Föstudagur 5.4.2013 - 15:28 - 9 ummæli

Bjartir Píratar!

Stóru fréttirnar í viðhorfskönnun 365 miðla er tvær. Sú augljósa er ótrúlegt fylgi við Framsóknarflokkinn sem að mínu viti sýnir annars vegar klárlega að flokkurinn er að feta í fótspor Venstre  systurflokks síns í Danmörku og hins vegar að það er líklega smá úrtaksskekkja í gangi sem mögulega ýkir fylgi við Framsókn.

Hin stóra fréttin er annars vegar að Píratar eiga raunhæfa möguleika á þingsæti og hins vegar að Björt framtíð er orðin afar föst í sessi sem alvöru stjórnmálasamtök í huga fólks.

Staðreyndin er nefnilega sú að Björt framtíð heldur stöðu sinni milli viðhorfskannanna 365 miðla meðan allir aðrir sem hingað til hafa mælst með fylgi yfir 5% markinu tapa verulegu fylgi frá síðustu sambærilegu könnun.

Ef við tökum mikla  sveiflu Framsóknarflokksins út úr myndinni þá stendur þetta eftir:

1. Píratar eru að óbreyttu með trygg þingsæti.

2. Björt framtíð er klárlega meðal hinna „stóru“.

3. Sjálfstæðisflokkurinn finnur ekki botninn.

4. Samfylking nálgast stöðu Alþýðuflokksins gamla – ef staðreyndin væri ekki sú að það er ekki lengur unnt að miða við gamla 20. aldar flokkakerfið.

5. VG og rómantísku sósíalistarnir eru ekki lengur „inn“ enda 20. aldar fyrirbrigði.  Eru komnir á fylgispall með Pírötum sem hafa tekið við sem nútíma rauðvínsrómantíkerar í pólitík.

6. Það tekur því ekki að kasta atkvæði á aðra en að ofan eru taldir. Sorrý Gísli Tryggvason minn kæri vin.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.4.2013 - 06:59 - 19 ummæli

Frambjóðandinn með eldspýturnar

Þorvaldur Gylfason er frambjóðandi með eldspýtur. Eins og svo oft þegar fiktað er með eldpýtur þá brenna menn sig í fingurna. Það gerði Þorvaldur Gylfason með ummælum sínum um brennuvarga. Staðreynd málsins er nefnilega sú að Þorvaldur sagði ekki satt!

Svokölluð 90% lán Íbúðalánasjóðs höfðu nefnilega ekkert með fasteignabóluna og efnahagshrunið að gera. Það á háskólakennarinn Þorvaldur Gylfason að vita. Og hann veit það. Treystir því bara að kjósendur séu aular og hafi ekki rænu á að kynna sér staðreyndir.

Staðreyndir málsins  varðandi 90% lánin er að finna hér:

http://ils.is/library/Skyrslur-og-samningar/Skyrslur/Aðdragandi%20innleiðing%20og%20áhrif%20breytinga%20-.pdf

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.3.2013 - 18:12 - 7 ummæli

Takk Jóhanna Sigurðardóttir

Nú eru margir þingmenn að hætta á Alþingi eftir áralangt illa metið starf. Flestir hafa staðið sig vel – þótt ég sé þeim ekki endilega sammála um allt!

Ég vil sérstaklega nefna Siv Friðleifsdóttur sem er í hópi farsælustu þingmanna sem við höfum átt. Einnig Þuríði Backmann sem er með heiðarlegri þingmönnum þótt ég hafi oftar en ekki verið henni ósammála. Þá má nefna vinkonu mína Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem –  þráttt yrir einstaka bjöllutónleika – hefur skilað afar góðu starfi sem forseti Alþingis.

En auðvitað stendur upp úr að Jóhanna Sigurðardóttir er að ljúka löngum þingmannsferli sínum.

Vil því birta aftur pistil sem ég skrifaði um þessa merku konu þegar hún gaf út að hún ætlaði að hætta á Alþingi.

Takk Jóhanna fyrir óeigingjarnt starf þitt í þágu þjóðarinnar!

JÓHANNA SIGURÐARDÓTTIR

„Jóhanna Sigurðardóttir er að stíga sín síðustu skref í stjórnmálum eftir langan og viðburðaríkan feril. Hvað sem fólki finnst um þá pólitík sem Jóhanna hefur staðið fyrir þá verður ekki frá henni tekið að hún hefur gefið líf sitt og sál í baráttunni fyrir hugsjónum sínum. Því Jóhanna er hugsjónamanneskja.

Ég hef átt nokkur samskipti við Jóhönnu gegnum tíðina.  Ekki hvað síst sem starfsmaður Íbúðalánasjóðs þar sem ég iðulega vann upplýsingar um húsnæðismál fyrir Jóhönnu bæði þegar hún var þingmnaður og þegar hún var ráðherra. Þótt það hafi oft verið mikil vinna að vinna þær upplýsinga sem Jóhanna óskaði eftir þá var það ánægjuleg vinna. Því Jóhanna tók við þeim upplýsingum með þakklæti og lét vita að hún kunni að meta vinnuna.

Við Jóhanna  höfum ekki verið samherjar í póltík. Við erum oft ósammála um stjórnmál en reyndar stundum sammála.

En það breytir ekki því að ég ber mikla virðingu fyrir Jóhönnu sem stjórnmálamanni og vil þakka hennar framlag til stjórnmálanna gegnum áratugina. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að fólk gefi líf sitt og sál í stjórnmálastarf fyrir þjóðina á grundvelli hugsjóna sinna. Þá skiptir það mig engu hvort ég sé sammála slíku fólki eða ekki.“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.3.2013 - 19:27 - 15 ummæli

Dósentinn og dýralæknirinn!

Dósentinn Vilhjálmur Bjarnason frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Stór-Hafnarfjarðarkjördæminu rembist eins og rjúpa við staur að feta í fótspor hins ættstóra dýralæknis úr Hafnarfirði Árna Matthiesen sem fékk ótrúlegan frama innan Sjálfstæðisflokks Vilhjálms. Dýralæknirinn var ekki einungis þingmaður um langt árabil. Hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra – enda kominn af farsælum útgerðarmönnum í Hafnarfirði – og hann varð fjármálaráðherra Íslands.

Það vita það flestir sem fylgst hafa með Vilhjálmi Bjarnasyni að hann langar afar mikið að feta í fótspor Matthiesen dýralæknis úr Hafnarfirði og verða fjármálaráðherra. En Vilhjálmur veit að hann verður ekki einu sinni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kannske ekki einu sinni þingmaður!

Það fer í taugarnar á dósentinum Vilhjálmi Bjarnasyni.

Kannske er það þess vegna sem Vilhjálmur reynir að gera lítið úr dýralæknum.   „Fræðimaðurinn“ sem nær ekki lengra innan vísindasamfélagsins eftir áratuga stundakennslu en að verða einfaldur dósent í viðskiptafræði:)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.3.2013 - 22:58 - 16 ummæli

Vilhjálmur B viðutan?

Annað hvort er Vilhjálmur Bjarnason frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins illilega viðutan eða hann er ekki eins vel gefinn og ég hélt. Hvor ástæðan sem er þá á hann ekki erindi á þing andstætt því sem ég taldi lengi vel.  Því grófar rangfærslur í greinum og viðtölum geta einungis átt sér tvær skýringar. Að viðkomandi svo viðutan að hann hafi ekki kynnt sér gögn og staðreyndir eða þá að viðkomandi er það illa gefinn að hann telur sig geta komist upp með að ljúga upp í opið geðið á almenningi.

Vilhjálmur Bjarnason hefur nefnilega annað hvort verið svo viðutan að hann óafvitandi segir ekki satt eða þá að maðurinn er að ljúga.

Ég gef mér að maðurinn sé svona viðutan…

Mannanginn segir í Morgunblaðsgrein í síðustu viku að íbúðalán bankakerfisins sem settu allt á hvolf haustið 2004 hafi :  „…að litlu leyti (verið) á kostnað bankanna.  Höfðingsskapurinn var á kostnað Íbúðalánasjóðs, sem fjármagnaði bankana til þessara aðgerða“.

Dósentinn er með þessu að vísa í lánasamninga sem Íbúðalánasjóður gerði við hluta bankakerfisins í árslok 2004 sem hluti af fjárstýringarstefnu sinni.

Ef Vilhjálmur Bjarnason hefði skoðað málið þá hefði hann uppgötvað það sem Ríkisendurskoðun grandskoðaði í úttekt sinni á Íbúðalánasjóði. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir:

„Til fróðleiks skal þess getið að bankar og sparisjóðir höfðu í desember 2004 boðið íbúðalán í samkeppni við Íbúðalánasjóð í fjóra mánuði og námu útlán þeirra á þeim vettvangi um 140 milljörðum króna.“

Þetta þýðir á mannamáli að áður en Íbúðalánasjóður gerði lánasamninga við Landsbankann og nokkra Sparisjóði í desember 2004 þá höfðu bankarnir dælt út 140 milljörðum króna í íbúðalánum á tæpum fjórum mánuðum.  Það var um fjórðungur þess sem Húsnæðisstofnun og Íbúðalánasjóður höfðu lánað í almennum húsnæðislánum á 20 árum!

Og hefði Vilhjálmur lesið betur skýrslu Ríkisendurskoðunar þá hefði hann kannske fattað – andstætt því sem hann heldur fram – að fyrst lánuðu bankarnir 140 milljarða – síðan gerði Íbúðalánasjóður lánasamninga sem námu ekki nema broti af þeirri fjárhæð. Um þetta segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

„Fyrstu lánasamningarnir til langs tíma, sem Íbúðalánasjóður gerði í kjölfar breytinga áhættu- og fjárstýringarstefnu sinni, vegna mikillar og ört vaxandi þarfar til að ávaxta handbært fé, voru gerðir í lok desember 2004 við tvo innlenda banka og nokkra sparisjóði, samtals að fjárhæð tæplega 31,6 milljarða.“

Ég held ég verði að ljúka þessum pistli með því að benda frambjóðandanum og viðskiptafræðidósentinum viðutan á að 140 milljarðar mínus 31,6 milljarðar gera 108,4 milljarðar.

Þótt hundalókík Vilhjálms Bjarnasonar um að lánasamningar sem gerðir eru EFTIR að bankarnir voru búnir að lána 140 milljarða sé orsök þenslu vegna þegar lánaðra íbúðalána gengi upp – þá á hann eftir að skýra út hvernig þessir lánasamningar upp á 31,6 milljarða sé orsök þenslunar en ekki þeir 108,4 milljarðar bankanna sem út af standa!

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.3.2013 - 11:46 - 8 ummæli

Öldungadeild á Alþingi?

Það verður spennandi að sjá hvernig Lýðræðisvaktinni mun ganga í komandi kosningum. Það sem einkennir framboð hennar eru margir öflugir en frekar gamlir stjórnmálamenn. Þegar ég tala um stjórnmálamenn þá er ég bæði að tala um gamla fyrrum þingmenn eins og Þórhildi Þorleifsdóttir, harðpólitískan hagfræðiprófessor og ráðherrason eins og Þorvald Gylfason og verulega sjóaðan stjórnmálafræðiprófessur eins og Svan Kristjánsson. Þá er hefur klerkurinn Örn Bárður Jónsson alltaf verið pólitískur þótt hann hafi ekki verið flokkspólitískur.

Það verður ekki af þessi fólki tekið að það hefur mikla reynslu eftir langt ævistarf.  Flott öldungadeild!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.3.2013 - 17:37 - 1 ummæli

Þróunarsamvinna er samvinnuhugsjón í framkvæmd

Þróunarsamvinna er einn mikilvægur þáttur samvinnustefnunnar. Þrátt fyrir efnahagslega áföll þá hafa Íslendingar þar harla gott miðað við stóran hluta mannkyns. Þá höfum við yfir þekkingu að ráða sem getur nýst við uppbyggingu fátækra samfélaga víðst vegar um heiminn. Við höfum á undanförnum áratugum miðlað þeirri reynslu með góðum árangri.

Þróunarsamvinna á að vera einn af hornsteinum utanríkisstefnu okkar.

Fyrir því hef ég talað í nær 3 áratugi.

Þess vegna gleður það mig að Alþingi hefur samþykkt metnaðarfulla áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016. Þrátt fyrir erfiða efnahagslega stöðu.

Allir sem aðhyllast raunverulega samvinnuhugsjónina ættu að fagna þessari samþykkt Alþingis.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.3.2013 - 16:27 - Rita ummæli

Ærandi gervifossniður stöðvaður?

Vélrænn dynur frá umferðinni á Miklubraut dró ekki úr ánægjunni á götuhátíð Rauðgerðinga sem haldin var á rólónum í Rauðagerði í gær. En dynurinn – sem reyndar var með mildasta móti þar sem umferð um Miklubraut er frekar í lágmarki á laugardagseftirmiðdögum – var þó nægur til þess að nær allir götuhátíðargestirnir skrifuðu undir áskorun til borgaryfirvalda um að setja upp fyrirhugaða hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis.

Staðreyndin er nefnilega sú að hávaðinn frá Miklubrautinni er iðulega langt yfir viðmiðunarmörkum hjá íbúum Rauðagerðis sem búa næst Miklubrautinni. Hávaðinn er nánast ærandi á mestu umferðarálagstímum.  Þótt ég búi efst í Rauðagerðinu þá glymur umferðaniðurinn iðulega í eyrunum.

Ég hef hins vegar farið þá leið að telja mér trú um að  niðurinn sé bara sambærilegur notarlegum fossnið eða sjávaröldunið og þannig leitt hann frá mér. En það geta íbúar næst Miklubrautinni ekki gert. Hávaðinn er það mikill á álagstímum.  Enda ekki tilviljun að enginn byggir sér íbúðarhús í 50 metra fjarlægð frá stórfossum Íslands.

Ef allt hefði verið í lagi þá hefðu Rauðgerðingar ekki þurft að undirrita áskorun til borgaryfirvalda um að setja upp hljóðmön milli Miklubrautar og Rauðagerðis. Það var nefnilega búið að ákveða að slíkt yrði gert.

En ef marka má svör samgöngustjóra Reykjavíkurborgar þá hefur nýr borgarstjórnarmeirihluti engan áhuga á að draga úr umferðarnið við Rauðagerði – þótt hann sé langt ofan við eðlileg viðmiðunarmörk.

Rauðgerðingar trúa því að sú ákvörðun að slá af hljóðmönina hafi verið tekin fyrir misskilning og þrýsta nú á um að gert verði ráð fyrir byggingu hljóðmanar í fjárhagsáætlun ársins 2012 – en sú fjárhagsáætlunargerð er að hefjast.

Pistill á Eyjunni sem birtist 26.ágúst 2011.  Endurbirtur af eftirfarandi tilefni:  http://www.ruv.is/frett/ibuar-vilja-hljodmon-vid-miklubraut

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.3.2013 - 07:56 - 15 ummæli

Öflug miðjustjórn

Það er grundvöllur fyrir öflugri miðjustjórn eftir kosningar. Viðhorfsbreyting almennings gagnvart aðildarviðræðum að Evrópusambandinu þar sem rúm 60% vilja klára aðildarviðræður og tæp 40% slíta þeim gefur Framsóknarflokknum leið til þess að mynda ríkisstjórn með Samfylkingu og Bjartri framtíð undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Framsóknarflokkurinn getur beitt  þeim rökum að rétt hefði verið að kjósa um það samhliða Alþingiskosningunum  hvort halda beri aðildarviðræðum áfram. Það hafi „því miður“ ekki verið gert. Því sé rétt að fara leið Vinstri grænna, gefa aðildarviðræðunum ár til viðbótar og leggja málið þá í dóm þjóðarinnar óháð því hvort aðilarsamningur liggur fyrir eða ekki.  Það ár einbeiti ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sér að endurreisn heimilanna. Þar megi engan tíma missa.

Staða Sigmundar Davíðs er nefnilega sterk svo fremi sem Framsóknarflokkurinn verði stærri en Samfylking og Betri framtíð.

Á þá stöðu Sigmundar Davíðs benti ég á ÁÐUR en Framsóknarflokkurinn tók risastökk í skoðanakönnunum.

Sjá pistilinn „Sjálfstæðisflokkurinn er patt!“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.3.2013 - 21:04 - 7 ummæli

400000 stk Boeing 737

Bjórdósir og gosdósir sem Bandaríkjamenn hentu í ruslið á síðasta áratug í stað þess að endurvinna þær hefðu dugað í 400 þúsund Boeing 737 farþegaþotur. Í eina fullkomna farþegaþotu undir hvern og einn lifandi Íslending og Færeying. Það sem meira er. Þessi gegndarlausa sóun kostaði 94% meiri orku við að bræða sambærilegt ál frá grunni en ef áldósirnar hefðu verið endurunnar.

Mig langar ekki einu sinn að vita hvað þessi óþarfa orkunotkun kostaði okkur í sóun orkulinda og óþarfa útlosun gróðurhússloftegunda.

Þetta var bara álið.

Sama lögmál gildir með endurvinnslu járns. Það þarf 74% meiri orku í að bræða járn úr meðalgóðu járngrýti en að endurvinna járn.

Við eigum ekki að henda áli. Ekki einu sinni álinu utan um teljósin litlu.

Við eigum ekki að henda öðrum málmum heldur. Ekki einu sinn sardínudósum eða sultulokum.

Því margt smátt gerir eitt stórt. Jafnvel heljarstórt. Svona eins Boeing 737 farþegaþotu. Jafnvel 400 þúsund stykki!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur