frama hjá ungu Framsóknarfólki og var einn af fulltrúum SUF sem ferðaðist um landið með fulltrúum Framsóknarkvenna og fólki úr framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1986 og heimsóttu öll flokksfélögin.
Fyrsti túrinn hafði mikil áhrif á mig. Ég, Inga Þyrí og Halldór Ásgrímsson voru send á Suðurnesin. Við ferðuðumst í nokkurra ára gömlum, svörtum Benz. Ráðherrabíll sjávarútvegsráðherra. Halldór Ásgrímsson var ekki fyrir það að skipta um bíla að óþörfu og alls ekki ef það yki kostnað skattgreiðeinda.
Halldór sem flestir héldu að væri leiðinlegur var bara alls ekki leiðinlegur! Hann var bara stórkostlega skemmtilegur. Kímnibros sem náði alla leið til augnanna. En stutt í alvöruna þegar við fórum að ræða alvörumál.
Þegar við komum inní sjávarþorpin og bæina sem við heimsóttum þá var alltaf fyrst ekið niðurá höfn. Skipin skoðuð. „Er þetta ekki …. GK..“ spurði Halldór mig þegar við ókum í áttina að Sandgerði og blámálað nótaskip sigldi með ströndinni! Ég fletti upp í huganum þar sem ég þekkti nokkur skip í flotanum eftir að hafa hökkt sem háseti á Heklu og Esju í sumarfríum … en þekkti ekki skipið. Þagði. „Jú, þetta er …GK“ sagði Halldór síðan á sinn rólega, yfirvegaða hátt. Ég er náttúrlega fyrir löngu búin að gleyma heitinu á skipinu – en er viss um að Halldór mundi það fram á sinn síðasta dag!
Við ókum niðrá kaja í Sandgerði eins og við höfðum gert allsstaðar áður. Það var smá rigning. Bátur að landa. Skipverjar unnu á fullu við löndun. „Ætli það sé ekki best að heyra í þeim hljóðið“ sagði Halldór, opnaði dyrnar á gamla, svarta Benzinum. Ég vissi ekki hvort ég ætti að fara eða vera. Ákvað að sitja inn í hlýjunni með Ingu Þyrí. Hef alltaf séð eftir því síðan.
Halldór hins vegar gekk í rólegheitunum aftur fyrir bílinn, opnaði skottið og tók upp regnstakk sem hann smeygði yfir sig. Þetta var áður en honum áskotnaðist selskinnsjakkinn frægi. Sjávarútvegsráðherrann gekk niður að bátnum og sjómennirnir hættu að landa um stund. Ég sá handapat og greinilega fjörlegar samræður!
Eftir stundarfjórðung eða svo sneri Halldór sér við og gekk í átt að bílnum. Sjómennirnir stungu saman nefjum og létu svipað og svartbakar kring um þorsklifur. Höfðu greinilega ýmislegt að ræða hvor við annan eftir að hafa átt samtal við sjávarútvegsráðherrann.
„Þeir skömmuðu mig“ sagði Halldór þegar hann hafði lagt regnstakkinn í skottið og settist inn í bílinn. „En ég skammaði þá bara á móti“ sagði hann og brosti. Þessu skemmtilega kímnibrosi sem náði alla leið til augnanna.
„Hallur. Ef þú vilt ná árangri í pólitík þá er mikilvægast að hlusta á fólkið. Hvort sem þú ert sammála því eða ekki“ sagði Halldór þegar hann setti gamla, svarta sjávarútvegsráðherra Benzinn í fyrsta gír og ók í átt að Framsóknarheimilinu í Sandgerði.
Ber að skilja þetta sem svo að þú hafir ekki hlustað á fólkið?