Alþingismenn vinna vinnuna sína samviskusamlega og sómasamlega. Leggja oft nótt við dag til að standa sig og eiga það allt of oft til að vanrækja fjölskyldu sína vegna þess að „mikilvægi alþingismaðurinn“ kemur fyrst. Svo fjölskyldan og lífið. Þannig hefur það verið þá áratugi sem ég hef fylgst með Alþingi og alþingismönnum.
Núverandi Alþingi er engin undantekning á því. Það ágæta fólk er hvorki betra né verra en það fólk sem kosið hefur verið á Aþingi í lýðræðislegum kosningum á Íslandi hingað til. Kannske svolítið öðruvísi sumt – enda samfélagið öðruvísi en áður.
Ástæða þess að ég vek athygli á þessu núna er að enn einu sinni er söngurinn um „óhæft Alþingi“ og „óhæfa alþingismenn“ að hefjast.
Það er eitt að vera málefnalega ósammála ágætu fólki á Alþingi. Annað að rakka það niður og saka það um að það „vinni ekki vinnuna sína“ og „sé óhæft.“
Að sjálfsögðu er einn og einn í 63 manna hópi ekki að skila sínu allan ársins hring en oftast vel þegar uppi er staðið!
Einhver kannske bara latur. Sem er vont. Ætti þá að sína sóma sinn í að finna sér annað starf. En latir einstaklingar finnast í flestum 63 manna fyrirtækjum.
Annar þunglyndur og því á tímabilum ekki að skila fullum afköstum. Einn núverandi þingmaður tók sér veikindaleyfi af þeim sökum og gerði líklega meira með því fyrir þá fjölmörgu hæfileikaríku Íslendinga sem eiga við sama erfiða verkefni að glíma en löggjafinn hefur gert lengi! Hefur með því líklega styrkt stöðu fólks í sömu stöðu úti í atvinnulífinu. Því oftast er einhver á 63 manna vinnustað haldinn þunglyndi sem á tímabilum getur komið niður á vinnu viðkomandi. Sem segir ekkert um heildarvinnuframlag viðkomandi.
Ég hef þekkt og þekki fleiri tugi núverand og fyrrverandi alþingismanna í öllum flokkum. Það sem hefur einkennt flest það fólk er dugnaður, viljinn til að hjálpa fólki, áhugi fyrir því að koma góðu til leiðar og gera samfélagið betra út frá sinni pólitísku sýn. Um sýnina getum við verið ósammála, en viljinn og dugnaðurinn hverfur ekki fyrir það!
Frábið mér því lítt rökstutt og ósanngjarnt væl pirraðra samfélagsmiðlatrölla sem vilja slá sig til riddara með ómaklegum árásum á oftast duglega og vel meinandi alþingismenn. Bið samfélagsmiðlatröllin að gagnrýna okkar kjörnu fulltrúa út frá málefnum en ekki beita skítkasti og bulli. Slík gagnrýni getur skilað sér í betri ákvörðunum og betra samfélagi. Skítkast og bull skaðar okkur öll.
Rita ummæli