Samfylkingin hefur val. Val um að verða breið fjöldahreyfing til framtíðar eða lítill vinstriflokkur sem þess vegna getur gengið inn í flokksbrotaflokkinn VG. Átök um hvora leiðina skal fara eru hafin. Þau átök endurspeglast hjá Stefáni Ólafssyni sem reynir í Eyjupistli sínum að gera talsmann breiðfylkingarleiðarinnar tortryggilegan. Stefán vill greinilega fara vinstri leiðina. Líkt og Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi formaður Samfylkingarinnar sem hefur keyrt flokkinn langt til vinstri upp að flokksbrotaflokknum VG.
Þessi vinstri leið er algerlega raunhæfur valkostur í íslenskum stjórnmálum. Slík vinstri sinnuð Samfylking getur ásamt hugmyndafræðilegum systkynum sínum í VG orðið afgerandi, tiltölulega öflugur vinstri flokkur með 15% – 20% fylgi. Slík flokksbrotablanda yrði þá með frekar sósíalíska hugmyndafræði sem næði inn á vinstri væng sósíaldemókrata á Íslandi. Slík flokksbrotsblanda kæmi stefnumálum sínum einungis á framfæri í samsteypustjórn með frjálslyndum sósíaldemókrötum og miðjufólki. Samstarf yfiir miðjuna yrði ekki valkostur og slík Samfylking mun því oftar en ekki dæma sig úr leik í ríkisstjórnarsamstarfi en gæti gegnt afar mikilvægu hlutverki í stjórnarandstöðu.
Slík leið Samfylkingarinnar myndi sjálfkrafa kalla á nýjan, öflugan, frjálslyndan miðjuflokk sem fyllir tómarúmið sem Samfylkingin annars vegar og Framsóknarflokkurinn hins vegar hafa þá skilið eftir sig á miðju íslenskra stjórnmála. Því Framsóknarflokkurinn getur varla snúið aftur inn á hina frjálslyndu miðju eftir framgöngu sína undanfarin misseri.
Hinn valkosturinn er sú leið Samfylkingarinnar að verða breiður jafnaðarmannaflokkur sem leggur áherslu á samtal og samvinnu mismunandi sjónarmiða jafnaðarmanna á skalanum sósíalisti yfir til frjálslyndra jafnaðarmanna. Það eru þessháttar stjórnmálasamtök sem Árni Páll Árnason talar fyrir. Jafnaðarmannaflokkur sem vinnur út frá grunngildum sínum sem dekka alla jafnaðarmannaflóruna og getur talað við alla með því sjálfstrausti sem öflugur ríkisstjórnarflokkur þarf að hafa. Slíkur stjórnmálaflokkur myndi leika lykihlutverk sem leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum hvort sem mönnum líkar það betur eður verr. Slíkur flokkur ætti að geta haldið 30% – 35% fylgi og myndi þrengja verulega svigrúm fyrir öflugan, frjálslyndan miðjuflokk. Slík Samfylking yrði oftast raunhæfur valkostur í ríkisstjórn.
Stefán Ólafsson sem vill vinstri leiðina reynir að veikja Árna Pál og breiðfylkingarleiðina. Hann beitir bolabrögðum með því að segja að Styrmir Gunnarsson og Sjálfstæðismenn séu að velja sér formann Samfylkingarinnar með meintum stuðningi við Árna Pál. Það er einfaldlega rangt hjá Stefáni. Því breið, sterk Samfylking í anda þess sem Árni Páll boðar er miklu öflugri gegn Sjálfstæðisflokki en litli vinstriflokkur Stefáns. Samfylkingarfólk getur valið. Ekki ég og ekki Styrmir. Við erum hvorugur í Samfylkingunni.