Mánudagur 8.10.2012 - 14:43 - 5 ummæli

Mikilvægt val Samfylkingarfólks

Samfylkingin hefur val.  Val um að verða breið fjöldahreyfing til framtíðar eða lítill vinstriflokkur sem þess vegna getur gengið inn í flokksbrotaflokkinn VG.  Átök um hvora leiðina skal fara eru hafin. Þau átök endurspeglast hjá Stefáni Ólafssyni sem reynir í Eyjupistli sínum að gera talsmann breiðfylkingarleiðarinnar tortryggilegan. Stefán vill greinilega fara vinstri leiðina. Líkt og Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi formaður Samfylkingarinnar sem hefur keyrt flokkinn langt til vinstri upp að flokksbrotaflokknum VG.

Þessi vinstri leið er algerlega raunhæfur valkostur í íslenskum stjórnmálum. Slík vinstri sinnuð Samfylking getur ásamt hugmyndafræðilegum systkynum sínum í VG orðið afgerandi, tiltölulega öflugur vinstri flokkur með 15% – 20% fylgi.  Slík flokksbrotablanda yrði þá með frekar sósíalíska hugmyndafræði sem næði inn á vinstri væng sósíaldemókrata á Íslandi. Slík flokksbrotsblanda kæmi stefnumálum sínum einungis á framfæri í samsteypustjórn með frjálslyndum sósíaldemókrötum og miðjufólki. Samstarf yfiir miðjuna yrði ekki valkostur og slík Samfylking mun því oftar en ekki dæma sig úr leik í ríkisstjórnarsamstarfi en gæti gegnt afar mikilvægu hlutverki í stjórnarandstöðu.

Slík leið Samfylkingarinnar myndi sjálfkrafa kalla á nýjan, öflugan, frjálslyndan miðjuflokk sem fyllir tómarúmið sem Samfylkingin annars vegar og Framsóknarflokkurinn hins vegar hafa þá skilið eftir sig á miðju íslenskra stjórnmála. Því Framsóknarflokkurinn getur varla snúið aftur inn á hina frjálslyndu miðju eftir framgöngu sína undanfarin misseri.

Hinn valkosturinn er sú leið Samfylkingarinnar að verða breiður jafnaðarmannaflokkur sem leggur áherslu á samtal og samvinnu mismunandi sjónarmiða  jafnaðarmanna á skalanum sósíalisti yfir til frjálslyndra jafnaðarmanna. Það eru þessháttar stjórnmálasamtök sem Árni Páll Árnason talar fyrir. Jafnaðarmannaflokkur sem vinnur út frá grunngildum sínum sem dekka alla jafnaðarmannaflóruna og getur talað við alla með því sjálfstrausti sem öflugur ríkisstjórnarflokkur þarf að hafa. Slíkur stjórnmálaflokkur myndi leika lykihlutverk sem leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum hvort sem mönnum líkar það betur eður verr. Slíkur flokkur ætti að geta haldið 30% – 35% fylgi og myndi þrengja verulega svigrúm fyrir öflugan, frjálslyndan miðjuflokk. Slík Samfylking yrði oftast raunhæfur valkostur í ríkisstjórn.

Stefán Ólafsson sem vill vinstri  leiðina reynir að veikja Árna Pál og breiðfylkingarleiðina. Hann beitir bolabrögðum með því að segja að Styrmir Gunnarsson og Sjálfstæðismenn séu að velja sér formann Samfylkingarinnar með meintum stuðningi við Árna Pál. Það er einfaldlega rangt hjá Stefáni. Því breið, sterk Samfylking í anda þess sem Árni Páll boðar er miklu öflugri gegn Sjálfstæðisflokki en litli vinstriflokkur Stefáns. Samfylkingarfólk getur valið. Ekki ég og ekki Styrmir. Við erum hvorugur í Samfylkingunni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.10.2012 - 10:48 - 3 ummæli

Höft veita pólitísk völd

Höftum og einangrunarstefnu fylgja völd. Pólitísk völd. Gæti það verið skýringin á því að margir stjórnmálamenn sem ættu að vita betur vilja ríghalda í íslensku krónuna sem ekki getur þrifist án óheilbrigðra gjaldeyrishafta?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.9.2012 - 00:21 - 3 ummæli

Beitum kanínunum á lúpínuna!

Fyrst kanínurnar eru orðnar viðurkenndar íslenskir ríkisborgarar þá eigum við að beita þeim á annan viðurkenndan íslenskan ríkisborgara. Lúpínuna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.9.2012 - 22:18 - 5 ummæli

Jón Gnarr er Jar Jar Binks!

Jón Gnarr er ekki Jedi. Jón Gnarr er Jar Jar Brinks! Jar Jar Binks er ein uppáhaldspersóna mín í Star Wars.

Um Jar Jar Binks segir eftir farandi í Star Wars Encyclopediu:

„A clumsy, well-meaning Gungan outcast on Naboo, Jar Jar Binks struggled to prove his worth throughout his life. Putting his awkward past behind him, Jar Jar left the swamps of Naboo to enter the even murkier waters of Coruscant politics, becoming a representative for his people in the galactic capital. There, his best intentions and eagerness to serve were exploited by scheming Senators and others in positions of power.“

Nánar um Jar Jar Binks: http://www.starwars.com/explore/encyclopedia/characters/jarjarbinks/

Nánar um Jón Gnarr: http://www.dv.is/folk/2012/9/27/margt-um-manninn-riff/

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.9.2012 - 23:16 - 4 ummæli

Hræsni eða fáviska Steingríms J.?

Það er aumkunarvert að hlusta á Steingrím J. Sigfrússon – guðföður íslenskra skilanefnda – halda því fram að gjaldtaka lögfræðinga þrotabús Glitnis „séu úr takt við íslenskan veruleika“.

Þvert á móti þá eru ofurtímalaun íslenskra lögfræðinga hjá skilanefndunum algerlega í takt við íslenskan veruleika hundruða eða jafnvel  þúsunda fjölskyldna í landinu sem ná ekki að standa í skilum í tíma og þurfa að greiða lögfræðingum okurlaun fyrir sjálfvirkar útskriftir sem framkvæmdar eru af  hóflega launuðum  skrifstofustúlkum.

Munurinn milli kostnaðar slitastjórna og almennings liggur ekki í tímakaupinu heldur í tímamagninu.

Innheimtuskrifstofustúlkur fínu lögfræðinganna mala þeim gull á kostnað almennings daginn út og daginn inn – á sama hátt og taxtamælir lögfræðinga slitastjórnanna tikka frá morgni til kvölds.

Steingrímur J. Sigfússon er annað hvort að opinbera hræsni sína eða fávisku sína. Fjármálaráðherrann fyrrverandi!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.9.2012 - 07:47 - 4 ummæli

Mistök ofurskattasefnu

Ofurskattastefna ríkisstjórnarinnar hefur öfug áhrif. Tekjur ríkisins dragast saman í stað þess að aukast. Nú „vantar“ ríkisstjórninni hálfan milljarð í skttatekjur af eldsneyti. Ástæðan er einfölf. Ofurskattar og gjöld ríkisins á eldsneyti voru hækkuð og voru óhófleg fyrir. Viðbrögðin er samdráttur í veltu og lægri tekjur ríkissjóðs.

Svipað gerðist með áfengið. Hækkanir áfengisgjald skiluðu sér ekki nema að litlu leiti í ríkissjóð. Fólk minnkaði áfengiskaup, smygl og landaframleiðsla hófst á ný. Það sem bjargaði því sem bjargað varð í tekjuöflun ríkisins var mikil fjölgun ferðamanna sem – vegna hinnar lágt skráðu krónu – finna ekki eins fyrir skattpíningunni og Íslendingar.

Nú ætlar ríkisstjórnin að hrekja þessa ferðamenn í burtu með verulegum skattahækkunum á ferðaþjónustu.

Væri ekki nær að hafa skattana hóflegri og ná tekjunum í aukinni veltu og velsæld almennings?

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.9.2012 - 12:22 - 3 ummæli

Átök um Framsóknarsæti!

Það verður hörð barátta innan Framsóknarflokksins um efstu sæti framboðslista víðast hvar um landið.  Höskuldur Þórhallsson alþingismaður Norðausturkjördæmis ætlar ekki að gefa formanninum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni efsta sæti listans eftir baráttulaust. Þótt að öllu jöfnu ætti formaður flokksins að eiga tryggt það sæti sem hann sækist eftir þá er fjarri því að Sigmundur fái leiðtogasætið í Norðausturkjördæmi á silfurfati.

Reyndar tekur Sigmundur verulega áhættu með því að taka slaginn við Höskuld því ef sá slagur tapast þá er Sigmundi varla sætt áfram sem formaður flokksins.

Svo fremi sem formaðurinn hafi ekki tryggt að um uppstillingu verði að ræða eins og hann tryggði í Reykjavík fyrir síðustu Alþingiskosningar – þá er næsta víst að það verða mikil átök innan flokksfélaganna þegar valdir verða fulltrúar á kjördæmisþing. Því allar líkur eru á að forval verði meðal fulltrúa á kjördæmisþingi – og mögulega varamanna þeirra.

Það er alls ekki gefið að Sigmundur Davíð nái að tryggja sér meirihluta þeirra fulltrúa.

Það er nokkuð ljóst að flokksforysta Framsóknarflokksins mun ekki opna á forval meðal allra flokksmanna í Norðausturkjördæmi eins og eðlilegast væri í lýðræðislegum stjórnmálaflokki því það kallar á þá hættu að pólitískir andstæðingar utan Framsóknarflokksins gengju í stórum hópum tímabundið í Framsóknarflokkinn til að fella formanninn.

Eygló Harðardóttir dugmikill ritari Framsóknarflokksins ætlar að yfirgefa Suðurkjördæmi – væntanlega vill hún ekki taka slaginn við Sigurð Inga Jóhannsson  sem virðist orðinn mjög náinn Sigmundi Davíð og stefnir á varaformannsembættið.  Eygló hyggst bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi þar sem Siv Freiðleifsdóttir hættir.

Við fyrstu sýn mætti telja að Eygló ætti 1. sætið öruggt. Því fer hins vegar fjarri. Ég spái því að Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarmanna í Kópavogi muni bjóða sig fram í 1. sæti í kjördæminu. Ómar er afar öflugur í prófkjörum og á mjög stóran stuðningsmannahóp í Framsóknarfélögunum í Kópavogi.  Ég spái því að flokksforystan muni ekki hafa styrk til þess að tryggja uppstillingu í Suðvesturkjördæmi gegn vilja Ómars og stuðningsmanna hans. Eygló er því að taka mikla áhættu eins og Sigmundur Davíð.

Í Norðvesturkjördæmi verða væntanlega líka nokkur átök.  Skagfirðingurinn Gunnar Bragi Sveinsson hefur gefið út að hann vilji leiða listann. Mögulega mun enginn fara á móti honum þótt það sé líklegt.

En í því kjördæmi eru tveir ungir, metnaðarfullir bændur af Vesturlandi sem neyðast til þess að takast hart á hvort sem þeim er það ljúft eður ei. Þetta er hinn knái formaður landssamtaka sauðfjárbænda, varaþingmaðurinn Sindri Sigurgeirsson og alþingismaðurinn Ásmundur Einar Daðason.

Mögulega munu þeir skora Gunnar Braga á hólm. En ljóst er að annar þeirra verður að víkja niður listann eða draga sig í hlé – því ekki er unnt að hafa þá hlið við hlið svo líkir sem þeir eru –  auk þess sem ekki mun líðast að hafa þrjár karlmenn í röð í efstu sæti listans.  Það er hætt við að bændaglíman milli þeirra verði hörð.

Besta lausnin fyrir Framsókn væri náttúrlega að fá þriðja bóndann á listann í staðinn fyrir strákana – Sigrúnu Ólafsdóttir í Hallkelsstaðahlíð – fyrrum varaþingmann Framsóknar, núverandi formann Félags tamningarmanna auk þess að hafa setið í stjórnum Lansdssambands hestamanna og Hestaíþróttasambands Íslands.  Hún er jafn góð þeim báðum sem tiltölulega ungur bóndi – og leysir kvennavanda Framsóknar í kjördæminu.

Þótt Framsókn sé á hröðu undanhaldi frá Reykjavík – sbr. pistil minn „Undanhald frá Reykjavík“ – þá vænti ég þess að nægir verði um hituna. Vigdís Hauksdóttir mun fá mótframboð frá frjálslyndari hluta Framsóknarflokksins – ef sá hluti flokksins er þá ennþá til eftir mikla blóðtöku undanfarin misseri.  Þá er allt galopið í Reykjavík norður eftir brotthvarf formannsins þaðan.

Það verður því spennandi fyrir áhugafólk um stjórnmála að fylgjast með baráttunni innan Framsóknarflokksins á komandi vikum og mánuðum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.9.2012 - 10:39 - 8 ummæli

Undanhald frá Reykjavík

Framsóknarflokkurinn er greinilega búinn að gefast upp á því verkefni sem flokkurinn hefur barist í undanfarna áratugi. Það er að tryggja fótfestu í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn missti borgarfulltrúa sinn í síðustu kosningum og nú hefur Sigmundur Davíð ákveðið að taka engan séns á að falla í komandi Alþingiskosningum.

Formaður Framsóknarflokksins sem hefur búið á höfuðborgarsvæðinu allan þann tíma sem hann hefur búið á Ísland hefur nú ákveðið að yfirgefa kjördæmi sitt í þéttbýlinu og sækjast eftir öruggu sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Eftir situr hinn umdeildi sunnlendingur og mágkona Guðna Ágústssonar hin röska Vigdís Hauksdóttir. Hennar er að verja undanhaldið.

Mér þykir þetta sorglegt því gegnum tíðina hefur Framsóknarflokkurinnn átt mikið erindi við höfuðborgarsvæðið. Reyndar var Framsóknarflokkurinn fyrstur flokka til þess að vinna sérstaka höfuðborgarstefnu sem var bara harla góð!

Það er ekki gott að segja hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn gefur nú höfuðborgina upp á bátinn. Kannske hefur áherslubreyting flokksins frá hófsamri, frjálslyndri miðjustefnu orðið til þess að forysta flokksins hefur séð að tangarhaldið í Reykjavík væri hættulega veikt. Formanninum sé ekki fórnandi í tvísýnum kosningum í Reykjavík.

Þessi sérstaka uppgjöf mun hvorki verða formanni flokksins né Framsóknarflokknum í heild til framdráttar því þótt flokkurinn muni ná að halda sjó á landsbyggðinni þá breytir hann ekki þeirri staðreynd að mikill meirihluti kjósenda býr á höfuðborgarsvæðinu.

En kannske vill Framsókn bara enda sem lítill landsbyggðarflokkur.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.9.2012 - 14:53 - 2 ummæli

Vilja ójafnrétti til náms!

Það er athyglisvert hversu mikinn stuðning LÍN fær til að ganga fjárhagslega í skrokk á gamalmennum sem jafnvel fyrir áratugum gengust í ábyrgð fyrir námslánum barna sinna ef marka má athugasemdir við pistil minn „Aðför LÍN að öldruðum“.  Það þykir sjálfsagt að „félagslegur“ lánasjóður sem á að tryggja jafnrétti til náms skuli koma tekjulitlum gamalmennum fyrir fjárhagslegan ættarstapa nú í kjölfar mesta efnahagshruns þjóðarinnar.

Tökum dæmi:

„Það skiptir engu máli hvort um er að ræða konu eða gamla konu eða hvað annað. Ef viðkomandi er sannarlega í ábyrgð fyrir skuldinni þá á að innheimta hana og ef þurfa þykir ganga að eignum.“

Þessi harka er áhyggjuefni.

Auðvitað á meginregla í fjármálum að veta sú að hafi einstaklingur gengist í ábyrgðir þá skuli hann standa við þær.

En í tilfelli námslána LÍN er málið ekki svo einfalt. Annars vegar var um að ræða skuldbindingar ábyrgðaraðilja sem voru algerlega ótímabundnar vegna eðlis endurgreiðslu námslána. Slíkar ótímabundnar skuldbindingar sem geta staðið til áratuga eru ósiðlegar og opinberum aðiljum ekki sæmandi að standa fyrir.

Hins vegar er og var um að ræða þvingað val.  Þau ungmenni sem ekki áttu því betur stæða foreldra áttu ekki kost á háskólanámi nema með tilstuðlan námslánanna. Foreldra þeirra ungmenna höfðu því val um það að börnin þeirra fengju ekki notið menntunnar vegna fjárskorts og þar af leiðir nánast dæmd til að verða undir í lífsbaráttunni – eða að gangast í áratuga ábyrgðir til að tryggja framtíð barnanna sinna.

Gegnum tíðina hafa flestir getað greitt námslán sín til baka á skemmri eða lengri tíma þannig það reyndi ekki á ábyrgðir aldraðra foreldra. En það efnahagshrun sem Ísland gekk í gegnum árið 2008 var ekki eðlilegt ástand. Það var í raun „force major“ ástand. Efnahagshrunið varð til þess að ákveðinn hluti þeirra sem áður gátu staðið í skilum með námslánin sín gátu það ekki langur.

Í eðlilegu samfélagi hefðu verið tekið tillit til þess og ekki gengið að ábyrgðarmönnum námslána.

Þeir sem vilja sýna fulla hörku eru talsmenn ójafnréttis til náms.  Þeir telja greinilega að börn hinn ríku eigi að hafa enn meira forskot til framhaldsmenntunar en börn hinna sem lægri tekjurnar hafa.  Það viðhorf er hreinlega siðferðislega rant.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.9.2012 - 16:43 - 8 ummæli

Aðför LÍN að öldruðum

Lánasjóður íslenskrar námsmanna er í skipulagðri aðför að öldruðu fólki sem fyrir margt löngu síðan skrifaði upp á námslán barna sinna sem nú geta ekki staðið í skilum. Böðull ríkisins gegn hóflegri þóknun eru lögmenn Juris.

Ég hélt að LÍN hefði hætt að elta aldraða til að hafa af þeim ellilífeyrinn upp í námsskuldir barnanna. En svo er ekki ef marka má orð elskulegrar stúlku hjá Juris sem tjáði mér að „við stefnum ábyrgðamönnum til innheimtu skuldarinnar“.

Áður en lengra er haldið og til að koma í veg fyrir allan misskilning þá er bæði ég og konan mín löngu búin að greiða upp námslánin okkar.

Ástæða þess að ég hef orð á þessari ósvinnu LÍN og Juris er að ég fékk í hendur ítrekun til ellilífeyrisþega þar sem segir ma:

„Hér með er ítrekuð áskorun á yður að greiða ofangreinda kröfu innan 10 daga frá dagsetningu bréfs þessa. Að öðrum kosti verður krafan innheimt með aðför eða fyrir atbeina dómstóla, sem hefur stóraukinn kostnað í för með sér fyrir yður.“
Ellilífeyrisþeginn sem hingað til í lífinu staðið í skilum með sitt stendur nú frammi fyrir tveimur kostum.  Reyna að klípa af ellilífeyrinum sem nú þegar hrekkur skammt en dugir vegna mikillar nægjusemi og þannig óhjákvæmilega lenda í vanskilum við aðra – eða sæta aðför og málarekstri fyrir dómstólum.

Já, mikil er stórmennska LÍN!

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur