Annað hvort er Vilhjálmur Bjarnason frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins illilega viðutan eða hann er ekki eins vel gefinn og ég hélt. Hvor ástæðan sem er þá á hann ekki erindi á þing andstætt því sem ég taldi lengi vel. Því grófar rangfærslur í greinum og viðtölum geta einungis átt sér tvær skýringar. Að viðkomandi svo viðutan að hann hafi ekki kynnt sér gögn og staðreyndir eða þá að viðkomandi er það illa gefinn að hann telur sig geta komist upp með að ljúga upp í opið geðið á almenningi.
Vilhjálmur Bjarnason hefur nefnilega annað hvort verið svo viðutan að hann óafvitandi segir ekki satt eða þá að maðurinn er að ljúga.
Ég gef mér að maðurinn sé svona viðutan…
Mannanginn segir í Morgunblaðsgrein í síðustu viku að íbúðalán bankakerfisins sem settu allt á hvolf haustið 2004 hafi : „…að litlu leyti (verið) á kostnað bankanna. Höfðingsskapurinn var á kostnað Íbúðalánasjóðs, sem fjármagnaði bankana til þessara aðgerða“.
Dósentinn er með þessu að vísa í lánasamninga sem Íbúðalánasjóður gerði við hluta bankakerfisins í árslok 2004 sem hluti af fjárstýringarstefnu sinni.
Ef Vilhjálmur Bjarnason hefði skoðað málið þá hefði hann uppgötvað það sem Ríkisendurskoðun grandskoðaði í úttekt sinni á Íbúðalánasjóði. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir:
„Til fróðleiks skal þess getið að bankar og sparisjóðir höfðu í desember 2004 boðið íbúðalán í samkeppni við Íbúðalánasjóð í fjóra mánuði og námu útlán þeirra á þeim vettvangi um 140 milljörðum króna.“
Þetta þýðir á mannamáli að áður en Íbúðalánasjóður gerði lánasamninga við Landsbankann og nokkra Sparisjóði í desember 2004 þá höfðu bankarnir dælt út 140 milljörðum króna í íbúðalánum á tæpum fjórum mánuðum. Það var um fjórðungur þess sem Húsnæðisstofnun og Íbúðalánasjóður höfðu lánað í almennum húsnæðislánum á 20 árum!
Og hefði Vilhjálmur lesið betur skýrslu Ríkisendurskoðunar þá hefði hann kannske fattað – andstætt því sem hann heldur fram – að fyrst lánuðu bankarnir 140 milljarða – síðan gerði Íbúðalánasjóður lánasamninga sem námu ekki nema broti af þeirri fjárhæð. Um þetta segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar:
„Fyrstu lánasamningarnir til langs tíma, sem Íbúðalánasjóður gerði í kjölfar breytinga áhættu- og fjárstýringarstefnu sinni, vegna mikillar og ört vaxandi þarfar til að ávaxta handbært fé, voru gerðir í lok desember 2004 við tvo innlenda banka og nokkra sparisjóði, samtals að fjárhæð tæplega 31,6 milljarða.“
Ég held ég verði að ljúka þessum pistli með því að benda frambjóðandanum og viðskiptafræðidósentinum viðutan á að 140 milljarðar mínus 31,6 milljarðar gera 108,4 milljarðar.
Þótt hundalókík Vilhjálms Bjarnasonar um að lánasamningar sem gerðir eru EFTIR að bankarnir voru búnir að lána 140 milljarða sé orsök þenslu vegna þegar lánaðra íbúðalána gengi upp – þá á hann eftir að skýra út hvernig þessir lánasamningar upp á 31,6 milljarða sé orsök þenslunar en ekki þeir 108,4 milljarðar bankanna sem út af standa!