Það er rangt hjá Þorsteini Pálssyni þeim vandaða manni og öfluga penna að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi sér „enga aðra erfiða fortíð í pólitík en að hafa skilið skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn“. Hanna Birna Kristjánsdóttir skildi ekki skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn. Þvert á móti þá vann Hanna Birna frá fyrsta degi sem borgarstjóri að lausn skuldavanda Orkuveitunnar!
Hanna Birna og Óskar Bergsson höfðu forgöngu um það haustið 2008 þegar þau tóku við stjórnartaumunum í Reykjavík að Reykjavíkurborg tæki til hliðar milljarða úr borgarsjóði til að takast á við möguleg áföll vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Þau gerðu sér grein fyrir því að bjartsýnissukkið og ofurskuldsetningin sem fór á fullt eftir að Alfreð Þorsteinsson hætti sem formaður stjórnar Orkuveitunnar gæti komið Orkuveitunni í vandræði.
Það voru þessir fjármunir sem Hanna Birna og Óskar tóku frá sem Besti flokkurinn gekk í til að takast á við vanda Orkuveitunnar.
Það sem meira er – þegar Besti flokkurinn tók við þá hafði stjórn Orkuveitunnar með Guðlaug Gylfa Sverrisson stjórnarformann í fararbroddi átt um nokkurt skeið í viðræðum við lánadrottna sína um endurskipulagningu skulda, unnið áætlanir um gjaldskrárhækkanir í skrefum og lagt á ráðin um niðurskurð. Sú áætlun og það samstarf við lánadrottna fauk út í veður og vind þegar Besti flokkurinn kom að málinu eins og fíll í postulínsbúð þannig að lánadrottnar stóðu agndofa! Það frestaði aðgerðum um endurskipulagningu lána um einhverja mánuði.
Hins vegar verður það ekki af Besta flokknum tekið að hann tók á skuldamálum Orkuveitinnar af hörku og skar lúxusfitulagið af fyrirtækinu án nokkurrar miskunnar. Það ber að hrósa þeim fyrir það.
En hvað sem því líður þá er það ekki rétt að Hanna Birna hafi ekki unnið að lausn skuldavanda Orkuveitur Reykjavíkur.