Jóhanna Sigurðardóttir er að stíga sín síðustu skref í stjórnmálum eftir langan og viðburðaríkan feril. Hvað sem fólki finnst um þá pólitík sem Jóhanna hefur staðið fyrir þá verður ekki frá henni tekið að hún hefur gefið líf sitt og sál í baráttunni fyrir hugsjónum sínum. Því Jóhanna er hugsjónamanneskja.
Ég hef átt nokkur samskipti við Jóhönnu gegnum tíðina. Ekki hvað síst sem starfsmaður Íbúðalánasjóðs þar sem ég iðulega vann upplýsingar um húsnæðismál fyrir Jóhönnu bæði þegar hún var þingmnaður og þegar hún var ráðherra. Þótt það hafi oft verið mikil vinna að vinna þær upplýsinga sem Jóhanna óskaði eftir þá var það ánægjuleg vinna. Því Jóhanna tók við þeim upplýsingum með þakklæti og lét vita að hún kunni að meta vinnuna.
Við Jóhanna höfum ekki verið samherjar í póltík. Við erum oft ósammála um stjórnmál en reyndar stundum sammála.
En það breytir ekki því að ég ber mikla virðingu fyrir Jóhönnu sem stjórnmálamanni og vil þakka hennar framlag til stjórnmálanna gegnum áratugina. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að fólk gefi líf sitt og sál í stjórnmálastarf fyrir þjóðina á grundvelli hugsjóna sinna. Þá skiptir það mig engu hvort ég sé sammála slíku fólki eða ekki.