Laugardagur 2.2.2013 - 08:58 - 4 ummæli

Jóhanna Sigurðardóttir

Jóhanna Sigurðardóttir er að stíga sín síðustu skref í stjórnmálum eftir langan og viðburðaríkan feril. Hvað sem fólki finnst um þá pólitík sem Jóhanna hefur staðið fyrir þá verður ekki frá henni tekið að hún hefur gefið líf sitt og sál í baráttunni fyrir hugsjónum sínum. Því Jóhanna er hugsjónamanneskja.

Ég hef átt nokkur samskipti við Jóhönnu gegnum tíðina.  Ekki hvað síst sem starfsmaður Íbúðalánasjóðs þar sem ég iðulega vann upplýsingar um húsnæðismál fyrir Jóhönnu bæði þegar hún var þingmnaður og þegar hún var ráðherra. Þótt það hafi oft verið mikil vinna að vinna þær upplýsinga sem Jóhanna óskaði eftir þá var það ánægjuleg vinna. Því Jóhanna tók við þeim upplýsingum með þakklæti og lét vita að hún kunni að meta vinnuna.

Við Jóhanna  höfum ekki verið samherjar í póltík. Við erum oft ósammála um stjórnmál en reyndar stundum sammála.

En það breytir ekki því að ég ber mikla virðingu fyrir Jóhönnu sem stjórnmálamanni og vil þakka hennar framlag til stjórnmálanna gegnum áratugina. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að fólk gefi líf sitt og sál í stjórnmálastarf fyrir þjóðina á grundvelli hugsjóna sinna. Þá skiptir það mig engu hvort ég sé sammála slíku fólki eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.1.2013 - 08:23 - Rita ummæli

Er feðraorlofið bull?

Norskur fræðimaður heldur því fram að feðraorlof geti skaðað ungabörn. Semsé að feðraorlofið sé bull. Nema faðirinn sjá fyrst og fremst um hið fyrrum hefðbunda móðurhlutverk. Móðirin sé þá í fyrrum hefðbundna föðurhlutverkinu – fjarlægari barninu dags daglega. Ömurlegt ef satt er því fátt hefur gefið mér meira í lífinu en feðraorlofið og það að geta um tíma verið alfarið hjá yngri börnunum mínum.

Turid Suzanne Berg-Nielsen vill meina að sú breyting sem verður á helsta umönnunaraðilja á fyrstu mánuðunum í lífi barns þegar móðir hverfur til starfa og faðir tekur við á heimilinu með barnið auki verulega á streitu barnsins. Berg-Nielsen segir:

„Pappapermisjonen er såpass ny at det ikke er forsket mye på dette. En annen årsak er at barna er så små at de selv ikke kan gi uttrykk for hva de ønsker. Derfor er det vanskelig å forske på dette. Men det vi vet fra barnehageforskning er at ett- og toåringer som blir plassert i barnehage har mye høyere nivå av stresshormoner i blodet enn barn som er hjemme. Det får de fordi de blir fratatt sin vante tilknytningsfigur og overlatt til andre voksne. Det oppleves som svært stressende.“

Meira um þetta hér:  http://www.nrk.no/helse-forbruk-og-livsstil/1.10890605

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.1.2013 - 08:55 - 6 ummæli

Framtíðarforysta Sjálfstæðisflokksins

Ég sé ekki betur en að framtíðarforystusveit Sjálfstæðisflokksins sé komin fram.  Bjarni Benendiktsson mun aldrei geta náð sér á það strik sem hann þarf til þess að verða sterkur leiðtogi í Sjálfstæðisflokknum. Þar vefst fortíð Bjarna í viðskiptum fyrir honum. Þá skiptir ekki máli hvort fjölmiðlaumfjöllun um Vafningsmálið er réttmæt eða réttmæt ekki.

Hanna Birna Kristjánsdóttir mun að sjálfsögðu taka við af Bjarna Benediktssyni fyrr en síðar. Öflug sem hún er. Með henni í forystu Sjálfstæðisflokksins verður Kristján Þór Júlíusson sem sýndi fádæma styrk í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi um helgina. Norðfirðingurinn sem skoraði Kristján á hólm í prófkjörinu fékk háðulega útreið og er hættur í pólitík. Kristján Þór er nú annar tveggja varaformanna Sjálfstæðisflokksins. Stórsigur hans tryggir honum áfram þá stöðu. Hanna Birna mun taka við sem hinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á næsta Landsfundi. Þau eru klár þegar Bjarni segir af sér.

Þau Kristján Þór og Hanna Birna eiga það sameiginlegt að hafa mikla og góða stjórnunarreynslu í pólitík. Kristján Þór sem farsæll sveitarstjóri. Hanna Birna sem farsæll borgarstjóri.  Þau þekkja því grasrótina í pólitíkinni gegnum sveitarstjórnarmálin afar vel.  Það er dýrmæt reynsla.

Tíminn mun síðan leiða í ljós hvort þau verða farsæl í forystu Sjálfstæðisflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.1.2013 - 14:05 - 2 ummæli

Samvinna um frelsi með félagslegri ábyrgð

„Allir eiga að búa við aðstöðu og svigrúm til að gera það sem hugur þeirra stendur til, án þess að skaða aðra. Fjölbreyttar athafnir einstaklinga, hugmyndir þeirra og kraftur — fái þeir svigrúm — eru grunnur að farsælu þjóðfélagi.“  Þetta gæti verið grunnstef í skilgreiningu á frjálslyndri stjórnmálastefnu.

Ég persónulega myndi vilja bæta við hugmyndinni um samvinnu frjálsra einstaklinga á jafnréttisgrundvelli við framangreint stef.

Í aldarfjórðung hef ég orðað þetta þannig: „Frelsi með félagslegri ábyrgð“.

Þótt stjórnmálamenn og stjórnmálaumræða hafi ekki verið upp á sitt besta að undanförnu þar sem því miður hefur glitt í öfgar, höft og forræðishyggju – þá er ljóst að það ætti að geta náðst ágætt samstaða um að byggja samvinnu ýmissi góðra stjórnmálamanna á framangreindu grunnstefi. Stjórnmálamanna úr öllum núverandi stjórnmálasamtökum-  þótt ýmis flokkssystkyni viðkomandi hafi verið út úr kú á kjörtímabilinu og fjarri því að vera frjálslynd á einn eða annan hátt.

Því sannleikurinn er sá að þetta grunnstef er að finna á einn eða annan hátt í öllum stjórnmálflokkum!

Setjum upp smá lista af góðu fólki sem rekur pólitík sem fellur að þessum frjálslyndu grunnstefum þótt það nálgist það úr mismunandi áttum:

Katrín Jakobsdóttir Thoroddsen varaformaður VG.  Árni Páll Árnason formannsefni Samfylkingarinnar. Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins. Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformannsefni Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Steingrímsson annar formaður Bjartrar framtíðar.

Hefði sagt Lýður Árnason úr Dögun – en hann er víst hættur. Nefni þá Gísla Tryggvason í staðinn!

Þetta væri ekki ónýtur grunnur að ríkisstjórn sem byggði samvinnu sýna á grundvallarstefninu „Frelsi með félagslegri ábyrgð“.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.1.2013 - 10:53 - 2 ummæli

Jón Gnarr í Mosó

Sú hugmynd að færa skrifstofur borgarstjóra í tímabundið Breiðholtið er snjöll. Það að framkvæma þá hugmynd er snilld. Þetta framtak Jóns Gnarr er afar jákvætt. Ekki að það skipti öllu að Jón Gnarr sé í Breiðholtinu svona borgarstjóri sem hann er. Það sem skiptir máli er að hann tekur með sér hluta af æðstu embættismönnum borgarinnar með sér og að þeir og borgarfulltrúar skuli í einhvern tíma þurfa að horfa á borgina út frá sjónarhorni Breiðhyltinga en ekki Reykjavík 101.

Þetta er svona hugmynd sem frændi minn Gísli Marteinn hefði líka getað fengið og framkvæmt þannig ég trúi að minniuhlutinn taki vel í þessa nýbreytni.

En Jón Gnarr á ekki að láta staðar numið í Breiðholtinu. Hann á að semja við bæjarstjórann í Mosfellsbæ um að fá að sitja þar um skeið. Bæjarstjórinn í Mosó ætti að semja við bæjarstjóranna á Seltjarnarnesi um að fá afnot af bæjarskrifstofunum þar og bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi að sitja um skeið í  skrifstofum Reykjavíkurborgar við Höfðatorg.

Ég er ekki að grínast.

Þetta gæti verið fyrsta skrefið í nauðsynlegri sameiningu Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness.

Á sama hátt ættu bæjarstjórar Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hafa vistaskipti um skeið. Sem fyrsta skrefið í nauðsynlegri sameiningu þessarra sveitarfélaga.

Á meðan bæjarstjórarnir hafa sætaskipti getur Alþingi undirbúið nauðsynlegar breytingar á lögum til að tryggja flutning tekjustofna og verkefna frá ríki til sveitarfélaga þannig að stór og öflug sveitarfélög sinni ekki einungis núverandi verkefnum heldur einnig eins mörgum verkefnum sem ríkisvaldið sinnir eins og unnt er.

Á landsbyggðinni ætti samhlið að sameina núverandi sveitarfélög í stór sveitarfélög sem yrðu á stærð við gömlu kjördæmin svo landsbyggðarsveitarfélögin hafi styrk til þess að taka við tekjustofnum og verkefnum af ríkinu.

Semsagt. Jón Gnarr í Mosó!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.1.2013 - 15:52 - 9 ummæli

Gamanþáttur um ESB umsókn

Það eru sameiginlegir hagsmunir Vinstri grænna og Samfylkingar að setja upp leikþáttinn „Hægjum á aðildarviðræðunum við ESB“ korter fyrir kosningar.  Steingrímur J. nær aðeins að róa hatramma andstæðinga ESB viðræðna innan VG  og heldur þeim mögulega innanborðs. Samfylkinginn nær að hlaða rafhlöðurnar og gera inngöngu í ESB að sínu aðalkosningamáli vitandi hversu stór hluti almennnings vill klára aðildarviðræður.

Það fyndna í stöðunni er að þetta er ekkert annað en leikþáttur.  Það er ekki verið að fresta einu eða neinu.

  • Ríkisstjórnin mun ekki biðja um sérstaka ríkjaráðstefnu – stóð það einhverntíma til?
  • Kaflar um sjávarútveg og landbúnað verða ekki opnaðir fyrir kosningar – stóð það einhverntíma til ?
Síðan er það grundvallarspurningin í ljósi þess að það var Alþingi sem samþykkti að hefja skyldi aðildarviðræður að Evrópusambandinu og fól ríkisstjórninni verkið:
  • Hefur ríkisstjórnin þannig forræði á málinu að hún hafi heimild til að stöðva það?
Ekki að það skipti öllu máli. Þetta er nú einu sinni leikþáttur. Gamanþáttur. Farsi.
Ég geri ráð fyrir að leikstjórinn sé hinn gamansami pólitíski refur Össur Skarphéðinsson!

En gamanið gæti farið að kárna bæði fyrir VG og Samfylkingu.

Það eru nefnilega mjög margir sem kosið hafa VG sem vilja sjá aðildarviðræður kláraðar og taka síðan afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi niðurstaða gæti orðið til þess að þeir leita annað vegna andúðar VG á Evrópusambandinu.

Það eru nefnilega mjög margir sem kosið hafa Samfylkingu sem vilja sjá aðildarviðræðurnar kláraðar og taka síðan afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi niðurstaða gæti orðið til þess að þeir leiti annað vegna þess hve Samfylkingin er ákveðin í að það skuli ganga í Evrópusambandið.

Það eru ekki margir valkostir þetta fólk.  Nánast trúarleg stæk andstaða er gegn aðildarviðræðum innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Kosturinn er því nánast einn fyrir fólk sem vill klára aðildarviðræður og taka síðan afstöðu.

Sá kostur er Björt framtíð.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.1.2013 - 18:31 - 8 ummæli

Leggjum niður RÚV

Það þarf að spara í ríkisrekstri. Leggjum niður RÚV.

Frumforsenda í ríkisrekstri er að það sé unnt að færa haldbær rök fyrir slíkum rekstri. Það eru ekki lengur haldbær rök fyrir rekstri RÚV sem ríkisfyrirtækis.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.1.2013 - 18:05 - 10 ummæli

Leyfum fjölkvæni og fjölgiftingu!

Ef einhver karl eða kona er svo vitlaus að vilja kvænast eða giftast fleiri ein einum aðilja af hverju í ósköpunum ættum við að banna slíkt?

Persónulega finnst mér alveg nóg að eiga eina konu – og miðað við hvað ég get eflaust verið erfiður í sambúð á stundum þá geri ég ráð fyrir að konan mín hafi alveg nóg með mig.

En það er ekki málið. Málið er að ef fólk vill búa í „polygamy“ þá er engin ástæða fyrir okkur sem samfélag að  banna það.  Hvað þá að draga fólk fyrir dóm fyrir slíkt.

Úrlausnarefnið er að finna lausn á því hvernig réttindi fólks í slíkum hjónaböndum eru útfærð þannig það gangi ekki gegn jafnræði fólks í hefðbundinni sambúð.

Ekki það að í íslensku samfélagi er fólki stundum refsað fyrir að ganga í hjónaband og eignast börn innan þess – en látum það liggja milli hluta.

Ég er að ræða um hjónaband sem borgaralega stofnun – ekki trúarlega.  Ef fólk er raunverulega kristið og vill fylgja kristinni trúarkenningu þá fer hjónavígsla þess fram í kirkju og þá einungis í boði að eiga einn maka – í einu.

Ef fólk er td. múslimar sem leyfa fjölkvæni – þá eigum við að sjálfsögðu ekki að leggja stein í götu þess með því að banna fjölkvæni.

Ergo: Leyfum fjölkvæni og fjölgiftingu!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.1.2013 - 07:34 - Rita ummæli

Svört leiga í sókn

Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur ýtt undir svarta leigu. Á meðan skattur á leigutekjur voru hóflegar þá var það allra hagur að þinglýsa leigusamningi. Nú munar leigusala um þá fjárhæð sem fer í skatt af leigutekjum. Auk þess sem leigutekjurnar geta haft áhrif á tekjuskattsþrep viðkomandi og hækkað skattaálögur hans þess vegna.

Því kemur ekki á óvart að þinglýstum leigusamningum hafi fækkað um 9% á síðasta ári. Það er ekki vegna þess að leigumarkaðurinn er að skreppa saman eins og Morgunkorn Íslandsbanka virðist halda fram ef marka má frétt á visir.is. Það er vegna þess að útleiga húsnæðis er í sífelldu mæli orðin svört.

Eins og vinna margra iðnaðarmanna – en hefðbundin svört vinna þeirra var nánast úr sögunni – fyrir tíma þessarar ríkisstjórnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.1.2013 - 07:51 - 3 ummæli

Namibískar kýr í Noregi

Það er margt skrítið og skemmtilegt í kýrhausnum í Noregi. Nú er það þannig að „átakanlegur“ smjörskortur fyrir jólin 2011 varð til þess að namibískar kýr flæða nú yfir Noreg. Ekki lifandi þó heldur bútaðar niður í neytendapakkningar.

Það þótti fréttnæmt þegar Norðmenn voru teknir í stórum stíl við að smygla smjöri til Noregs síðasta vetur vegna þess að norskar kýr mjólkuðu ekki nóg til að trygga þetta hefðbundna viðbit. Reyndar hækkuðu Norðmenn innflutningskvóta á smjöri tímabundið til að tryggja jólagleðina og draga úr smjörsmygli og svartamarkaðsbraski. En eins og flestir vita eru Norðmenn með ólíkindum háa og mikla tolla á innfluttar landbúnaðarvörur.

Norskir bændur brugðust við ástandinu með því að slátra færri kúm og setja á fleiri kálfa. Alfeiðing þess í afar tollvörðu landi var að sjálfsögðu skortur á „stórfjárkjöti“  þar sem kálfar og kýr sem ekki hefur verið slátrað eru ekki étin…

Og já! Norðmenn eru ekki eins og Íslendingar sem selja kýrkjöt sem nautakjöt. Kjöt af fullorðnum nautpeningi er einfaldlega kallað „storfekjøtt“.

En hvað hefur þetta með namibískar kýr að gera?

Jú, Norðmenn eru nú farnir að kaupa namibískt nauta og kálfakjöt í stórum stíl. Slík viðskipti eru hagkvæm í kjötskorti í  Noregi þrátt fyrir langar vegalengdir þar sem namibískt kjöt fellur undir sérstaka innflutningskvóta sem komst á eftir GATT samninga árið 1995.

Namibískir bændur eru himinlifandi enda greiða Norðmenn hærra verð fyrir namibískt nautakjöt en aðrir!  Ástæðan. Niðurgreitt norskt stórfjárkjöt er miklu dýrara en óniðurgreitt namibískt nauta og kálfakjöt.

Á meðan innflutningur á namibísku nautakjöti er innan innflutningskvóta og norskir verndartollar bíta því ekki svo sárt sem venjulega, þá er namibískt nautakjöt sem greitt er vel fyrir á namibískan mælikvarða, vel samkeppnisfært í verði í Noregi þrátt fyrir kostnað við skipaflutning frá syðri hluta Afríku!

… og hvernig ætli namibísku beljurnar séu á bragðið?

Kanske maður láti á það reyna um helgina …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur