Laugardagur 17.12.2011 - 14:23 - 5 ummæli

Framsóknarhvöt

Framsóknarflokkurinn varð 95 ára 16. desember. Hvað sem mönnum finnst um þennan gamla flokk sem ég starfaði með í aldarfjórðung þar til ég sagði mig úr honum 1. desemer 2010 – þá er saga flokksins merk.

Í tilefni af afmælinu langar mig að birta kvæði Sigurðar Einarssonar á Hoffelli sem birtist í Skinfaxa árið 1916 – nokkrum mánuðum áður en Framsóknarflokkurinn var stofnaður sem þingflokkur á Alþingi.  Kvæðið nefnist „Framsóknarhvöt“ og lýsir þeirri stemmingu sem var á þessum tíma:

Nú berast okkur boð frá æðra heim,

sem bylgjur þau að huga vorum svífa

og með sér sterka æsku andans hrífa

með undur -þýðum, töfrasterkum hreim.

Ó, látum hann úr læðing okkur rífa

og leiða oss um tilverunnar geim.

Þá munum græða gull og andans seim,

ef gerum ekki þreki voru hlífa.

Við höfum setið svörtu myrkri í

með sálu krepta vanþekkingar böndum.

Ó hversu margir þungir hlekkir þjá!

En nú er mál, að vakna víst á ný

og veg sér ryðja á  auðum hrjósturlöndum

Vort háa  takmark heimur þar má sjá.

Eg sé í anda árdags mörkin skýr,

sem inst í djúpi þjóðar minnar kvika.

Eg sé í fjarlægð björtu ljósin blika,

sem boða dag er nóttin myrka flýr.

Þá mun í Íslands  háa hamrasal

hin horfna menning bústað aftur þiggja,

ef við að hofi hennar leggjum  grunninn.

Í hverjum grœnum, skógi skrýddum dal

mun skari mikill frjálsra hölda byggja.

Þá  „Gullöld“ Íslands önnur upp er  runnin.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.12.2011 - 08:35 - 3 ummæli

Niðurgreiðir borgin leiguíbúðir?

Metnaðarfullar áætlanir Reykjavíkurborgar um byggingu lítilla leiguíbúða í 101 og nágrenni hafa verið kynntar. Metnaðarfullt markmið.

En er skortur á  leiguíbúðum stóra vandamálið í húsnæðismálum þjóðarinnar? Og reykvískra einstaklinga og para í 101?

Er stóra vandamálið ekki of hár kostnaður við húsnæði hvort sem um er að ræða eigið húsnæði, búseturéttarhúsnæði eða leiguhúsnæði?

Hvernig ætlar Reykjavíkurborg að tryggja „lága leigu“ í „ríkisrekna“ húsnæðinu sínu?  Það kostar nefnilega nokkurn vegin það sama að byggja leiguíbúð, búseturéttaríbúð og „eigið“ húsnæði. Stjórnmálamenn geta ekki lækkað framleiðslukostnað íbúða bara með því að kalla húsnæðið „leiguhúsnæði“ eða „félagslegt húsnæði“.

Ætlar borgin að niðurgreiða leiguíbúðirnar?  Hvar á þá að skera niður á móti? Í leikskólunum? Skólunum? Heimaþjónustu?

Við skulum aldrei gleyma því að Byggingarsjóður verkamanna setti Húsnæðisstofnun nánast á hausinn og tæknilegt gjaldþrot hans var eitt það stærsta í Íslandssögunni fram að hruni – alls milli 30 og 35 milljarðar á núvirði!  Byggingarsjóðurinn „fjármagnaði“ „félagslega húsnæðið“ á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.12.2011 - 22:43 - 3 ummæli

Hræsnin gagnvart Geir Haarde

Það voru fullkomlega réttlætanleg rök  fyrir því að Alþingi leiddi fyrir Landsdóm þá fjóra ráðherra sem Alþingi var gefin kostur á að leiða fyrir Landsdóm.  Það voru einnig fullkomlega réttlætanleg rök fyrir því að Alþingi leiddi ekki fyrir Landsdóm þá fjóra ráðherra sem Alþingi var gefin kostur á að leiða fyrir Landsdóm.

En það voru engin rök fyrir því Alþingi leiddi einungis Geir Haarde fyrir Landsdóm.

Engin.

Þess vegna er það réttlætismál að Alþingi dragi til baka mál gegn Geir Haarde fyrir Landsdómi.

Enda breytti hópur þingmanna Samfylkingarinnar Landsdómsmálinu úr réttlætismáli í pólitíska hefndarför með því að greiða atkvæði með því að stefna Geir Haarde fyrir Landsdóm en greiða atkvæði gegn því að fyrrum formaður Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði jafnframt dregin fyrir dóminn.

Hræsni dauðans.

En ég ber virðingu fyrir þeim sem annað hvort greiddu atkvæði gegn því að draga ráðherrana fyrir Landsdóm eða greiddu atkvæði með því að draga alla þá ráðherra sem til greina komu fyrir Landsdóm. Allt það fólk tók heiðarlega afstöðu á grundvelli fullkomlega gildra taka. Raka sem menn geta verið ósammála um – en byggðu ekki á persónulegri eða pólitískri aðför.

Það er ekki unnt að segja það sama um þá angans þingmenn sem skildu ekki gildi málsins og misstu sig í pólitískar skotgrafir. Skutu Geir en þyrmdu Ingibjörgu.  Á pólitískum forsendum – ekki heiðarlegum forsendum!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.12.2011 - 19:01 - 5 ummæli

… að svíkja lögum samkvœmt

„Við megum ekki gleyma því, að í landinu hefir myndast hópur fjárglæframanna, sem aðalega gera sér að atvinnu, að stofna til felaga, sprengja þau og hirða molana. Þeir menn eru lausir við flestar siðlegar hömlur. Fjárgræðgin knýr þá áfram; hegningarhúsið er hið eina, sem þeir forðast.  Þessvegna beita þeir kænsku sinni til að svíkja lögum samkvœmt; þvílíkir ræningjar eru mestu skaðræðismenn samtíðarinnar.“

Hver skrifar, hvar og hvenær?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.12.2011 - 08:01 - 1 ummæli

Íbúðalánasjóður er ekki banki!

Íbúðalánasjóður er ekki banki. Íbúðalánasjóður er þjóðareign með afa skýrt samfélagslegt hlutverk: 

„Stofna skal sérstakan lánasjóð er nefnist Íbúðalánasjóður og lánar til íbúðakaupa, nýbygginga eða endurbóta íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Íbúðalánasjóður skal annast stjórn og framkvæmd húsnæðismála samkvæmt lögum þessum.“ 

Svo segir í 4.gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998.  Og hverju á Íbúðalánasjóður að framfylgja?  Það kemur skýrt fram í 1, grein laganna:

„Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Það er veruleg ástæða til þess að rifja þetta reglulega upp fyrir þjóðinni, stjórnmálamönnunum, stjórn og starfsfólki Íbúðalánasjóðs.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.12.2011 - 06:29 - 1 ummæli

Innihaldslausar skuldir flokkanna?

Stjórnmálaflokkarnir flestir eru skuldum vafnir eins og skrattinn skömmunum. Það er gömul saga og ný að skuldunautar eru háðir þeim sem þeir skulda. Völd lánveitenda yfir skuldunautum eru mikil. Þeir geta sett skuldunautum sínum skilyrði meðan skuldir eru ekki greiddar.

Hvar er staða stjórnmálaflokkanna gagnvart þeim aðiljum sem flokkarnir skulda fé?  Er staða þeirra sem eiga stjórnmálaflokk sem skuldunaut ekki sterkari en staða þeirra sem veita stjórnmálaflokki beina fjárstyrki?  Hverjum skulda stjórnmálaflokkarnir?  Er ekki ástæða til þess að það komi fram opinberlega?

… því staðreyndin er nefnilega sú að við förum ekki alltaf eftir bæninni sem Kristur kenndi okkur:  „… svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ 

Allra síst ef við eigum hagsmuna að gæta og höfum tak á stjórnmálaflokkum í krafti ógreiddrar skuldar …

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.12.2011 - 15:11 - 4 ummæli

Smá Pútín í Steingrími J.

Það er smá Pútín í Steingrími J.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.12.2011 - 20:46 - 11 ummæli

Stóra-Bretland orðið Litla-Bretland!

Allar líkur eru á að eftirmæli David Camerons núverandi forsætisráðherra Bretlands verði „maðurinn sem breytti Stóra Bretlandi í Litla Bretland„!!!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.12.2011 - 10:42 - 2 ummæli

„Björt framtíð“ á landsvísu

„Björt framtíð“ hefur boðað stofnun nýs stjórnmálaafls á landsvísu. Vefsíða áhugafólks um bjarta framtíð verður opnuð í dag. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu en ég veit að mikil vinna hefur verið unnin við undirbúning stjórnmálavettvangsins.

En merkilegur andskoti er það hvernig fjölmiðlar vilja gera nýja stjórnmálaaflið að „Bezta flokknum“. Stjórnmálaaflið er nefnilega ekki Bezti þótt fullt af fólki sem komið hefur að Bezta hafi tekið þátt í undirbúningsvinnunni. Stjórnmálaaflið er svo miklu meira!

Það mun væntanlega að hluta til koma í ljós í dag þótt lengra sé í að snjóboltinn byrji að rúlla fyrir alvöru.

Ekki gleyma að fram til þessa hefur starf stjórnmálaaflsins verið undirbúningur í kyrrþey. Þau eiga eftir að opna faðminn fyrir fólkið í landinu. Spurningin er hvað verður í pakkanum og hvort pólitíkin og aðferðafræðin sem „Björt framtíð“ boða mun höfða til almennings. Ef Björt framtíð gerir það þá geta undur og stórmerki skeð. Ef ekki – þá sitjum við uppi með enn einn smáflokkinn.

Ég bíð spenntur…

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.12.2011 - 14:30 - 2 ummæli

Rétt hjá Steingrími J.

Það er rétt hjá Steingrími J. að yfirstjórn efnahagsmála eigi að vera í einu ráðuneyti en ekki mörgum. En alls ekki í fjármálaráðuneytinu eins og Steingrím langar heldur í efnahagsráðuneytinu.

Fjármálaráðuneytið á síðan að fylgja efnahagsstefnunni í sínum aðgerðum. Efnahagsstefnu sem er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar í heild en í forsjá ráðherra efnahagsmála. Sá heitir Árni Páll Árnason í dag…

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur