Mánudagur 16.4.2012 - 07:53 - Rita ummæli

10 milljarða lýtaaðgerð!

Það stefnir í 10 milljarða bruðl íslenska ríkisins en svo virðist sem fjármálaráðuneytið ætli að veita fjármagni sem nemur kostnaði við Norðfjarðargöng í óþarfa lýtaaðgerð á Íbúðalánasjóði. Það sorglegasta er að engin haldbær rök hafa komið fram sem styðja þetta rugl.

Það er engin ástæða til að bæta krónu við eigið fé Íbúðalánasjóðs úr ríkissjóði. Núverandi 2,3% CAD hlutfall er alveg glimrandi gott og er í takt við það sem sérfræðingar Deutsche Bank töldu hæfilegt fyrir ríkistryggðan sjóð þegar breytingar voru gerðar á skuldabréfaútgáfu sjóðsins árið 2004. Fyrir þann tíma voru engar kröfur um eigið fé Íbúðalánasjóðs.

Ástæða þess að núverandi reglugerð um áhættustýringu Íbúðalánasjóðs sem einfalt er að breyta gerir ráð fyrir 5 í CAD var varúðarráðstöfun fjármálaráðuneytis sem vildi með því koma í veg fyrir að RÍKISSJÓÐUR ÞYRFTI AÐ LEGGJA SJÓÐNUM TIL FÉ!!!!

… og ekki gleyma að það er MARKMIÐ ekki skylda.

Það er engin sérstök ástæða til að CAD hlutfall ríkistryggðs Íbúðalánasjóðs sé 5% hvað þá hærra. Allra síst ef það á að færa dýrmætt fé úr ríkissjóði sem annars hefði verið unnt að nota í eitthvað annað. Eins og td. Norðfjarðargöng eða heilbrigðiskerfið.  Nema stefna ríkissjóðs sé að einkavæða Íbúðalánasjóð í kjölfar fjárframlags. En þá þarf CAD hlutfallið að fara yfir 8.

Ef marka má svar fjármálaráðuenytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins, þá  ætlar ríkisstjórnin ekki að fara einföldu og eðlilegu leiðina og gera breytingar á reglugerð um áhættustýringu Íbúðalánasjóði og breyta langtímamarkmiði sjóðsins um CAD hlutfall úr 5 í 3. 

Nei frekar skal dæla nýjum 10 milljörðum inn í sjóðinn í lýtaaðgerð bara til að uppfylla óþarflega hátt markmið í reglugerð – markmið sem sett var tvöfalt hærra en færustu sérfræðingar Deutsche Bank töldu hæfilegt árið 2004 –   markmið sem á sínum tíma var einungis til þess að koma í veg fyrir að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.4.2012 - 20:00 - 12 ummæli

Mér líkar Ögmundur!

Mér líkar Ögmundur Jónasson og hef gert í áratugi. Ekki af því að ég sé sammála honum – sem reyndar gerist einstaka sinnum þótt oftar sé ég honum ósammála – heldur vegna þess að hann segir það sem honum finnst. Hversu „heimskuleg“ mér kann að finnast afstaða hans. Því maðurinn er langt frá því að vera heimskur 🙂

Nýjasta dæmið sem mig líkar Ögmundur er að mínu viti nánast fáránleg  viðbrögð hans  við þeirri eðlilegu aðgerð ESB að taka þátt í málflutningi ESA gegn Íslandi vegna Icesave. Sem var algerlega fyrirsjáanleg og styrkir okkar stöðu frekar en að veikja hana – vegna þess að með beinni aðild ESB að IceSave getum við komið okkar sjónarmiðum og athugasemdum íhugað og skriflega á framfæri í stað þess að þurfa að nýta takmarkaðan tíma í munnlegum málflutningi ef ESB hefði sent inn skriflega athugasemd sem óbeinn aðili að málinu enn ekki verið beinn aðili.

Málið snýst nefnilega ekki um rök – heldur heiðarlegar  tilfinningar. Og Ögmundur kemur beint fram með tilfinningar í málinu – góðar, soldið þjóðernislegar tilfinningar Ögmundar – sem kemur honum líklega á óvart – alþjóðasinnanum. En tilfinningar beint frá hjartanu. Það er einmitt Ögmundur!

Þess vegna líkar mér Ögmundur!

Mér líkar Ögmundur.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.4.2012 - 22:16 - 8 ummæli

Tilraun til gambíts

Mögulegt forsetaframboð hins ágæta sjónvarpsmanns, vinstri manns og fyrrum jarðfræðikennara, Ara Trausta Guðmundssonar er greinilega tilraun til gambíts.

Ari Trausti og þjóðin veit að hann mun ekki verða næsti forseti lýðveldisins.

Spurningin er því – hver leggur upp gambítinn með Ara Trausta?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.4.2012 - 08:17 - 7 ummæli

Óttast menn stuðning ESB við Ísland?

Af hverju fara andstæðingar aðildarviðræðna að Evrópusambandinu alltaf af límingunum þegar Evrópusambandið beitir sér í að verja hagsmuni aðildarríkja sinna gagnvart Íslandi af fullum krafti?

Þola þeir ekki að Íslendingar sjái það afl sem standa mun að baki hagsmunum Íslands gagnvart ríkjum utan Evrópusambandsins ef íslenska þjóðin tekur þá ákvörðun að gang í ESB?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.4.2012 - 09:02 - 10 ummæli

Rangur fjármálaráðherra

Stórgóðar greinar Árna Páls Árnasonar í Fréttablaðinu undirstrika að það er rangur fjármálaráðherra.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.4.2012 - 11:47 - 40 ummæli

Framsókn Þóru Arnórsdóttur

Framsókn Þóru Arnórsdóttur sem öflugur forsetaframbjóðandi hefur verið kröftug og hröð. Staða hennar er sterk gagnvart sitjandi forseta og þá hefur hún náð öruggu forskoti á annan glæsilegan forsetaframbjóðanda – Herdísi Þorgeirsdóttur. Nú er svo komið að ekki er lengur pláss fyrir fleiri öfluga forsetaframbjóðendur.

Það er annað athyglisvert við framsókn Þóru Arnórsdóttur. Það er sá fjöldi vina minna úr Framsóknarflokknum sem styður framboð hennar. Bæði fólk sem er í Framsóknarflokknum og fólk sem sagt hefur skilið við Framsóknarflokkinn á undanförnum misserum.

Á sama tíma er áhrifafólk úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Vinstri grænum meðal stuðningsmanna Þóru. Líka lykilfólk úr nýju framboðunum. Það sýnir að Þóra höfðar þverpólitískt til fólks. En styrkur hennar virðist þó vera sterk höfðun til almennings ekki síst yngra fólks. Fólks sem hefur snúið baki við hefðbundinni flokkapólitík.

Mér sýnist framsókn Þóru Arnórsdóttur geta endað á Bessastöðum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.4.2012 - 20:30 - 2 ummæli

Fjórðungi bregður til fósturs

Fjórðungi bregður til fósturs. Það eru gömul sannindi og ný. Því blóðbönd eru ekki allt.

Ég er svo ríkur að hafa átt þau „Hönnu ömmu“ hans afa Bóbós í Hafnarfirðinum og „Afa Braga“ hennar ömmu Þóru.  Öðlingsfólk sem löngu fyrir mína tíð urðu stjúpforeldrar hennar mömmu minnar.  Afi Bragi með því að kvænast móðurömmu minni og Hanna amma með því að giftast móðurafa mínum.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að mér fannst svo mikið vanta þegar nöfnin þeirra Jóhönnu Sigríðar Andrésdóttur og Braga Ólafssonar birtust ekki í ættartöflunni minni sem birtist í Mogganum um helgina í tilefni af 50 ára afmælinu mínu. Því fjórðungi bregður til fósturs og mér þykir svo óskaplega vænt um þessa ömmu mína og þennan afa minn – sem ekki eru afi minn og amma samkvæmt skilgreiningu blóðbanda – en hafa samt alla tíð verið jafn mikil amma og afi og það yndislega fólk sem að mér standa genatískt sem afar og ömmur!

Afi Bragi er ennþá nánast í fullu fjör með henni ömmu Þóru Sigríði Jónsdóttur í þjónustuíbúðum aldraðra hjá Eir í Mosfellsbæ – en amma hélt upp á 90 ára afmælið sitt í mars.

Hanna amma elskuleg dó hins vegar í haust á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún hafði – eins og langamma Rannveig á sínum tíma – dvalið síðustu æviárin sín.  Afi Bóbó – Vigfús Sigurjónsson –  lést hins vegar langt um aldur fram fyrir nær 30 árum.

Langar að birta hér minningargreinina sem ég skrifaði um Hönnu ömmu þegar hún lést – svona til að skýra af hverju mér þykir miður að nafnið hennar – og nafnið hans afa Braga – er ekki að finna í ættartrénu í Mogganum um helgina – í tilefni 50 ára afmælisins mín:

Það var æðislegt að fá að gista hjá afa Bóbó og Hönnu ömmu á Austurgötu 40 í Hafnarfirði. Reyndar algert ævintýri!  Langafi Sigurjón og langamma Rannveig í jarðhæðinni í fyrstu minningum – og síðan bara langamma Rannveig eftir að langafi dó 1969. Langamma löngu síðar.

Hrjúfi en elskulegi afi Bóbó á efri hæðinni – og í kjallaranum innanum öll verkfærin, grásleppunetin og allt það forvitnilega sem þar var að finna. Og hlýja brosmilda Hanna amma sem alltaf sá það broslega og skemmtilega í tilverunni.

Amma Hanna sem að kvöldinu leiddi litla drenginn hennar Hrefnu hans Bóbó sem var að gista hjá afa og ömmu í Hafnarfirði að spennandi bókahillunni.  Á mildilegan hátt hjálpaði Hanna amma  stráknum að velja góða bók til að taka með í rúmið eftir skemmtilegt kvöld – þar sem kúrt var á gamla þurrkloftinu fyrir framan sjónvarpið – með fulla sælgætisskálina fyrir framan okkur.

Sælgætisskálin tóm. Strákurinn alsæll og ánægður. Afi Bóbó stundum á vakt í hliðinu hjá Ísal. En Hanna amma með afastrákinn hans Bóbó að skoða allar spennandi bækurnar. Með mildum róm og kímni talað með virðingu um hverja bók fyrir sig. Stundum lesið ljóð. Enda alin upp í bókabúð á Sigló.  Þar sem afi Bóbó sigldi inn með síldina, fann Hönnu ömmu og tók hana með sér til Hafnarfjarðar. Rómantískt upphaf í huga lítils drengs sem fær að gista hjá afa og ömmu á Austurgötunni.

Núna hefur Hanna amma yfirgefið þennan heim. Farin að gantast við afa Bóbó á Austurgötu 40 hinum megin við móðuna miklu. Eða kannske á Jófríðarstaðarveginum þar sem þau bjuggu fyrri hluta búskapartíðar sinnar – fyrir mitt minni.

Sé fyrir mér kímnina í augunum hennar Hönnu ömmu og hlýtt brosið. Sé hvernig hrjúfi afi Bóbó bráðnar allur og ljómar eins og sólin yfir því að fá Hönnu sína aftur, rauðbirkinn, rauðhærður og ótrúlega myndarlegur.

Ég er svo ríkur að hafa átt afa Bóbó og Hönnu ömmu sem var að yfirgefa þennan heim!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.4.2012 - 07:57 - Rita ummæli

ÍLS þarf ekki krónu frá ríki!

Það er engin ástæða til að bæta krónu við eigið fé Íbúðalánasjóðs úr ríkissjóði. Núverandi 2,3% CAD hlutfall er alveg glimrandi gott og er í takt við það sem sérfræðingar Deutsche Bank töldu hæfilegt fyrir ríkistryggðan sjóð þegar breytingar voru gerðar á skuldabréfaútgáfu sjóðsins árið 2004. Fyrir þann tíma voru engar kröfur um eigið fé Íbúðalánasjóðs.

Ástæða þess að núverandi reglugerð um áhættustýringu Íbúðalánasjóðs sem einfalt er að breyta gerir ráð fyrir 5 í CAD var varúðarráðstöfun fjármálaráðuneytis sem vildi með því koma í veg fyrir að RÍKISSJÓÐUR ÞYRFTI AÐ LEGGJA SJÓÐNUM TIL FÉ!!!!

… og ekki gleyma að það er MARKMIÐ ekki skylda.

Það er engin sérstök ástæða til að CAD hlutfall ríkistryggðs Íbúðalánasjóðs sé 5% hvað þá hærra. Allra síst ef það á að færa dýrmætt fé úr ríkissjóði sem annars hefði verið unnt að nota í eitthvað annað. Eins og td. Norðfjarðargöng eða heilbrigðiskerfið.  Nema stefna ríkissjóðs sé að einkavæða Íbúðalánasjóð í kjölfar fjárframlags. En þá þarf CAD hlutfallið að fara yfir 8.

Nú þegar eru rúmir 21 milljarður úr ríkissjóði bundinn að óþörfu á afskriftarreikningi Íbúðalánasjóðs í kjölfar óþarfs 33 milljarðar framlags ríkisins til sjóðsins vegna pólitískrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að færa lán Íbúðalánasjóðs niður í 110% – oft á tíðum algerlega að óþörfu.

Eftir hrun hafa einungis verið afskrifaðir 8,3 milljarðar af þeim tæpu 800 milljörðum sem útlán Íbúðalánasjóðs standa í. Eðlilegast hefði verið að einungis þeir fjármunir hefðu komið sem framlag ríkisins til ríkistryggðs Íbúðalánasjóðs vegna ársins 2011 en ekki 33 milljarðar króna eins og ríkisstjórnin ákvað „afþvíbara“.

Hvernig væri að velferðarráðherra geri breytingar á reglugerð um áhættustýringu Íbúðalánasjóði og breytti langtímamarkmiði sjóðsins um CAD hlutfall úr 5 í 3 í stað þess að dæla nýjum 10 milljörðum inn í sjóðinn bara til að uppfylla óþarflega hátt markmið í reglugerð – markmið sem sett var tvöfalt hærra en færustu sérfræðingar Deutsche Bank töldu hæfilegt árið 2004 –   einungis til þess að koma í veg fyrir að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé!

Sú einfalda aðgerð sparar ríkissjóð 10 milljarða án þess það komi niður á einum eða neinum!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.4.2012 - 21:11 - 4 ummæli

Vinsældir eru ekki allt!

Vinsældir eru ekki allt. En ríkisstjórn með einungis 28% fylgi í skoðanakönnunum getur ekki skákað í því skjólinu.

Hinn hluti fjórflokksins er heldur ekkert sérstaklega vinsæll!  Þrátt fyrir afar óvinsæla ríkisstjórn sem hefur ekki staðið sig sem skyldi þá er annar „gamli“ stjórnmálaflokkurinn með minna fylgi en í síðustu Alþingiskosningum!!!

Hinn „gamli“ stjórnmálaflokkurinn í stjórnarandstöðunni er reyndar að braggast eftir algjört fylgishrun í síðustu Alþingiskosningum – en á samt langt í land í að ná sambærilegu fylgi og áður í Alþingiskosningum eftir stjórnarandstöðutímabil.

Hvert stefnum við?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.3.2012 - 10:16 - 9 ummæli

Bólgið neðanjarðarhagkerfi

Sú ákvörðun að setja í umferð nýjan 10 þúsund króna seðil er ekki einungis vísbending um óhóflega verðbólgu á Íslandi heldur ekki síður vísbending um að neðanjarðarhagkerfið á Íslandi hefur bólgnað svo um munar. Enda er bólgið neðanjarðarhagkerfi óhjákvæmileg afleiðing stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Seðlabankastjóri segir að ein meginástæða útgáfu 10 þúsund króna seðils sé stóraukið magn seðla í umferð.

… og hvað þýðir aukið magn seðla í umferð hjá debetkortavæddri þjóð?

Jú, bólgið neðanjarðarhagkerfi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur