Mánudagur 19.11.2012 - 08:04 - 6 ummæli

Hanna Birna bjargaði Orkuveitunni!

Það er rangt hjá Þorsteini Pálssyni þeim vandaða manni og öfluga penna að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi sér „enga aðra erfiða fortíð í pólitík en að hafa skilið skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn“. Hanna Birna Kristjánsdóttir skildi ekki skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn.  Þvert á móti þá vann Hanna Birna frá fyrsta degi sem borgarstjóri að lausn skuldavanda Orkuveitunnar!

Hanna Birna og Óskar Bergsson höfðu forgöngu um það haustið 2008 þegar þau tóku við stjórnartaumunum í Reykjavík að Reykjavíkurborg tæki til hliðar milljarða úr borgarsjóði til að takast á við möguleg áföll vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Þau gerðu sér grein fyrir því að bjartsýnissukkið og ofurskuldsetningin sem fór á fullt eftir að Alfreð Þorsteinsson hætti sem formaður stjórnar Orkuveitunnar gæti komið Orkuveitunni í vandræði.

Það voru þessir fjármunir sem Hanna Birna og Óskar tóku frá sem Besti flokkurinn gekk í til að takast á við vanda Orkuveitunnar.

Það sem meira er – þegar Besti flokkurinn tók við þá hafði stjórn Orkuveitunnar með Guðlaug Gylfa Sverrisson stjórnarformann í fararbroddi átt um nokkurt skeið í viðræðum við lánadrottna sína um endurskipulagningu skulda,  unnið áætlanir um gjaldskrárhækkanir í skrefum og lagt á ráðin um niðurskurð.   Sú áætlun og það samstarf við lánadrottna fauk út í veður og vind þegar Besti flokkurinn kom að málinu eins og fíll í postulínsbúð þannig að lánadrottnar stóðu agndofa!  Það frestaði aðgerðum um endurskipulagningu lána um einhverja mánuði.

Hins vegar verður það ekki af Besta flokknum tekið að hann tók á skuldamálum Orkuveitinnar af hörku og skar lúxusfitulagið af fyrirtækinu án nokkurrar miskunnar. Það ber að hrósa þeim fyrir það.

En hvað sem því líður þá er það ekki rétt að Hanna Birna hafi ekki unnið að lausn skuldavanda Orkuveitur Reykjavíkur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.11.2012 - 16:42 - 40 ummæli

Lygin um „Vímulaust Ísland árið 2000“

Lygin um að Framsóknarflokkurinn hafi lofað vímulausu Íslandi árið 2000 er lífseig.  Lygin er orðin sannleikur í hugum margra Íslendinga. Sá enn einu sinni þessari lygi haldið fram í athugasemdakerfi DV í dag í tilefni miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins.  Sem reyndar var að fjalla um stuðning við landbúnað, sjávarútveg og iðnað – en var ekki að pæla mikið í vímuefnum að þessu sinni. Væntanlega hélt angans konan að Framsóknarflokkurinn hafi lofað vímulausu Íslandi árið 2000.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að Framsókn lofaði aldrei vímulausu landi árið 2000. Það er tilbúningur andstæðinga Framsóknarflokksins.

Það var hins vegar þverpólitískur og þverfaglegur starfshópur sem átti að berjast gegn vímuefnavánni sem setti þetta markmið í bjánalegri, óraunhæfri auglýsingaherferð. EKKI FRAMSÓKNARFLOKKURINN.

Hins vegar hét Framsóknarflokkurinn að veita 1 milljarði í baráttuna gegn vímuefnum á kosningabaráttunni árið 1995 minnir mig frekar en 1998. Við það var staðið og gott betur því aukning á fjármagni í baráttuna gegn vímuefnavánni  á kjörtímabilinu á eftir var 2 milljarðar!!!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.11.2012 - 09:50 - 6 ummæli

Myrkraverkin undir Svörtuloftum

Seðlabankinn lék lykilhlutverk í hruninu. Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankana á versta tíma og klikkaði á að snarhækka bindiskylduna þegar bankarnir fóru að dæla út niðurgreiddu lánsfé upp á hundruð milljarða króna haustið 2004.

Seðlabankinn bjó til falskt sterkt gengi íslensku krónunnar með hávaxtastefnu sinni. Það falska sterka gengi varð til þess að ódýrt erlent lánfé streymdi inn í landið gegnum bankana, keyrði upp verðbólguna og safnaðist í snjóhengju efnahagshrunsins.

Nú er Seðlabankinn aftur kominn af stað með hávaxtastefnu sem mun kæfa atvinnulífið og auka verðbólgu.

Er ekki í lagi undir Svörtuloftum?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.11.2012 - 16:17 - 17 ummæli

Valið er verðtryggð króna eða evra!

Það er dálítið hjákátlegt að sjá suma stjórnmálamenn sem segjast vilja afnám verðtryggingu íslensku krónunnar í lánum til almennings berjast fyrir framhaldslífi þess annars ágæta gjaldmiðils!  Staðreyndin er nefnilega sú að ónýt íslensk króna er algerlega ónýt ef ekki verður unnt að verðtryggja hana á einn eða annan hátt.

Leiðin er einföld. Hættum heimskulegri meðvirkni með krónunni. Stefnum á stöðugleikasamning við evrópska seðlabankann og tengjum krónuna evru á sama hátt og færeyska, danska og sænska krónan eru beintengd evru með ákveðnum vikmörkum.  Vikmörk íslensku krónunnar verða náttúrlega að vera mun meiri en hjá sænsku og dönsku krónunum til að byrja með – en þetta er eina vitræna leiðin.

… þess vegna verðum við að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið og sjá hver niðurstaða efnahagspakkans verður.

Hin leiðin er verðtryggð króna með grimmum gjaldeyrishöftum!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.11.2012 - 08:50 - 5 ummæli

Ný forysta þriggja flokka?

Það er raunhæfur möguleiki á því að það verði ný forysta sem leiði Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu fyrir næstu Alþingiskosningar.  Bjarni Benediktsson fór afar illa út úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum þótt hann hafi náð að halda 1. sæti listans.  Það eru hins vegar allar líkur á því Hanna Birna Kristjánsdóttir fái góða kosningu í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Það gæti vafist fyrir Sjálfstæðismönnum að halda veikum Bjarna til streitu sem formanni þegar það blasir við að miklu sterkari leiðtogi muni leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins er í fallhættu í norðausturkjördæmi þar sem hann vill fara fram því Höskuldur Þórhallsson hefur miklu meiri stuðning í 1. sætið en flokksforystan taldi. Höskuldur gæti haft Sigmund Davíð. Formannstíð Sigmundar yrði þá úti.

Reyndar er ritari Framsóknarflokksins Eygló Harðardóttir einnig  í erfiðum málum því allar líkur eru á því að hún nái ekki 1. sæti í suðvesturkjördæmi eins og hún stefndi að. Eygló ákvað að flytja sig úr suðurkjördæmi yfir í suðvesturkjördæmi þegar ljóst var að Siv Friðleifsdóttir hyggðist hætta á þingi. Willum Þór Þórsson sem einnig sækist eftir 1. sætinu er miklu sterkari í kjördæminu en Eygló. Möguleiki Eyglóar felst í því að Siv Friðleifsdóttir beiti sér fyrir hana, en Siv er með afar sterka stöðu meðal Framsóknarmanna í kjördæminu. En af hverju ætti Siv að ómaka sig fyrir flokksforystu sem setti hana meira og minna til hliðar?

Varaformaður Framsóknarflokksins Birkir Jón Jónsson hefur gefið út að hann hætti þannig að það gæti komið algerlega ný forysta Framsóknarflokksins fyrir kosningar!

Hvað Samfylkinguna varðar þá er ljóst að þar verða formannsskipti. Árni Páll Árnason er þar með mjög sterka stöðu etir að hafa sigrað örugglega í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi þrátt fyrir að núverandi flokksforysta Samfylkingarinnar og Hafnarfjarðararmurinn hafi beitt sér gegn honum. Það verður spennandi að sjá hvern Jóhönnuarmurinn í Samfylkingunni muni draga fram til að berjast við Árna Pál í formannsslagnum.

Ef þetta gengur eftir mun Steingrímur J. Sigfússon vera eini núverandi formaðurinn sem leiðir flokk sinn í komandi kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.11.2012 - 07:15 - 7 ummæli

Siðlaus Samfylkingarforysta?

Það er hætt við að það hefði hvinið í forystu Samfylkingarinnar ef Framsóknarflokkurinn hefði  ákveðið að spandera milljörðum úr ríkissjóði til að styrkja stöðu fjármálaráðherra  Framsóknar sem handgenginn væri fráfarandi flokksforystu korter fyrir prófkjör og hálftíma fyrir kosningarr

„Spilling! Siðleysi!  Óábyrg fjármálastjórn!“

Minnir að ég hafi heyrt slíkar upphrópanir frá Samfylkingarforystunni í garð Framsóknarflokksins af minna tilefni gegnum tíðina.

„Flokkseigendafélag að misnota almannafé til að tryggja krónprinsessuna í sessi!“

Upphrópun í þá áttina hefði verið líkleg ef Samfylkingin væri að horfa upp á flokksforystu Framsóknarflokksins grípa eins  gróflega inn í prófkjör og formannskjör  eins og flokksforysta Samfylkingarinnar gerir nú.

„Á blaðamannafundi í morgun kynntu fjármála- og efnahagsráðherra og varaformenn stjórnarflokkanna verkefni fyrir rúma sex milljarða króna sem fá viðbótarfjármagn á fjárlögum til að skapa störf og efla fjárfestingu og vaxandi atvinnugreinar“  las ég um blaðamannafund sem haldinn var í morgunn.

Hvað hefði  skinheilög forysta Samfylkingarinnar sagt um Framsóknarflokkinn ef fráfarandi forysta Framsóknarflokksins hefði  ákveðið að setja upp 6,5 milljarða flugeldasýningu kring um krónprinsessu sína á baráttu gegn öðrum góðum og gegnum flokksmanni?

Já, og hvað hefði núverandi flokksforysta Samfylkingarinnar og málpípur hennar sagt ef flokksforysta Sjálfstæðisflokksins hefði lagt Framsóknarflokknum lið í slíkri baráttu?

Því það er engin launung að Steingrímur J. Sigfússon er  á fullu með Jóhönnu Sigurðardóttur að reyna að fella Árna Pál Árnason í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi – og þar með að koma í veg fyrir að Árni Páll verði formaður Samfylkingarinnar.

Það er ástæða þess að varaformaður VG og varaformaður Samfylkingarinnar eru sendir í klapplið fjármálaráðherra á blaðamannafundi rétt fyrir prófkjör. Því hin geðþekka Katrín Júlíusdóttir er krónprinsessa Jóhönnu og Steingríms J.

… og til að bíta úr nálinni er það ekki varaformaðurinn sem sendur er í Kastljós til að svara spurningum – því það er ekki gott ef fjármálaráðherrann fengi erfiðar spurningar um stóraukin útgjöld ríkissjóðs – korter fyrir prófkjör.  Því það er ekki alveg víst að allir kaupi ljómann af kosningaframlagi úr ríkissjóðsi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.11.2012 - 08:32 - 2 ummæli

Amríski Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn hefur um áratugaskeið litið á bandaríska Demókrataflokkinn sem systurflokk sinn. Það er ekki að ófyrirsynju því flokkarnir hafa átt samstarf meðal annars gegnum Alliance of Democrats. Þessu sambandi heldur núverandi flokksforysta Framsóknarflokksins nú á lofti og hefur lýst stuðningi við demókratan Barack Obama í bandarísku forsetakosningunum sem nú standa yfir.

Hins vegar virðist núverandi flokksforysta hafa gleymt því að Framsóknarflokkurinn hefur um áratauga skeið átt í miklu og nánu samstarfi við frjálslynda flokka víðs vegar um heiminn í gegnum Liberal International þar sem Steingrímur Hermannsson gegndi meðal annars embætti varaforseta.

Þar hefur samstarfið eðlilega verið nánast við evrópska, frjálslynda flokka og þá ekki síst frjálslynda Evrópusinnaða flokka á Norðurlöndunum.

Þar hafa systurflokkar Framsóknar meðal annars verið hinn finnski Evrópusinnað Miðflokkur (Suomen Keskusta) hinn finnski Sænski þjóðarflokkur (Svenska folkpartiet),  hinn Evrópusinnaði Frjálslyndi þjóðarflokkur í Svíþjóð (Folkpartiet Liberalana), sænski Miðflokkurinn (Centerpartiet) sem einnig er Evrópusinnaður, dönsku Evrópusinnuðu flokkarnir Venstre Danmark Liberale Parti og Det Radikale Venstre og hinn norski frjálslyndi flokkur Venstre – sem einnig er Evrópusinnaður.

Núverandi flokksforysta Framsóknar hefur ekki lagt rækt við þetta hefðbundna samstarf að undanförnu. Þess í stað hefur núverandi flokksforysta haldið mjög á lofti samstarfi við eina miðflokkinn á Norðurlöndum sem ekki er Evrópusinnaður og hvorki í Liberal International né í ELDR – Evrópusamtökum frjálslynda flokka – það er norska Miðflokkinn (Sentern).  Sá flokkur berst hart gegn hugmyndum um aðild Noregs að Evrópusambandinu og leggur áherslu á ofurtolla til verndar norskum landbúnaði.

Enda hefur minna farið fyrir hinni frjálslyndu miðju í Framsóknarflokknum undanfarin misseri!

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.11.2012 - 12:12 - 4 ummæli

Fréttin er Björt framtíð

Fréttin er Björt framtíð en ekki tímabundið stopp í fylgishruni ríkisstjórnarinnar. Fréttin er að fari fram sem horfir verður nýr þingflokkur á Alþingi eftir komandi kosningar. Miðað við núverandi fylgi yrði slíkur þingflokkur Bjartrar framtíðar með að minnsta kosti 4 þingmenn. Einhverntíma hefði það verið talin frétt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 17:20 - 6 ummæli

Nær 30% forskot Árna Páls

Árni Páll Árnason er með 28% meira fylgi meðal þjóðarinnar til að verða formaður Samfylkingarinnar en keppinautar hans. Næstur honum er hinn geðþekki Guðbjartur Hannesson og fast á hæla honum hin knáa Katrín Júlíusdóttir. Allt flott fólk!

Þetta er eitt af því merkilega við niðurstöðu skoðanakönnunar MMR og Viðskiptablaðsins um hvern þjóðin vill fá sem formann Samfylkingarinnnar þegar Jóhanna Sigurðardóttir stígur til hliðar. Hins vegar er munurinn minni þegar skoðað er viðhorf núverandi kjósenda Samfylkingarinnar. Þar leiðir Árni Páll klárlega en Katrín komin í annað sæti.

Þessi niðurstaða sýnir að ef Samfylkinginn vill ná til nýrra kjósenda þá er Árni Páll maðurinn til þess.  Ef Samfylkingin vill styrkja innviði sýna án þess að bæta við sig fylgi þá eru valkostirnir fleiri. Þetta er í takt við pistil sem ég skrifaði nýlega undir heitinu „Mikilvægt val Samfylkingarfólks“.

En það sem athyglisverðast er við viðhorfskönnun Viðskikptablaðsins er það sem ekki hefur komið fram.  Það er niðurstaðan um fylgi stjórnmálaflokka og nýrra framboða á Íslandi. Því fyrst könnun sýnir umtalsvert forskot Árna Páls Árnasonar í formannskjöri Samfylkingarinnar meðal þjóðarinnar en minna forskot hans meðal kjósenda Samfylkingarinnar þá er ljóst að samhliða hefur verið gerð könnun um fylgi stjórnmálaflokkanna.

Af hverju hefur sú niðurstaða ekki verið birt?  Er það kannske ekki í hag þeirra sem keyptu könnunina?  Var fylgi nýs framboðs eins og til dæmis Bjartrar framtíðar of mikið til að sýna þjóðinni?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.10.2012 - 10:01 - 1 ummæli

Svíður undan Talsmanni neytenda?

Talsmaður neytenda er eins manns skrifstofa.  Reyndar hefur Talsmaðurinn verið í krafti embættis síns mun meira áberandi í hagsmunamálum neytenda en 14 manna Neytendastofa.  Þá er ég ekki að gera lítið úr Neytendastofu. Hún vinnur eflaust mikið og þarft verk þótt neytendur taki ekki sérstaklega eftir því.

Mér hefur þótt með ólíkindum hversu miklu þetta eins manns embætti hefur komið í verk á þeim tíma sem embættið hefur starfað.  Enda er Talsmaðurinn afar  vinnusamur og áhugasamur um málaflokk sinn.

Talsmaður neytenda hefur komið starfi embættisins á framfæri opinberlega á vefsíðu Talmanns neytenda www.tn.is  reglulega og upplýst fagráðherra sína um starfsemina eins og lög kveða á um. Talsmaðurinn hefur skrifað greinargerðir inn á vefinn sjálfur enda enginn annar til þess í eins manns embætti.  Hann hefur hins vegar ekki skilað hefðbundinni ársskýrslu á dýrum glanspappír.  Neytendastofa hefur hins vegar haft mannskap til að vinna ársskýrslur.

Nú er óopinbert málgagn Sjálfstæðisflokksins og stórútgerðarmanna að vekja athygli á því að eins manns embætti Talsmanns neytenda hafi ekki skilað glansandi ársskýrslu eins og lög gera ráð fyrir að hann geri.

Þessi áhugi málgagnsins er ekki tilviljun.  Maðurinn sem gegnir embætti Talsmans neytenda hefur nefnilega tekið þátt í starfi stjórnmálasamtakanna Dögunar sem hyggst bjóða fram fyrir næstu Alþingiskosningar. Ekki nóg með það. Dögun hefur á stefnuskrá sinni að bylta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og er nú á fundarferð um landið að kynna hugmyndir sínar meðal annars í sjávarplássum.

Mér skilst að einhverjir kvótaeigendur og stórútgerðarmenn svíði þessi herferð.

Er ekki rétt að styrkja embætti Talsmanns neytenda með þó ekki væri nema 1/2 starfskrafti áður en menn gera kröfu um vinnslu hefðbundinna ársskýrslu þessa öfluga eins manns embættis!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur