Samfylkingin getur átt framtíð. Oddný Harðardóttir veitti flokknum þá framtíð með þvi að segja af sér. Við tekur nýr maður í landsmálapólitík sem hefur getið sér gott orð í bæjarpólitíkinni á Akureyri. Hann er ekki skaðaður af launsátursvígum, meintum svikum vegna hrunsins og öðrum fortíðarvandamálum Samfylkingarinnar.
Ég vona að efnilegur, nýr leiðtogi Samfylkingarinnar nái að rétta úr kútnum. En ef ekki þá deyr Samfykingin drottni sínum í næstu kosningum. Þá verður bara að hafa það. Það eru fleiri sem geta tekið upp kyndlinn í anda norræns sósíaldemókratisma.
Samfylkingin á sér framtíð í sögubókunum en hvergi annarsstaðar og sennilega fer best á því að eins fari fyrir framsókn.
Eins og góðir menn hafa bent á er Samfylkingarnafnið í dag hrein öfugmæli. Þau pólitísku öfl sem mynduðu Samfylkinguna á sínum tíma hafa leitað á önnur mið og ekkert annað í stöðunni fyrir nýjan formann en að leggja það til að skipt verði um nafn og kennitölu. Gamli Alþýðuflokkurinn hefur dúkkað upp í þessu sambandi enda aldrei verið lagður formlega niður. Á meðan þær hræringar eru í gangi á flokkurinn að vera til hlés og ekki að koma nálægt þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem eru í gangi þessa stundina. Sama gildir um Framsókn. Innanmein hrjá flokkinn og mun taka langan tíma að laga og ná sáttum og samstöðu á nýjan leik. Óvíst að það takist fyrir veisluna miklu þegar aldarafmælis flokksins verður minnst. Farsælast væri líka fyrir Viðreisn að vera utan stjórnar að þessu sinni meðan flokkurinn er að festa sig í sessi. Stjórnarseta fyrir hálfsárs gamlan flokk getur reynst banabiti og eru dæmi um það í íslenskri pólitík. Um Pírata þarf ekki að ræða. Þeir þora ekki að taka á sig þá ábyrgð að taka þátt í landstjórninni. Ímynd þess óræða hyrfi með því út í buskann og þar með væru dagar Pírata taldir.
Þá standa eftir þrír flokkar sem geta ef viljinn er fyrir hendi myndað nokkuð öfluga 35 manna meirihluta í þinginu. Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Björt framtíð. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn og VG séu á sitt hvorum endanum á hinu pólitíska litrófi má finna fleti. Samstaða í ESB málum en samt hægt að mæta BF með þjóðaratkvæðagreiðslu, Nokkuð samstiga um landbúnaðinn með endurskoðun og einstaka breytingum. Sama gildir um sjávarútveginn. Um heilbrigðismál og félagslega þáttinn þarf ekki að ræða í löngu máli; þar eru allir flokkar meira og minna sammála eins og kom fram í kosningabaráttunni. Í umhverfis- og virkjanamálum er hugsanlegt að eitthvað skerist í odda en þar má ná málamiðlun ef Jón og Svandís gefa bæði eitthvað smávegis eftir. Óttar Proppé fær í þessu stjórnarsamstarfi tækifæri lífsins til þess að hafa ríkuleg áhrif á landsstjórnina og þar með á þróun mála hér á landi næstu fjögur árin. Ríkisstjórn þannig mynduð ætti auðvelt með að ná fram breytingum á þingsköpum sem hafa verið með því marki brennd síðasta áratuginn, að þingið hefur langtímum saman verið óstarfhæft og sjálfu sér til skammar. Bara sá árangur einn og sér væri stórkostlegur sigur og rós í hnappagatið og ríkisstjórnin fengi strax á sig yfirbragð nýsköpunarstjórnar.